Leita í fréttum mbl.is

Á leið til Rómar

Í fyrramálið verður lagt í hann til Rómar, en þar ætlum við Ingimundur Grétarsson að hlaupa Maraþonhlaup á sunnudaginn. Þetta hefur staðið lengi til, ef ég man rétt skráðum við okkur í hlaupið í ágúst á síðasta ári.

Hvers vegna Róm og hvers vegna um vetur?
Fyrir þessu eru tvær ástæður. Annars vegar er tímasetningin vel fyrir utan hið dásamlega íslenska sumar, sem ég tími alls ekki að missa af. Hins vegar er Róm heillandi borg, þar sem hægt er að rifja upp forna menningu og listir. Þess vegna er Róm líka sérlega áhugaverð fyrir marga aðra en hlaupara, t.d. fjölskyldu og vini sem ekki stunda hlaup að ráði. Því er svo við að bæta, að með því að fara í svona hlaup að vetri neyðist maður til að koma sér í form fyrr en ella og verður þannig væntanlega betur í stakk búinn til að takast á við fjallvegahlaup sumarsins.

Undirbúningurinn
Eins og einhverjir kunna að hafa tekið eftir, þá hefur þessi vetur verið með rysjóttara móti hvað tíðarfar varðar. En ef maður er búinn að skrá sig í maraþonhlaup í mars þýðir ekkert að sitja heima og lesa þótt úti sé kalt. Það þarf jú eitthvað til að komast sæmilega klakklaust í gegnum svona hlaup. Undirbúningurinn byrjaði eiginlega í lok nóvember, en upp úr áramótum fór að færast meiri alvara í málið. Við Ingimundur höfum hlaupið saman flesta laugardaga það sem af er árinu, mest í 15-18 stiga frosti. Virka daga hefur hvor verið að basla þetta í sínu lagi. Oft hefur komið sér vel að eiga keðjur undir skóna. Oftast hafa þetta verið 4-5 æfingar í viku, mest upp á samanlagt 50-80 km, en Ingimundur hefur hlaupið heldur lengra. Þeir sem vilja vita allt um málið geta leitað okkur uppi í hlaupadagbókinni.

Væntingarnar
Þetta verður fjórða maraþonhlaupið mitt. Það fyrsta hljóp ég í æsku, 39 ára gamall. Náði þá mínum besta tíma, 3:35:56 klst. Hljóp í fyrra á 3:42:56. Líklega er ég betur undir búinn núna en í bæði þessi skipti, en e.t.v. hefur eitthvað hægst á manni síðan maður var krakki á fertugsaldri. Eigum við ekki að segja að markmið mitt fyrir Rómarmaraþonið sé að hlaupa undir 3:51 klst. Verð alla vega pínulítið óhress ef það næst ekki. Annars er auðvitað aðalmálið að hafa gaman af þessu. Smile

Styrkjum gott málefni
Við Ingimundur ætlum að hlaupa Rómarmaraþonið til styrktar FSMA, sem er félag aðstandenda og einstaklinga með SMA-sjúkdóminn (Spinal Muscular Atrophy) á Íslandi (sjá http://www.fsma.ci.is/). SMA er taugahrörnunarsjúkdómur sem stafar af fráviki í geni sem framleiðir tiltekið prótein sem er nauðsynlegt fyrir tilteknar frumur í framhorni mænunnar. Sé framleiðsla á þessu próteini lítil sem engin, eyðileggjast frumurnar og einstaklingurinn lamast smám saman. Síðast þegar ég vissi voru 12 einstaklingar á Íslandi haldnir þessum sjúkdómi, þ.á.m. ein unglingsstúlka í Borgarnesi. Þeir sem vilja styðja við rannsóknir á SMA og hvetja okkur til dáða í leiðinni, geta lagt fjárhæð að eigin vali inn á reikning FSMA. Kennitalan félagsins er 650902-2380 og reikningsnúmerið 315-26-2380. Hvet alla til að nota þetta tilefni til að styrkja gott málefni.

Fréttir af gangi mála
Tölvan verður með í för til Rómar – og ég reyni að skrifa hérna inn fréttir af gangi mála eftir því sem aðstæður leyfa, væntanlega bæði fyrir hlaupið og svo náttúrulega strax og úrslitin eru ljós. Hlaupið byrjar í grennd við Colosseum kl. 8 á sunnudagsmorgun að íslenskum tíma, og ætti að verða yfirstaðið hvað okkur Ingimund varðar rétt fyrir hádegið.

Læt fljóta hérna með mynd sem Birna G. Konráðsdóttir, blaðamaður á Skessuhorninu, tók af okkur Ingimundi á hlaupum síðasta laugardagsmorgun:

IMG_6836web


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég get endalaust dáðst að svona hraustmennum! Góða ferð og gangi ykkur vel... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.3.2008 kl. 22:21

2 identicon

Góða ferð og gott hlaup :)  Þetta á örugglega eftir að verða alveg frábært.  Og auðvitað nærðu þessu markmiði, engin spurning.

Fríða (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 10:57

3 identicon

Gangi ykkur vel Stefán. Þetta verður gaman.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 12:03

4 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk öllsömul! Það var strax bara nokkuð gaman í dag að sækja keppnisgögnin. Allt lítur þetta út fyrir að vera gríðarlega vel skipulagt hjá Ítölunum.

Stefán Gíslason, 14.3.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband