Leita í fréttum mbl.is

Hlaupið kringum Skorradalsvatn

Í morgun (laugardagsmorgun) hlupum við Ingimundur Grétarsson í kringum Skorradalsvatn. Þetta hafði staðið til um nokkurt skeið, en ekki komist í verk fyrr en núna. Mig minnir að það hafi verið Guðjón Sigþór Jensson sem benti mér upphaflega á hversu upplögð hlaupaleið þetta væri. Það sama hefur borið á góma í samtölum Ingimundar við heimamenn í dalnum. Reyndar hafði Ingimundur sjálfur bæði búsetu og atvinnu í Skorradal fyrr á árum - og þekkir þar a.m.k. aðra hvora þúfu. Ég fékk því gríðarmikla og góða fræðslu á þessu morgunskokki.

Ágæti hlaupaleiðarinnar kringum Skorradalsvatn hafði síst verið orðum aukið. Þetta er bókstaflega alveg frábær hlaupaleið, hafi maður á annað borð tíma og úthald í svoleiðis verkefni. Ekki spillti veðrið heldur fyrir. Þegar við lögðum í hann um 7-leytið var sólskin í dalnum og 7 stiga hiti. Svo hélt sólin áfram að skína langleiðina, og hitastigið hækkaði jafnt og þétt. Held það hafi verið farið að nálgast 17 gráður þegar við lokuðum hringnum stuttu fyrir kl. 11.

Við völdum að fara réttsælis um vatnið, þ.e.a.s. inn með því að norðanverðu og út að sunnanverðu. Vegurinn að norðanverðu er sléttur og hlaupavænn, og skógurinn gefur bæði skjól og góða lykt. Mér kom eiginlega á óvart að sjá hversu mikið er þarna af beinvöxnum og háum trjám. Á köflum fannst mér ég vera kominn á skandinavíska skógargötu. Það eina sem vantaði voru könglar og sniglar á veginum. Reyndar sakna ég ekki sniglanna!

Eftir að komið er inn fyrir vatnið tekur hrjóstrugri vegur við, enda varla hægt að tala um bílveg á því svæði, sérstaklega ekki innst með vatninu að sunnanverðu. Þarna er slóðin víða býsna gróf, en um leið verður leiðin jú fjölbreyttari og meira gefandi fyrir fætur í þjálfun. Þessi kafli nær eiginlega út að Stóru-Drageyri, þar sem vegurinn kemur niður af Draganum. Eftir það er undirlagið fremur tilbreytingalaust, bara venjulegur malarvegur, sem sjálfsagt getur rykast úr umfram óskir hlaupara. Rykið var þó ekki til trafala fyrir okkur, enda umferð sáralítil á þessum tíma dags, jafnvel á verslunarmannahelginni. En nógur var þurrkurinn; næstum allar sprænur þurrar.

Þetta verður örugglega ekki síðasta ferðin okkar kringum Skorradalsvatn. Spái því að fleiri eigi eftir að gleðjast á hlaupum á þessari leið. Svona rétt til gamans ætla ég að smella hérna inn yfirlitskorti af leiðinni, sem ég fékk að láni af kortavef ja.is. Eins og þar mætti sjá, ef myndin væri ekki svona rosalega lítil, er leiðin öll rétt um 39 km.

Skorradalsvatn web

Best að leyfa hæðarritinu úr gps-tækinu að fljóta með líka. Maður fer líklega úr svona 70 metrum upp í 150 metra við Dagverðarnes, en að öðru leyti er þetta tiltölulega slétt.

Skorradalsvatn hæð web


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

varstu bitinn á leiðinni?

Ingibjörg Hinriksdóttir, 2.8.2009 kl. 11:25

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Nei, ég var ekki bitinn. En það var nú samt dálítið af flugu þarna. Líklega vorum við heppnir að vera á ferð svona snemma dags.

Stefán Gíslason, 3.8.2009 kl. 00:53

3 identicon

Frábært að vanda félagi!

Ingimundur (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 00:49

4 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Jæja, það er gott að flugurnar lögðust ekki á þig. Sennilega hefur þú ekki stoppað mikið á leiðinni og þær ekki náð í "rassinn" á þér! :-)

Ingibjörg Hinriksdóttir, 4.8.2009 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband