Leita í fréttum mbl.is

Spellvirki spilla

Byggcr100Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er rætt um það tjón sem spellvirkjar geta valdið þeim sem berjast fyrir málstað með friðsamlegum málflutningi og faglegum rökum. Tilefnið er skemmdarverk sem unnið var á dögunum á tilraunareit líftæknifyrirtækisins Orfs austur í Gunnarsholti, en þar var hafin afar umdeild tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi utandyra.

Ég er einn þeirra sem hafa miklar efasemdir um ræktun á erfðabreyttum lífverum utandyra, eins og m.a. má lesa í greinargerð sem ég sendi Umhverfisstofnun um þetta tiltekna verkefni í maí sl. Hins vegar tek ég heilshugar undir fordæmingu leiðarahöfundar Morgunblaðsins á umræddu skemmdarverki. Aðgerð sem þessi spillir fyrir þeim stóra hópi fólks sem hefur reynt að andæfa og benda á áhættuna sem fylgir ræktun sem þessari. Skemmdarverk eiga engan rétt á sér, alveg sama hver málstaðurinn er. Ég fordæmi háttalag af þessu tagi og vona í lengstu lög að allir þeir sem láta þessi mál sig einhverju varða, sýni þá lágmarksskynsemi og prúðmennsku að beita sér innan þess ramma sem samfélag okkar hefur valið sér með lýðræðislegum hætti. Þetta er gert með opinni umræðu, skrifum, fræðslu, athugasemdum, kærum og öðrum þeim aðferðum sem samfélagið hefur orðið ásátt um. Þannig geta þeir sem eru ósáttir við ákvörðun Umhverfisstofnunar um að leyfa umrædda ræktun, kært þá ákvörðun til umhverfisráðherra innan þriggja mánaða frá því að ákvörðunin var tilkynnt, þ.e. í síðasta lagi 22. september nk. Leyfi, hversu illa ígrunduð sem þau kunna að vera, verða ekki afturkölluð með ofbeldi.

Þó að ég sé í aðalatriðum alveg sammála leiðarahöfundi Morgunblaðsins, þá finnst mér að hann eða hún hefði mátt sleppa því að tala um að áhættan af umræddri ræktun væri ekki vísindalega sönnuð. Það skiptir í fyrsta lagi engu máli í umræðunni um umrætt skemmdarverk, og í öðru lagi eru það engin rök í málinu yfirleitt. Til þess að leyfa megi ræktun sem þessa þurfa menn nefnilega að sanna skaðleysið. Það er ekki nóg að skaðsemin hafi ekki verið sönnuð, alla vega ekki ef fulltrúar Íslands og flestra annarra þjóða meintu eitthvað með því sem þeir samþykktu í Ríó 1992, þ.m.t. Varúðarreglunni.

Skemmdarverkið í Gunnarsholti vekur líka upp nýjar spurningar: Voru spellvirkjarnir kannski að ná sér í erfðabreytt bygg til að dreifa sem víðast um náttúru Íslands? Vildu þeir kannski bara láta líta svo út sem þeir hefðu verið að eyðileggja umræddan reit? Hver verndar okkur hin fyrir slíku tjóni? Getur hver sem er valsað þarna um óáreittur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einhverntíman var ég með hugleiðingu um skemmdarverk í nafni umhverfisverndar á einhverjum fundi. Kemur kannski ekki á óvart að ég hef svipaðar skoðanir og þú í þeim efnum og tel þetta vonda leið að koma skilaboðum á framfæri og skemma fyrir málstað, frekar en hitt. Niðurstaðan hjá mér í hnotskurn var:

Látum ekki stela góðri hugsun til vondra verka

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband