Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hvað er borgaraleg óhlýðni?

Civil olydnadAf gefnu tilefni hafa allmargir Íslendingar gerst óhlýðnir borgarar á síðustu vikum, en slík hegðun hefur annars verið fátíð hérlendis. Á dögunum rakst ég á ítarlega umfjöllun Skessuhorns Skánverja (öðru nafni Sydsvenskan) um borgaralega óhlýðni. Datt í hug að benda ykkur á þá ágætu lesningu.

Í umfjöllun Sydsvenskan kemur m.a. fram að sænsk stjórnvöld hafi látið gera sérstaka úttekt á því hvað borgaraleg óhlýðni sé í raun og veru. (Þetta kemur mér nú ekkert sérstaklega á óvart. Þegar úttektir eru annars vegar eru Svíar á heimavelli). Smile

Til að átta sig betur á fyrirbærinu borgaralegri óhlýðni, leitaði Sydsvenskan til þriggja valinkunnra einstaklinga. Fyrst spurðu þau dómsmálaráðherrann Beatrice Ask. Hún sagði einfaldlega: „Lögin gilda. Með lögum skal land byggja“. Þá vísaði hún á bug staðhæfingum um að óhlýðni geti stundum verið góð fyrir samfélagið og kvað allt slíkt vera vinstrivillu.

Magnus Wennerhag, doktor i félagsfræði við Háskólann í Lundi, sagði í samtali við Sydsvenskan, að til þess að einhver tiltekin aðgerð geti kallast borgaraleg óhlýðni verði hún að hafa pólitískan undirtón, beinast gegn hinu opinbera og hafa þann tilgang að vekja athygli á tilteknum málstað.

Sydsvenskan bað síðan þennan sama Magnus og Per Herngren, kunnan rithöfund og „aktívista“, að svara því hvort nokkrar tilteknar aðgerðir gætu talist vera borgaraleg óhlýðni. Ég ætla ekkert að fara að rekja öll svörin, enda góð æfing í sænsku að lesa þau á síðunni sem ég vísaði til hér að framan. Eitt verð ég þó að nefna, sem mér fannst standa upp úr:

Borgaraleg óhlýðni byggir ekki á ofbeldi. Ofbeldi er aðferð drottnaranna“.

Svona að lokum má geta þess, að að margra mati var Jesús Kristur frumkvöðull á sviði borgaralegrar óhlýðni, þó að hann hafi ekki notað það hugtak sjálfur í umræðunni.

(Myndin með þessari færslu er úr grein Sydsvenskan, sjá http://sydsvenskan.se/sverige/article403407/Olydiga-medborgare.html)


VIÐ getum haft áhrif í Palestínu!

Ég átti áhugavert símtal í gærkvöldi við mann sem var að velta því fyrir sér hvað venjulegur Íslendingur gæti gert til að sporna gegn yfirstandandi fjöldamorðum á Gaza. Hér eru tvær hugmyndir:

  1. Hætta að kaupa vörur frá Ísrael. Reyndar er ekki mikið um ísraelskar vörur í íslenskum búðarhillum, líklega helst sítrusávextir (appelsínur, mandarínur o.s.frv.) og niðursoðnir eða þurrkaðir ávextir. Ávextir í lausu máli eru ekki alltaf merktir upprunalandi, þannig að þá er um að gera að spyrja starfsfólk í versluninni hvaðan umrædd vara sé. Um leið kemur maður ákveðnum skilaboðum á framfæri, hvort sem maður fær svar eða ekki. Til að gæta fyllsta hlutleysis er sjálfsagt að sniðganga líka vörur sem Hamasliðar í Palestínu hafa framleitt. Það er auðvelt, því að slíkar vörur eru væntanlega ekki til.
  2. Styðja alþjóðasamtök sem beita sér fyrir vopnahléi. Í því sambandi má m.a. benda á Avaaz (sjá www.avaaz.org), sem eru einmitt á þessari stundu að reyna að skrapa saman upphæð sem samsvarar 32.000 Bandaríkjadölum til að fjármagna auglýsingu í Washington Post, í þeim tilgangi að reyna að hafa áhrif á afstöðu Bandaríkjanna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa Bandaríkjamenn komið í veg fyrir að gerð verði nokkur samþykkt sem máli skiptir um ástandið á Gaza, þrátt fyrir góðan vilja annarra þjóða. Hægt er að fara beint inn á síðuna https://secure.avaaz.org/en/gaza_peace_ads/?cl=167079782&v=2652 til að reiða slíkt framlag af hendi. Hver dollari skiptir máli!

Við getum haft áhrif í Palestínu! En það er ekki nóg að tala um það við eldhúsborðið eða á meðan maður er að horfa á Kastljós!


mbl.is Skotið á bíl með hjálpargögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ, ég nenni þessu ekki

Gunnar Dal velti því upp í viðtali í sjónvarpinu í desember, að þegar mönnum hefðu áskotnast nógir peningar, þá hættu þeir að hafa stjórn á peningunum og í staðinn færu peningarnir að stjórna þeim. Ef ég man rétt taldi hann þetta vera mjög greypt í mannlegt eðli, það væri bara misjafnt hvar línan lægi, þ.e. hversu mikið væri nóg til að þessi umskipti yrðu.

Í kvöld horfði ég á brot af Kastljósviðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samtryggingarinnar. Þá rifjaðist þessi kenning Gunnars Dal upp fyrir mér - og ég fór að velta því fyrir mér hvort hún gilti kannski ekki bara um auð, heldur líka völd. Kannski er ég sljór og þekki ekki sauðina frá höfrunum, en alla vega læddist að mér sá óþægilegi grunur að allir menn hefðu þann veikleika að týna sjálfum sér þegar vald þeirra væri orðið nógu mikið. Ég er með öðrum orðum hættur að taka eftir neinum mun á orðræðu þess annars ágæta og ólíka fólks sem situr við stjórnvölinn í ríkisstjórn og stofnunum þessa lands. Getur verið að sjónvarpið sé að plata okkur og spila alltaf sama viðtalið, alveg sama hvaða viðmælandi úr fyrrnefndum hópi á í hlut?

Ég nenni ekki lengur að hlusta á þetta sama viðtal aftur og aftur í mismunandi litum. Ég nenni heldur ekki að leita að sökudólgum. Ég vil bara að Nýja Ísland fái að fæðast og dafna. Ég vil að við getum haldið áfram að svamla yfir að fljótsbakka framtíðarinnar. Ég vil ekki að þeir sem hrintu okkur út í fljótið drösli okkur aftur upp á gamla bakkann. Við höfum ekkert meira þangað að sækja. Þetta sama fólk ratar ekki yfir fljótið og getur ekki leitt okkur þangað!

Til að við getum haldið áfram ferðinni, þarf að skipta um fólk í öllum þeim stöðum sem fólk tengir við hrunið, alveg sama hvort viðkomandi á einhverja sök á því eða ekki. Það er hvort sem er enginn einn persónulega ábyrgur. Fólk í ábyrgðarstöðum, sem ekki nýtur trausts fólksins í landinu, þarf að víkja hversu saklaust sem það er. Þannig er staðan bara núna. Þá fyrst getum við haldið áfram, öll saman. Þetta verðum við að skilja og sætta okkur við. Það er ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálið var búið til, rétt eins og Einstein sagði.

Ég nenni þessu ekki lengur. Það verður eitthvað að fara að gerast! Tækifærin bíða eftir okkur í haugum, en við erum föst í fortíðinni.


Erla Björk er snillingur

Til hamingju Erla Björk! Það er munur að hafa svona fólk í kringum sig, fólk sem fær endalaust nýjar hugmyndir og hefur óbilandi trú á framtíðinni!¨
Wizard
mbl.is Erla Björk Örnólfsdóttir er Vestlendingur ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósa núna!

Nei, sko, ég ætlaði nú bara að segja frá því að ég er búinn að læra að setja skoðanakannanir inn á bloggið (sjá dálkinn til vinstri). Þar gefst ykkur einstakt tækifæri til að hafa áhrif!!!!!!!!!!
LoL

Upp úr þynnkunni

ÞynnkaÞynnka er ekki endilega slæmt ástand. Er það ekki einmitt að kvöldi versta þynnkudagsins sem maður rís upp og ákveður að nú sé nóg komið, að maður kjósi ekki lengur þennan lífstíl, að þessi spegilmynd sé ekki sú sem maður vill að blasi við þeim sem maður umgengst, að þetta fordæmi sé ekki það sem maður vill að börnin manns fylgi? Jú, einmitt! Þess vegna liggja tækifæri í þynnkunni.

Íslenska þjóðin hefur legið í þynnku síðan í október. Þetta er sársaukafullt ástand - og ég ætla síst að gera lítið úr verkjunum, því að vissulega hafa margir orðið illa úti. En langar nokkurn til að upplifa þetta aftur, jafnvel þótt stundum hafi verið gaman með leikurinn stóð hæst? Nýtt fyllerí kallar á nýja þynnku.

Sjálfsásökun og sjálfsvorkunn eru ekki sérlega frjóar tilfinningar. Mistök eru til þess að læra af þeim, en ekki til þess að velta sér upp úr þeim. Auðvitað þarf maður sinn tíma til að jafna sig, en þegar maður loks stendur upp, veit maður að það er engin leið til baka. Brýr hafa verið brenndar að baki. Leiðin liggur bara fram á við.

Ef við horfum í spegilinn og viðurkennum að svona sé komið fyrir okkur, þá er bjart framundan. Árið 2009 verður ár endurreisnar. Sýnum komandi kynslóðum gott fordæmi. Látum börnin okkar ekki þurfa að horfa upp á okkur í annarri þynnku. Verum þakklát fyrir tækifærið sem við fengum til að læra. Nú höldum við til móts við bjarta framtíð - miklu bjartari en fyrr!


Að loknu hlaup(a)ári

Nú er árið 2008 að baki. Þetta var ágætis hlaupaár og prýðilegt hlaupár líka, hvað sem hver segir. Þegar ég hugsa um eigin hlaup á þessu nýliðna ári, þá stendur líklega Rómarmaraþonið upp úr, ekki þó eitt og sér, heldur með öllum þeim undirbúningi sem fylgdi. Þessi undirbúningur lagði grunninn að farsælu hlaupaári, auk þess sem hann víkkaði ýmis takmörk sem ég taldi mér áður vera sett. Til dæmis hafði mér aldrei áður dottið í hug að hlaupa 40 hringi á íþróttavellinum, eða 28 km á bretti, eða 25 km í 17 stiga frosti. Allt þetta varð maður að láta sig hafa á fyrstu vikum ársins til að vera kominn í sæmilegt stand um miðjan mars.

Nokkur af fjallvegahlaupum ársins eru jafnvel enn eftirminnilegri en Rómarmaraþonið, en ferðin til Rómar ruddi samt brautina. Fjallvegahlaupin urðu sjö eins og allir vita Smile, sjá nánar á www.fjallvegahlaup.is. Þau eru reyndar öll ógleymanleg, því að hvert hlaup er algjörlega ný upplifun. Oftast koma þó í hugann hlaupin yfir Rauðskörð í júní og Gaflfellsheiði í september, þ.e.a.s. fyrsta og síðasta hlaup sumarsins. Þetta voru nefnilega langharðsóttustu hlaupin. Ég var einn á ferð í Rauðskörðum, villtist á leiðinni upp í skarðið og lenti í klettum og torkleifum skriðum. Vil ekki gera mikið úr hættunni, en langar samt ekki að lenda í sams konar brölti aftur.  Gaflfellsheiðina hljóp ég með fríðu föruneyti, en það er ekki endilega góð hugmynd að hlaupa 38 km í óbyggðum í svarta þoku í hvössum mótvindi og kaldri súld. En gleðin að hlaupi loknu er oftast í réttu hlutfalli við erfiðið! Laxárdalsheiðin milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar var líka erfið í slyddu og mótvindi. Eskifjarðarheiðin var aftur á móti einhver auðveldasta leiðin í albesta veðrinu. Nú get ég varla beðið eftir því að takast á við þessa 40 fjallvegi sem ég á eftir í fjallvegahlaupaverkefninu mínu.

Akureyrarhlaupið í júní er líka eftirminnilegt, aðallega vegna þess að þar þreytti ég kappi við barnið mitt og tapaði. Þetta var 7. hálfmaraþonið mitt og tíminn miklu betri en í því fyrsta, sem ég hljóp einmitt árið sem þetta sama barn fæddist fyrir rúmum 23 árum. Reyndar hefði þetta orðið besti hálfmaraþontíminn minn frá upphafi, ef hlaupið hefði ekki óvart verið hálfum kílómetra of langt. En það er bara fínt, ég hef þá eitthvað til að stefna að. Smile

Ég er líka ágætlega sáttur við að ná því takmarki mínu að hlaupa 10 km undir 43:27 mín, þótt í annarri tilraun væri. Það er alltaf svo gaman að setja sér markmið og ná þeim.

Hlaupaárið 2008 var það langlengsta hingað til. Samtals lagði ég að baki 1.952 km á árinu, en áður hafði ég mest hlaupið 1.200 km á einu ári. Það var árið 2007. Þar áður var metið 917 km frá árinu 1996. Mánaðarleg vegalengd var líka meiri en nokkru sinni fyrr í 9 mánuðum af 12. Lengsti mánuðurinn var febrúar með 249 km.

Ég get ekki sagt skilið við hlaupaárið 2008 án þess að þakka þeim sem gerðu mér hvað ljúfast að stunda þetta tímafreka áhugamál. Þar ber hæst eiginkonuna Björk, sem aðstoðaði mig á alla lund í fjallvegahlaupunum - og hlaupafélagann Ingimund, sem teymdi mig áfram í öllum erfiðustu og köldustu æfingahlaupunum yfir vetrarmánuðina, allt upp í 33 km í hvert sinn, laugardag eftir laugardag. Auk þess fylgdu þau mér bæði til Rómar. Svo mætti líka nefna alla aðra sem fylgdu mér í fjallvegahlaupunum. Þar komu 6 hlauparar við sögu. Enn mætti bæta mörgum fleirum við, sem glæddu hlaupaárið lífi og næringu, jafnt fjölskyldumeðlimum sem öðrum. Þetta var gaman! Takk!


« Fyrri síða

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband