Leita í fréttum mbl.is

Hamingjuhlaupið á morgun

Á morgun ætla ég að auka eigin hamingju - og kannski einhverra annarra líka - með því að hlaupa frá Drangsnesi til Hólmavíkur. Þetta er eitthvað sem mig hefur lengi langað til að gera, og nú er tækifæri til að flétta það inn í dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík. Þess vegna verður þetta hamingjuhlaup. Ég ætla að leggja af stað frá bryggjunni á Drangsnesi stundvíslega kl. 10.08 í fyrramálið, (þ.e. 5 mínútum síðar en áður hafði verið tilkynnt) og ljúka hlaupinu á hátíðarsvæðinu neðan við Klifstúnið á Hólmavík stundvíslega kl. 13.35. Eftirfarandi tafla sýnir tímasetningar á helstu merkisstöðum á leiðinni:

Staðsetning:  km búnirTími Tímasetning km eftir
Drangsnes (bryggjan)0,0  0:00:00 10:0834,5 
Hveravík6,5  0:39:00 10:4728,0 
Vegamót við Bjarnarfjarðarháls 15,5  1:33:00 11:4119,0 
Selá18,9  1:53:24 12:0115,6 
Vegamót í Staðardal22,6  2:15:36 12:2411,9 
Grjótá 26,3  2:37:48 12:468,2 
Ósá29,6  2:57:36 13:064,9 
Hólmavíkurvegamót 33,1  3:18:36 13:271,4 
Hólmavík (Klifstún) 34,5  3:27:00 13:350,0 


Ég verð alls ekki einn á ferð, því að a.m.k. 5 vaskir hlauparar ætla að fylgja mér alla leið, en eins og ráða má af töflunni er öll leiðin u.þ.b. 34,5 km. Samtals hefur þetta fólk hlaupið 24 maraþon um ævina, auk heils hellings af hálfum maraþonum og einstaka Laugavegshlaupum. Í hópnum má einnig finna dálitla reynslu af Vasagöngunni í Svíþjóð. Þó að þetta sé vissulega óárennilegur hópur, er hann hinn ljúfasti viðskiptis. Þess vegna verður tekið vel á móti öllum sem slást í för með okkur, hvort sem það er alla leið eða hluta leiðarinnar. Því fleiri sem taka þátt í þessu, því meiri verður hamingjan.
Smile

Eins og líka má ráða af töflunni er gert ráð fyrir jöfnum fyrirfram ákveðnum hlaupahraða alla leið, enda á hlaupinu að ljúka stundvíslega kl. 13.35 samkvæmt dagskrá Hamingjudaganna.

Nú fýsir eflaust marga að vita hverjir skipi þennan afar harðsnúna en að sama skapi ljúfa hlaupahóp, og hvers vegna mér hafi yfirleitt dottið í hug að gera þetta. Við því fást engin svör hér. Þeir sem vilja komast að hinu sanna þurfa að vera mættir á Hamingjudagana kl. 13.35 á morgun. Enn betra væri þó að mæta líka við bryggjuna á Drangsnesi kl. 10.08 og fylgjast með alla leið. Þeir sem það gera verða margs vísari.
Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir mig, það var frábært að fá svona stuðning í að hlaupa þessa 34 km sem ég þurfti að fara skv. æfingaáætlun en hefði örugglega ekki farið ef Hamingjuhlaupið hefði ekki verið til.

Fríða (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband