Leita í fréttum mbl.is

Út að hlaupa með tind í læri

Í kvöld byrjaði ég aftur að hlaupa eftir konunglega skemmtun í 7-tinda hlaupinu í Mosfellsbæ sl. laugardag. Skokkaði rétt upp fyrir Hótel Hamar og heim aftur, hægt og mjúklega. Hef verið hálfþreyttur í fótunum síðustu daga, enda var 7-tinda hlaupið svo sem hlaupið eins og enginn væri morgundagurinn. En allt er þetta hluti af eftirsóknarverðu lærdóms- og þroskaferli. Smile

Yfirleitt reyni ég að þegja yfir hvers konar eftirköstum sem hljótast af verðugum hlaupaverkefnum, eins og 7-tinda hlaupið vissulega var. En svo blossar stundum upp í manni þörfin fyrir að miðla öðrum af reynslu sinni, sem að eigin mati er oftast svo óendanlega dýrmæt. Vissulega er dálítið hallærislegt að viðurkenna, að eftir 5 daga sé maður enn með svo sem einn tind af 7 í lærunum, en hin dýrmæta reynsla, lærdómurinn og þroskinn felast í því að kynnast eigin vitjunartíma og finna rétta tímann til að halda af stað á nýjan leik. Málið snýst um að hlusta á eigin líkama og skynja þetta hárfína jafnvægi, sem að öðrum kosti raskast svo auðveldlega, til lengri eða skemmri tíma. Maður þarf að halda áfram að rækta líkamann til að lækka bilanatíðnina, en samt má ekki gera of mikið of fljótt. 

Rétti tíminn var sem sagt í kvöld, og hafi mér ekki skjátlast um það, þá liggur hlaupaleiðin upp á við á ný næstu daga, með þolinmæði og hægð.

Og næstu hlaupaverkefni? Jú, að hefðbundnum æfingum slepptum eru eftirfarandi viðburðir næstir á dagskrá:

  1. Laugardagur 4. júlí: Hamingjuhlaup frá Drangsnesi til Hólmavíkur, u.þ.b. 34 km. Þetta er eitthvað sem mig hefur lengi langað til að gera, og nú er tækifærið til að flétta það inn í dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík. Þess vegna verður þetta hamingjuhlaup. Ætlunin er að hlaupinu ljúki á hátíðasvæði hamingjudaganna kl. 13.30, sem þýðir væntanlega að ég legg í hann frá Drangsnesi um eða upp úr kl. 10. Ég ætla að hlaupa leiðina á nokkurn veginn fyrirfram ákveðnum hraða, sem tekur m.a. mið af viðburði nr. 2 (sjá neðar), auk þess sem fyrirfram ákveðinn hraði er náttúrulega nauðsynlegur til að maður geti skilað sér á ákvörðunarstað á fyrirfram ákveðnum tíma. Þessi fyrirfram ákveðni hraði verður rétt um 10 km/klst, eða 6 mín/km. Þetta er ekkert opinbert keppnishlaup, heldur bara gert hamingjunnar vegna. Þess vegna verð ég líka þeim mun hamingjusamari sem fleiri slást í för með mér. Þykist alla vega vita um einn, en kannski fjölgar þeim eitthvað næstu daga þegar ég helli mér í markaðssetningarstarfið. Þeir sem hafa áhuga ættu að senda mér línu á stefan[hja]umis.is, eða skella inn athugasemd hér fyrir neðan.
  2. Laugardagur 11. júlí: Maraþonhlaup á 26. Landsmóti UMFÍ á Akureyri, nákvæmlega 42,195 km. Þetta verður náttúrulega keppnishlaup, þó að maraþonið sé ekki beinlínis keppnisgrein á landsmótinu. Það verður gaman að koma aftur á Landsmót. Keppti (fyrst og) síðast á svoleiðis móti á Akranesi sumarið 1975. Var líka á landsmótunum á Selfossi 1978, á Akureyri 1981 og í Keflavík 1984 - en síðan ekki söguna meir. Markmið fyrir hlaupið eru í smíðum. Ekki er tímabært að greina frá þeim opinberlega á þessu stigi, en verði veðrið skikkanlegt, (sem það er nánast alltaf á Akureyri), þá verð ég vonandi ekki lengur en 3:40 klst. að ljúka hlaupinu.

Þegar þetta tvennt er búið, tekur svo aðalfjallvegahlaupatörn sumarsins við. Hún hefst á Vesturgötunni sunnudaginn 19. júlí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

Þú ert liður í dagskránni!  Jú, maður hefur séð að fólk flytur ræður, syngur, gerir eitthvað, en þarna er það liður í dagskránni að þú ljúkir hlaupi!  Ég þarf smá stund til að jafna mig á þessu :) 

En hver er sagan á bak við þetta?

Fríða, 19.6.2009 kl. 00:01

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Sko, ætli það þyki ekki bara svona fréttnæmt að ég ljúki hlaupinu? Nei, ég hef reyndar bara einu sinni svo ég muni hætt einhverju hlaupi sem ég var byrjaður á. Síðan eru liðin 30 ár. Ætli þetta sé ekki orðað svona, af því að ég ætla að hlaupa inn í dagskrána á réttu augnabliki.

Sagan? Það er svo sem engin saga. Ég bara bjó svo lengi á Hólmavík. Og upp úr því hefur blundað í mér einhver löngun til að tengja Hólmavík og Drangsnes betur saman. Hef hlaupið eitthvað þarna um svæðið á hamingjudögum tvö síðustu ár. Og nú langaði mig til að gera það meira opinbert.

Kemurðu með?

Stefán Gíslason, 19.6.2009 kl. 12:00

3 Smámynd: Fríða

Svona hlaup passar vel inn í æfingaáætlunina mín næstu vikur, en á móti þá get ég bara ekkert planað hvar á landinu ég mun hlaupa.  Þannig að ég verð víst að fá að ákveða þetta með stuttum fyrirvara.   Kannski þarf ég að vera á Höfuðborgarsvæðinu.  En, það er reyndar styttra til Hólmavíkur frá Reykjavík en frá Akureyri, þannig að það er aldrei að vita.

Fríða, 19.6.2009 kl. 13:36

4 Smámynd: Stefán Gíslason

Það væri frábært að hafa þig með! Þetta er ekki alveg eftir bókinni fyrir þá sem ætla að hlaupa maraþon viku seinna, en ætti sem sagt að passa mjög vel í Laugavegsáætlunina þína. Og auðvitað þarf engan fyrirvara á ákvörðunina, þetta er ekki svoleiðis hlaup.

Stefán Gíslason, 19.6.2009 kl. 14:26

5 identicon

Sæll gamli félagi!

Þar sem ég get ekki lengur hlaupið(því miður) ætla ég að ganga rúmlega maraþon á þessum tíma. Þ.e. ganga Glerárdalshringinn sem verður farinn 11. júlí. Ég hef búið til nákvæma áætlun fyrir hringinn. Hún fellst í því að hafa gaman af þessu og passa að enginn fari sér að voða. Það er víst búið að munstra mig í að vera fararstjóri í ár(eins og önnur ár). Ég hef aðeins æft með því að fara til fjalla og ganga frá mér rænu og ráð. Það er orðið meira og meira um svona víðavangshlaup og göngur á toppa og tinda. Ég hef mörg slík í kollinum en ætla ekki að gefa það upp að svo stöddu. Að sjálfsögðu er ég að vinna að langtímaverkefni sem ég ætla nú að taka nokkur ár í að ljúka. Það er nóg að taka eitt brálæðis kastið á 50. árinu. Það var gaman en mjög erfitt bæði líkamlega og andlega. Fjallavegahlaupið hjá þér gengur vel sé ég og ég  fylgi þér í huganum og les um hlaupin. Kveðja Olli

Þorvaldur V. Þórsson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband