Leita í fréttum mbl.is

Snæfellsnes fékk vottun í dag! :-)

Mynd_0391648Það var gaman í Grundarfirði í dag. Þar var haldin hátíð í tilefni þess að verið var að afhenda sveitarfélögunum á Snæfellsnesi og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli formlega staðfestingu á nýfenginni vottun þeirra samkvæmt samfélagastaðli alþjóðlegu umhverfisvottunarsamtakanna Green Globe. Snæfellsnes er fyrsta svæðið í Evrópu sem hlýtur þessa vottun og reyndar aðeins það fjórða í heiminum öllum. Vottunin var afhent við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði að viðstöddum forseta Íslands, forseta Alþingis og fjölda annarra gesta.

Markvisst hefur verið unnið að vottun Snæfellsness allt frá því vorið 2003. Hjónin Guðlaugur og Guðrún Bergmann á Hellnum höfðu frumkvæði að þessu starfi og í framhaldinu náðist breið samstaða meðal sveitarstjórnarmanna á Nesinu um málið. Haustið 2004 var tilkynnt að sveitarfélögin hefðu staðist töluleg viðmið Green Globe, en síðan hefur verið unnið hörðum höndum að uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfis, gerð framkvæmdaáætlunar og margs fleira, sem sýna þarf fram á til að geta fengið fullnaðarvottun. 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp við athöfnina í Grundarfirði í dag. Hann lauk miklu lofsorði á frumkvæði Snæfellinga í vinnunni að sjálfbærri þróun og ræddi um mikilvægi þess að virkja fólk til þátttöku í lausn þeirra brýnu umhverfisvandamála sem mannkynið stendur nú frammi fyrir, sérstaklega hvað varðar yfirvofandi loftslagsbreytingar. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, flutti einnig ávarp. Þeir Ólafur minntust báðir sérstaklega á dugnað og frumkvæði Bergmannhjónanna í undirbúningi Green Globe verkefnisins og sögðu frá heimsóknum þeirra á skrifstofur sínar á árunum í kringum aldamótin.

Kjartan Bollason, úttektarmaður Green Globe á Íslandi, afhenti forsvarsmönnum sveitarfélaganna og Þjóðgarðsins skjöl til staðfestingar á vottuninni. Að loknum frekari ræðuhöldum og tónlistaratriðum buðu sveitarstjórnirnar á Snæfellsnesi til kaffisamsætis til að fagna þessum einstæðu tímamótum.

Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að aðstoða Snæfellinga í vottunarferlinu allt frá upphafi. Það hefur verið afar gefandi og lærdómsrík vegferð, þó að auðvitað hafi ég lært lang mest fyrstu árin meðan Gulli Bergmann var enn í fullu fjöri. Þá var aldrei nein lognmolla og ekkert farið í grafgötur með það hvert markmiðið væri. Gulli hvarf skyndilega af vettvangi um jólin 2004, og síðan náðist markmiðið loksins í dag. Það var stór stund, en mikið sakna ég Gulla!

Terta dagsins!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju  Efast ekki um að frumkvöðullinn hefur verið með ykkur í anda.

Kær kveðja

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband