Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Hafnarfjallsheimsmetið fallið!

Þetta er villandi fyrirsögn, til þess gerð að plata ykkur til að lesa alla færsluna. LoL  Málið er sem sagt bara það að í dag bætti ég persónulega metið mitt í því að klöngrast upp Hafnarfjallið frá hliði og upp á topp. Ég er hins vegar alveg viss um að heimsmetið stendur óhaggað, hvert sem það nú annars er. Tíminn minn í dag var 45:05 mínútur, en fyrra metið var 47:00 mín, orðið rúmlega ársgamalt - frá 5 júlí 2007. Sló líka met-millitímann í "skarðinu", var kominn þangað eftir 23:42 mín. Hins vegar stóð niðurleiðarmetið óhaggað. Það setti ég líka 5. júlí í fyrra. Þá var ég 20:38 mín. af toppnum og niður að hliði.

Jæja, nú er bara að drífa sig á Hafnarfjallið og gá hvort þið getið ekki gert betur. En ekki kenna mér um ef ykkur skrikar fótur. Þetta er sem sagt alveg bráðskemmtilegt tómstundagaman - en ekki hættulaust.


Svansmerkt jarðgerðarílát

Fyrr í sumar leit ég við í helstu garðyrkjubúðunum og kannaði úrvalið af ílátum til heimajarðgerðar. Að vanda varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég fann nánar tiltekið ekki eitt einasta nothæft ílát. Hins vegar fann ég botnlausan og óeinangraðan kassa í einni búðinni fyrir 28.000 kall!!! Angry Svoleiðis ílát eru sem sagt ekki nothæf að mínu mati. Þau fjúka t.d. nokkuð auðveldlega í íslenskum vindi, veita sáralitla mótspyrnu gegn innrásum dýra sem ágirnast innihaldið og búa ekki til góðar aðstæður fyrir lífverurnar sem sjá um jarðgerðina. Til þess þarf einangrun.

Norræni svanurinnÞað er í sjálfu sér mjög auðvelt að velja gott jarðgerðarílát. Það þarf bara að vera vottað af Norræna svaninum. Þá getur maður m.a verið viss um að ílátið sé laust við hættuleg efni, að engin göt eða rifur á kassanum séu stærri en 7 mm (sem þýðir að engin meindýr komast inn), að lokið geti ekki fokið af, að ílátið sé í 5 ára ábyrgð og að virknin haldist þótt frost sé úti.

Samt er þetta ekki auðvelt, því að svansmerktir kassar fást ekki í íslenskum búðum. Hins vegar flytur R. Gíslason ehf. inn nokkrar gerðir af svansmerktum ílátum í smáum stíl. Þeir sem vilja stunda heimajarðgerð og vantar nothæf ílát til þess, geta því sem best snúið sér þangað. Eðlilega er verðið hins vegar nokkuð hátt, þar sem hagkvæmni stærðarinnar nýtur ekki við.

Á heimasíðu Svansins í Noregi er hægt að fræðast meira um heimajarðgerð og Svansmerkt jarðgerðarílát. Þar er líka þessi fína mynd af nýja jarðgerðarílátinu mínu. Smile

Cipaxkassi, alveg eins og minn :-)


Hafnið Mugabe!

Í dag fór ég að ráði Avaaz-samtakanna og sendi Geir H. Haarde svohljóðandi tölvupóst á netfangið postur@for.stjr.is:

------------------------------
03-07-2008

Kæri Geir,

Ég skrifa þér þessar línur til að hvetja þig til að gefa nú þegar út opinbera yfirlýsingu um að ríkisstjórn Íslands viðurkenni ekki Robert Mugabe sem forseta Zimbabve, og hvetji um leið ríkisstjórnir annarra landa til að gera slíkt hið sama.

Besta leiðin til að greiða úr málum í Zimbabve er að koma á viðræðum milli MDC og ZANU PF, en leggja þarf mikla áherslu á að gengið verði til þeirra viðræðna á jafnréttisgrundvelli og að niðurstöður kosninganna 29. mars sl. verði lagðar þar til grundvallar. Miklu máli skiptir að ríkisstjórn Íslands bregðist skjótt við og gefi út yfirlýsingu um málið nú þegar. Ástandið í Zimbabve versnar með hverjum degi sem líður án afgerandi skilaboða alþjóðasamfélagsins um afstöðu þeirra til Mugabe-stjórnarinnar! Hér er ekki eftir neinu að bíða!

Með bestu kveðjum,

Stefán Gíslason
Borgarnesi  
stefan@environice.is
------------------------------

Ég hvet ykkur líka til að senda Geir svona bréf. Þið getið t.d. farið inn á síðuna http://www.avaaz.org/en/zimbabwe_chance_for_peace/6.php?cl=104182148 og fyllt út reitina vinstra megin með nafni ykkar, þjóðlandi o.s.frv. Þá birtist sjálfkrafa bréf til Geirs á ensku í reitnum hægra megin á síðunni. Ef þið viljið, getið þið afritað textann í bréfinni mínu og límt hann yfir enska textann áður en þið ýtið á „SEND“.

Ekki halda að ástandið í Zimbabve skipti ykkur engu máli. Ekki halda heldur að rödd ykkar skipti engu máli. Munið að „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“, eins og mig minnir að Edmund Burke hafi orðað það. Og var það ekki Tómas Guðmundsson sem orti:

Á meðan til var böl sem bætt þú gast
og barist var á meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að kenna!


Fjallvegahlaupasögur

Ég var að enda við að uppfæra sögur af nýjustu fjallvegahlaupunum. Setti líka inn helling af myndum, sérstaklega úr Hólsskarðsferðinni. Og þó að sögurnar séu kannski ekki endanlega fullskrifaðar er allt í lagi að kíkja á þær. Auðveldasta leiðin til þess er að fylgja tenglinum "Fjallvegahlaup" hérna í vinstri kantinum og smella svo á "Fjallvegaskráin".

Júní 062web
Úr Ámárdal í Héðinsfirði


Kjarnorkan er ekki sérlega loftslagsvæn heldur

Í apríl í fyrra birti þýska umhverfisráðuneytið skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið hjá Öko-Institut í Þýskalandi. Samkvæmt henni losa ný jarðgasorkuver minna af gróðurhúsalofttegundum en kjarnorkuver sem veita sömu þjónustu! Í skýrslunni er borin saman losun frá mismunandi orkuverum í öllu orkuvinnsluferlinu og litið á venjuleg heimili sem grunneiningu. Heimili sem fá raforku frá kjarnorkuverum nota alla jafna olíu eða gas til upphitunar, þar eð kjarnorkuver tengjast ekki fjarvarmaveitum. Ný gasorkuver framleiða hins vegar gufu til rafmagnsframleiðslu og selja vatnið síðan til hitunar. Þegar á allt er litið, þ.m.t. einnig losun vegna vinnslu hráefnis í úraníumnámum og olíulindum, er koltvísýringslosunin í reynd 772 g/kWst vegna kjarnorku, en 747 g/kWst vegna orku frá gasorkuverum. Sé aðeins litið á losun frá kjarnorkuverinu sjálfu er hún 31-61 g/kWst, mismunandi eftir uppruna úransins. Sambærileg losun frá vindorkuverum er 23 g/kWst, 39 g/kWst frá vatnsorkuverum og 89 g/kWst frá sólarorkuverum.

Hægt er að fræðast meira um þessar niðurstöður í fréttatilkynningu þýska umhverfisráðuneytisins 24. apríl 2007, sem auðvitað var sagt frá í „Orðum dagsins“ á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi daginn eftir, sem sagt 25. apríl sama ár. Wink


mbl.is Kjarnorkuiðnaðurinn leysir ekki orkuvandamál framtíðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband