Leita í fréttum mbl.is

Sæludagur í Svínaskarði

Í dag hljóp ég yfir Svínaskarð við áttunda mann. Hrepptum einmuna blíðu og rifjuðum upp hvers virði það er að vera úti í íslenskri náttúru. Þetta var 11. fjallvegahlaupið mitt af 50, þannig að nú eru bara 39 eftir. Og ég get varla beðið eftir því að takast á við það næsta. Þetta er einfaldlega svo gaman!

Hlaup dagsins var samtals um 19,5 km og hófst í skemmuhverfinu á Esjumelum. Þaðan lá leiðin eftir veginum inn með Leirvogsá að ármótunum við Þverá rétt fyrir neðan bæinn Þverárkot. Þangað eru um 6 km frá upphafsstaðnum. Þessu næst var Þverá fylgt og síðan farið yfir Skarðsá á göngubrú, þá upp með Skarðsá upp í Svínaskarð á milli Móskarðshnjúka og Skálafells. Vegarslóði liggur alla leiðina yfir skarðið, en hann er mjög grófur og varla fær nema alvörujeppum og torfærutækjum.

Hópurinn dreifðist nokkuð á leiðinni upp í skarðið, enda hélt hver um sig þeim hraða sem honum þótti þægilegastur. Efst í skarðinu var áð um stund, en haldið áleiðis þegar allir voru komnir. Þarna voru 12,08 km að baki og klukkan mín sýndi 1:31:20 klst. Hæðarmælirinn stóð í 480 m, og samkvæmt því var hækkunin um 430 m.

Mér finnst alltaf mest gaman að hlaupa niður í móti, og því naut ég þess sérstaklega að hlaupa niður úr skarðinu og niður Svínadalinn áleiðis niður í Kjós. Niðurleiðin mældist 7,45 km með endapunkt á vegamótunum niðri á Kjósarskarðsvegi beint fyrir neðan Vindáshlíð. Jón Gauti Jónsson og Tryggvi Felixson fylgdu mér á niðurleiðinni, en aðrir fóru sér hægar, enda leiðin grýtt, laus í sér og viðsjárverð á köflum. Niðurleiðin tók ekki nema 39:39 mín, þannig að heildartíminn alla leiðina var 2:10:59 klst. Klukkan gekk allan tímann, líka á meðan áð var.

Það væri hægt að hafa mörg orð um það hversu skemmtilegt tómstundagaman það er að stunda fjallvegahlaup, sérstaklega eins og veðrið var í dag. En þau orð verða látin bíða betri tíma. Kannski verða sum þeirra skrifuð inn á fjallvegahlaupasíðuna mína www.fjallvegahlaup.is við tækifæri. Að kveldi dags er mér efst í huga þakklæti til ferðafélaganna 7 sem hlupu þennan spöl með mér, og þakklæti til forsjónarinnar fyrir að gera mér mögulegt að njóta svona útivistar og félagsskapar og fá að upplifa andartök þegar mér finnst ég hafa allt sem ég mun nokkurn tímann þurfa. Ætli það sé ekki það sem Laxnes kallaði kraftbirtíngarhljóm guðdómsins.

Sérstakar þakkir fær Tryggvi Felixson fyrir að benda mér á þessa leið og Sigrún Magnúsdóttir fyrir árangursríka samninga við veðurguðina. Og hér koma myndir frá hlaupi dagsins.

Svínaskarð 034crweb
Guðmann Elísson á göngubrúnni yfir Skarðsá. (Ljósm. SG)

Svínaskarð 064web
Allur hópurinn: F.v. Ég sjálfur, Hávar Sigurjónsson, Jón Gauti Jónsson,
Ingimundur Grétarsson, Birgir Þorsteinn Jóakimsson (krjúpandi),
Tryggvi Felixson, Guðmann Elísson og Arnfríður Kjartansdóttir.
(Myndin er tekin efst í Svínaskarði við grjóttóft sem er örugglega dys
Írafellsmóra. Hann tók myndina sjálfur um hábjartan dag)!

Svínaskarð 068web
Ég sjálfur ákaflega glaður við leiðarlok í Kjósinni. (Ljósm. Jón Gauti)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

Takk sjálfur :)  Þetta er ein af þessum upplifunum sem maður á eftir að muna alla ævi. 

En ég er núna að velta því fyrir mér hvort við höfum sýnt þessari "dys" tilhlýðilega virðingu. 

Fríða, 22.5.2009 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband