26.4.2009 | 20:45
Ég keypti tyrkneskt vatn í gær
Ég mannaði mig upp í það í gær að kaupa eina flösku af þessu tyrkneska vatni sem ég minntist á í síðustu færslu. Þetta gerði ég með hálfum huga, því að ég vildi helst ekki auka eftirspurnina. En ég get sem sagt staðfest að í Krónunni í Mosfellsbæ fæst venjulegt lindarvatn í hálfslítersflöskum, innflutt frá Tyrklandi. Reyndar kemur þetta vatn við í Danmörku á leið sinni hingað, en á umbúðunum er sérstaklega tekið fram að vatnið sé sett á flöskur við sjálfa lindina. Tappinn var sem sagt settur á þessa flösku í Izmir í Tyrklandi 29. apríl 2008. Einhvern tímann eftir það var settur miði á flöskuna með merki fyrirtækisins Pinar Water í Danmörku. Þaðan hefur flaskan svo haldið áfram ferðalagi sínu alla leið í Mosfellsbæ - og þaðan í Borgarnes í gær. Núna er ferðalögum flöskunnar kannski að mestu lokið, því að hún er nefnilega að nálgast síðasta söludag, sem er nánar tiltekið nk. miðvikudag, 29. apríl 2009, á ársafmæli flöskunnar. Líklega hefur það verið þess vegna sem þetta vatn er nú boðið til sölu í Krónunni í Mosfellsbæ á aðeins 29 krónur hver flaska. Upphaflegt verð er 65 krónur, en síðan er veittur 55% afsláttur við kassa.
Ég er í stuttu máli sagt algjörlega forviða yfir því að Íslendingar skuli flyta inn vatn frá Tyrklandi! En ég ætla ekkert að orðlengja um það frekar. En kannski leyfi ég flöskunni að fara með mér á einhverja fyrirlestra næstu mánuði. Ég ætla alla vega aldrei að drekka þetta ársgamla tyrkneska vatn, jafnvel þó að það standi á flöskunni að þetta sé "Kilden til DIN sundhed...".
Læt myndirnar annars tala sínu máli.
Strimillinn úr Krónunni frá því í gær
"Kilden til DIN sundhed". Innihaldslýsing og
upplýsingar um framleiðandann
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
24.4.2009 | 17:27
Flytjum við inn vatn frá Tyrklandi?
Á þriðjudaginn leit ég við í Krónunni í Mosfellsbæ á leiðinni heim af einhverjum fundi í Reykjavík. Geri þetta stundum, því að í Krónunni er nefnilega gott úrval af lífrænum matvörum, þ.m.t. haframjöli og múslíi, á góðu verði. Þessi verslunarferð væri nú ekki í frásögur færandi, nema fyrir þá sök að í einu kæliborðinu rakst ég á nokkrar litlar vatnsflöskur, sem greinilega voru ekki íslenskar að uppruna. Þetta vakti forvitni mína, því að ég hef aldrei skilið hvers vegna Íslendingar ættu að vera að flytja inn vatn. Mér finnst eiginlega liggja miklu beinna við að flytja það út. Ég fór sem sagt að rýna eitthvað í letrið á þessum flöskum, sem voru eins og fyrr segir litlar, kannski svona 0,3 lítrar eða þar um bil. Á flöskunum stóð Kildevand, og sitthvað fleira sem ég entist reyndar ekki til að lesa allt. En áletrunin var sem sagt öll á dönsku. Eftir því sem ég komst næst var þetta bara ósköp venjulegt lindarvatn, svona eitthvað í líkingu við það sem Reykvíkingar fá úr Gvenndarbrunnum fyrir lítinn pening. Alla vega var engin kolsýra í þessu, því að flöskurnar voru áberandi linar. Mér fannst frekar merkilegt (d: mærkeligt) þarna sem ég stóð, að við skyldum vera að flytja inn vatn frá Danmörku á sama tíma og Kaupmannahafnarbúar sjá jafnvel fram á varanlegan vatnsskort. En ég var samt miklu meira hissa þegar ég fór að rýna betur í hvar þetta væri framleitt. Þá sá ég nefnilega ekki betur en að þetta sjálfsagt ágæta vatn hefði verið flutt til Danmerkur frá Tyrklandi.
Getur verið að við flytjum inn vatn frá Tyrklandi? Hlýt ég ekki bara að hafa verið eitthvað ruglaður þennan dag, með fundareitrun eða eitthvað? Sækjum við kannski stundum vatnið yfir lækinn? Nennir ekki einhver að sýna mér fram á að þarna hafi mér skjátlast? Ég mun taka slíkri leiðréttingu fegins hendi! Þangað til ætla ég að drekka vatn úr krananum heima hjá mér!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.4.2009 | 10:03
Við erum ekki of neitt til neins!
Þessi frétt um Ritu Levi-Montalcini minnir okkur á að maður er aldrei of eitthvað til einhvers. Hættum að rýna í ártalið og tala um að maður sé nú kominn á þennan aldur o.s.frv. Það er bara vandræðalegt að heyra jafnaldrana, einhverja karla um fimmtugt, tala um að þeir séu að verða of gamlir til einhvers. Ellin kemur þegar hún kemur, en það er alveg óþarfi að reyna að laða hana til sín með væli. Eða eins og Rúni Júl sagði: Það er nógur tími til að hugsa um dauðann eftir dauðann, njóttu lífsins meðan kostur er!
Ég held að það hafi verið Trausti Valdimarsson, læknir og ofurhlaupari, sem hafði það á orði, að algengustu mistök sem fólk gerði, væri að halda að það væri of eitthvað til einhvers. Mistök eru til að læra af þeim. Hættum þessu væli. Við stöðvum ekki tímans þunga nið, en þó allra síst með því að telja niður í ellina!
Elsti nóbelsverðlaunahafinn 100 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2009 | 10:47
Engar töfralausnir til
Við sérhverri flókinni spurningu er til eitt einfalt svar. En það er örugglega vitlaust. Ekki man ég lengur hver mælti svo, en oft dettur mér þessi setning í hug. Mér finnst nefnilega ótrúlega magnað að sjá hvernig mannfólkið getur aftur og aftur gleypt við sömu hugmyndinni um skjóta lausn á einhverjum vanda. Nú hlæja menn auðvitað að oftrú manna á kínalífselexírnum sem kom á markað fyrir rúmri öld og átti að lækna alla kvilla, en tilfellið er að elexírinn hefur birst margoft síðan í mismunandi formum - og birtist enn. Núna heitir hann t.d. Immiflex, en meðal margra annarra nafna má nefna Kákasusgeril og Herbalife, eða jafnvel Fitubrennslunámskeið.
Ekki svo að skilja, að ég sé neitt sérstaklega mikið á móti Kínalífselexír í hinum fjölbreyttustu birtingarformum. Hann getur alveg verið hluti af einhverri lausn, hvað sem hann annars heitir þá stundina. Það er bara þessi oftrú á einfaldar skyndilausnir, sem fær mig stundum til að verða hugsi yfir skynsemi mannskepnunnar.
Reynslan ætti að vera búin að kenna okkur, að það eru ekki til neinar töfralausnir, hvorki í heilsufarslegu tillti né í umhverfismálum. Og það sama gildir meira að segja um pólitíkina! Í öllu þessu gildir það sama, að ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það líklega ekki satt. Það þýðir ekki að slíta einn þátt úr samhengi, kippa einum þræði úr vef lífsins, heldur verður maður að reyna að sjá hlutina í samhengi og skoða allan vefinn ef árangur á að nást. Það er flókið, en lífið er bara flókið. Það tekur tíma, en lífið tekur líka tíma. Vissulega væri hitt auðveldara, að geta bara tekið töflu eða ýtt á hnapp, og þar með væri vandinn leystur - og síðan gæti maður haldið áfram að gera ekki neitt í sínum málum.
Það eru ekki til neinar töfralausnir. Við neyðumst til að skoða stóra samhengið ef við eigum að komast eitthvað áleiðis!
(Úrklippan með þessari færslu er úr Ísafold 1. júní 1901, 35. tbl., bls. 140).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2009 | 09:27
Afleiðingar slyssins í Chernobyl 1986
Í athugasemd við skrif mín í fyrradag um nýtingu kjarnorku kom fram að líklega hefðu menn ofmetið afleiðingar kjarnorkuslyssins í Chernobyl 1986. Þetta umræðuefni er svo umfangsmikið, að mér þykir við hæfi að tipla á því í sérstakri færslu, fremur en að láta duga að skrifa athugasemd við athugasemdina. Þetta verður þó ekki meira en örstutt ágrip, enda hægara sagt en gert að gera ítarlega grein fyrir afleiðingunum. Þeir sem vilja kynna sér málið nánar, geta vonandi haft gagn af tenglum sem ég ætla að setja inn neðst í þessa færslu.
Tölur á reiki
Þar er fyrst til að taka, að mönnum ber alls ekki saman um afleiðingar af slysinu í Chernobyl. Þannig er í raun útilokað að tilgreina nákvæmlega rétta tölu um fjölda dauðsfalla. Hins vegar skilst mér að menn séu nokkuð sammála um að u.þ.b. 600 starfsmenn kjarnorkuversins og hópur slökkviliðsmanna sem börðust við eldinn í verinu hafi orðið fyrir bráðri og lífshættulegri geislun. Sama gildir um u.þ.b. 800.000 hermenn sem unnu að hreinsunarstörfum á árunum eftir slysið. Ég hef hins vegar ekki fundið óyggjandi upplýsingar um það hversu margir úr þessum hópi eru látnir. Einhvers staðar hef ég lesið að slysið hafi valdið dauða allt að 32.000 manns, að um 375.000 hafi þurft að yfirgefa heimili sín varanlega, og neikvæð heilsufarsleg áhrif hafi náð til allt að 4 milljóna til viðbótar. En þetta eru gamlar tölur. Hvað sem öllu líður er þó því miður augljóst að dauðsföllin eru margfalt fleiri en 150, en sú tala var nefnd í umræddri athugasemd.
Ein ástæða þess hversu erfitt er að nefna nákvæmar tölur um afleiðingar slyssins í Chernobyl er sú, að fjárhagslegar, pólitískar og lagalegar aðstæður hafa komið í veg fyrir að unnt væri að stunda vandaðar og óháðar rannsóknir á svæðinu.
Áhrif geislunar á lífverur, þ.m.t. menn
Skaðsemi geislavirkni fyrir lífverur fer mjög eftir efnum og því hvaða lífverur eiga í hlut. Almennt talað truflar geislavirkni starfsemi einstakra fruma og veldur gjarnan skemmdum á DNA í frumukjörnum. Slíkar skemmdir geta orsakað krabbamein og ýmis önnur frávik í starfsemi líkamans. Um leið skapast hætta á að erfðafræðilegar breytingar skili sér til afkomenda. Krabbamein er þekkasta afleiðingin og jafnframt sú sem mest eining er um í vísindaheiminum. Í raun vita menn minna um áhrif á komandi kynslóðir, enda tekur það, eðli málsins samkvæmt, áratugi eða aldir að byggja upp verulega þekkingu á því sviði, alla vega hvað kynslóðir manna varðar.
Líffæri manna eru misviðkvæm fyrir geislun. Almennt má gera ráð fyrir að fóstur í móðurkviði, sogæðakerfi, beinmergur, meltingarvegur, skjaldkirtill, brjóst kvenna og eggfrumur séu viðkvæmust hvað þetta varðar. Einstök líffæri eru líka viðkvæmari fyrir sumum geislavirkum efnum en öðrum. Þannig er geislavirkt joð líklegt til að valda skemmdum á skjaldkirtli, svo dæmi sé tekið.
Krabbamein eftir Chernobyl
Menn munu vera nokkuð sammála um að a.m.k. 1.800 börn og unglingar á því svæði Hvíta-Rússlands sem verst varð úti hafi fengið skjaldkirtilskrabbamein vegna geislunar frá Chernobyl. Óttast er að þessi tala fari upp í 8.000 á næstu áratugum meðal fólks sem var á barnsaldri þegar slysið varð. Aðrir hafa varað við að þessi tala geti átt eftir að hækka miklu meira, og er jafnvel talað um 100.000 tilfelli í því sambandi. Öðrum krabbameinstilfellum hefur einnig fjölgað mjög mikið á áhrifasvæðinu, þ.m.t. krabbameinum í brjóstum, lungum, maga, kynfærum og þvagfærum.
Dýr og plöntur
Það kemur fram í umræddri athugasemd að slysið virðist ekki hafa haft nein neikvæð áhrif á dýralíf og plöntur á svæðinu. Því er til að svara að plöntur geta vel lifað við geislavirkni - og dýr að einhverju leyti líka. Það þýðir hins vegar ekki að geislavirknin hafi engin neikvæð áhrif. Bæði getur hún gripið inn í náttúruvalið, ef svo má segja, og þannig haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni milli tegunda og innan tegunda, og svo eykur hún vissulega líkurnar á stökkbreytingum, sem aftur geta haft í för með sér varanlega breytingu á erfðaefni afkomenda ef þeir komast á legg. Að þessu leyti eru áhrif geislavirkra efna einstök, þar sem þau geta komið fram eða verið til staðar áratugum og öldum eftir að efnin sleppa út í umhverfið. Þau dýr sem eru efst í fæðukeðjunni og lifa lengst, eru líklegust til að verða fyrir skaðlegum áhrifum, þar sem efnin safnast gjarnan fyrir í vefjum slíkra dýra.
Rannsóknir benda til að tegundasamsetning hafi breyst töluvert í nágrenni við Chernobyl á þeim tíma sem liðinn er frá slysinu. M.a. hefur fuglategundum fækkað verulega þar sem geislavirknin er mest. Fljótt á litið kann mönnum hins vegar að virðast lífríkið þarna standa í miklum blóma, en þá verður að hafa í huga að mesta áhrifasvæðið hefur jú verið algjörlega laust við ágang manna í rúm 20 ár.
Efnahagsleg áhrif
Það fer ekkert á milli mála að mannskepnan er býsna viðkvæm fyrir geislavirkum efnum, enda lifum við lengi og erum alætur. Þess vegna geta áhrif geislunar á dýr og plöntur gert þessar lífverur ónýtanlegar til fæðu fyrir mannfólkið. Meðal annars þess vegna hafa kjarnorkuslys neikvæð efnahagsleg áhrif langt umfram bein áhrif á lífríkið. Sem dæmi um þetta má nefna að vegna slyssins í Chernobyl eru nú 2.640 ferkílómetrar af landbúnaðarlandi ónothæft til langrar framtíðar, en samtals menguðust um 18.000 ferkílómetrar landbúnaðarlands í slysinu. Skógar hafa líka tekið í sig mikla geislavirkni. Þannig menguðust um 35.000 ferkílómetrar af skógum í Úkraínu, en það eru um 40% af öllu skóglendi í landinu. Lauf og barr taka geislavirk efni greiðlega upp og skila þeim síðan í jarðveginn þegar þau rotna. Þaðan berast efnin í trén og svæðið verður ónothæft í áratugi eða aldir, eftir því hvaða efni eiga í hlut og í hvaða magni.
Eins og fyrr segir geta efnahagsleg áhrif kjarnorkuslysa verið gríðarleg, enda þótt slysin valdi ekki endilega dauða mikils fjölda manna fyrstu dagana eða vikurnar. Þannig hafa stjórnvöld í Úkraínu áætlað að heildartap hagkerfisins þar í landi vegna slyssins verði komið í rúma 200 milljarða Bandaríkjadala árið 2015. Árlega fara um 5-7% af þjóðartekjum landsins í að fást við afleiðingar slyssins.
Dreifing mengunar frá Chernobyl
Geislavirk efni frá Chernobyl dreifðust víða. Auðvitað varð geislavirknin langmest næst slysstaðnum, þ.e.a.s. á ákveðnum svæðum í Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi, en geislavirk efni dreifðust líka yfir Pólland, Eystrasaltslöndin, stóran hluta Skandínavíu, sunnanvert Þýskaland, Sviss, norðurhluta Frakklands og England. Einnig mældist aukin geislavirkni á suðaustanverðu Íslandi.
Það að geislavirkni mælist, þýðir ekki að fólki sé bráð hætta búin. Hættan fer auðvitað eftir magninu. Talið er að samtals séu um 125 til 146 þúsund ferkílómetrar lands í námunda við Chernobyl mengaðir af Sesíum-137, þannig að þar mælist geislavirkni umfram 1 curie (Ci) á ferkílómetra. Þessi styrkur segir ekki allt um það hversu mikla geislavirkni fólk á svæðinu fær í sig, en líklega er þó a.m.k. varasamt að dveljast lengi á svæðum þar sem geislavirknin er mikið umfram 1 Ci. Á fyrrnefndu svæði bjuggu samtals um 7 milljónir manna þegar slysið varð, þar af um 3 milljónir barna, sem augljóslega eiga það enn frekar á hættu en fullorðnir að bíða varanlegt heilsutjón af geisluninni. Nokkur hundruð þúsund manns flýðu þetta svæði eða voru flutt þaðan, en enn búa þar um 5,5 milljónir.
Lokaorð
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru, enda nær útilokað að ná góðri yfirsýn yfir afleiðingar slyssins á skömmum tíma. Kemur þar einkum þrennt til. Í fyrsta lagi eru rannsóknir á þessu sviði ekki alltaf áreiðanlegar af ástæðum sem fyrr voru nefndar. Í öðru lagi ná áhrifin yfir stórt landsvæði og mörg lönd. Og síðast en ekki síst er fjarri því að öll kurl séu komin til grafar. Útilokað er að gera málið upp og birta einhvers konar heildarniðurstöður fyrr en að nokkrum öldum liðnum. Í þessu síðasta liggur einmitt sérstaða kjarnorkuslysa. Af sömu ástæðu ættu samtímamenn að fara afar varlega í að fullyrða nokkuð um afleiðingarnar eða gera lítið úr þeim. Þær eru nefnilega augljóslega miklu stærri í tíma og rúmi en við getum áttað okkur á þar sem við stöndum.
Varúðarreglan er gullin regla þegar talið berst að neikvæðum áhrifum kjarnorku á umhverfi og heilsu. Jafnvel þótt geislavirkni á tilteknu svæði geti minnkað tiltölulega fljótt (Sesíum-137 helmingast t.d. á aðeins 30 árum), þá geta áhrifin komið fram löngu síðar, bæði í formi krabbameins í þeim sem upplifðu geislunina, jafnvel þótt áratugir séu liðnir, og í afkomendum sem fengið hafa gallað erfðaefni frá geisluðum forfeðrum sínum. Í þessu sambandi er vert að minna á, að það að skaðsemi geislunar á tilteknu svæði hafi ekki verið sönnuð, þýðir ekki að hún hafi verið afsönnuð! Varúðarreglan, sem þjóðir heims urðu vel að merkja ásáttar um á ráðstefnunni í Ríó 1992 (UNCED), gerir einmitt ráð fyrir því að sönnunarbyrðin færist yfir á þann sem vill sýna fram á skaðleysið, af þeim sem vill sýna fram á skaðann.
Það er ástæðulaust að vera með hræðsluáróður, og það tel ég mig heldur ekki hafa gert. En það er tilræði við komandi kynslóðir að gera lítið úr áhættunni!
Þessa sundurlausu punkta mína hef ég aðallega byggt á upplýsingum frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), sem hefur umsjón með endurreisnarstarfi eftir Chernobyl-slysið, og af vefsetrinu www.chernobyl.info, sem er hlutlaus upplýsingaveita um málið. Þar er að finna gríðarlegt magn upplýsinga og tilvísana í heimildir af ýmsu tagi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.4.2009 | 11:48
Ekki kjósa ekki neitt!
Það er eðlilegt að margir séu óánægðir með stöðu mála og vilji sýna óánægju sína á kjördag með því að sitja heima eða skila auðu. En slíkt ætti enginn að gera! Fyrir því eru tvær meginástæður:
- Öllum er sama!
Sú yfirlýsing eða refsing sem við höldum e.t.v. að felist í því að skila auðu mun á engan hátt koma sér illa fyrir þá sem aðgerðinni er beint gegn, þ.e.a.s. ríkjandi valdakerfi! - Þá fá hinir að ráða!
Með því að sitja heima eða skila auðu afsölum við okkur valdi okkar til þeirra sem við treystum líklega síst fyrir því! Við styrkjum með öðrum orðum ríkjandi valdakerfi í sessi í stað þess að koma höggi á það, eins og við kannski héldum að við myndum gera. Við leyfum sem sagt öðrum að búa framtíð okkar til á meðan við sjálf sýslum við eitthvað annað!
Ég skora á alla, sem á annað borð hafa kosningarétt, að mæta á kjörstað á laugardag og krossa við listabókstaf einhvers hinna sjö framboða sem hægt er að velja á milli. Þó að við séum kannski óánægð með þau öll, þá hlýtur samt eitthvert þeirra að vera nógu mikið skárra eða nógu mikið verra en hin, til að við getum fundið og valið skásta kostinn. Ekki kjósa ekki neitt!
PS: Það að skila auðu eða sitja heima virkar kannski að einhverju leyti í sveitarstjórnarkosningum og forsetakosningum, þar sem nálægðin er meiri eða kosningin persónulegri. Í alþingiskosningum virkar þessi aðferð EKKI, nema til að dæma okkur sjálf úr leik!
Fleiri munu skila auðu og strika yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.4.2009 | 12:37
Kjarnorka er ekki málið
Í gærkvöldi sýndi RÚV áhugaverðan fréttaauka um auknar vinsældir kjarnorku meðal leiðtoga sumra nágrannalandanna. Það er sem sagt greinilegt að stjórnvöld í nokkrum Evrópulöndum, svo sem Svíþjóð, Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu, eru farin að líta á kjarnorku sem hentugan orkugjafa í framtíðinni, og tala jafnvel um sjálfbæra þróun í því sambandi. Þarna held ég að menn séu á alvarlegum villigötum. Ég hef ekki möguleika á að sökkva mér djúpt í röksemdafærslur hvað þetta varðar, en langar þó að minnast lauslega á nokkur atriði:
1. Áhætta
Í þættinum í gærkvöldi kom m.a. fram að árlega dæju fjölmargir kolanámumenn í námuslysum. Þetta er hárrétt og ömurleg staðreynd. Augljóslega deyja miklu fleiri með þessum hætti en í kjarnorkuslysum. Hins vegar er nær útilokað að bera þetta tvennt saman, þar sem áhættan er í eðli sínu svo gríðarlega ólík. Í kolanámum er slysatíðnin (líkindin) há og afleiðingarnar miklar. Í kjarnorkuverum er slysatíðnin margfalt minni, en afleiðingar margfalt meiri. Í raun er áhættan af kjarnorkunni ólík öllu öðru sem við þekkjum, þar sem eitt óhapp, sem verður kannski ekki nema á 1.000 ára fresti, getur eyðilagt afkomumöguleika tugmilljóna á einu bretti til langrar framtíðar, auk hugsanlegs mannfalls þegar slysið á sér stað. Í þessu sambandi er athyglisvert að tryggingafélög hafa, eftir því sem ég best veit, ekki treyst sér til að selja rekstraraðilum kjarnorkuvera tryggingar.
2. Loftslagsmál
Helsta ástæða þess að kjarnorkunni er að vaxa fiskur um hrygg, er væntanlega sú að menn telja að með því að nota kjarnorku í stað orku úr jarðefnaeldsneyti sé hægt að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem er jú að flestra mati stærsta umhverfisvandamál samtímans. Þetta er þó ekki einhlítt. Í skýrslu sem unnin var fyrir ríkisstjórn Þýskalands á síðasta ári kemur t.d. fram að ný jarðgasorkuver losi minna af gróðurhúsalofttegundum en kjarnorkuver sem veita sömu þjónustu! Í skýrslunni er borin saman losun frá mismunandi orkuverum í öllu orkuvinnsluferlinu og litið á venjuleg heimili sem grunneiningu. Þá er búið að taka tillit til losunar vegna vinnslu úrans og losunar sem leiðir óbeint af takmörkuðum nýtingarmöguleikum á heitu vatni frá kjarnorkuverunum (vegna staðsetningar þeirra). Hægt er að lesa meira um þetta í bloggfærslu sem ég skrifaði 1. júlí 2008. Þar eru líka tenglar á frekari upplýsingar.
3. Fjármögnun og rekstur
Svo virðist sem stofnkostnaður við kjarnorkuver sé gríðarlega hár í samanburði við önnur orkuver. Í þokkabót virðist mönnum hafa gengið afar illa að gera trúverðugar kostnaðaráætlanir, hverju sem þar er um að kenna. Þannig skilst mér að bygging á nýju kjarnorkuveri á eyjunni Olkiluoto við vesturströnd Finnlands hafi átt að kosta 3 milljarða evra, en stefni nú í 6 milljarða. Í þokkabót átti raforkuframleiðsla í verinu að hefjast árið 2008, en nú er víst búið að seinka því til ársins 2012. Þetta er auðvitað bara eitt dæmi, en sama mun vera uppi á teningnum í Bandaríkjunum, þar sem orkufyrirtæki veigra sér við að ráðast í byggingu kjarnorkuvera vegna þess hversu erfitt er að áætla kostnaðinn. Í tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (International Energy Agency (IEA)) kemur líka fram að stofnkostnaður fyrir hverja kílówattstund sem framleidd er í kjarnorkuverum stefni í að verða sá hæsti sem um getur í samanburði við aðra þekkta orkukosti. Þannig er það ekki í dag, en kostnaður við kjarnorkuver er ekki sagður geta lækkað neitt að ráði frá því sem nú er ("Low Learning Rate") á meðan nýting t.d. vindorku og sólarorku verður fljótt hagkvæmari með aukinni framleiðslu. Hvað reksturinn varðar nægir að vísa til þess sem fyrr var sagt um tryggingamál kjarnorkuvera. Í því felst í raun að ekki er hægt að reka verin á viðskiptalegum grunni, heldur verða ríki að veita þeim ábyrgð.
4. Sjálfbærni
Í raun snýst þetta allt um þá spurningu hversu sjálfbær nýting kjarnorku geti verið í samanburði við aðra orkukosti. Þar greinir menn á. Á heimasíðu Alþjóðakjarnorkusambandsins má lesa ítarlega röksemdafærslu fyrir sjálfbærninni, en Landsnefnd Bretlands um sjálfbæra þróun hefur komist að alveg gagnstæðri niðurstöðu. Spurningin um sjálfbærni er auðvitað nátengd spurningunni um öryggi.
Hér hef ég bara stiklað á stóru. Hef ekki tíma í bili til að vinna þetta betur og bið lesendur velvirðingar á því. En ef ég á að rýna í framtíðina, þá tel ég augljóst að frekari þróun kjarnorku (alla vega kjarnaklofnunar) til orkuvinnslu muni stöðvast mjög skyndilega innan fárra ára, nefnilega við næsta stóra kjarnorkuslys. Slík slys verða nefnilega fyrr eða síðar. Sú þróun sem nú er í gangi er að mínu mati einfaldlega afleiðing af því að tíminn sem liðinn er frá slysinu í Chernobyl 1986 er orðinn nógu langur til að óttinn sé farinn að gufa upp úr minninu. Næsta slys mun endurræsa þennan ótta. Þannig virkar það bara með mannshugann og slys af þessari stærðargráðu. Það er bara alls ekkert auðvelt að fást við áhættur af þessu tagi, þar sem líkurnar eru svona litlar en áhrifin svona mikil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2009 | 11:57
Út að hlaupa - út í vorið
Mér finnst vorið vera besti hlaupatíminn. Þá er allt á uppleið í náttúrunni og því fylgir svolítill stórhugur í huga hlauparans. Nú fer maður ekki lengur út að hlaupa af vana eða reglusemi, heldur vegna þess að mann langar til að vera úti, rétta úr sér, svitna, anda að sér fersku lofti og finna enn betur en endranær að maður er hluti af náttúrunni, en ekki bara einhver stofnun utan hennar.
Í bloggfærslu 15. mars sl. skrifaði ég eitthvað um hlaupaáform sumarsins. Þá gældi ég m.a. við þá hugmynd að taka þátt í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara, sem haldið verður á degi umhverfisins 25. apríl nk. Nú er hins vegar ljóst að ég verð ekki þar. Ég neyddist nefnilega til að slaka aðeins á hlaupunum síðari hluta marsmánaðar vegna mikils annríkis við vinnu. Ég hafði reyndar nógan tíma til að hlaupa, en kaus að nota hann frekar í annað, t.d. til að sofa. Þegar maður hefur kosið sér að vinna næstum tvöfalda vinnuviku, þá verður eitthvað annað að láta undan, sem er auðvitað bara fínt. Ég valdi mér þetta jú allt sjálfur!
Að fjallvegahlaupunum slepptum, þá er helsta hlaupaverkefni sumarsins maraþonhlaupið sem haldið verður á Akureyri 11. júlí nk. í tengslum við Landsmót UMFÍ. Ég átti mér þann draum að taka svo sem eitt upphitunarmaraþon áður, og fyrst að Vormaraþonið er úr sögunni berast böndin að Mývatnsmaraþoninu 30. maí. Sjáum til með það.
Hvaða máli skiptir það annars að ég hafi látið vinnuna ganga fyrir hlaupunum síðari hluta marsmánaðar? Jú, ég nenni ekkert að hlaupa Maraþonhlaup nema vera sæmilega undirbúinn. Það er nefnilega ekkert gaman að þessu nema manni líði skikkanlega langleiðina. Í vetur hef ég að mestu haldið mig við að hlaupa þrisvar í viku, 40 km samtals. Það dugar mér alveg til að halda líkama og sál í þokkalegu standi, en það dugar mér ekki sem undirbúningur fyrir maraþon. Þá þarf nokkrar vikur með fleiri æfingum og meiri heildarvegalengd. Það var ekki fyrr en í nýliðinni vorviku að ég komst aðeins upp úr vetrarfarinu; náði fjórum hlaupum og samtals 57 km. Þar með varð þetta lengsta hlaupavikan síðan í september. Aprílmánuður stefnir líka í að verða lengsti aprílmánuður ævisögunnar, kominn í 143 km og stefnir vonandi í 200.
Vorið er tíminn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2009 | 15:32
Ég vil nú samt stjórnlagaþing!
Það virðist ljóst að núverandi þingi takist að klúðra stjórnlagaþinginu. Ég er ósáttur við þessi málalok, því að hugmyndin um stjórnlagaþing er að mínu mati ein af sterkustu hugmyndunum sem komið hafa fram þessa síðustu mánuði og miða að því að fela þjóðinni um stundarsakir hluta af þeim verkefnum sem þjóðin hefur lengi treyst þinginu fyrir, en þinginu hefur mistekist að leysa. Hvers vegna nota menn ekki þetta tækifæri til að byggja upp samband þings og þjóðar? Hvernig í ósköpunum geta menn verið svona tregir? Getur krafan um breytingar orðið öllu augljósari en hún hefur verið síðustu mánuði? Hvers vegna ætti þjóðin að setja allt sitt traust á þá sem brugðist hafa trausti hennar?
Hugmynd sjálfstæðismanna um sérstaka nefnd er svo sem ágæt. En væntanlega myndi þingið skipa þessa nefnd - og þar með væri allt sem fyrr. Það er nefnilega stór munur á þingskipaðri nefnd og þjóðkjörinni!
Annars eigum við þetta kannski bara skilið. Enginn fær víst verri stjórnvöld en hann kýs sér. Valdið er hjá fólkinu, ekki satt. Kannski erum við bara sátt við að láta drösla okkur upp á fljótsbakka fortíðarinnar í stað þess að leggja upp í hina óumflýjanlegu vegferð yfir fljótið. Verði okkur að góðu!
Ekki samkomulag í nefndinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.4.2009 | 11:12
Finnar þora að taka afstöðu!
Finnska ríkisstjórnin hefur ákveðið að tekið skuli tillit til umhverfisþátta í öllum innkaupum ríkisins og stofnana þess frá og með árinu 2015. Jafnframt er mælst til þess að a.m.k. 25% innkaupa til sveitarfélaga verði orðin vistvæn árið 2010 og 50% árið 2015. Árleg innkaup opinbera geirans í Finnlandi nema um 27 milljörðum evra, eða um 15% af þjóðarframleiðslu. Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar mun því óhjákvæmilega hafa mikil áhrif á markaðinn og hvetja fyrirtæki til umhverfisvænni framleiðsluhátta.
Þessi tíðindi, sem tekin eru úr Orðum dagsins í dag og af heimasíðu finnska umhverfisráðuneytisins, láta kannski lítið yfir sér við fyrstu sýn. En tilfellið er að vegna mikilla umsvifa sinna hefur ríkisvaldið meiri möguleika á því en nokkur annar að leiða markaðinn í átt að umhverfisvænni framleiðsluháttum. Um leið eykst framboð á visthæfum vörum og þjónustu og verð þeirra lækkar. Það vill líka svo skemmtilega til að með því að velja umhverfisvænni vörur geta kaupendur dregið úr kostnaði til lengri tíma litið, jafnvel þótt verðlag breytist ekki neitt. Jafnframt minnkar losun gróðurhúsalofttegunda verulega. Gerð er góð grein fyrir þessum atriðum í nýrri skýrslu sem PricewaterhouseCoopers, Significant og Ecofys gerðu fyrir Evrópusambandið. Þar kemur m.a. fram að í 7 löndum Evrópu hafi vistvæn opinber innkaup að meðaltali leitt til 1,20% sparnaðar og 25% samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Í báðum tilvikum vega flutningar, verklegar framkvæmdir og ræstiþjónusta þyngst.
Ákvörðun finnsku ríkisstjórnarinnar er gott fordæmi fyrir þá íslensku. Það er nefnilega ekki nóg að undirrita stefnuyfirlýsingar um vistvæn innkaup. Menn þurfa að setja sér bindandi markmið til að eitthvað gerist! Þetta er spurning um að þora að taka afstöðu. Það ætti reyndar að vera auðvelt í málum sem þessum, sem leiða bæði til betri afkomu fyrir núverandi og komandi kynslóðir!!!
Orð dagsins er að finna á http://www.samband.is/dagskra21
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 145321
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar