Leita í fréttum mbl.is

Ekki bakka með umhverfismatið

Þessa dagana er mikið rætt um þá ákvörðun umhverfisráðherra að framkvæmdir vegna álvers á Bakka skuli fara í heildstætt umhverfismat. Reyndar finnst mér einkennilegt að menn þurfi að ræða þessa ákvörðun eitthvað. Það hlýtur að vera öllum til góðs þegar til lengri tíma er litið að slíkt heildstætt mat fari fram.

Til hvers er umhverfismat?
Tilgangur með umhverfismati er ekki að koma í veg fyrir framkvæmdir, heldur að tryggja eftir föngum að áður en endanleg ákvörðun er tekin, liggi fyrir allar tiltækar upplýsingar um væntanleg áhrif viðkomandi framkvæmdar á umhverfi og samfélag. Þegar um jafnstóra framkvæmd er að ræða og álverið við Húsavík, er nauðsynlegt að skapa sem besta yfirsýn yfir þau áhrif sem álverið, virkjanir í tengslum við það, háspennulínur – og allt sem þessu tengist – hafa þegar á heildina er litið. Það er nefnilega svo með alla hluti, að heildaráhrifin geta verið önnur en áhrif einstakra þátta lögð saman.

Vönduð ákvarðanataka
Málið snýst ekki síst um vandaða ákvarðanatöku. Þeim mun gleggri upplýsingar sem liggja fyrir um áhrif framkvæmdanna, þeim mun vandaðri verður ákvarðanatakan. Ferlið á ekki að vera þannig að fyrst taki menn ófrávíkjanlega ákvörðun og að síðan sé litið á alla upplýsingasöfnun – og jafnvel upplýsingamiðlun – sem ónæði sem eingöngu er til þess fallið að spilla fyrir ferlinu.

Að skipta um skoðun
Endanleg ákvörðun um að ráðast í framkvæmd er alltaf pólitísk. Hún byggir sem sagt á skoðun þeirra sem ákvörðunina eiga að taka, að teknu tilliti til regluverksins. Ákvörðunin er sem sagt ekki vélræn, ekki eitthvert „já“ eða „nei“ sem dettur út af vélvæddu og óskeikulu ákvarðanatökufæribandi. Til þess að geta tekið ákvörðunina þurfa viðkomandi einstaklingar því að hafa skoðað sem flesta þætti málsins sem best. Annars eru þeir ekki í aðstöðu til að taka vandaða ákvörðun.

Niðurstöður umhverfismats neyða engan til að skipta um skoðun. En þær geta hins vegar leitt til þess að skoðanir breytist – á hvorn veginn sem er! Þegar niðurstöður þessa heildstæða umhverfismats liggja fyrir, munu þannig væntanlega einhverjir sem nú eru á móti þessum framkvæmdum skipta um skoðun þegar þeir sjá að þetta verður líklega ekki eins slæmt og þeir héldu. Og aðrir sem nú eru fylgjandi þessum framkvæmdum munu væntanlega einnig skipta um skoðun þegar þeir sjá hversu mikil hin samanlögðu áhrif verða. Eftir þetta er mönnum ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun.

Gott fordæmi Landsvirkjunar og Alcoa
Fyrirtækin sem bera hvað mestan þunga af fyrirhuguðum framkvæmdum við Húsavík eru Landsvirkjun og Alcoa. Bæði þessi fyrirtæki hafa mikinn metnað á sviði umhverfis- og samfélagsmála, jafnvel þótt ýmsir kunni að halda öðru fram. Þessi metnaður endurspeglast m.a. í sameiginlegu verkefni fyrirtækjanna, svonefndu sjálfbærniverkefni, sem sett var á laggirnar til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Eins og Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar hefur sjálfur sagt, þá var tilgangurinn með verkefninu ekki „að sannfæra neinn heldur útbúa mælikvarða á áhrif framkvæmdanna þannig að við töluðum sama tungumál þegar við förum að meta hvort áhrifin eru góð eða slæm“. Að hans sögn er nefnilega „afar mikilvægt að allar upplýsingar séu uppá borðinu“. Hann telur að af þessu verkefni megi „draga lærdóm til framtíðar og bæta vinnubrögðin í nýjum verkefnum“. Helsti gallinn við verkefnið fyrir austan var sá að það fór ekki í gang fyrr en menn stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Það nýttist með öðrum orðum ekki í upphaflegri ákvarðanatöku – og sömuleiðis var ekki alltaf auðvelt að átta sig á núllpunktinum, þ.e.a.s. stöðu einstakra mælikvarða eins og hún var áður en framkvæmdir hófust. Ekki má rugla verkefni af þessu tagi saman við hið formlega umhverfismatsferli, en hugmyndafræðin er af sama toga!

Niðurstaða

  1. Heildstætt umhverfismat er nauðsynlegt til að stuðla að sem vandaðastri ákvarðanatöku um það hvort eða hvernig skuli ráðist í framkvæmdirnar fyrir norðan.
  2. Þessi vinnubrögð eru mjög í anda þeirra sem Landsvirkjun og Alcoa hafa beitt í sjálfbærniverkefninu á Austurlandi, nema hvað nú er tækifæri til að nýta þann lærdóm sem þar fékkst og bæta vinnubrögðin með því að hefjast handa mun fyrr, þ.e.a.s. nógu snemma til að hjálpa til við ákvarðanatökuna.
  3. Það er hugsanlegt að heildstætt umhverfismat lengi undirbúningsferlið, en á móti kemur að það auðveldar hlutaðeigandi aðilum að móta sér skoðun (sbr. 1. lið) og er til þess fallið að skapa sátt um hina endanlegu ákvörðun um það hvort ráðist skuli í framkvæmdirnar og hvernig skuli þá gengið til verks.

mbl.is Þórunn kemur ekki á nefndarfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta. Vísa í þetta á heimasíðu minni.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 09:57

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Tek heilshugar undir með þér. Nema hvað... ég er alltaf tortryggin gagnvart mati eins og þessu sjálfbærniverkefni þegar hagsmunaaðilar standa að slíku. Það er þeim í hag að niðurstaðan sé jákvæð, í óhag að hún sé neikvæð og þeim í lófa lagið að haga seglum eftir vindi. Betra væri að óháðir, sjálfstæðir aðilar sæju um slíkt verkefni.

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.8.2008 kl. 10:28

3 Smámynd: Stefán Gíslason

Þetta með hagsmunatengslin er alltaf vandamál, sérstaklega í litlum samfélögum eins og því íslenska. Um leið og einhver óháður aðili er byrjaður að vinna svona verk er hætt við því að hann flækist í verkið, m.a. vegna þess að það er jú framkvæmdaaðilinn sem borgar brúsann. Líklega er erfitt að finna aðra leið í því. Þar koma m.a. upp spurningar um það hvort verjandi sé að hinn sameiginlegi sjóður (ríkið) kosti umfangsmiklar rannsóknir fyrir hagsmunaaðila. Kannski væri hægt að leysa það með fjársterkum auðlindasjóði?

Sú leið sem Landsvirkjun og Alcoa fóru í verkefninu sínu er athyglisverð, en þar var stofnaður breiður samráðshópur, þar sem bæði fylgjendur og andstæðingar áttu sína fulltrúa. Í þessum hópi var reynt að ná samstöðu um það hvaða þætti skyldi mæla og hvernig - og gekk bara þokkalega. En ákvörðunin var náttúrulega staðreynd áður en sest var niður.

Stefán Gíslason, 13.8.2008 kl. 10:55

4 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Takk fyrir skýra útlistun á þessu umdeilda máli. Það er ekki vanþörf á að skýra málin betur því allt of mörgum virðist koma það mjög í opna skjöldu að umhverfisráðherra skuli fyrst og fremst horfa á góða stjórnsýslu varðandi umhverfismál framkvæmda. Er starfsheitið hennar Þórunnar ekki nógu gagnsætt?

Guðrún Helgadóttir, 15.8.2008 kl. 16:36

5 identicon

Tengist þessu máli ekki neitt, en hérna er vídjóið sem við vorum að leita að í gær: http://www.youtube.com/watch?v=HBfUldT8XpI

Keli (IP-tala skráð) 16.8.2008 kl. 15:27

6 identicon

Það var víst búið að henda því út!

Keli (IP-tala skráð) 16.8.2008 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband