11.5.2009 | 11:20
Umhverfisvænn stjórnarsáttmáli - að mestu
Samstarfsyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna felur í sér mun meiri áherslu á umhverfismál og sjálfbæra þróun en áður hafa sést í slíku plaggi. Ég er að sjálfsögðu afar sáttur við þetta, enda er ég ekki í vafa um að þessi áhersla er lykill að bjartri framtíð þjóðarinnar til lengri tíma litið. Sjálfbær þróun snýst jú um að sjá samhengi hlutanna og að horfa fram í tímann í stað þess að hugsa eingöngu um stundarhaginn. Hljóta ekki allir að vera sammála um að þörf sé á því?
Sjálfum mér og e.t.v. öðrum til glöggvunar ætla ég hér á eftir að tína til helstu ákvæði samstarfsyfirlýsingarinnar sem varða umhverfismál og sjálfbæra þróun. Feitletra það sem mér finnst athyglisverðast. Þó að ég sé eins og fyrr segir afar sáttur við þessar áherslur, þá virðist mér reyndar einu atriði vera stórlega áfátt, en það eru áformin í loftslagsmálum. Ég kem nánar að því í lok þessa pistils, en líklega er þarna bara um að ræða svonefnda copy-paste villu frá tíð þarsíðustu ríkisstjórnar, sem sagt eitthvað sem menn hafa gleymt að færa til betri vegar. En snúum okkur nú að innihaldinu:
- Á fyrstu síðu samstarfsyfirlýsingarinnar kemur fram að í nýafstöðnum kosningum hafi meirihluti kjósenda veitt jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að halda áfram og leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis. Þar segir einnig að ný ríkisstjórn starfi með þessi gildi að leiðarljósi í því skyni að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi, þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni.
- Í kaflanum um atvinnumál (bls. 8) kemur fram að áhersla verði lögð á fjölbreytt atvinnulíf, jafnan en stöðugan hagvöxt, nýsköpun og sjálfbæra nýtingu til lands og sjávar.
- Í sama kafla kemur fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland, byggð á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti kynjanna, heilbrigðum viðskiptaháttum og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Sérstaklega er tekið fram að þessi stefna verði útfærð í formlegu samráði stjórnvalda, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, og háskólasamfélagsins.
- Í umfjöllun um Sóknarstefnu til framtíðar í sama kafla (bls. 9) kemur fram að ríkisstjórnin vilji efla græna atvinnustarfsemi, þar með talin verkefni þar sem hrein endurnýjanleg orka er nýtt á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Lögð verði áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum og hagstæðu orkuverði. Þar eru einnig kynnt áform um að stuðla að betri orkunýtingu, svo sem með uppbyggingu iðngarða og iðjuvera, garðyrkjustöðva, endurvinnslu og annarrar starfsemi sem nýtir gufuafl sjálfbærra jarðvarmavirkjana.
- Í kaflanum um fiskveiðar (bls. 10) kemur fram að markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar sé að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Þar er líka að finna fyrirheit um að forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands.
- Í kaflanum um fiskveiðar er einnig fjallað sérstaklega um verndun grunnslóðar. Þar kemur fram að kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.
- Tvær blaðsíður af 17 blaðsíðum samstarfsyfirlýsingarinnar (bls. 12-13) snúast sérstaklega um umhverfi og auðlindir. Kaflinn hefst á eftirfarandi yfirlýsingu: Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Einn af hornsteinum umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar er að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti. Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að breyta svo að hún verði grundvöllur umhverfisverndar til framtíðar. Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum byggir á meginreglum umhverfisréttar, svo sem varúðarreglunni og mengunarbótarreglunni, eins og þær eru skilgreindar í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnahags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna.
- Í kaflanum um utanríkis- og Evrópumál (bls. 15) kemur fram að norrænt samstarf verði áfram einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu en einnig verður lögð áhersla á Evrópumál, norðurslóðasamstarf og sjálfbæra nýtingu auðlinda og alþjóðlega samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra. Í sama kafla kemur fram að málefni norðurslóða verði forgangsmál og að áhersla verði lögð á að vernda viðkvæmt lífríki svæðisins, sjálfbæra nýtingu auðlinda og aukið samstarf á Norðurlöndum um viðbúnað gegn umhverfisvá og slysum á norðurhöfum, leit og björgun.
- Í kaflanum um stjórnkerfisbreytingar (bls. 17) kemur fram að nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti fái auk þeirra verkefna sem fyrir eru lykilhlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála. Þangað flyst ennfremur umsýsla Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
Ég tel allt það sem hér hefur verið nefnt afar jákvætt frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar, sumt jafnvel svo jákvætt að tala megi um þáttaskil hvað það varðar. Í þessu sambandi á ég sérstaklega við kaflann um umhverfi og auðlindir, sjá punkt 7 hér að framan. Þar er ýmislegt sem ég hafði varla gert mér vonir um að sjá í stjórnarsáttmála á Íslandi. Mér finnst of langt gengið að líma allan kaflann inn í þessa færslu, en þarna er m.a. að finna fyrirheit um að:
- Náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innan stjórnarráðsins styrkt til muna.
- Sérstaklega skuli hugað að náttúruvernd strandsvæða og verndunar svæða í sjó.
- Friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og friðun þess lokið hið fyrsta.
- Ný náttúruverndaráætlun til 2013 verði afgreidd á vorþingi.
- Rekstur og uppbygging þjóðgarða og friðlýstra svæða verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að sameina stjórn þeirra, styrkja stöðu þeirra og styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu um allt land.
- Kannaður verði grundvöllur þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu.
- Vatnatilskipun ESB verði innleidd og aðlöguð íslenskum aðstæðum.
- Verðleggja losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og gera viðskipti með þær möguleg.
- Fram verði lögð ný skipulags- og mannvirkjalög verði með ákvæðum um landsskipulagsstefnu.
- Áhersla verði lögð á að marka stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika.
- Staðfesta Landslagssáttmála Evrópu með það að markmiði að vernda landslagsheildir og ósnortin víðerni.
- Endurskoða lög og reglur um sorphirðu og endurvinnslu með þarfir almennings og umhverfis að leiðarljósi, svo markmið um minni urðun og meiri endurvinnslu náist.
- Unnin verði áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin.
- Innleiðingu Árósasamningsins í íslenskan rétt verði hraðað og nauðsynlegar lagabreytingar kynntar á haustþingi 2009.
- Efla fræðslu til almennings og fyrirtækja um vistvæn innkaup, umhverfismerkta vöru og gildi sjálfbærrar neyslu.
- Tryggja að erfðabreytt matvæli séu merkt þannig að neytendum sé ljóst innihald matvæla við innkaup.
- Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi.
- Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða.
- Ísland standi við loftslagsskuldbindingar sínar og leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlegu loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009.
- Gerð verði áætlun um orkusparnað, jafnt fyrir atvinnufyrirtæki og heimili.
- Lögð er rík áhersla á að ljúka gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem allra fyrst og hún verði lögð fyrir Alþingi á vetri komanda og fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu.
- Stuðlað verði að gagnsæi í orkusölusamningum og leitað leiða til að aflétta leynd af orkuverði til erlendra stóriðjufyrirtækja og stefnt að jafnræði í verðlagningu raforku í ólíkum atvinnugreinum.
Miðað við það hugarfar sem mér finnst hafa ríkt í íslenskum stjórnmálum síðan ég byrjaði að skipta mér af umhverfismálum að einhverju marki um og upp úr 1990, þá er þessi upptalning nánast ævintýri líkust. Auðvitað á eftir að koma í ljós hvernig gengur að hrinda öllum þessum góðu áformum í framkvæmd. En ég er reyndar bjartsýnn á það, því að ég veit að hugur þjóðarinnar stefnir í þessa átt. Þar hefur orðið mikil breyting, sem ég vil meina að hafi byrjað undir niðri á árinu 2007. Auk þess búum við svo vel að eiga stóran og ört vaxandi hóp af fólki sem kann til verka á þessu sviði og er tilbúið að láta til sín taka.
En svo ég taki nú Þórberg mér til fyrirmyndar og bjargi þessum pistli frá slepjulegum aumingjaskap, þá get ég ekki látið hjá líða að benda á þetta eina atriði, sem ég nefndi í innganginum að mér þætti vera stórlega áfátt, eða með öðrum orðum líklega copy-paste villu frá tíð þarsíðustu ríkisstjórnar. Í umhverfis- og auðlindakaflanum kemur nefnilega fram að:
- Lokið verði við aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda um 50-75% til 2050, með tímasettum og tölulegum markmiðum, eigi síðar en vorið 2010.
Þetta með tímasettu og tölulegu markmiðin eru orð í tíma töluð, en í mínum huga er algjörlega augljóst að markmið um 50-75% samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda fram til ársins 2050 er algjörlega úr takti við þann veruleika sem blasir við okkur og reyndar í hróplegu ósamræmi við það áform í sama kafla að Ísland leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlegu loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009. Til að hægt sé að tala um metnað í þessu sambandi verðum við að setja markið á 80-95% samdrátt! Ég gef mér ekki tíma til að rökstyðja það nánar í þessum pistli, en vísa á fyrri bloggskrif mín um sama efni frá því í mars sl. Þar er líka að finna tengil á enn eldri og ítarlegri skrif.
Ný ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Athugasemdir
Hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur, takk fyrir. Rakti mig í gegnum tenglana inn á hugleiðingar þínar um loftslagsmarkmið Íslands, sem mér þykja mjög góðar, eins einfaldar og þær eru. Sem sé 85-90% samdrátt fyrir 2050. En ertu með svona vel rökstudda skoðun á áfangamarkmiðum fyrir 2020 og 2030 ?
Kjartan Rolf Árnason, 11.5.2009 kl. 17:39
Stjórnarsáttmálinn ber það með sér að nefndin sem vann þennan hluta sáttmálans hefur kynnt sér vel nýsamþykktar stefnuskrár flokkanna.
Sáttmálinn vekur mikla ánægju mína vegna þess að inn í hann hafa ratað mörg atriði þar sem samheldni nýliðanna úr Íslandshreyfingunni og Framtíðarlandinu annars vegar og samherja okkar í Græna netinu, sem fyrir voru í Samfylkingunni skipti sköpun um framgang.
Þetta er mun meiri árangur en ég hefði þorað að vona að næðist og miklu líklegra til að nást fram í stefnuskrá stærsta flokksins sem leiðir stjórn með samstíga flokki í þessum málum heldur en með því að eiga þingmenn í stjórnarandstöðuflokki.
Ómar Ragnarsson, 12.5.2009 kl. 00:24
Hversvegna þetta mikla og langa orðskrúð um umhverfismál í stjórnarsáttmálanum?
Var ekki bara alveg eins hægt að segja að gera ætti alla landsbyggðina að einum allsherjar þjóðgarði og útivistarsvæði? Það hefði verið langeinfaldast, enda er það megin inntakið í stjórnarsáttmálanum varðandi umhverfismál.
Hinsvegar ættu stjórnvöld og umhverfisverndarsinnar að líta sér nær og skoða Höfuðborgarsvæðið aðeins betur hvað varðar umhverfismál.
Í sannleika sagt er Höfuðborgarsvæði eitt stórt umhverfisslys. Þar eru yfirþyrmandi stór umferðarmannvirki, ljót úthverfa og blokkarsvæði, arfaljót reðurtákn í formi einhvers er líkis háhýsum.
Íbúðabyggðir eru farnar að teygja sig til Rauðhólanna, Reynisvantssvæðisins, Elliðahvammssvæðisins, Úlfarsfellssvæðisins, allt náttúruperlur í borgarlandinu.
Ekki má gleyma Urriðakotssvæðinu við Garðabæ, sem var eyðilagt með því að reisa þar ljótar risastórar byggingar undir verslunarhúsnæði, BYKO, IKEA, Max-raftæki og fleiri ljótar byggingar. Þetta heitir víst framkvæmdir í þágu framfara og uppbyggingar, en úti á landi myndi þetta heita eyðilegging á ómetanelgum náttúruperlum.
Á Höfuðborgarsvæðinu er ekki eitt einasta grænt svæði sem hentar til útivistar, engir almennilegir og manneskjulegir almenningsgarðar eins og er í borgum erlendis.
Og ekki nóg með það, við sem eigum allt þetta vatn, í höfuðborginni er ekki einn einasti gosbrunnur til prýðis og ánægjuauka.
Hvar er allir umhverfissnillingarnir og allir landslagsarkítektarnir og skipulagsfræðingarnir? Er þetta fólk einhvers staðar úti á landi og að mótmæla framkvæmdum þar?
Vaknið og lítið ykkur nær. Við búum í ljótustu og óumhverfisvænustu höfuðborg í heimi, þar sem fólk ekur um á mini-álverum í líki ofur-jeppa.
Þórarinn F. Höskuldsson (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 11:01
Ég er sammála því að mikil mistök hafi verið gerð í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins. En það þýðir ekki að menn eigi ekki að reyna að standa sig vel á öðrum svæðum eða öðrum sviðum. Mér finnst gæta allt of mikillar tilhneigingar til að afsaka aðgerðaleysi með því að eitthvað annað sé svo miklu verra, að það taki því ekki að gera neitt í því máli sem menn standa frammi fyrir.
Stefán Gíslason, 13.5.2009 kl. 08:04
Varðandi áfangamarkmiðin fyrir 2020 og 2030, þá hef ég ekki mótað mér ákveðnar skoðanir á þeim. Líklega væri þó farsælast að reikna með nokkurn veginn línulegum samdrætti. Hættan er sú að menn bíði þangað til „korter í“ með að gera eitthvað í málunum. Við þurfum að byrja strax.
Stefán Gíslason, 13.5.2009 kl. 08:09
Fyrirlestur Dr. Fred Goldberg í Háskóla Íslands
Föstud. 29. maí kl. 11:00 mun sænski vísindamaðurinn Dr. Fred Goldberg halda fyrirlestur í Háskóla Íslands um hin mjög svo umdeildu loftslagsmál. Dr. Fred er algjörlega á öndverðum meiði við Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna IPCC sem Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna byggir kvikmynd sína "Óþægilegur sannleikur" á. Það þarf talsverðan kjark til að ganga gegn þessum öflum sem hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir kenningar sínar.
Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku:
Is it CO2 or the sun and ocean currents that controls our climate?
The lecture will first present a short climate history overview and then I will discuss the CO2 properties and if it has a climate effect or not. Then I will demonstrate some interesting observations concerning the role of ocean currents over the climate, ice conditions in the Arctic and temperatures. Finally I will discuss some observations between sun magnetic activity, temperature changes and cloud formations and what climate we can expect in the future.
Fyrirlesturinn er þannig fram settur að hann er auðskilinn öllum, hann er ekki aðeins fyrir innvígða.
Dr. Fred er einn af sífellt fjölmennari hópi vísindamana og almennra borgara sem hafa opnað augu sín fyrir í hvað ógöngur ríki heimsins eru að koma sér í með þessari ofurtrú á að maðurinn sé með kolefnisbruna og aukningu koltvísýrings CO2 að vinna skaða á loftslagi og hitastigi jarðarinnar.
Ein lítil staðreynd: Eftir árið 2002 hefur hitastig á jörðinni fallið en ekki hækkað. Á sama tíma hafa "sloppið" 150 milljarðar tonna af CO2 út í andrúmsloftið.
Hvers vegna hefur hitastig þá ekki hækkað þegar það hefur sannarlega lækkað?
Er hætta á að við séum á leið inn í lækkandi hitastig jarðar?
Það væri svo örugglega miklu alvarlegri tíðindi en að hitastig væri hækkandi.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 24.5.2009 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.