Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
15.3.2008 | 17:47
Pistill úr Páfagarði
Það hefur líklega ekki farið fram hjá lesendum þessarar bloggsíðu, að er ég staddur í Róm þessa dagana. En ég er alls ekki einn á ferð, við erum nefnilega fjögur saman. Ber þar fyrst að nefna Björk Jóhannsdóttur, lífsförunaut minn síðustu þrjá áratugina, nú og svo auðvitað Ingimund Grétarsson maraþonhlaupara úr Borgarnesi, já og síðast en ekki síst Auði H Ingólfsdóttur, fyrrverandi vinnufélaga og núverandi starfsmann UNIFEM í Makedóníu.
Og af því að lífið snýst ekki bara um hlaup, skruppum við í Vatíkanið í dag. Ekki gafst þó færi á að ræða við Benedikt sextánda um smávægilegan hugmyndafræðilegan ágreining okkar tveggja varðandi skipulag fjölskyldumála í þriðja heiminum. Hins vegar fengum við tækifæri til að skoða Péturskirkjuna, listasafn Vatíkansins og Sixtínsku kapellan. Það var eftirminnileg gönguferð, sem tók um þrjá og hálfan klukkutíma frá því að við tókum okkur stöðu í biðröðinni á Péturstorginu og þar til við gengum út úr listasafninu. Það er ótrúleg upplifun að sjá þessar tilkomumiklu byggingar og öll þessi ótrúlegu listaverk, sem mörg hver eru svo vel þekkt úr listasögunni
Eftirfarandi myndir gefa einhverja hugmynd um viðfangsefni dagsins:
Björk, ég og Auður fyrir framan Péturskirkjuna. Þetta var til skamms tíma stærsta kirkja í heimi. |
Það var smávegis biðröð eftir að komast inn í kirkjuna, en við vorum snemma í því og þurftum ekki að bíða neitt óskaplega lengi. Þarna eru Auður, Björk og Ingimundur fremst, og þegar horft er til baka sést biðröðin fyrst til vinstri og síðan til hægri yst á torginu og þvert yfir það. |
Auður og Björk komnar inn í Péturskirkjuna. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Þrátt fyrir mikið skraut er kirkjan afar stílhrein að innan. |
Björk með englum í einni af útbyggingum Péturskirkjunnar. |
Ingimundur í listasafninu. Eiginlega er þessi salur kortasalur, af því að það er svo mikið af landakortum á veggjunum. Og líklega hefur ekkert þýtt fyrir lofthrædda listmálara að ráða sig í vinnu þarna á sínum tíma. |
Dómsdagur á vegg Sixtínsku kapellunnar. Hvernig nennti Michelangelo þessu nú eiginlega? En alla vega: Þetta er nú með því tilkomumesta sem maður hefur séð! |
Götusalarnir röðuðu sér þétt á gangstéttina fyrir utan safnið í Vatíkaninu, tilbúnir fyrir næstu biðröð. |
Bloggar | Breytt 21.3.2008 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.3.2008 | 21:17
Hlaupari nr. 5510
Í dag fór ég í Maraþonþorpið að sækja keppnisgögn fyrir Rómarmaraþonið á sunnudaginn. Ég verð með rásnúmer 5510, sem væntanlega gefur einhverja vísbendingu um líklega stöðu mína í hlaupinu, því að númerunum er jú úthlutað með tilliti til fyrri árangurs. Alls eru um 14.500 manns skráðir í hlaupið, frá 76 löndum, þar af um 8.800 Ítalir. Þar að auki eru eitthvað um 50.000 manns skráðir í 4 km skemmtiskokk. Það verður því einhver slatti af fólki á ferli í miðborg Rómar á sunnudaginn.
Hlaupaleiðin í Rómarmaraþoninu kvað vera sú fallegasta í heiminum. Það er alla vega álit margra þeirra sem tekið hafa þátt í hlaupinu síðustu ár. Hlaupið hefst á via dei Fori Imperiali rétt hjá Colosseum. Fyrsta spölinn er stefnt til norðvesturs, en fljótlega beygt til vinstri og hlaupið í suðurátt, suður fyrir Basilica di San Paolo. Þar er beygt til vesturs og svo strax til norðurs, yfir ána Tíber og henni síðan fylgt til norðurs, ýmist að vestanverðu eða austanverðu. Norðan við Vatíkanið er þó tekinn nokkru lengri krókur til vesturs. Nyrst liggur leiðin norðan við viale della Moschea, en eftir það er haldið suður á bóginn á ný og hlaupin dálítið krókótt leið. Þegar Colosseum sést framundan á ný er stutt í endamarkið, sem er á sama stað og lagt var upp frá, á via dei Fori Imperiali.
Við Ingimundur fáum víst verðuga keppinauta í hlaupinu. Það er hreint ekki víst að við getum unnið þetta áreynslulaust. Mér skilst að 20 þeir bestu eigi allir tíma undir 2:13 klst. Besta tímann á Kenýamaðurinn Philip Singoei, 2:07,57 klst. Það er nú bara svo sem þremur og hálfri mínútu lakari tími en heimsmetið. Svo þykir landi hans Paul Kimaiyo nokkuð efnilegur. Hann hefur reyndar aldrei hlaupið maraþon áður, en á best 1:00,15 í hálfu maraþoni. Stærsta nafnið í hlaupinu er samt vafalítið Galina Bogomolova frá Rússlandi, en hún er 12. besti maraþonhlaupinn í kvennaflokki í sögunni, á best 2:20,47 klst. Af konunum sem skráðar eru til þátttöku eiga annars 7 betri tíma en 2:30.
Það er hægt að vinna sér inn slatta af peningum í hlaupinu. Verðlaunaféð er samtals 1 milljón evra, eða um 100 milljónkallar. Stærsti skammtur sem einn hlaupari getur fengið eru 250.000 evrur fyrir að setja heimsmet. Svo eru ýmsar góðar tölur í boði fyrir önnur afrek, sem ég nenni ekki að telja upp hér. Sé ekki í reglunum að þar sé neitt sérstaklega gert ráð fyrir mér, (t.d. 10.000 euros for the best annual performance for athletes born in Bitrufjörður).
Ýmsir athyglisverðir einstaklingar verða með í Rómarmaraþoninu á sunnudaginn. Þar má nefna Ítalann Andrea Cionna, sem á besta tímann sem blindur maður hefur náð frá upphafi, 2:31,59 klst. Þá má nefna hinn 57 ára gamla Ching-Kuang Hsueh frá Taiwan, sem nú hleypur sitt 167. maraþon afturábak. Heimsmethafinn í þeirri grein, Metzler Kerstin frá Sviss, kvað einnig vera mættur á svæðið og hafa uppi áform um að bæta sinn besta árangur, sem ég held að sé eitthvað nálægt 5 klst. Þá má ekki gleyma Richard Whitehead, sem hleypur með sams konar gervifót og Oscar Pistorius, sem sagt frá Össuri. Einnig má nefna Bretann Ian Michael Sharman, sem skráður er í Heimsmetabók Guinness fyrir að hlaupa Lundúnamaraþonið 2007 á 2:57,44 klst., klæddur sem Elvis Presley. Hann ætlar sér víst að slá það met á sunnudaginn.
Þetta er Stefán Gíslason, sem skrifar frá Róm á Ítalíu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2008 | 15:51
650902-2380 - 315-26-2380
Tölurnar í fyrirsögninni eru kennitala og reikningsnúmer FSMA, félags aðstandenda og einstaklinga með SMA-sjúkdóminn (Spinal Muscular Atrophy) á Íslandi, en eins og fram hefur komið ætlum við Ingimundur Grétarsson að hlaupa Rómarmaraþonið á sunnudaginn til styrktar félaginu. Þeir sem vilja styðja við rannsóknir á SMA og hvetja okkur til dáða í leiðinni, geta sem sagt lagt fjárhæð að eigin vali inn á reikninginn.
En svo er líka hægt að gera veðmál úr þessu. Hvernig væri t.d. að heita á okkur hvorn í sínu lagi, og lofa t.d. 100 krónum fyrir hverja mínútu sem viðkomandi er undir fjórum klukkustundum? Besti maraþontíminn minn til þessa er 3:36 klst, þ.e. 24 mín. undir fjórum tímum, sem samsvarar í þessu tilfelli 2.400 krónum. Ingimundur á best 3:33 klst., sem gera þá 2.700 krónur með sama útreikningi. Auðvitað mætti líka ákveða einhverja hámarksupphæð til að kostnaðurinn fari ekki úr böndunum ef við skyldum bæta okkur óskaplega. Þeir sem vilja fara þessa leið geta t.d. sent mér tölvupóst með áheitinu. Ég mun þá senda tölurnar um hæl þegar þær liggja fyrir - og þá er ekkert eftir nema leggja inn hjá FSMA.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2008 | 22:02
Á leið til Rómar
Í fyrramálið verður lagt í hann til Rómar, en þar ætlum við Ingimundur Grétarsson að hlaupa Maraþonhlaup á sunnudaginn. Þetta hefur staðið lengi til, ef ég man rétt skráðum við okkur í hlaupið í ágúst á síðasta ári.
Hvers vegna Róm og hvers vegna um vetur?
Fyrir þessu eru tvær ástæður. Annars vegar er tímasetningin vel fyrir utan hið dásamlega íslenska sumar, sem ég tími alls ekki að missa af. Hins vegar er Róm heillandi borg, þar sem hægt er að rifja upp forna menningu og listir. Þess vegna er Róm líka sérlega áhugaverð fyrir marga aðra en hlaupara, t.d. fjölskyldu og vini sem ekki stunda hlaup að ráði. Því er svo við að bæta, að með því að fara í svona hlaup að vetri neyðist maður til að koma sér í form fyrr en ella og verður þannig væntanlega betur í stakk búinn til að takast á við fjallvegahlaup sumarsins.
Undirbúningurinn
Eins og einhverjir kunna að hafa tekið eftir, þá hefur þessi vetur verið með rysjóttara móti hvað tíðarfar varðar. En ef maður er búinn að skrá sig í maraþonhlaup í mars þýðir ekkert að sitja heima og lesa þótt úti sé kalt. Það þarf jú eitthvað til að komast sæmilega klakklaust í gegnum svona hlaup. Undirbúningurinn byrjaði eiginlega í lok nóvember, en upp úr áramótum fór að færast meiri alvara í málið. Við Ingimundur höfum hlaupið saman flesta laugardaga það sem af er árinu, mest í 15-18 stiga frosti. Virka daga hefur hvor verið að basla þetta í sínu lagi. Oft hefur komið sér vel að eiga keðjur undir skóna. Oftast hafa þetta verið 4-5 æfingar í viku, mest upp á samanlagt 50-80 km, en Ingimundur hefur hlaupið heldur lengra. Þeir sem vilja vita allt um málið geta leitað okkur uppi í hlaupadagbókinni.
Væntingarnar
Þetta verður fjórða maraþonhlaupið mitt. Það fyrsta hljóp ég í æsku, 39 ára gamall. Náði þá mínum besta tíma, 3:35:56 klst. Hljóp í fyrra á 3:42:56. Líklega er ég betur undir búinn núna en í bæði þessi skipti, en e.t.v. hefur eitthvað hægst á manni síðan maður var krakki á fertugsaldri. Eigum við ekki að segja að markmið mitt fyrir Rómarmaraþonið sé að hlaupa undir 3:51 klst. Verð alla vega pínulítið óhress ef það næst ekki. Annars er auðvitað aðalmálið að hafa gaman af þessu.
Styrkjum gott málefni
Við Ingimundur ætlum að hlaupa Rómarmaraþonið til styrktar FSMA, sem er félag aðstandenda og einstaklinga með SMA-sjúkdóminn (Spinal Muscular Atrophy) á Íslandi (sjá http://www.fsma.ci.is/). SMA er taugahrörnunarsjúkdómur sem stafar af fráviki í geni sem framleiðir tiltekið prótein sem er nauðsynlegt fyrir tilteknar frumur í framhorni mænunnar. Sé framleiðsla á þessu próteini lítil sem engin, eyðileggjast frumurnar og einstaklingurinn lamast smám saman. Síðast þegar ég vissi voru 12 einstaklingar á Íslandi haldnir þessum sjúkdómi, þ.á.m. ein unglingsstúlka í Borgarnesi. Þeir sem vilja styðja við rannsóknir á SMA og hvetja okkur til dáða í leiðinni, geta lagt fjárhæð að eigin vali inn á reikning FSMA. Kennitalan félagsins er 650902-2380 og reikningsnúmerið 315-26-2380. Hvet alla til að nota þetta tilefni til að styrkja gott málefni.
Fréttir af gangi mála
Tölvan verður með í för til Rómar og ég reyni að skrifa hérna inn fréttir af gangi mála eftir því sem aðstæður leyfa, væntanlega bæði fyrir hlaupið og svo náttúrulega strax og úrslitin eru ljós. Hlaupið byrjar í grennd við Colosseum kl. 8 á sunnudagsmorgun að íslenskum tíma, og ætti að verða yfirstaðið hvað okkur Ingimund varðar rétt fyrir hádegið.
Læt fljóta hérna með mynd sem Birna G. Konráðsdóttir, blaðamaður á Skessuhorninu, tók af okkur Ingimundi á hlaupum síðasta laugardagsmorgun:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.3.2008 | 22:11
Svenska hemlexor
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2008 | 18:08
Nýir tenglar á gamlar síður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2008 | 13:41
Gott veður í Borgarfirði alla laugardagsmorgna!
Ingimundur hlaupafélagi minn heldur því fram að það sé alltaf gott veður í Borgarfirði á laugardagsmorgnum. Ég hef bara búið í héraðinu í 8 og hálft ár og þekki því ekki söguna. Samt get ég staðfest að þetta er alveg rétt hjá honum. Við höfum einmitt rannsakað þetta í sameiningu þrjá síðustu laugardagsmorgna; þá tvo fyrri með því að hlaupa Hvanneyrarhringinn - og svo í morgun með því að hlaupa frá Stafholtsafleggjaranum niður í Borgarnes. Og þetta fer ekkert á milli mála. Í morgun var t.d. logn og þoka og svo sem 6 stiga frost; aldeilis frábært veður og enn betra hlaupaveður. Svo hlupum við inn í sólskinið við Granastaði um hálfellefuleytið. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Það eru forréttindi að hafa aðgang að æfingasal, þar sem er svona hátt til lofts og vítt til veggja. Langt til veggja, heiðið hátt........
Næsta laugardagsmorgun verður ekkert hlaupið. En veðrið verður örugglega gott bæði í Borgarfirði og Róm. Sunnudagsveðrið er samt enn mikilvægara í því tilviki. Eitthvað eru þeir farnir að spá smáskúrum þarna suðurfrá, en hitinn ætti að vera þetta 11-14 gráður í plús. Formerki hitastigstalna skipta máli, einkum þegar fjær dregur núllinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2008 | 23:13
Nafnháttarsýki
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.3.2008 | 14:25
Að bjarga heiminum
Hélduð þið að það væri dýrt að bjarga heiminum, ég meina að útrýma fátækt, sjá öllum fyrir heilsugæslu, koma jafnvægi á mannfjölgun, útrýma ólæsi, endurreisa fiskistofna, stöðva hlýnun loftslags af mannavöldum og kippa í liðinn öðrum helstu vandamálum sem steðja að mannkyninu um þessar mundir? Svarið er NEI! Lauslega áætlaður kostnaður við þetta allt saman er ekki nema um 190 milljarðar Bandaríkjadala á ári. Það eru ekki nema 12.948.500.000.000 íslenskar krónur, eða þar um bil.
Haldið þið kannski að þetta séu miklir peningar? Svarið er NEI! Á hverju ári verja Bandaríkjamenn einir nærri þrefalt hærri fjárhæð til hermála, sem sagt einum 560 milljörðum dala. Og ef við lítum á heiminn allan, þá voru samanlögð útgjöld til hermála á árinu 2006 u.þ.b. 1.200 milljarðar dala, já eða um 81.780.000.000.000 ísl. kr. (fyrir þá sem finnst betra að hugsa í eigin mynt).
Eigum við að ræða þetta eitthvað?
Hvet ykkur til að kynna ykkur þessa útreikninga nánar í nýrri útgáfu af metsölubók Lesters Brown, Plan B 3.0.
Bloggar | Breytt 8.3.2008 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.3.2008 | 19:56
Veðurspáin fyrir Róm
Nú er tæp vika í að maður leggi í 'ann til Rómar. Og auðvitað er ég búinn að taka skeytin, eins og almennilegur sveitamaður. Það lítur bara sérlega vel út með veðrið þarna suðurfrá á pálmasunnudag:
Mér sýnist þetta í stuttu máli snúast um suðlæga átt, 1-4 m/s, hálfskýjað og úrkomulaust og 13-16 stiga hita. Það er nákvæmlega eins og ég vil að það sé!
Ég er viss um að ALLIR öfunda mig - og Ingimund Grétarsson - af því að ætla að hlaupa maraþon í Róm á pálmasunnudag. Er hægt að finna sér eitthvað skemmtilegra að gera á svoleiðis degi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt