Leita í fréttum mbl.is

Aftur bæting í maraþonhlaupi

Skellti mér í Reykjavíkurmaraþonið í morgun. Ákvað reyndar í byrjun júní að nota þessi helgi í annað, en þessu einhverju öðru var svo aflýst í fyrrakvöld, þannig að þá var bara að drífa sig. Skráði mig náttúrulega í heilt maraþon og sagði öllum sem spurðu, að mér finndist ekki taka því að leggja af stað fyrir minna, sem er náttúrlega bæði lygi og gorgeir. Til að gera langa sögu stuttu, þá gekk þetta hlaup langt framar allra björtustu vonum, og þegar upp var staðið hafði ég bætt minn besta árangur til þessa um næstum 9 mínútur. Hef verið í sælulosti síðan.

Yfirleitt ákveður maður með löngum fyrirvara að hlaupa maraþon, þ.e.a.s. miklu lengri fyrirvara en sem nemur einum og hálfum sólarhring. Ofast snýst þetta um einhverja mánuði. En ég hljóp jú síðast maraþon á Akureyri um miðjan júlí, og hef reyndar hlaupið töluvert síðan þá, þó að næsta maraþonhlaup hafi ekki verið í sjónmáli fyrr en allt í einu núna. Ég var sem sagt þokkalega undirbúinn, þó að ég hafi ekki undirbúið mig neitt. Væntingarnar voru líka eftir því, sem sagt ekki neinar sérstakar. Reyndar fann ég engin rök fyrir því að þetta hlaup ætti að þurfa að taka lengri tíma en maraþonið á Akureyri, sem ég lauk á 3:26 klst, sem var 7 mínútna bæting á persónulega metinu mínu frá því í Róm í mars 2008. Ákvað því að leggja þetta upp með svipuðum hætti og þá, þ.e. að reyna að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:50 mín hvern um sig - og sjá svo til hversu lengi ég entist, eða með öðrum orðum: Að brosa eins lengi og stætt væri, og halda svo áfram að brosa eftir það. Í heildina hugsaði ég þetta nokkurn veginn svona:

Lengsti ásættanlegi tími: 3:31 klst. (5:00 mín/km)
Eðlilegur árangur:  3:26 klst. (eins og á Akureyri)
Óskastaða:  3:24 klst. (4:50 mín/km)
Villtasti draumur:  3:20 klst.

Tók daginn snemma. Vaknaði þremur tímum fyrir hlaup að vísra manna ráði, nánar tiltekið kl 5.40, fékk mér vel útilátinn morgunmat og var kominn til höfuðborgarinnar um 8-leytið. Þar hitti ég m.a. fyrir Ingimund Grétarsson, hlaupafélaga minn síðustu 100 laugardaga eða svo, og Guðmann Elísson, stórhlaupara, en saman skipum við ásamt fjórða manni hina harðsnúnu hlaupasveit Gleðisveit Guðmanns. Í grennd við rásmarkið rakst ég líka á margt annað fólk sem gaman var að hitta. Hitaði upp með nokkur hundruð metra skokki og léttum hraðaæfingum, og svo var farið í stuttbuxurnar og hlírabolinn og rokið af stað úr Lækjargötunni þegar fjármálaráðherrann hleypti af startbyssunni stundvíslega kl. 8.40.

Ingimundur fór mjög geyst af stað, svo geyst að ég var í vafa um hvort ég gæti nokkuð fylgt honum eftir. Þetta var sko ekkert "4:50 tempó", heldur meira svona 4:40 eða jafnvel enn hraðar. Vildi þó ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana og reyndi því að láta sem ekkert væri. Fyrstu 5 km voru á 23:42 mín, sem var reyndar hálfri mínútu lakara en á Akureyri, þannig að þetta var svo sem alveg mögulegt. Mér fannst okkur miða afar vel og hver kílómetraskiltið af öðru rann hjá. Reyndar dvaldist mér gjarnan dálítið við drykkjarstöðvarnar og þurfti þá að hafa töluvert fyrir því að ná Ingimundi aftur, sérstaklega eftir 10 km markið, en þá tók það mig á annan kílómetra að ná honum. Spjallaði líka aðeins við annað skemmtilegt fólk á leiðinni. Það er jú eitt af því góða við svona fjölmenn hlaup, að maður hittir marga sem maður kannast við. Reyndar höfðum við Ingimundur það á orði, að þetta væri svo sem ekkert öðruvísi en hver annar laugardagsmorgunn hjá okkur, nema hvað við hlypum svolítið hraðar og það væri miklu fleira fólk á ferli. :)

Inni í Laugardal var hlaupið hálfnað, hálft maraþon að baki sem sagt. Klukkan sýndi 1:38:58 klst, sem var enn bara svipaður tími og á Akureyri, 10 sek. betri kannski. Við félagarnir vorum enn fisléttir í spori að eigin mati. Þetta var alla vega allt miklu léttara en fyrir tveimur árum þegar ég hljóp síðast heilt maraþon í Reykjavík, sem gekk nú samt bara ágætlega. Enn mátti ég hafa mig allan við við að halda í við Ingimund, hann var klárlega leiðandi fyrri hluta hlaupsins. Eftir 25 km, eða þegar við vorum komnir í grennd við Víkingsheimilið í Fossvogi, var sem ég fengi einhvern aukakraft, ekki ósvipað því sem ég upplifði á Akureyri. Fór þá að síga fram úr Ingimundi, og síðan hverjum hlauparanum af öðrum. Sá líka á hlaupaúrinu að hraðinn dugði oft á tíðum til að klára kílómetrann á rúmlega 4:20 mín. Leið sérlega vel á leiðinni vestur Fossvoginn og vestur fyrir Reykjavíkurflugvöll, enda sólarglæta á þessum kafla og svolítill meðvindur. Annars var vindur svo sem ekkert til trafala í hlaupinu, hitinn eitthvað rúmlega 10 stig og skúrir annað slagið. Millitíminn á 30 km kom mér mjög á óvart; 2:20:00 klst. Hafði þá hlaupið síðustu 10 km á 46 mín, sem var langt umfram það sem ég bjóst við þetta seint í hlaupinu. Var enda kominn einar 4 mín fram úr Akureyrartímanum. Annars velti ég tímanum ekkert sérstaklega fyrir mér. Ég var ekki undir neinum þrýstingi, þar sem markmiðið voru jú laus í sér. Mér leið bara vel og fannst að ég gæti hlaupið hratt - lengi.

Á fjórða kílómetratugnum var ég farinn að gera mér grein fyrir því að ég hlyti að bæta Akureyrartímann minn, þ.e.a.s. ef ekkert óvænt kæmi upp á. Man reyndar ekki eftir svoleiðis uppákomum á hlaupaferlinum hingað til. Ákvað að taka tímann á 37 km. Var nefnilega viss um að þaðan kæmist ég í mark á 31 mín, nánast hvað sem á gengi. Ég varð því kampakátur þegar ég leit á klukkuna eftir 37 km og sá að hún sýndi 2:52 mín. Það þýddi að lokatíminn gæti varla orðið lakari en 3:23 klst. Það fannst mér bara alveg stórkostlegt. Auk heldur fann ég ekkert sérstaklega fyrir þreytu, þó að fæturnir væru eitthvað farnir að láta vita af sér. Og kílómetraskiltin héldu áfram að birtast með stuttu millibili, að mér fannst. Ekki minnkaði heldur brosið þegar 40 km voru að baki og klukkan sýndi 3:07 klst. Þá reiknaðist mér til að jafnvel villtasti draumurinn um 3:20 klst. hlyti að rætast, því að ég má vera orðin heldur slappur ef 2,2 km hafast ekki á 13 mínútum. Hugurinn var því fullur af fögnuði þegar ég skokkaði inn í Lækjargötuna, vitandi að ég væri að stórbæta minn fyrri árangur. Og allt varð þetta enn betra þegar ég sá klukkuna í markinu rétt vera að komast í 3:17. Lokatíminn var svo 3:17:15 eftir minni klukku, sem sagt langt framar björtustu vonum og villtustu draumum - og næstum því 9 mínútna bæting frá Akureyrarhlaupinu. Framförin á árinu er þá farin að nálgast 16 mínútur, sem mér finnst afar ástættanlegt miðað við aldur og fyrri störf. Sjötta og besta maraþonhlaupið mitt var að baki. Og mér til mikillar ánægju kláraði ég þetta á "öfugu splitti". Seinna hálfa maraþonið var sem sagt á ívið betri tíma en það fyrra (1:39+1:38), rétt eins og í Róm 2008. :)

Eins og ég nefndi áðan fór ég að síga fram úr Ingimundi við 25 km markið. Hann var þó aldrei langt á eftir og kláraði hlaupið á glæsilegum tíma, 3:20:30 klst, sem var hvorki meira né minna en rúmlega 12 mínútna bæting - hreint ótrúlegar framfarir!

Lokaorð mín eru þessi: Líðan manns í maraþonhlaupi ræðst mest af því hvernig maður hugsar. Það er sem sagt "ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det", eins og gömul norsk kona sagði einu sinni. Maður þarf að setja sér markmið í samræmi við það sem á undan er gengið. Helst þarf að hanna markmiðin þannig að maður verði ekki fyrir vonbrigðum. Ef það tekst getur maður notið þess að hlaupa sem sigurvegari, jafnvel þó að nokkur hundruð manns fari fram úr manni á leiðinni. Þetta á að vera gaman - og það var það svo sannarlega í morgun - fyrir mig. :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Til hamingju ! Þetta er frábær tími og rosaleg bæting...

Brattur, 23.8.2009 kl. 11:55

2 identicon

Frábært Stefán! Til hamingju með hlaupið og takk fyrir skrifin.

Halldór Arinbjarnarson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 13:42

3 identicon

Blessaður og til hamingju. Þetta var frábært hjá þér, ótrúlegur árangur, þú ert ótrúlegur.

Kær kveðja,

Pétur skokkari

Pétur Pétursson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 22:27

4 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk allir þrír! Og Pétur: Þú stóðst þig nú líka glæsilega í gær, setur sífellt ný viðmið fyrir nýja aldursflokka. Takk, takk, takk.

Stefán Gíslason, 23.8.2009 kl. 23:12

5 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Til hamingju með þetta.

Úrsúla Jünemann, 23.8.2009 kl. 23:16

6 identicon

Til hamingju með glæsilegt hlaup. Vel útfært og hausinn greinilega í lagi, það þarf kannski ekki meir en 36klst undirbúning :) Sjáumst í næstu átökum.

hólmfríður vala (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 23:44

7 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk Úrsúla. Og takk Vala - og til hamingju með árangurinn þinn! Það er frábært að ná 3:28 í fyrsta hlaupi! Ég var á 3:37 í mínu fyrsta og var gríðarlega sáttur með það.

Stefán Gíslason, 24.8.2009 kl. 11:54

8 identicon

Ég var á 4:40 og þú sagðist ætla að vera á 4:50 svo bara sá ég undir iljarnar á þér.  Ég verð ekki svona létt viðureignar næst :)

vala (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 21:20

9 Smámynd: Stefán Gíslason

Ójá, næst verður sko tekið á því! Hlakka til.

Stefán Gíslason, 25.8.2009 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband