Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Erum við að missa af lífrænu lestinni?

Ég hef miklar áhyggjur af stöðu lífrænnar framleiðslu á Íslandi. Eins og fram kemur í „Orðum dagsins“ í dag á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi, stækkar heimsmarkaðurinn fyrir lífrænar vörum um 20-25% á ári. Eftirspurnin er mun meiri en framboðið, og flest bendir til að svo verði áfram.

Áhyggjur mínar af stöðu lífrænnar framleiðslu á Íslandi eru miklu fremur af þjóðhagslegum toga en umhverfislegum. Hefðbundinn landbúnaður á Íslandi íþyngir umhverfinu ekkert rosalega mikið, borið saman við það sem gerist í þéttbýlli löndum. Hins vegar gefur það auga leið, að atvinnugrein sem vex um 20-25% á ári, ár eftir ár eftir ár, felur í sér gríðarleg viðskiptatækifæri. Eins og staðan er í dag aðhafast Íslendingar nær ekkert til að virkja þessi tækifæri. Á sama tíma og stjórnvöld í löndunum í kringum okkur keppast við að samþykkja framkvæmdaáætlanir um lífræna framleiðslu og setja sér markmið um að svo og svo stór hluti landbúnaðarlands verði kominn með vottun á tilteknum tíma, aðhafast íslensk stjórnvöld ekkert á því sviði. Og á sama tíma og stjórnvöld í löndunum í kringum okkur verja miklum fjármunum árlega í aðlögunarstyrki, markaðsmál, rannsóknir og menntun í þágu lífrænnar framleiðslu, þá eru framlög til sömu mála hérlendis svo lág að það tekur því ekki að bera sig eftir þeim! Og það dugar ekki einu sinni að grípa til höfðatölureglunnar frægu til að fegra ástandið.

En vita ekki allir að Ísland er best og flottast og allt sem héðan kemur hreinast og heilnæmast? Svarið við þessu er einfaldlega NEI! Víst er gott að vera viss um eigið ágæti, en heimsmarkaðurinn tekur ekkert mark á því ágæti, nema að það sé staðfest af óháðum aðilum. Hér duga ekki eigin yfirlýsingar! Og þá er alveg sama hvort rætt er um landbúnaðarframleiðslu eða þorsk!

Nú er hægt að segja sem svo, að við þurfum hvort sem er ekkert að selja lífrænar vörur á þessum blessaða heimsmarkaði, útflutningur á lífrænum vörum verði aldrei neitt neitt. En í okkar tilviki snýst þetta að minnstu leyti um útflutning. Þetta snýst miklu fremur um að hafa vit og framsýni til að bregðast við aukinni eftirspurn innanlands. Verði það ekki gert, munu störfin sem fyrirsjáanlega verða til við að framleiða lífrænt vottaðar vörur fyrir Íslendinga, verða til erlendis! Þessi störf verða nefnilega til hvort sem við höggumst eða ekki! Þetta er bara spurning um staðsetningu.

Nú er mál að vakna. Lestin er komin, full af tækifærum til atvinnusköpunar og bættrar ímyndar! En lestin bíður ekkert við brautarpallinn okkar. Hún mun bruna „hraðar, hraðar“ hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvort sem við hristum af okkur slyðruorðið eða höngum áfram á þessum sama brautarpalli og leyfum öðrum að búa framtíðina til á meðan við sýslum við eitthvað annað!


Hvanneyrarhringurinn þriðja sinni

Við Ingimundur hlupum Hvanneyrarhringinn í morgun, réttsælis eins og á síðustu helgi. Það er augljóslega miklu betra! Smile Vorum rétt rúma 3 tíma á leiðinni, 3:09 minnir mig. Héraðið skartaði sínu fegursta, alhvít jörð, hægviðri og nánast heiðskírt, frostið kannski svona 4 gráður. Héla á stráum. Og Skessuhornið óendanlega hvítt í sólskininu. Á svona morgnum er maður virkilega minntur á hvílík forréttindi það eru að búa í svona landi og eiga aðgang að svona náttúru og geta notað hana að vild til að rækta líkama og sál. Þessi stærsta líkamsræktarstöð í heimi, sem um leið er glæsilegasta meðferðarstöðin fyrir flest sem hrjáir andann, er samt svo stórlega vanmetin. Woundering

Hvet alla til að drífa sig út, upplifa landið og breytast í skáld.


« Fyrri síða

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband