Leita í fréttum mbl.is

Utanþingsstjórn?

Kannski væri ráð að fela utanþingsstjórn að fara með stjórn landsins fram að næstu alþingiskosningum, þ.e. t.d. fram á vorið. Vissulega hefur sú lausn marga galla, og gæti af sumum talist fela í sér einhvers konar uppgjöf. En kostirnir eru líka margir.

Ég held að staðan í þjóðfélaginu sé alvarlegri en ráðamenn gera sér grein fyrir. Þar á ég ekki við hina efnahagslegu stöðu, heldur miklu frekar þá samfélagslegu. Það verður greinilegra með hverjum laugardegi sem líður, að fólkið í landinu treystir ekki núverandi valdhöfum til að stýra þjóðarskútunni í gegnum brimskafla næstu vikna og mánaða. Hversu ágætlega sem einstökum stjórnmálamönnum finnst þeir hafa staðið sig, og hversu rétt sem þeir kunna að hafa fyrir sér hvað það varðar, geta þeir naumast hunsað þennan augljósa vilja og reynt að afgreiða hann sem skrílslæti. Því fyrr sem einstakir stjórnmálamenn verða læsir á þetta ástand, þeim mun líklegra er að þeim verði treyst til áframhaldandi starfa þegar þjóðin kveður upp dóm sinn. Um leið styttist líka sá tími sem það mun taka að þjappa þjóðinni saman um þau verkefni sem framundan eru. Að óbreyttu mun klofningur og óeining ná áður óþekktum hæðum, með áður óþekktum aukaverkunum.

Aðdragandinn að skipan utanþingsstjórnar er væntanlega sá, að forsætisráðherra biðjist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Það þýðir alla jafna að annað hvort er mynduð ný ríkisstjórn eða þing rofið og efnt til nýrra kosninga. Þyki ekki fært að mynda nýja þingræðislega ríkisstjórn getur forsetinn skipað utanþingsstjórn. Þetta hefur gerst einu sinni í Íslandssögunni, þ.e.a.s. í desember 1942 þegar Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri, skipaði utanþingsstjórn undir forsæti Dr. Björns Þórðarsonar, lögmanns. Þetta var neyðarúrræði, þar sem ekki hafði tekist að mynda starfhæfa stjórn að loknum alþingiskosningum fyrr um haustið. Utanþingsstjórnin sat í tæp tvö ár, eða þar til Nýsköpunarstjórnin undir forystu Ólafs Thors tók við völdum í október 1944.

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins, kemur fram að Kristján Eldjárn, þáverandi forseti Íslands, hafi verið kominn á fremsta hlunn með að mynda utanþingsstjórn eftir að stjórn Ólafs Jóhannessonar fór frá völdum 1979. Hugmyndin var svo langt komin, að búið var að leggja fyrstu drög að ráðherralista. Ætlunin var að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri yrði forsætisráðherra, en meðal annarra hugsanlegra ráðherra voru Ásmundur Stefánsson og Jón Sigurðsson, sem báðir hafa reyndar komið við sögu í umræðum síðustu daga, tæpum 30 árum síðar. Úr þessu varð þó ekki, þar sem á síðustu stundu tókst Alþýðuflokknum að mynda minnihlutastjórn undir forsæti Benedikts Gröndals, enda hafði Sjálfstæðisflokkurinn þá samþykkt að verja slíka stjórn falli.

Hugmyndin um utanþingsstjórn hefur ekki verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga, en nokkur umræða hefur þó farið fram um málið í netheimum. Utanþingsstjórn er auðvitað alls engin töfralausn. Hún er þvert á móti algjört neyðarúrræði. En kannski ríkir einmitt þess konar neyð núna, að þessi lausn sé sú skásta. Þarna gætu setið sérfræðingar með þokkalega hreint borð, sem sagt fólk sem almenningur og erlendir samstarfsaðilar gætu treyst. Um leið fengist friður; friður til að stjórna, friður til að huga að innra starfi stjórnmálaflokkanna og undirbúa kosningar og friður fyrir fólk flest til að sinna þeim málum sem því standa næst. Þegar friðurinn hefur ríkt nógu lengi yrði svo kosið til Alþingis - og eftir það tæki trúlega við töluvert breytt landslag, bæði hvað varðar stjórnmálaflokka og einstaklinga í forystuhlutverkum. Kannski myndi sagan frá 1944 endurtaka sig, þ.e.a.s. að þegar utanþingsstjórnin hefði lokið hlutverki sínu, tæki Nýsköpunarstjórn við. Nýsköpunar er þörf, þó að hún þurfi ekki að byggjast á fulltrúum sömu flokka og mynduðu samnefnda stjórn í árdaga lýðveldisins!

Til að fyrirbyggja misskilning tel ég rétt að taka það fram, svona rétt í lokin, að hvað sem öllu tali um utanþingsstjórnir líður, þá ætti Ólafur Ragnar líklega ekki að grípa þá hugmynd Kristjáns Eldjárns á lofti að setja seðlabankastjóra í stól forsætisráðherra. Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband