14.6.2009 | 01:46
Frábært 7 tinda hlaup
Í dag þreytti ég 7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ ásamt allmörgum öðrum. Þetta voru rúmlega 37 kílómetrar um fjöll og firnindi, um mýrar og móa, holt og skriður, malbik og möl, aðallega þó holt. Árangurinn var framar öllum björtustu vonum, því að ég endaði í 6. sæti af öllum skaranum. Var reyndar lengi í 4. sæti, en Hólmfríður Vala Svavarsdóttir og Börkur Árnason pökkuðu mér saman á endasprettinum síðustu 500 metrana. Það er reyndar ekkert mjög sárt að tapa fyrir svoleiðis snillingum.
Hlaupið var töluverð þolraun. Leiðin lá enda um 7 tinda, eins og nafnið bendir til, nánar tiltekið frá Lágafellslaug upp á Úlfarsfell (295 m), Reykjaborg (280 m), Reykjafell (269 m), Æsustaðafjall (220 m), Grímmannsfell (550 m), Mosfell (270 m) og Helgafell (216 m). Myndin hér að neðan gefur einhverja hugmynd um leiðina, ef vel er rýnt og ef maður þekkir til staðhátta í Mosfellsbæ. :-)
Erfiðasti hlutinn af leiðinni var skriðan sem við fórum niður af Mosfelli. Þarna er mjög bratt og fremur stórgrýtt. Mesta hættan við svona aðstæður er sú, að grjót sem veltur af stað lendi aftan á hælum, hásinum og kálfum. Svo er náttúrulega ekkert gaman að detta í svona urðum, sérstaklega ef maður er í stuttbuxum. Ég var vel að merkja í stuttbuxum og hlýrabol alla leiðina, sem var svona að meðaltali einmitt rétti klæðnaðurinn. Reyndar varð mér hrollkalt uppi á Mosfelli, því að þar gerði þvílíka ofurdembu, að að það hálfa hefði verið hellingur. Annars var veðrið yfirleitt eins og best verður á kosið; hægur vindur, skýjað að mestu og svo sem 10 stiga hiti.
Framkvæmd hlaupsins var öll með ágætum. Skátarnir í Mosfellsbæ stóðu sig eins og hetjur, svo og aðrir starfsmenn hlaupsins. Ánægðastur var ég þó með Herdísi, frænku mína, sem tók vel á móti mér á líklega einum þremur drykkjarstöðvum á leiðinni.
Lítið var um greinilega stíga á hlaupaleiðinni, en appelsínugul flögg vísuðu veginn. Reyndar hefðu þau mátt vera aðeins þéttari á köflum, því að þegar maður kom að flaggi, þá sá maður oft ekki næsta flagg. Þetta skapaði óöryggi og svolítinn pirring, sérstaklega þegar þreytan fór að segja til sín. Þreyta í svona hlaupum sest nefnilega ekki bara í vöðvanna, heldur líka í hugann. Við þetta bættust svo algengar raunir gleraugnagláma, en slíkar raunir þekki ég vel. Það er nefnilega vesen að vera með gleraugu þegar rignir, og þá verður útsýnið heldur takmarkað.
Boðið var upp á tvær vegalengdir í hlaupinu. Þeir sem ekki vildu fara alla leið, gátu valið 17 km þriggja tinda hring. Allir voru þó ræstir samtímis. Ég held að ég hafi yfirleitt verið í um það bil 15.-20. sæti framan af. Frá Reykjaborg og niður í Skammadal var ég hluti af svo sem 10 manna hópi. Náði reyndar oftast góðu forskoti undan brekkunni, en missti það aftur þegar leiðin lá upp í móti. Þetta mynstur þekki ég vel. Spóaleggirnir mínir eru nefnilega ekki sérlega vel vöðvum búnir, en þess seigari. Í Skammadal skildu leiðir þeirra sem fóru lengri og styttri leiðina, og þar með hurfu flestir þeir sem ég hafði fylgst með. Eftir þetta fylgdist ég lengi með Kristjáni Sigurðssyni, sem er vel að merkja ættaður úr Borgarfirði. Þegar við komum upp á Æsustaðafjall fengum við þær fréttir frá starfsmönnum að við værum í 5. og 6. sæti í hlaupinu. Það var afar uppörvandi, því að hvorugur okkar hafði reiknað með að vera svo framarlega. Á næstu kílómetrum komum við auga á ofurhlauparann Börk Árnason á undan okkur. Þegar komið var upp á Grímmannsfell var ég kominn fram úr þeim báðum og þar með kominn upp í 4. sætið. Börkur fylgdi mér reyndar eftir alveg að Mosfellskirkju, en þar skildu leiðir. Eftir það var ég einn míns liðs þangað til komið var langleiðina upp á Helgafell og ekki nema rúmir 5 km eftir. Þar birtist Hólmfríður Vala allt í einu og Börkur var þar skammt á eftir. Mér tókst að mestu að halda þeim fyrir aftan mig, alveg þangað til komið var langt inn í Mosfellsbæinn og varla meira en 500 m eftir í markið. Þá stungu þau mig af.
Hér lýkur þessari löngu og sjálfhverfu bloggfærslu, en svona rétt í lokin ætla ég að setja hérna inn tvær myndir. Önnur sýnir hæðarlínurit hlaupsins, eins og það birtist í hlaupaúrinu mínu. Samkvæmt því fórum við hæst í 494 m hæð yfir sjó. Hina myndina tók ég traustataki á fésbókarsíðu Herdísar frænku minnar, en hún var tekin í þann mund sem hlaupið hófst í morgun.
Takk öll fyrir samveruna og samfylgdina í dag. Þetta var skemmtilegur dagur!
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Af mbl.is
Íþróttir
- Landsliðstreyjurnar til sölu í Zagreb
- Nenntu ekki að spila á móti okkur
- Verður dýrasta knattspyrnukona heims
- Amorim braut sjónvarpsskjá
- Markvörður grípur Dota-boltann
- Egyptar með heimsklassa lið
- Gat ekki staðið mig verr
- Brosmildir fyrir annan stórleik (myndir)
- Rekinn frá þýska stórliðinu
- Einn sá eftirsóttasti framlengdi
Athugasemdir
Takk sömuleiðis :)
Fríða, 14.6.2009 kl. 05:12
Hetjur :D
Herdís Sigurjónsdóttir, 14.6.2009 kl. 23:05
Já takk sömuleiðis fyrir samfylgdina seinni hluta hlaupsins. Þetta var ævintýri.
Börkur (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 00:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.