22.4.2009 | 09:27
Afleiðingar slyssins í Chernobyl 1986
Í athugasemd við skrif mín í fyrradag um nýtingu kjarnorku kom fram að líklega hefðu menn ofmetið afleiðingar kjarnorkuslyssins í Chernobyl 1986. Þetta umræðuefni er svo umfangsmikið, að mér þykir við hæfi að tipla á því í sérstakri færslu, fremur en að láta duga að skrifa athugasemd við athugasemdina. Þetta verður þó ekki meira en örstutt ágrip, enda hægara sagt en gert að gera ítarlega grein fyrir afleiðingunum. Þeir sem vilja kynna sér málið nánar, geta vonandi haft gagn af tenglum sem ég ætla að setja inn neðst í þessa færslu.
Tölur á reiki
Þar er fyrst til að taka, að mönnum ber alls ekki saman um afleiðingar af slysinu í Chernobyl. Þannig er í raun útilokað að tilgreina nákvæmlega rétta tölu um fjölda dauðsfalla. Hins vegar skilst mér að menn séu nokkuð sammála um að u.þ.b. 600 starfsmenn kjarnorkuversins og hópur slökkviliðsmanna sem börðust við eldinn í verinu hafi orðið fyrir bráðri og lífshættulegri geislun. Sama gildir um u.þ.b. 800.000 hermenn sem unnu að hreinsunarstörfum á árunum eftir slysið. Ég hef hins vegar ekki fundið óyggjandi upplýsingar um það hversu margir úr þessum hópi eru látnir. Einhvers staðar hef ég lesið að slysið hafi valdið dauða allt að 32.000 manns, að um 375.000 hafi þurft að yfirgefa heimili sín varanlega, og neikvæð heilsufarsleg áhrif hafi náð til allt að 4 milljóna til viðbótar. En þetta eru gamlar tölur. Hvað sem öllu líður er þó því miður augljóst að dauðsföllin eru margfalt fleiri en 150, en sú tala var nefnd í umræddri athugasemd.
Ein ástæða þess hversu erfitt er að nefna nákvæmar tölur um afleiðingar slyssins í Chernobyl er sú, að fjárhagslegar, pólitískar og lagalegar aðstæður hafa komið í veg fyrir að unnt væri að stunda vandaðar og óháðar rannsóknir á svæðinu.
Áhrif geislunar á lífverur, þ.m.t. menn
Skaðsemi geislavirkni fyrir lífverur fer mjög eftir efnum og því hvaða lífverur eiga í hlut. Almennt talað truflar geislavirkni starfsemi einstakra fruma og veldur gjarnan skemmdum á DNA í frumukjörnum. Slíkar skemmdir geta orsakað krabbamein og ýmis önnur frávik í starfsemi líkamans. Um leið skapast hætta á að erfðafræðilegar breytingar skili sér til afkomenda. Krabbamein er þekkasta afleiðingin og jafnframt sú sem mest eining er um í vísindaheiminum. Í raun vita menn minna um áhrif á komandi kynslóðir, enda tekur það, eðli málsins samkvæmt, áratugi eða aldir að byggja upp verulega þekkingu á því sviði, alla vega hvað kynslóðir manna varðar.
Líffæri manna eru misviðkvæm fyrir geislun. Almennt má gera ráð fyrir að fóstur í móðurkviði, sogæðakerfi, beinmergur, meltingarvegur, skjaldkirtill, brjóst kvenna og eggfrumur séu viðkvæmust hvað þetta varðar. Einstök líffæri eru líka viðkvæmari fyrir sumum geislavirkum efnum en öðrum. Þannig er geislavirkt joð líklegt til að valda skemmdum á skjaldkirtli, svo dæmi sé tekið.
Krabbamein eftir Chernobyl
Menn munu vera nokkuð sammála um að a.m.k. 1.800 börn og unglingar á því svæði Hvíta-Rússlands sem verst varð úti hafi fengið skjaldkirtilskrabbamein vegna geislunar frá Chernobyl. Óttast er að þessi tala fari upp í 8.000 á næstu áratugum meðal fólks sem var á barnsaldri þegar slysið varð. Aðrir hafa varað við að þessi tala geti átt eftir að hækka miklu meira, og er jafnvel talað um 100.000 tilfelli í því sambandi. Öðrum krabbameinstilfellum hefur einnig fjölgað mjög mikið á áhrifasvæðinu, þ.m.t. krabbameinum í brjóstum, lungum, maga, kynfærum og þvagfærum.
Dýr og plöntur
Það kemur fram í umræddri athugasemd að slysið virðist ekki hafa haft nein neikvæð áhrif á dýralíf og plöntur á svæðinu. Því er til að svara að plöntur geta vel lifað við geislavirkni - og dýr að einhverju leyti líka. Það þýðir hins vegar ekki að geislavirknin hafi engin neikvæð áhrif. Bæði getur hún gripið inn í náttúruvalið, ef svo má segja, og þannig haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni milli tegunda og innan tegunda, og svo eykur hún vissulega líkurnar á stökkbreytingum, sem aftur geta haft í för með sér varanlega breytingu á erfðaefni afkomenda ef þeir komast á legg. Að þessu leyti eru áhrif geislavirkra efna einstök, þar sem þau geta komið fram eða verið til staðar áratugum og öldum eftir að efnin sleppa út í umhverfið. Þau dýr sem eru efst í fæðukeðjunni og lifa lengst, eru líklegust til að verða fyrir skaðlegum áhrifum, þar sem efnin safnast gjarnan fyrir í vefjum slíkra dýra.
Rannsóknir benda til að tegundasamsetning hafi breyst töluvert í nágrenni við Chernobyl á þeim tíma sem liðinn er frá slysinu. M.a. hefur fuglategundum fækkað verulega þar sem geislavirknin er mest. Fljótt á litið kann mönnum hins vegar að virðast lífríkið þarna standa í miklum blóma, en þá verður að hafa í huga að mesta áhrifasvæðið hefur jú verið algjörlega laust við ágang manna í rúm 20 ár.
Efnahagsleg áhrif
Það fer ekkert á milli mála að mannskepnan er býsna viðkvæm fyrir geislavirkum efnum, enda lifum við lengi og erum alætur. Þess vegna geta áhrif geislunar á dýr og plöntur gert þessar lífverur ónýtanlegar til fæðu fyrir mannfólkið. Meðal annars þess vegna hafa kjarnorkuslys neikvæð efnahagsleg áhrif langt umfram bein áhrif á lífríkið. Sem dæmi um þetta má nefna að vegna slyssins í Chernobyl eru nú 2.640 ferkílómetrar af landbúnaðarlandi ónothæft til langrar framtíðar, en samtals menguðust um 18.000 ferkílómetrar landbúnaðarlands í slysinu. Skógar hafa líka tekið í sig mikla geislavirkni. Þannig menguðust um 35.000 ferkílómetrar af skógum í Úkraínu, en það eru um 40% af öllu skóglendi í landinu. Lauf og barr taka geislavirk efni greiðlega upp og skila þeim síðan í jarðveginn þegar þau rotna. Þaðan berast efnin í trén og svæðið verður ónothæft í áratugi eða aldir, eftir því hvaða efni eiga í hlut og í hvaða magni.
Eins og fyrr segir geta efnahagsleg áhrif kjarnorkuslysa verið gríðarleg, enda þótt slysin valdi ekki endilega dauða mikils fjölda manna fyrstu dagana eða vikurnar. Þannig hafa stjórnvöld í Úkraínu áætlað að heildartap hagkerfisins þar í landi vegna slyssins verði komið í rúma 200 milljarða Bandaríkjadala árið 2015. Árlega fara um 5-7% af þjóðartekjum landsins í að fást við afleiðingar slyssins.
Dreifing mengunar frá Chernobyl
Geislavirk efni frá Chernobyl dreifðust víða. Auðvitað varð geislavirknin langmest næst slysstaðnum, þ.e.a.s. á ákveðnum svæðum í Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi, en geislavirk efni dreifðust líka yfir Pólland, Eystrasaltslöndin, stóran hluta Skandínavíu, sunnanvert Þýskaland, Sviss, norðurhluta Frakklands og England. Einnig mældist aukin geislavirkni á suðaustanverðu Íslandi.
Það að geislavirkni mælist, þýðir ekki að fólki sé bráð hætta búin. Hættan fer auðvitað eftir magninu. Talið er að samtals séu um 125 til 146 þúsund ferkílómetrar lands í námunda við Chernobyl mengaðir af Sesíum-137, þannig að þar mælist geislavirkni umfram 1 curie (Ci) á ferkílómetra. Þessi styrkur segir ekki allt um það hversu mikla geislavirkni fólk á svæðinu fær í sig, en líklega er þó a.m.k. varasamt að dveljast lengi á svæðum þar sem geislavirknin er mikið umfram 1 Ci. Á fyrrnefndu svæði bjuggu samtals um 7 milljónir manna þegar slysið varð, þar af um 3 milljónir barna, sem augljóslega eiga það enn frekar á hættu en fullorðnir að bíða varanlegt heilsutjón af geisluninni. Nokkur hundruð þúsund manns flýðu þetta svæði eða voru flutt þaðan, en enn búa þar um 5,5 milljónir.
Lokaorð
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru, enda nær útilokað að ná góðri yfirsýn yfir afleiðingar slyssins á skömmum tíma. Kemur þar einkum þrennt til. Í fyrsta lagi eru rannsóknir á þessu sviði ekki alltaf áreiðanlegar af ástæðum sem fyrr voru nefndar. Í öðru lagi ná áhrifin yfir stórt landsvæði og mörg lönd. Og síðast en ekki síst er fjarri því að öll kurl séu komin til grafar. Útilokað er að gera málið upp og birta einhvers konar heildarniðurstöður fyrr en að nokkrum öldum liðnum. Í þessu síðasta liggur einmitt sérstaða kjarnorkuslysa. Af sömu ástæðu ættu samtímamenn að fara afar varlega í að fullyrða nokkuð um afleiðingarnar eða gera lítið úr þeim. Þær eru nefnilega augljóslega miklu stærri í tíma og rúmi en við getum áttað okkur á þar sem við stöndum.
Varúðarreglan er gullin regla þegar talið berst að neikvæðum áhrifum kjarnorku á umhverfi og heilsu. Jafnvel þótt geislavirkni á tilteknu svæði geti minnkað tiltölulega fljótt (Sesíum-137 helmingast t.d. á aðeins 30 árum), þá geta áhrifin komið fram löngu síðar, bæði í formi krabbameins í þeim sem upplifðu geislunina, jafnvel þótt áratugir séu liðnir, og í afkomendum sem fengið hafa gallað erfðaefni frá geisluðum forfeðrum sínum. Í þessu sambandi er vert að minna á, að það að skaðsemi geislunar á tilteknu svæði hafi ekki verið sönnuð, þýðir ekki að hún hafi verið afsönnuð! Varúðarreglan, sem þjóðir heims urðu vel að merkja ásáttar um á ráðstefnunni í Ríó 1992 (UNCED), gerir einmitt ráð fyrir því að sönnunarbyrðin færist yfir á þann sem vill sýna fram á skaðleysið, af þeim sem vill sýna fram á skaðann.
Það er ástæðulaust að vera með hræðsluáróður, og það tel ég mig heldur ekki hafa gert. En það er tilræði við komandi kynslóðir að gera lítið úr áhættunni!
Þessa sundurlausu punkta mína hef ég aðallega byggt á upplýsingum frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), sem hefur umsjón með endurreisnarstarfi eftir Chernobyl-slysið, og af vefsetrinu www.chernobyl.info, sem er hlutlaus upplýsingaveita um málið. Þar er að finna gríðarlegt magn upplýsinga og tilvísana í heimildir af ýmsu tagi.
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábær samantekt hjá þér Stefán, stefni á að lesa þetta a.m.k. einu sinni enn.
Ingimundur Bergmann, 23.4.2009 kl. 00:59
Takk Ingimundur. Ég gerði mér nú varla vonir um að nokkur nennti að lesa þetta allt, hvað þá tvisvar.
Stefán Gíslason, 23.4.2009 kl. 09:56
Ég held að það sé engin lausn önnur í sjónmáli, þegar litið er til orkuþarfarinnar en rafmagnsframleiðsla með kjarnorku. Hætturnar eru þekktar. Maðurinn mun taka áhættuna. Því miður kom bakslag í þróunina fyrir um 30 árum og þess vegna hafa framfarir í öryggismálum kjarnorkuvera orðið hægari en skildi. Þá hafa rannsóknir á beislun samrunaorkunnar einnig tafist af svipuðum ástæðum. Þetta mun sennilega breytast á næstu árum. Ég geri ráð fyrir að Asíuþjóðirnar verði leiðandi á þessum sviðum innan ekki mjög langs tíma.
Indverjinn, sem ég sá í Goa frir nokkrum árum ilja sér í næturkulinu við brennandi bananahýði mun ekki sætt sig við hlutskipti sitt mikið lengur.
Sigurbjörn Sveinsson, 23.4.2009 kl. 22:41
yyyyyyyyyyyy
Ég segi nú bara eins og Steinólfur vinur minn í Ytri-Fagradal, sem setti gjarnan nokkur y undir bréf sem hann skrifaði: Svo stejið þið bara y eftir smekk.
Sigurbjörn Sveinsson, 24.4.2009 kl. 09:47
Góður! Eftir ítarlega stafsetningargreiningu sýnist mér nú samt verða verulegur afangur! Gæti kannski notað eins og eitt. Ekki meira.
Stefán Gíslason, 24.4.2009 kl. 10:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.