Leita í fréttum mbl.is

Á að banna plastpoka?

Síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum verið spurður álits á því hvort rétt væri að banna einnota innkaupapoka úr plasti. Ég treysti mér engan veginn til að svara þeirri spurningu með jái eða neii, enda almennt þeirrar skoðunar, að ef maður geti gefið eitt einfalt svar við flókinni spurningu, þá sé svarið örugglega vitlaust. Þess í stað ætla ég að velta málinu aðeins fyrir mér í þessum pistli, án þess að komast að endanlegri niðurstöðu.

384185165Haldapokar%20GHNýlega viðraði Erik Solheim, umhverfisráðherra Noregs, þá hugmynd að banna einnota innkaupapoka úr plasti. Talið er að Norðmenn fleygi um einum milljarði slíkra poka á ári hverju, enda benda norskar rannsóknir til að venjulegur plastpoki sé aðeins notaður að meðaltali í 20 mínútur. Neysluvenjur Norðmanna eru um margt líkar neysluvenjum Íslendinga, en þeir eru hins vegar um 15 sinnum fleiri. Því er ekki fráleitt að ætla að hér sé árlega fleygt um 70 milljón pokum. Ekki eru forsendur til að ætla að meðallíftími plastpoka á Íslandi sé lengri en í Noregi.

Einnota plastpokar hafa margvísleg áhrif á umhverfið - og þá ekki bara á úrgangsstiginu. Plast er fyrir það fyrsta búið til úr olíu, sem er jú endanleg auðlind auk þess sem vinnsla hennar og notkun eykur á gróðurhúsaáhrifin. Til að framleiða eitt kíló af plasti þarf tvö kíló af olíu!

Áætlað er að það taki venjulegan plastpoka um 100 ár að brotna niður í náttúrunni, en allt að þúsund árum ef pokinn er urðaður á viðurkenndum urðunarstað. Þessi langi niðurbrotstími hefur reyndar bæði kosti og galla, ef svo má segja. Kosturinn er sá, að því lengri tíma sem niðurbrotið tekur, því seinna sleppa gróðurhúsalofttegundirnar koltvísýringur og/eða metan úr plastinu út í andrúmsloftið. Gallarnir eru kannski augljósari, því að þeir snúast um ásýnd, hreinleika og rými, auk þess sem plastpokar í náttúrunni geta verið skaðlegir dýralífi, stíflað niðurföll o.s.frv. Ofan í kaupið geta leynst ósýnilegar hættur í plastúrgangi. Þegar venjulegt pólýetýlenplast brotnar niður, en það er sú tegund af plasti sem flestir plastpokar eru gerðir úr, þá myndast fræðilega séð næstum bara vatn og koltvísýringur þegar upp er staðið. En þetta gerist í mörgum þrepum, enda tekur ferlið líklega einhver 100 eða 1000 ár eins og fyrr segir. covtoc.dpÍ millitíðinni verða til ýmis millistig, svo sem stakar fjölliður („pólymerar“), sem eru jú grunneiningar plastsins. Þessar plasttrefjar sjást ekki með berum augum, en geta engu að síður m.a. mengað höf og strendur og skapað hættu fyrir lífríkið. Grein um þetta atriði birtist í vísindatímaritinu Science þann 7. maí 2004, (Richard C. Thompson, Ylva Olsen, Richard P. Mitchell, Anthony Davis, Steven J. Rowland, Anthony W. G. John, Daniel McGonigle, and Andrea E. Russell: Lost at Sea: Where Is All the Plastic? Science 7 May 2004 304: 838). Þeir sem ekki eru áskrifendur að tímaritinu geta nálgast útdrátt á vefsíðum Science. Reyndar er útdrátturinn ekki sérlega upplýsandi einn og sér. Hins vegar gerði umhverfisfréttaveitan EDIE þessari rannsókn skil daginn sem greinin birtist. Þar er hægt að fræðast örlítið nánar um málið.

Sífellt fleiri lönd og sveitarfélög íhuga að takmarka eða banna notkun einnota haldapoka úr plasti. Auk þess sem nefnt er hér að framan um hugmyndir norska umhverfisráðherrans, verða ókeypis plastpokar t.d. bannaðir í Kína frá 1. júní nk., umhverfisráðherra Ástralíu hefur lagt til að hætt verði að nota plastpoka í þarlendum dagvöruverslunum fyrir árslok, og forseti borgarstjórnar í Stavanger í Noregi hefur viðrað svipaðar hugmyndir. Svo mætti reyndar lengi telja.

Plastpokaframleiðendur og aðrir sem hafa tekið upp hanskann fyrir plastpokana, hafa bent á að þeir nýtist vel þegar heim er komið. Þannig þurfi fólk einmitt á svona plastpokum að halda í ruslafötur heimilisins, og ef þeir fáist ekki með þessum venjulega hætti við búðarkassana verði bara að kaupa þá sérstaklega, sem kæmi þá á sama stað niður þegar upp væri staðið. Vissulega er það rétt að haldapokar eru mikið nýttir í ruslafötur og til fleiri nota. Hins vegar halda þessi rök ekki alveg ef Íslendingar eru líkir Norðmönnum. Eins og fyrr segir er meðalnotkunartími þarlendra haldapoka aðeins um 20 mínútur, sem bendir til að mjög lágt hlutfall pokanna sé í raun notað til nokkurs annars en að bera varninginn í þeim heim (eða út í bíl og inn úr bílnum).

Þrátt fyrir alla þessa galla plastpokanna, er ekki endilega víst að bréfpokar væru betri. Þeir eru reynar framleiddir úr endurnýjanlegu efni, því að pappírinn í þá kemur úr ræktuðum skógum. En það þarf samt orku til að framleiða þá, og enn meiri orku til að flytja þá, borið saman við plastpokana, því að bréfpokarnir eru jú þyngri. Þeir henta heldur ekki í ruslaföturnar og hafa því mjög líklega jafn stuttan eða enn styttri notkunartíma en plastpokarnir. Hins vegar brotna þeir auðveldlega niður í náttúrunni - og þar koma engar fjölliður við sögu.

Vafalítið eru fjölnota taupokar og innkaupnet miklu betur til þess fallin en bæði plastpokar og bréfpokar að bera vörur heim úr búðinni. Svoleiðis pokar endast líka árum saman. Elsti taupokinn minn á t.d. 10 ára afmæli um þessar mundir. Það er 262.800 sinnum lengri tími en 20 mínútur, (þó að ég telji ekki hlaupársdaga með). Og þó að ég noti langoftast taupoka í búðarferðum, þá er ég samt af einhverjum ástæðum aldrei í vandræðum með poka í ruslafötuna. Enda eru plastpokar vel að merkja ekki bannaðir ennþá.

Eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils, verða hér ekki framreidd nein endanleg og rétt svör við spurningunni um það hvort ástæða sé til að banna einnota innkaupapoka úr plasti. Það er augljóst að plastpokanotkunin felur í sér gríðarlega sóun, og að til eru miklu betri valkostir frá umhverfislegu sjónarmiði - og reyndar fjárhagslegu líka. Hins vegar getur vel verið að í stað þess að grípa til boða og banna sé vænlegra að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál - og ef til vill að skattleggja pokana. Það að vekja fólk til umhugsunar er reyndar ekki auðvelt verkefni, en plastpokarnir eru sérlega gott umræðuefni í slíkri vakningu, því að þeir eru vissulega óvenju glöggt dæmi um sóun og ósjálfbæra neyslu, þó að hver poki um sig vegi ekki þungt í því samhengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán og takk fyrir þessa hugleiðingu. Ég er algjör umhverfissóði þegar kemur að plastpokum  viðurkenni það hér með. Líklega er ég líka allt of mikill umhverfissóði, eða slóði, á fleiri sviðum, en það er þannig heima hjá mér, að plastpokarnir sem ég kaupi undir varninginn í búðinni fá allir annað hlutverk, flestir sem pokar í ruslafötuna undir vaskinum... þannig hef ég náð einhvers konar jafnvægi í þessari neyslu! Það safnast ekki upp haugar af innkaupapokum sem lenda svo sjálfir í ruslinu...  Kannski er ástæðan sú að ég skipulegg innkaupaferðirnar ágætlega og fer sjaldan í búð... kannski þýðir það færri pokar?!

Ég skal ekki segja, þetta er sérdeilis flókið mál þegar allt er skoðað, greinilega. Ekki hef ég lausnina náttúrulega, en sé það ekki sem best kost að banna þessa poka með öllu! Eða hvað?!

Arnheiður Hjörleifsdóttir (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 10:58

2 identicon

Góð samantekt hjá þér Stefán.

Ég bý í Danmörku, og hér er (eftir því sem mér er sagt)"mengunartollur" á plastpokum notaður sem hvati til að fá fólk til að "hugsa" sig um, og þá með því að snerta budduna. :)

Ég man eftir því á Íslandi, þegar pokarnir voru "ókeypis" í verslunum undir þær vörur sem maður keypti, svo gerðist það að þeim varð skylt að selja okkur pokana. Ég héld að það væri ríkið sem kom þar að máli, með einhverskonar mengunartoll, eða hvað?

 Það er líka mengun sem fylgir einnota tau-pokum,  það þarf að framleiða þá, kannski bleikja efnið og lita... svo þurfum við sjálf að þvo þá endrum og eins, sem krefst orku og notkunar á þvottaefni.

Neyslubyltinging með öllu einnota virðist hafa byrjað með einnota rakvélablöðum og annari sorpframleiðslu snemma í upphafi 20. aldar, þar sem fólk var svo upptekið af öllu sem var fljótlegt og þægilegt, en lítið var spáð í umhverfinu. Ég trúi því að þú sért á réttri braut með að vekja fólk til umhugsunar frekar en að setja boð og bönn, það teygir sig líka svo langt út fyrir plastpokaumræðuna.

Gunnar H. Konráðsson (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband