Leita í fréttum mbl.is

Hlaupari nr. 5510

Í dag fór ég í Maraþonþorpið að sækja keppnisgögn fyrir Rómarmaraþonið á sunnudaginn. Ég verð með rásnúmer 5510, sem væntanlega gefur einhverja vísbendingu um líklega stöðu mína í hlaupinu, því að númerunum er jú úthlutað með tilliti til fyrri árangurs. Alls eru um 14.500 manns skráðir í hlaupið, frá 76 löndum, þar af um 8.800 Ítalir. Þar að auki eru eitthvað um 50.000 manns skráðir í 4 km skemmtiskokk. Það verður því einhver slatti af fólki á ferli í miðborg Rómar á sunnudaginn.

Hlaupaleiðin í Rómarmaraþoninu kvað vera sú fallegasta í heiminum. Það er alla vega álit margra þeirra sem tekið hafa þátt í hlaupinu síðustu ár. Hlaupið hefst á via dei Fori Imperiali rétt hjá Colosseum. Fyrsta spölinn er stefnt til norðvesturs, en fljótlega beygt til vinstri og hlaupið í suðurátt, suður fyrir Basilica di San Paolo. Þar er beygt til vesturs og svo strax til norðurs, yfir ána Tíber og henni síðan fylgt til norðurs, ýmist að vestanverðu eða austanverðu. Norðan við Vatíkanið er þó tekinn nokkru lengri krókur til vesturs. Nyrst liggur leiðin norðan við viale della Moschea, en eftir það er haldið suður á bóginn á ný og hlaupin dálítið krókótt leið. Þegar Colosseum sést framundan á ný er stutt í endamarkið, sem er á sama stað og lagt var upp frá, á via dei Fori Imperiali.

Við Ingimundur fáum víst verðuga keppinauta í hlaupinu. Það er hreint ekki víst að við getum unnið þetta áreynslulaust. Mér skilst að 20 þeir bestu eigi allir tíma undir 2:13 klst. Besta tímann á Kenýamaðurinn Philip Singoei, 2:07,57 klst. Það er nú bara svo sem þremur og hálfri mínútu lakari tími en heimsmetið. Svo þykir landi hans Paul Kimaiyo nokkuð efnilegur. Hann hefur reyndar aldrei hlaupið maraþon áður, en á best 1:00,15 í hálfu maraþoni. Stærsta nafnið í hlaupinu er samt vafalítið Galina Bogomolova frá Rússlandi, en hún er 12. besti maraþonhlaupinn í kvennaflokki í sögunni, á best 2:20,47 klst. Af konunum sem skráðar eru til þátttöku eiga annars 7 betri tíma en 2:30.

Það er hægt að vinna sér inn slatta af peningum í hlaupinu. Verðlaunaféð er samtals 1 milljón evra, eða um 100 milljónkallar. Stærsti skammtur sem einn hlaupari getur fengið eru 250.000 evrur fyrir að setja heimsmet. Svo eru ýmsar góðar tölur í boði fyrir önnur afrek, sem ég nenni ekki að telja upp hér. Sé ekki í reglunum að þar sé neitt sérstaklega gert ráð fyrir mér, (t.d. “10.000 euros for the best annual performance for athletes born in Bitrufjörður”).

Ýmsir athyglisverðir einstaklingar verða með í Rómarmaraþoninu á sunnudaginn. Þar má nefna Ítalann Andrea Cionna, sem á besta tímann sem blindur maður hefur náð frá upphafi, 2:31,59 klst. Þá má nefna hinn 57 ára gamla Ching-Kuang Hsueh frá Taiwan, sem nú hleypur sitt 167. maraþon afturábak. Heimsmethafinn í þeirri grein, Metzler Kerstin frá Sviss, kvað einnig vera mættur á svæðið og hafa uppi áform um að bæta sinn besta árangur, sem ég held að sé eitthvað nálægt 5 klst. Þá má ekki gleyma Richard Whitehead, sem hleypur með sams konar gervifót og Oscar Pistorius, sem sagt frá Össuri. Einnig má nefna Bretann Ian Michael Sharman, sem skráður er í Heimsmetabók Guinness fyrir að hlaupa Lundúnamaraþonið 2007 á 2:57,44 klst., klæddur sem Elvis Presley. Hann ætlar sér víst að slá það met á sunnudaginn.

Þetta er Stefán Gíslason, sem skrifar frá Róm á Ítalíu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri nú gaman ef þú kæmist á pall.

Gangi þér og þínum vel.

og takk fyrir skemmtilegan pistil.

Guðrún (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband