8.6.2009 | 23:57
Fimmtugt hlaup
Í dag hlupum við Ingimundur Grétarsson 50 km þvert yfir Borgarbyggð í tilefni af 50 ára afmæli Ingimundar. Þetta gekk alveg ágætlega og var auðveldara en mig hafði órað fyrir. Ferðalagið tók nákvæmlega 4:47:49 klst, sem stóðst fyllilega allar væntingar. Meðalhraðinn var 5:45 mín/km.
Ferðin hófst með því að Ingigerður, mamma Ingimundar, skutlaði okkur vestur að hreppamörkum Borgarbyggðar og Eyja- og Miklaholtshrepps við Haffjarðará í morgunsárið. Á leiðinni lögðum við út nokkrar vatnsflöskur sem við ætluðum að gera okkur gott af á bakaleiðinni. Svo var lagt í hann hlaupandi af brúnni á Haffjarðará nákvæmlega kl. 9.00.
Við Haffjarðará kl. 9 í morgun. Horft til austurs yfir fyrsta hluta hlaupaleiðarinnar.
Fyrstu kílómetrarnir sóttust vel, enda veðrið með ágætum, eins og það átti reyndar eftir að verða alla leiðina. Hæg breytileg átt var á, skýjað og 10 stiga hiti. Töluvert hafði rignt á Mýrunum um nóttina, en við hlupum í þurru veðri alla leið. Tíðindalítið var í Kolbeinsstaðahreppi og eftir 15,18 km og 1:25:05 klst. vorum við komnir að Hítará. Töluverð umferð var um veginn, en þó ekkert sérstaklega til trafala. Við gerðum ráð fyrir að í flestum tilvikum væru þarna á ferð aðdáendur, sem hefðu gert sér ferð til að fylgjast með framgangi hlaupsins. Hugsanlega hafa þó einhverjir verið í öðrum erindagjörðum.
Segir nú fátt af ferðum okkar fyrr en við komum að Urriðaá, en þar voru 33,45 km að baki. Eitthvað virðist skammtímaminnið gefa sig þegar menn eru komnir á þennan aldur. Alla vega fundum við hvergi vatnsflöskurnar sem við höfðum komið þar fyrir um morguninn. Það kom þó ekki að sök, því að nóg vatn var í ánni. Þar fylltum við á vatnsbrúsana og héldum áfram ferðinni. Fram að þessu hafði hraðinn í hlaupinu haldist nokkuð jafn, yfirleitt um 5:20-5:40 mín/km. Upp úr þessu fór heldur að hægja á okkur, þó að þreytan væri lítið farin að segja til sín.
Stuttu eftir að við skeiðuðum inn í Borgarnes, nánar tiltekið við Bjargslandsgatnamótin, sýndi gps-tækið 42,2 km. Þarna var sem sagt heilt maraþon að baki - og tíminn rétt undir 4 klst., nánar tiltekið 3:58:58. Við vorum afar sáttir við það, enda engin keppni í gangi. Og eiginlega er svolítið gaman að geta talað um millitíma í hlaupi eftir eitt maraþon. :-) Við lögðum síðan að sjálfsögðu sérstaka áherslu á að vera beinir í baki og brosandi á meðan við hlupum í gegnum Borgarnes, en eitthvað var færðin þó tekin að þyngjast, ef svo má að orði komast.
Áfram lá leiðin yfir Borgarfjarðarbrúna og að hreppamörkunum við Hvalfjarðarsveit við Ytra-Seleyrargil, rétt hjá afleggjaranum að Mótel Venusi. Breidd sveitarfélagsins Borgarbyggðar reyndist vera 46,81 km, og þarna stóð klukkan í 4:26:55 klst. En af því að Ingimundur varð fimmtugur í dag, en ekki 46,81 árs, þá héldum við áfram eins og ekkert hefði í skorist, upp brekkuna og svo til vinstri inn á gamla Hvanneyrarveginn áleiðis upp í Andakíl. Vorum komnir rétt inn fyrir hitaveitutankinn þarna í hlíðinni þegar mælirinn sýndi 50,00 km. Þar með var björninn unninn, og klukkan sýndi 4:47:49 km eins og fyrr segir. Það var ákaflega góð upplifun að hafa lagt þennan spotta að baki jafn auðveldlega og raun bar vitni. Reyndar kom það mér á óvart hversu lítið þetta reyndi á skrokkinn. En það var samt gott að komast í sturtu þegar heim var komið. :-)
Mörgum finnst það sjálfsagt óhugsandi að hlaupa 50 km í einum áfanga. Og það er reyndar óhugsandi ef maður hefur aldrei hlaupið áður. En líklega er þetta eitthvað sem flest fullfrískt fólk getur, jafnvel fólk sem hefur enga reynslu af hlaupum og efast mjög um getu sína á því sviði. Þetta snýst einfaldlega um að gefa sér tíma og láta ekki vantrúna á eigin getu villa sér sýn. Í þessu sambandi má m.a. rifja það upp, að fyrir svo sem 5 árum gat Ingimundur naumast hlaupið 50 metra, hvað þá meira. Þá byrjaði hann að hlaupa, fyrst stutt og smám saman lengra og lengra, og nú eru 50 km sem sagt ekki lengur óyfirstíganleg hindrun. Þetta snýst allt um að setja sér raunsæ markmið, og þegar einu markmiði er náð er stefnan sett á það næsta. Fyrsta markmiðið getur verið að hlaupa hvíldarlaust að næsta ljósastaur - og svo þróast þetta bara smátt og smátt. Og þegar grannt er skoðað, er augljóst að hægt er að yfirfæra reynsluna úr hlaupunum á flest annað í lífinu. Mörk eigin getu eru afstæð, og ástæðulaust að taka þau alvarlega. Hindranirnar búa flestar í eigin kolli, en fæstar utan hans!
Að hlaupi loknu um 2-leytið í dag.
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Athugasemdir
Glæsilegur árangur!
Hrönn Sigurðardóttir, 9.6.2009 kl. 09:26
Til hamingju með þetta strákar. Nú á bara efir að hlaupa af Holtavörðuheiðinni í norðri og Langjökli í austri til að ljúka þessu.
En annars: Hvor er fimmtugur?
Sigurbjörn Sveinsson, 9.6.2009 kl. 20:30
Takk bæði tvö. Jú, Sigurbjörn, þetta hefur komið til tals með Holtavörðuheiðina. Ingimundur sagði mér einmitt um daginn að það væru um 70 km ofan úr Hæðarsteinsbrekkunni, þar sem mörkin eru milli Borgarbyggðar og Bæjarhrepps, og út á bryggjuna í Borgarnesi. Geri ráð fyrir að við hlaupum það þegar hann verður sjötugur.
Við erum hins vegar ekki búnir að skoða þetta með Langjökul. Kannski það séu 60 km.
Það er sem sagt Ingimundur sem er fimmtugur. Ég er eldri.
Stefán Gíslason, 9.6.2009 kl. 22:26
Til hamingju með þetta. Þið eruð helvíti góðir saman og væruð vísir til að lengja þetta með aldrinum. kveðja. Gylfi
Gylfi Árnason (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.