Leita í fréttum mbl.is

Einkennileg loftslagsumræða

Mér finnst einkennilegt að fylgjast með loftslagsumræðunni þessa dagana. Einkennilegast finnst mér þó hversu mikið rými þeir fá í fjölmiðlum, svo sem á RÚV, sem enn halda því fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu bara einhver hræðsluáróður og bull í Al Gore og hans líkum. Auðvitað er nauðsynlegt að ólík sjónarmið komi fram, en í þessu máli liggur við að jafnræðið sé farið að fela í sér ákveðna skekkju, eins og Guðni Elísson lýsir svo ágætlega í grein sinni um tóbaksvísindi í Lesbók Morgunblaðsins sl. laugardag.

Mér finnst með öðrum orðum einkennilegt að loftslagsumræðan á Íslandi skuli enn þann dag í dag snúast að einhverju leyti um það hvort maðurinn eigi einhvern þátt í hækkandi styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu og hvort hækkandi styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu stuðli að hækkandi meðalhitastigi á jörðinni. Í rauninni eru þessi atriði löngu útrædd, bæði á vettvangi vísinda og stjórnmála. Á því leikur nákvæmlega enginn vafi að maðurinn á stóran þátt í því að styrkur koltvísýrings hefur hækkað úr u.þ.b. 270 ppm í u.þ.b. 390 ppm frá upphafi iðnbyltingar, þ.e.a.s. á síðustu 200 árum. Á því leikur heldur enginn vafi að koltvísýringur og fleiri lofttegundir gleypa geisla af tiltekinni bylgjulengd, og þar með hluta af varmageislum frá yfirborði jarðar. Þetta hafa menn vitað lengi og ættu ekki að þurfa að ræða frekar. Hins vegar er skiljanlegt að menn greini á um hver áhrif loftslagsbreytinga muni verða á mismunandi svæðum heimsins, eða um það hversu hagkvæmt sé að grípa til varnaraðgerða, samanborið við kostnaðinn við að takast á við afleiðingarnar. Grunnurinn að þessu er sem sagt sáraeinfaldur og nánast óumdeilanlegur, en úrvinnslan er flókin. Hin raunverulegu áhrif á hverjum stað ráðast nefnilega af afar flóknu samspili fjölmargra þátta, samspili sem enginn þekkir til hlítar. Þar við bætast síðan hagfræðilegar vangaveltur, þar sem núvirðisreikningar og margt fleira kemur við sögu.

Vitneskjan um að loftslagsbreytingar gætu orðið af mannavöldum hefur verið til staðar í rúmlega 180 ár! Þetta er sem sagt enginn nýuppfundinn hræðsluáróður og umhverfisöfgar! Franski stærðfræðingurinn Jean Babtiste Fourier uppgötvaði gróðurhúsaáhrifin árið 1824, og árið 1896 lýsti sænski efnafræðingurinn Svante Arrhenius því fyrstur manna hvernig bruni jarðefnaeldsneytis gæti aukið á þessi áhrif og leitt þannig til hlýnunar loftslags á Jörðinni. Skv. reiknilíkani Svantes átti tvöföldun á styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu að leiða til hækkunar hitastigs um 5,7°C. Þetta er ótrúlega nálægt þeim tölum sem koma út úr tölvulíkönum nútímans.

Er ekki kominn tími til að hætta í afneituninni, hætta einskis nýtri rökræðu um löngu kunn áhrif mannsins á loftslagið og snúa sér frekar að því sem máli skiptir, þ.e.a.s. að ræða hvort, hvernig og hvenær sé best að bregðast við vandanum!?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þú skrifar.----koltvísýringur og fleiri lofttegundir gleypa geisla af tiltekinni bylgjulengd. Þetta er alveg rétt en málið er bara að það er gufan er mesti skaðvaldurinn en ekki CO2 Segðu mér því hækkar co2 frá 270 ppm í u.þ.b. 390 ppm frá upphafi iðnbyltingar, þ.e.a.s. á síðustu 200 árum Þegar maðurinn hefir mengað minna og minna á hverju ári. Þú ert ekki það gamall að hafa séð bæði í austri og vestri spúandi svörtum kolareyk. Þetta er allt horfið fyrir 50 árum. Af hverju er þá talað um meiri mengun. Probaganda en ekki sannleikurinn.

Valdimar Samúelsson, 14.4.2008 kl. 18:50

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Vatnsgufa er vissulega afar öflug gróðurhúsalofttegund. Hins vegar lýtur hún talsvert öðrum lögmálum í lofthjúpnum en koltvísýringur, m.a. vegna þess að styrkur hennar er gjarnan nálægt mettun, hún hefur tilhneigingu til að mynda ský sem draga úr inngeislun og loks fellur hún til jarðar sem rigning. Athafnir manna geta því naumast aukið styrk vatnsgufu í lofthjúpnum umfram náttúrulegan styrk. Það er rétt hjá þér að sýnileg loftmengun hefur víðast hvar minnkað, en koltvísýringurinn eykst nú samt, enda hefur verið stöðug aukning í brennslu kolefnissambanda, einkum jarðefnaeldsneytis sem hafði fram að iðnbyltingunni legið óhreyft í iðrum jarðar, utan við hina virku kolefnishringrás. Gríðarmikið starf hefur verið unnið til að draga úr loftmengun, bæði frá verksmiðjum með bættri tækni, betri nýtingu og hreinsun útblásturs; frá heimilum með betri brennslu og nýjum orkugjöfum og frá bílum með hvarfakútum og síum, svo eitthvað sé nefnt. En ekkert af þessu dregur úr losun koltvísýrings, nema skiptin yfir í kolefnissnauðari orkugjafa og bætt orkunýting. Sótið er sem betur fer að hverfa úr loftinu smátt og smátt - og sama gildir um brennisteinsoxíð, köfnunarefnisoxíð, kolmónoxíð, rokgjörn lífræn efni o.fl. En koltvísýringurinn streymir út jafnt og þétt. Náttúran nær að binda hluta þess aukamagns sem kemur frá athöfnum manna, en hinn árlegi umframskammtur dugar til að auka styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu um 1-2 ppm á ári. Meðan svo er hlýtur meðalhitastig á jörðinni að hækka þegar til lengri tíma er litið. Svo einfalt er það nú.

Ég vil undirstrika, svona í lokin, að ég læt öðrum eftir að rökræða hvort skilgreina beri koltvísýringurinn í andrúmsloftinu sem "mengun" eður ei. Sjálfur tala ég ekki um "koltvísýringsmengun", heldur hækkandi styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu. Hins vegar er eðlilegt að skilgreina þann koltvísýring sem losnar af mannavöldum, umfram náttúrulega losun, sem mengun í lagalegu tilliti, m.a. vegna þess að mengunarbótareglan (Polluter Pays Principle (PPP)) hlýtur að ná yfir hann.

Stefán Gíslason, 14.4.2008 kl. 22:38

3 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Sástu viðtalið við fyrrum fjármálaráðherra Breta og pabba hennar Nigelu, þar sem hann gagnrýndi loftslagsumræðuna? Hann hengdi hatt sinn m.a. á ágreining fræðimanna um að hve miklu leyti þessar breytingar væru af mannavöldum. Þetta er gamalkunnug taktík - að skapa efa. Ef fræðimennirnir geta ekki komið sér saman um eina "rétta" niðurstöðu er þá nokkkuð að marka þetta?

Raunar var viðtalið með þeim hætti að maður fékk nánast óbragð í munn við að hlusta á það. Hefur í mínu tilviki trúlega skemmt varanlega ánæguna af að horfa á matreiðsluþætti dótturinnar...!

Haraldur Rafn Ingvason, 16.4.2008 kl. 00:09

4 Smámynd: Stefán Gíslason

Sá það! Þetta viðtal var reyndar kveikjan að því að ég skrifaði þennan pistil. Mér fannst nefnilega hálfeinkennilegt að RÚV skyldi hafa upp á þessum manni af öllum mönnum til að tjá sig um loftslagsmálin í fréttatíma, eins og það væri einhver frétt að hann hefði einhverja tiltekna skoðun. Mér fannst viðtalið einmitt vera dæmi um það þegar jafnræðið er falið að fela í sér mismunun.

Vissi ekki að hann væri pabbi Nýgellu. Þarf einhvern tíma til að jafna mig á því.

Stefán Gíslason, 16.4.2008 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband