Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Minni handfarangur takk!

DTIx1047xPA-ClimateChangeÍ síðustu viku kom út skýrsla um möguleika ferðaþjónustunnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni, og þar með til að spara peninga. Í skýrslunni er m.a. bent á mikinn ávinning sem gæti fylgt tiltölulega léttvægum breytingum, t.d. ef engir flugfarþegar tækju með sér meira en 20 kg af farangri og ef hætt yrði að selja tollfrjálsan varning um borð í flugvélum. Ef allir færu eftir þessu myndi losun koltvísýrings á heimsvísu minnka um tvær milljónir tonna, sem samsvarar rúmlega helmingi allrar losunar Íslendinga (án nýrra álvera).

Margt smátt gerir eitt stórt! Wink


mbl.is Leita leiða til að lækka eldsneytiskostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að temja mér þolinmæði !!!

Ég var að senda ónefndu fyrirtæki áminningu vegna skuldar við fyrirtækið mitt frá því 5. október á síðasta ári. Nú dauðskammast ég mín fyrir óþolinmæðina. Það eru rétt liðnir 8 mánuðir! Ég bið hér með ónefnda fyrirtækið afsökunar á tölvupóstinum sem ég sendi áðan. Búinn að skrifa í dagbókina mína að senda næstu áminningu þann 5. október 2364.
mbl.is Karl prins greiddi 350 ára gamla skuld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjallvegahlaupaáætlun sumarsins

Eins og sumir vita tók ég mér það fyrir hendur (eða fætur) á síðasta ári að hlaupa yfir 50 fjallvegi. Reyndar á þetta ekki að gerast á einni nóttu, heldur á 5-10 ára tímabili. Á síðasta ári þreytti ég þrjú slík hlaup og stefni að a.m.k. sjö til viðbótar þetta árið.

Tilgangurinn með þessu uppátæki er þríþættur. Í fyrsta lagi snýst málið um að viðhalda eigin huga og líkama, í öðru lagi að kynnast eigin landi og í þriðja lagi að vekja áhuga annarra á útivist og hreyfingu. Í samræmi við þetta þriðja lag vil ég endilega að sem flestir fylgi mér á þessum ferðum. Til að ýta undir það birti ég eftirfarandi lista yfir áform mín um fjallvegahlaup í sumar:

FjallvegurKm. Dagsetning 
Rauðskörð, frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar    11

Þri  24.06 

Hólskarð, frá Héðinsfirði til Siglufjarðar 15 -- // --
Laxárdalsheiði, úr Reykhólasveit til Hólmavíkur 26Lau 28.06
Brekkugjá, frá Mjóafirði til Seyðisfjarðar 14Mið 16.07
Eskifjarðarheiði, af Héraði til Eskifjarðar 20Fim 17.07
Gaflfellsheiði, úr Laxárdal til Bitrufjarðar  37Fim 11.09


Allar þessar dagsetningar eru birtar með fyrirvara. Sömuleiðis eru vegalengdir ekki endilega hárréttar. Eins og sjá má eru aðeins 6 fjallvegir á þessum lista, og þess því að vænta að eitthvað bætist við. Ég mun reyna að birta upplýsingar um áformin hérna á blogginu jafnóðum og þau breytast. Bendi líka á vefsíðu, sem ég hef komið upp til bráðabirgða til að halda utan um verkefnið og upplýsa um það. Varanlegri vefsíða verður opnuð innan tíðar.

Ég hvet alla sem langar að slást í för með mér, til að hafa samband, t.d. með því að senda mér tölvupóst á stefan[hjá]umis.is. Þigg líka allar góðar ábendingar með þökkum.

Rétt er að taka fram að þeir sem taka þátt í þessu með mér gera það á eigin ábyrgð. Smile


1.000 kílómetra skór

Reyndasta hlaupaskóparið mitt náði þeim áfanga í gær að hlaupa yfir 1.000 kílómetra markið. Samt er varla hægt að greina neitt slit á skósólunum! Já, það voru miklar framfarir þegar Asics Kayano tók við af roðskóm og sauðskinnsskóm á öldinni sem leið. Annars er almennt talið að hlaupaskór hafi ekki gott af meiru en svo sem 600-800 km, því að þá fari dempunin í þeim að daprast. Vill til að skóhljóð mitt er létt.

Vegna þeirra sem furða sig á að nokkur skuli halda skýrslu yfir hlaupna kílómetra skópara, er rétt að taka fram að ég er í fyrsta lagi nörd, í öðru lagi er sérstakt kerfi fyrir þess háttar skráningu hluti af hugbúnaði hlaupadagbókarinnar og í þriðja lagi skiptir þetta pínulitlu máli fyrir heilsu fótanna sem í skónum eru. Smile


Snæfellsnes fékk vottun í dag! :-)

Mynd_0391648Það var gaman í Grundarfirði í dag. Þar var haldin hátíð í tilefni þess að verið var að afhenda sveitarfélögunum á Snæfellsnesi og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli formlega staðfestingu á nýfenginni vottun þeirra samkvæmt samfélagastaðli alþjóðlegu umhverfisvottunarsamtakanna Green Globe. Snæfellsnes er fyrsta svæðið í Evrópu sem hlýtur þessa vottun og reyndar aðeins það fjórða í heiminum öllum. Vottunin var afhent við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði að viðstöddum forseta Íslands, forseta Alþingis og fjölda annarra gesta.

Markvisst hefur verið unnið að vottun Snæfellsness allt frá því vorið 2003. Hjónin Guðlaugur og Guðrún Bergmann á Hellnum höfðu frumkvæði að þessu starfi og í framhaldinu náðist breið samstaða meðal sveitarstjórnarmanna á Nesinu um málið. Haustið 2004 var tilkynnt að sveitarfélögin hefðu staðist töluleg viðmið Green Globe, en síðan hefur verið unnið hörðum höndum að uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfis, gerð framkvæmdaáætlunar og margs fleira, sem sýna þarf fram á til að geta fengið fullnaðarvottun. 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp við athöfnina í Grundarfirði í dag. Hann lauk miklu lofsorði á frumkvæði Snæfellinga í vinnunni að sjálfbærri þróun og ræddi um mikilvægi þess að virkja fólk til þátttöku í lausn þeirra brýnu umhverfisvandamála sem mannkynið stendur nú frammi fyrir, sérstaklega hvað varðar yfirvofandi loftslagsbreytingar. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, flutti einnig ávarp. Þeir Ólafur minntust báðir sérstaklega á dugnað og frumkvæði Bergmannhjónanna í undirbúningi Green Globe verkefnisins og sögðu frá heimsóknum þeirra á skrifstofur sínar á árunum í kringum aldamótin.

Kjartan Bollason, úttektarmaður Green Globe á Íslandi, afhenti forsvarsmönnum sveitarfélaganna og Þjóðgarðsins skjöl til staðfestingar á vottuninni. Að loknum frekari ræðuhöldum og tónlistaratriðum buðu sveitarstjórnirnar á Snæfellsnesi til kaffisamsætis til að fagna þessum einstæðu tímamótum.

Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að aðstoða Snæfellinga í vottunarferlinu allt frá upphafi. Það hefur verið afar gefandi og lærdómsrík vegferð, þó að auðvitað hafi ég lært lang mest fyrstu árin meðan Gulli Bergmann var enn í fullu fjöri. Þá var aldrei nein lognmolla og ekkert farið í grafgötur með það hvert markmiðið væri. Gulli hvarf skyndilega af vettvangi um jólin 2004, og síðan náðist markmiðið loksins í dag. Það var stór stund, en mikið sakna ég Gulla!

Terta dagsins!


Díselknúinn snigill?

oilsnailMér finnst afar gott að starfshópurinn sé búinn að skila af sér, þó að skilin séu fjórum mánuðum á eftir áætlun. Ég get hins vegar ekki dæmt um innihaldið í tillögunum fyrr en ég er búinn að lesa þær. Fljótt á litið er þetta allt jákvætt, en hins vegar finnst mér seinagangurinn í málinu óviðunandi, sérstaklega ef menn ætla að fara að hanga yfir þessu til áramóta án þess að taka neina ákvörðun. Þetta á einfaldlega að vera algjört forgangsverkefni eins og málum er háttað. Hver dagur sem líður er dagur glataðra tækifæra. Ég sé ekki betur en málinu sé ætlað að ganga áfram með hraða snigilisins, og svei mér ef snigillinn gengur ekki fyrir jarðefnaeldsneyti, annað hvort bensíni eða díselolíu.

Hér dugar ekki að sniglast!


mbl.is Stefnt að frumvarpi um eldsneytisskatta í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðitíðindi þótt seint sé

Það eru góðar fréttir að starfshópur fjármálaráðherra skuli vera að skila niðurstöðum sínum um endurskoðun skattlagningar á eldsneyti og ökutæki. Nú er bara um að gera fyrir stjórnvöld að drífa sig að koma skattkerfisbreytingum í framkvæmd, (sbr. m.a. bloggfærslu mína frá 28. mars sl.). Verst að þingið skuli vera farið heim. Málið þolir ekki bið. Starfshópurinn er þegar fjórum mánuðum á eftir áætlun, og með hverjum degi sem líður glatast tækifæri til úrbóta!
mbl.is Kynna niðurstöðu um endurskoðun skattlagningar á eldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband