Leita í fréttum mbl.is

Munu urðunarstaðir breytast í námur?

Í „Orðum dagsins“ í dag kemur fram, að sjónir manna séu nú í auknum mæli farnar að beinast að urðunarstöðum sem hagkvæmum námum fyrir orku- og hráefnavinnslu. Tækifæri eru einkum talin geta legið í gríðarlegu magni plastefna sem víða liggja grafin, en verð á hágæðaplasti, svo sem HDPE, hefur tvöfaldast á einu ári í takt við aukna eftirspurn og hækkandi olíuverð. Svipaða sögu er reyndar að segja um málma, sem víða hafa verið urðaðir í stórum stíl. Sérfræðingar í úrgangsmálum munu ræða þessa möguleika á ráðstefnu í London í október, sem kölluð hefur verið „fyrsta urðunarnámuráðstefnan“.

OECD hefur áætlað að árið 2030 verði magn heimilisúrgangs á heimsvísu komið í um þrjá milljarða tonna á ári, en magnið var um 1,6 milljarður tonna árið 2005, sem samsvarar um 1 kg á mann á dag. Víða er um helmingur þessa magns urðaður, en OECD gerir ráð fyrir að það hlutfall lækki í um 40% fyrir árið 2030 vegna aukinnar áherslu á endurvinnslu og sorpbrennslu til orkuframleiðslu.

Talið er að á nú þegar liggi um 200 milljónir tonna af plasti grafnar í breskum urðunarstöðum. Verðmæti þessa plasts gæti slagað hátt í 60 milljarða sterlingspunda, eða um 9.200 milljarða íslenskra króna, miðað við plastverð í heiminum í dag. Allt þetta plast væri tæknilega séð hægt að endurvinna eða breyta í vökvakennt eldsneyti. Peter nokkur Mills, framkvæmdastjóri úrgangs- og endurvinnslufyrirtækisins New Earth Solutions, hefur haft þau orð um tækifærin sem liggja í gröfnu plasti, að þegar plastið sé „einu sinni komið á urðunarstaðinn, þá sitji það eiginlega bara þar og geri ekki neitt“ - og þar sé hægt að ganga að því og grípa það þegar á þarf að halda.

Þessi áhugi manna á þeim auðlindum sem liggja grafnar í sorphaugum heimsins á sér öðru fremur rætur í hækkandi verði á olíu og hráefnum eins og fyrr segir, en fjölgun jarðarbúa kemur þar að sjálfsögðu einnig við sögu. Gert er ráð fyrir að jarðarbúar gætu verið orðnir um 9 milljarðar árið 2020, en talan er nú einhvers staðar á 7. milljarðinum. Þessi öra fjölgun, samfara örri efnahagsþróun í fjölmennustu ríkjum heims, mun augljóslega leiða til mjög aukinnar eftirspurnar og þar með áframhaldandi verðhækkana á olíu og hráefnum, umfram það sem þegar er komið fram.

Sem fyrr segir liggja tækifærin þó ekki eingöngu í gröfnu plasti, heldur einnig í öðrum hráefnum, svo sem málmum. Þessi tækifæri hef ég reyndar áður minnst á í bloggfærslunni „Litlar gleymdar járnnámur í nafni fegurðarinnar“, sem birtist á gömlu bloggsíðunni minni 5. október 2007.

Verðmætin sem liggja í hverjum urðunarstað um sig eru mismunandi eftir aldri og eðli staðanna og þeirri menningu sem þeir eru sprottnir úr. Þannig liggur mikið af byggingarúrgangi grafið í sænskum urðunarstöðum frá 7. áratug síðustu aldar, því að um þær mundir var mikið byggt þar í landi. Annars staðar eru málmar mest áberandi og enn annars staðar er plastið í meirihluta. Svo geta menn auðvitað líka búist við að finna 60 ára gömul dagblöð innan um innyfli úr sauðfé, sem legið hafa óskemmd frá því á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Því er eflaust ráðlegt að kynna sér söguna áður en námuvinnslan hefst af fullum krafti.

Ég get vel tekið undir með Chris Dow hjá Closed Loop London. Hann dregur verðmætin í urðunarstöðunum ekkert í efa, en er jafnframt argur yfir því að menn skuli vera tilbúnir að leggja milljónir sterlingspunda í fjárfestingar til að vinna verðmæti úr urðunarstöðum á meðan þeir urða enn sífellt meira plast á nýjum urðunarstöðum.

Þessi pistill er að mestu leyti byggður á þeirri frétt PlanetArk/Reuter, sem vísað er til í „Orðum dagsins“ í dag. Mér finnst við hæfi að ljúka pistlinum á þremur fallegum myndum sem ég hef tekið einhvers staðar á síðustu mánuðum og árum.

Úrgangur 3

Úrgangur 2

Úrgangur 1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband