11.5.2009 | 11:20
Umhverfisvænn stjórnarsáttmáli - að mestu
Samstarfsyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna felur í sér mun meiri áherslu á umhverfismál og sjálfbæra þróun en áður hafa sést í slíku plaggi. Ég er að sjálfsögðu afar sáttur við þetta, enda er ég ekki í vafa um að þessi áhersla er lykill að bjartri framtíð þjóðarinnar til lengri tíma litið. Sjálfbær þróun snýst jú um að sjá samhengi hlutanna og að horfa fram í tímann í stað þess að hugsa eingöngu um stundarhaginn. Hljóta ekki allir að vera sammála um að þörf sé á því?
Sjálfum mér og e.t.v. öðrum til glöggvunar ætla ég hér á eftir að tína til helstu ákvæði samstarfsyfirlýsingarinnar sem varða umhverfismál og sjálfbæra þróun. Feitletra það sem mér finnst athyglisverðast. Þó að ég sé eins og fyrr segir afar sáttur við þessar áherslur, þá virðist mér reyndar einu atriði vera stórlega áfátt, en það eru áformin í loftslagsmálum. Ég kem nánar að því í lok þessa pistils, en líklega er þarna bara um að ræða svonefnda copy-paste villu frá tíð þarsíðustu ríkisstjórnar, sem sagt eitthvað sem menn hafa gleymt að færa til betri vegar. En snúum okkur nú að innihaldinu:
- Á fyrstu síðu samstarfsyfirlýsingarinnar kemur fram að í nýafstöðnum kosningum hafi meirihluti kjósenda veitt jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að halda áfram og leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis. Þar segir einnig að ný ríkisstjórn starfi með þessi gildi að leiðarljósi í því skyni að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi, þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni.
- Í kaflanum um atvinnumál (bls. 8) kemur fram að áhersla verði lögð á fjölbreytt atvinnulíf, jafnan en stöðugan hagvöxt, nýsköpun og sjálfbæra nýtingu til lands og sjávar.
- Í sama kafla kemur fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland, byggð á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti kynjanna, heilbrigðum viðskiptaháttum og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Sérstaklega er tekið fram að þessi stefna verði útfærð í formlegu samráði stjórnvalda, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, og háskólasamfélagsins.
- Í umfjöllun um Sóknarstefnu til framtíðar í sama kafla (bls. 9) kemur fram að ríkisstjórnin vilji efla græna atvinnustarfsemi, þar með talin verkefni þar sem hrein endurnýjanleg orka er nýtt á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Lögð verði áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum og hagstæðu orkuverði. Þar eru einnig kynnt áform um að stuðla að betri orkunýtingu, svo sem með uppbyggingu iðngarða og iðjuvera, garðyrkjustöðva, endurvinnslu og annarrar starfsemi sem nýtir gufuafl sjálfbærra jarðvarmavirkjana.
- Í kaflanum um fiskveiðar (bls. 10) kemur fram að markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar sé að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Þar er líka að finna fyrirheit um að forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands.
- Í kaflanum um fiskveiðar er einnig fjallað sérstaklega um verndun grunnslóðar. Þar kemur fram að kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.
- Tvær blaðsíður af 17 blaðsíðum samstarfsyfirlýsingarinnar (bls. 12-13) snúast sérstaklega um umhverfi og auðlindir. Kaflinn hefst á eftirfarandi yfirlýsingu: Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Einn af hornsteinum umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar er að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti. Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að breyta svo að hún verði grundvöllur umhverfisverndar til framtíðar. Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum byggir á meginreglum umhverfisréttar, svo sem varúðarreglunni og mengunarbótarreglunni, eins og þær eru skilgreindar í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnahags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna.
- Í kaflanum um utanríkis- og Evrópumál (bls. 15) kemur fram að norrænt samstarf verði áfram einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu en einnig verður lögð áhersla á Evrópumál, norðurslóðasamstarf og sjálfbæra nýtingu auðlinda og alþjóðlega samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra. Í sama kafla kemur fram að málefni norðurslóða verði forgangsmál og að áhersla verði lögð á að vernda viðkvæmt lífríki svæðisins, sjálfbæra nýtingu auðlinda og aukið samstarf á Norðurlöndum um viðbúnað gegn umhverfisvá og slysum á norðurhöfum, leit og björgun.
- Í kaflanum um stjórnkerfisbreytingar (bls. 17) kemur fram að nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti fái auk þeirra verkefna sem fyrir eru lykilhlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála. Þangað flyst ennfremur umsýsla Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
Ég tel allt það sem hér hefur verið nefnt afar jákvætt frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar, sumt jafnvel svo jákvætt að tala megi um þáttaskil hvað það varðar. Í þessu sambandi á ég sérstaklega við kaflann um umhverfi og auðlindir, sjá punkt 7 hér að framan. Þar er ýmislegt sem ég hafði varla gert mér vonir um að sjá í stjórnarsáttmála á Íslandi. Mér finnst of langt gengið að líma allan kaflann inn í þessa færslu, en þarna er m.a. að finna fyrirheit um að:
- Náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innan stjórnarráðsins styrkt til muna.
- Sérstaklega skuli hugað að náttúruvernd strandsvæða og verndunar svæða í sjó.
- Friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og friðun þess lokið hið fyrsta.
- Ný náttúruverndaráætlun til 2013 verði afgreidd á vorþingi.
- Rekstur og uppbygging þjóðgarða og friðlýstra svæða verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að sameina stjórn þeirra, styrkja stöðu þeirra og styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu um allt land.
- Kannaður verði grundvöllur þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu.
- Vatnatilskipun ESB verði innleidd og aðlöguð íslenskum aðstæðum.
- Verðleggja losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og gera viðskipti með þær möguleg.
- Fram verði lögð ný skipulags- og mannvirkjalög verði með ákvæðum um landsskipulagsstefnu.
- Áhersla verði lögð á að marka stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika.
- Staðfesta Landslagssáttmála Evrópu með það að markmiði að vernda landslagsheildir og ósnortin víðerni.
- Endurskoða lög og reglur um sorphirðu og endurvinnslu með þarfir almennings og umhverfis að leiðarljósi, svo markmið um minni urðun og meiri endurvinnslu náist.
- Unnin verði áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin.
- Innleiðingu Árósasamningsins í íslenskan rétt verði hraðað og nauðsynlegar lagabreytingar kynntar á haustþingi 2009.
- Efla fræðslu til almennings og fyrirtækja um vistvæn innkaup, umhverfismerkta vöru og gildi sjálfbærrar neyslu.
- Tryggja að erfðabreytt matvæli séu merkt þannig að neytendum sé ljóst innihald matvæla við innkaup.
- Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi.
- Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða.
- Ísland standi við loftslagsskuldbindingar sínar og leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlegu loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009.
- Gerð verði áætlun um orkusparnað, jafnt fyrir atvinnufyrirtæki og heimili.
- Lögð er rík áhersla á að ljúka gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem allra fyrst og hún verði lögð fyrir Alþingi á vetri komanda og fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu.
- Stuðlað verði að gagnsæi í orkusölusamningum og leitað leiða til að aflétta leynd af orkuverði til erlendra stóriðjufyrirtækja og stefnt að jafnræði í verðlagningu raforku í ólíkum atvinnugreinum.
Miðað við það hugarfar sem mér finnst hafa ríkt í íslenskum stjórnmálum síðan ég byrjaði að skipta mér af umhverfismálum að einhverju marki um og upp úr 1990, þá er þessi upptalning nánast ævintýri líkust. Auðvitað á eftir að koma í ljós hvernig gengur að hrinda öllum þessum góðu áformum í framkvæmd. En ég er reyndar bjartsýnn á það, því að ég veit að hugur þjóðarinnar stefnir í þessa átt. Þar hefur orðið mikil breyting, sem ég vil meina að hafi byrjað undir niðri á árinu 2007. Auk þess búum við svo vel að eiga stóran og ört vaxandi hóp af fólki sem kann til verka á þessu sviði og er tilbúið að láta til sín taka.
En svo ég taki nú Þórberg mér til fyrirmyndar og bjargi þessum pistli frá slepjulegum aumingjaskap, þá get ég ekki látið hjá líða að benda á þetta eina atriði, sem ég nefndi í innganginum að mér þætti vera stórlega áfátt, eða með öðrum orðum líklega copy-paste villu frá tíð þarsíðustu ríkisstjórnar. Í umhverfis- og auðlindakaflanum kemur nefnilega fram að:
- Lokið verði við aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda um 50-75% til 2050, með tímasettum og tölulegum markmiðum, eigi síðar en vorið 2010.
Þetta með tímasettu og tölulegu markmiðin eru orð í tíma töluð, en í mínum huga er algjörlega augljóst að markmið um 50-75% samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda fram til ársins 2050 er algjörlega úr takti við þann veruleika sem blasir við okkur og reyndar í hróplegu ósamræmi við það áform í sama kafla að Ísland leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlegu loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009. Til að hægt sé að tala um metnað í þessu sambandi verðum við að setja markið á 80-95% samdrátt! Ég gef mér ekki tíma til að rökstyðja það nánar í þessum pistli, en vísa á fyrri bloggskrif mín um sama efni frá því í mars sl. Þar er líka að finna tengil á enn eldri og ítarlegri skrif.
Ný ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.5.2009 | 16:18
Svínaskarð eftir 12 daga
Nú styttist í fyrsta fjallvegahlaup sumarsins. Á uppstigningardag, fimmtudaginn 21. maí nk., ætla ég sem sagt að hlaupa í góðum félagsskap yfir Svínaskarð frá Esjumelum, upp með Leirvogsá að norðanverðu, og svo til norðurs milli Móskarðshnúka og Skálafells, en þar er sem sagt sjálft skarðið. Í lokin liggur leiðin niður í Svínadal og niður á veginn inn Kjósina, með endapunktinn skammt frá Vindáshlíð. Að öllu forfallalausu verður lagt í hann af Esjumelum umræddan dag kl. 14.00. Eftir því sem ég kemst næst eru þetta um 18 km, og hækkunin er svo sem 400 m.
Aðalleiðin frá Reykjavík vestur og norðurum lá um Svínaskarð, allt þar til bílvegur var lagður með ströndinni vestan við Esjuna um 1930. Enn er jeppafær slóði um skarðið, sæmilega greiðfær syðst, en býsna grófur og brattur þegar halla fer niður í Kjósina að norðanverðu. Geri ráð fyrir að enn séu nokkrar fannir í skarðinu. Þigg með þökkum hvers konar fróðleik um málið frá þeim sem til þekkja.
Örlítið meiri upplýsingar um leiðina er að finna á www.fjallvegahlaup.is.
Á þessari stundu veit ég um þrjá sem hafa fullan hug á að slást í för með mér á þessari skemmtiför um Svínaskarð. Öllum er velkomið að bætast í hópinn - á eigin ábyrgð. Gaman væri samt að vita af væntanlegum ferðafélögum fyrirfram. Þeir sem hafa áhuga á málinu geta t.d. sent mér tölvupóst á netfangið stefan[hja]environice.is.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2009 | 01:31
Kæruleysislegir úlfar
Ég hef oft grunað Vegagerðina um að gera stórmál úr lítilli ófærð, eða með öðrum orðum að reka það sem kalla mætti úlfur-úlfur stefnu, til að fæla fólk frá því að vera að flækjast eitthvað út í óvissuna, eða út í vitleysuna, á illa búnum bílum. Reyndar hef ég verið býsna sáttur við þetta, enda aðhyllist ég varúðarregluna og finnst varfærni góð. En í kvöld þykir mér Vegagerðin hafa sofið á úlfavaktinni.
Ég skellti mér sem sagt til Akureyrar undir kvöldið á drossíunni. Sem betur fer hafði ég látið ógert að rífa undan henni loftbóludekkin sem ég nota á veturna, og gefa bestu nagladekkjum lítið sem ekkert eftir að mínu mati. Og sem betur fer hafði löggan líka að nokkru leyti vit fyrir þeim sem höfðu treyst á úlfavakt Vegagerðarinnar.
Eins og sæmilega fullorðnum sveitamanni sæmir, athugaði ég veður og færð samviskusamlega á netinu áður en ég lagði upp frá Borgarnesi um 6-leytið. Sá að það var býsna hvasst á Holtavörðuheiðinni, hálka og skafrenningur. Allir aðrir hlutar leiðarinnar frá Borgarnesi til Akureyrar voru hins vegar grænir á kortinu, þ.e.a.s. greiðfærir. Ég taldi því litlar líkur á að ég myndi lenda í vandræðum, þótt sjálfsagt þyrfti að fara að öllu með gát á heiðinni. Svo lagði ég af stað og afþakkaði boð betri helmingsins um að fá lánaðan hinn bílinn á heimilinu, sem er líka enn á loftbóludekkjum og með drifi á öllum hjólum í þokkabót.
Löggan stoppaði mig og alla aðra upp við Dalsmynni, sagði að búið væri að loka heiðinni og því væri þjóðráð að fara Bröttubrekku og Laxárdalsheiði. Ég var afar sáttur við það, enda finnst mér leiðinlegt að lenda í byl, ófærð og veseni. Löggan sagðist hafa þær upplýsingar frá Vegagerðinni að Laxárdalsheiðin væri greiðfær. Það var hún svo sem líka, en efst á henni var nú samt töluverður snjór og krapi á veginum. Látum það nú vera. En á leiðinni frá Hvammstanga og um það bil austur að Gljúfurá var leiðindaveður, töluverður krapi á veginum og bara mjög viðsjárvert færi. Þar höfðu bílar enda farið út af og velt. Að mínu mati var þessi kafli hreinlega hættulegur bílum á sumardekkjum. Ég fór því að hafa áhyggjur af Vatnsskarðinu og Öxnadalsheiðinni. Hringdi í upplýsingasíma Vegagerðarinnar, 1777, og viti menn: Þar var sagt að það væri hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði, (sem var þó hreinlega lokuð þegar þetta var), og svo átti líka að vera éljagangur á Öxnadalsheiði og norðan við Akureyri. Að öðru leyti væri leiðin greiðfær. Þetta hljómaði náttúrulega bara sem bull þegar maður var nýbúinn að læðast í gegnum Vestur-Húnavatnssýsluna.
Ferðin gekk annars svo sem ágætlega það sem eftir var. Að vísu var dálítil hálka á Vatnsskarði og sömuleiðis smávegis sitt hvorum megin í Öxnadalsheiðinni.
Mér leiðist að vera neikvæður, en ef þeir eru enn til sem fara inn á netið eða hringja í upplýsingasíma Vegagerðarinnar áður en þeir rjúka af stað, þá fengu þeir verulega villandi upplýsingar þarna í kvöld. Ég hef áhyggjur af því, ég verð að segja það, sérstaklega þegar þessi tími er kominn - og Yarisfólkið jafnvel farið að streyma norður í land á bílaleigubílunum. Ég er hræddur um að einhver þeirra hafi átt erfið augnablik á þessum greiðfæru vegum dagsins.
Líkur hér Vegagerðarnöldri að sinni.
Það var ekki sérlega sumarlegt á Akureyri í kvöld þegar drossían var komin
á leiðarenda eftir mjúkan akstur á grænum vegum.
Búið að opna Holtavörðuheiði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2009 | 23:50
Er rafmengun vanmetinn vandi?
Fréttir mbl.is og sjónvarpsins um lausn gátunnar í Richardshúsi á Hjalteyri gefa tilefni til að velta því fyrir sér hvort rafmengun sé ef til vill stórlega vanmetið vandamál. Hægt er að nálgast þessa umræðu með ýmsum hætti, en í þessum pistli ætla ég aðallega að velta þessu fyrir mér með Varúðarregluna í huga.
Viðhorf vísindasamfélagsins
Margir virðast halda að rafsegulsvið sé eitthvert dularfullt eða jafnvel yfirskilvitlegt fyrirbæri. Svo er þó að sjálfsögðu ekki, heldur er fyrirbærið vel þekkt í vísindum og mælanlegt með einföldum mælitækjum. Hins vegar fer tvennum sögum af áhrifum rafsegulsviðs á menn og skepnur. Sjálfur hef ég ekki sökkt mér ofan í heimildir um þessi mál, en almennt skilst mér að þrátt fyrir ýmsar vísbendingar telji vísindasamfélagið enga vissu vera fyrir því að rafsegulsvið hafi skaðleg áhrif á fólk, nema þá þar sem styrkur þess er gríðarlega mikill og langt umfram það sem gengur og gerist í daglegu umhverfi meðaljónsins. Hins vegar útilokar þetta sama samfélag ekki að menn geti orðið fyrir einhverjum skaðlegum áhrifum, þó að það hafi e.t.v. ekki verið sannað.
Varúðarreglan
Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992 komu fulltrúar um 180 þjóða sér saman um svonefnda Varúðarreglu, sem er nánar tiltekið hluti af Ríóyfirlýsingunni sem samþykkt var á ráðstefnunni. Í daglegu tali er Varúðarreglan sögð fela það í sér að náttúran eigi að njóta vafans, en reyndar er hún aðeins flóknari en svo. Í örlítið styttri mynd segir Varúðarreglan, að ekki megi nota skort á vísindalegri fullvissu um hugsanleg skaðleg áhrif sem rök til að fresta varnaraðgerðum. Í reynd fól samþykkt Varúðarreglunnar í sér að sönnunarbyrði í umhverfismálum fluttist af þeim sem taldi sig verða fyrir tjóni, yfir á meintan tjónvald.
Varúðarreglan og rafmengun
Það er áhugavert að skoða umræðuna um rafmengun, (sem ég ætla hér eftir að nota sem safnheiti yfir óæskilegt rafsvið og rafsegulsvið), út frá Varúðarreglunni. Það hafa sem sagt komið fram ýmsar vísbendingar um skaðsemina, en flestir virðast þó telja að fullvissu skorti. En það að skaðinn hafi ekki verið sannaður, þýðir ekki að hann hafi verið afsannaður. Þess vegna ber í raun að grípa til varnaraðgerða þar sem grunur um skaðleg áhrif vaknar. Reyndar segir Varúðarreglan líka eitthvað um kostnaðarhagkvæmni, sem þýðir að ekki er hægt að ætlast til að gripið sé til varnaraðgerða hvað sem þær kosta. Tilfellið er hins vegar að þessar aðgerðir kosta oft mjög óverulegar fjárhæðir.
Vísbendingar um skaðsemi
En hverjar eru þá þessar vísbendingar um skaðleg áhrif rafmengunar á fólk og aðrar lífverur? Þar er af nógu af taka. Dæmið frá Hjalteyri er auðvitað ein slík vísbending, og enn frekar ef rafmengunin verður talin eiga þátt í seiðadauða í lúðueldisstöðinni þarna skammt frá. Eins eru til dæmi um áhrif á heilsufar búfjár. Ég hef rætt þá hlið lauslega við dýralækna, og í þeirri stétt kannast menn við dæmi af þessu tagi. Ég man sjálfur eftir einu slíku úr fyrrverandi nágrenni mínu. Þar urðu mikil vanhöld á fullorðnu fé á húsi um vetrartíma, nánar tiltekið af svonefndri Hvanneyrarveiki, sem er fóðureitrun af völdum bakteríu, Listeria að mig minnir. Engin skýring fannst á þessu lengi vel, fóðrið virtist a.m.k. ekki verra en gengur og gerist. Við athugun kom síðan í ljós að jarðskaut í fjárhúsunum var brunnið sundur af ryði, og eftir að því var kippt í lag hætti krankleikinn í fénu. Þarna er auðvitað ekki hægt að sanna orsakasamhengið, þar sem ekki er mögulegt að útiloka áhrif annarra þátta. En vísbendingin er alla vega sterk, þó að vísindalega fullvissu skorti. Önnur dæmi hef ég heyrt um fósturlát í sauðfé og fleira slíkt. Hvað mannfólkið varðar, þá eru til ýmsar vísbendingar um að tíðni tiltekinna sjúkdóma, svo sem krabbameins, gigtarsjúkdóma, mígrenis, MS o.fl. sé hærri í tilteknum húsum, eða tilteknum íbúðahverfum en annars staðar. Sama gildir reyndar um tiltekna vinnustaði. Þarna skortir þó líka vísindalega fullvissu, því að mörg önnur atriði geta spilað inn í, svo sem erfðaþættir, mataræði eða aðrir lífsstílsþættir hjá einstökum fjölskyldum, hugsanleg efnamengun o.s.frv. Auk þess er tíðni margra sjúkdóma af þessu tagi það lág að faraldsfræðilegar rannsóknir eru erfiðar í framkvæmd.
Einföld niðurstaða!
Niðurstaðan úr þessu spjalli er svo sem einföld: Fjarvist sönnunar er ekki fjarvistarsönnun! Þess vegna ber að grípa til varnaraðgerða þar sem grunur vaknar. Fyrsta aðgerðin felst væntanlega í að mæla rafmengun í viðkomandi húsi eða á viðkomandi svæði. Þar koma reyndar fleiri þættir en raflagnir við sögu, þ.m.t. svonefndar jarðárur, sem væntanlega fylgja sprungum í bergi. Gefi mæling tilefni til er síðan sjálfsagt að ráðast í úrbætur á jarðskautum, en þeim er vafalaust víða mjög ábótavant, bæði í híbýlum manna og dýra. Fleiri lausnir eru til - og fæstar mjög kostnaðarsamar.
Frekari upplýsingar
Þeir sem vilja lesa sér til um þessi mál geta m.a. sótt í mikinn fróðleiksbanka á heimasíðu Valdemars Gísla Valdemarssonar, rafeindavirkjameistara, en hann hefur haldið til haga gríðarlegu tenglasafni úr ýmsum áttum. Svo má benda á ágætan bækling um rafsegulsvið á heimasíðu Landsnets. Þar er eðlilega farið varlega í sakirnar, en meginniðurstaðan er þó sú sama og í þessum pistli, þ.e. að þó að skaðleg áhrif hafi ekki verið sönnuð, þá sé ekki hægt að útiloka þau.
Sem sagt: Vanmetinn vandi!
Ég held að rafmengun sé vanmetinn vandi, jafnvel stórlega vanmetinn. Það er óþarfi að líta á þetta sem eitthvert feimnismál eða hindurvitni, fyrirbærið er vel þekkt og all mikið rannsakað, og með hliðsjón af Varúðarreglunni er sjálfsagt að kanna sitt nánasta umhverfi og grípa til varnaraðgerða ef mælingar gefa tilefni til þess. Maður þarf ekkert að vera viss um skaðsemina. Það er nóg að vera ekki viss um skaðleysið. Og ódýr aðgerð sem kannski getur fyrirbyggt eitt krabbameins- eða MS-tilfelli er alveg örugglega kostnaðarhagkvæm!
Dælustöð Norðurorku olli torkennilegu hljóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.5.2009 | 11:03
Mohamed Nasheed og loftslagsbreytingar
Mér finnst umræðan hérlendis um loftslagsbreytingar frekar kæruleysisleg. Jú, menn tala um að það muni eitthvað hlýna - og þá verði auðveldara að rækta eitt og annað. Svo heyrist líka minnst á að það hækki eitthvað í sjónum, kannski um nokkra tugi sentimetra á öldinni, og að þetta þurfi menn að hafa á bak við eyrað í skipulagsvinnu. Það verði sem sagt skynsamlegt að byggja ekki alveg niðri í fjöruborðinu.
Þessi kæruleysislega umræða er svo sem skiljanleg, því að þetta er það sem blasir við í nánasta umhverfi okkar, alla vega ef maður horfir fram hjá nokkrum öðrum þáttum. En við erum ekki ein í heiminum. Hugsum okkur t.d. þá framtíð sem blasir við íbúum Maldíveyja suðvestur af Indlandi. Þar er meðalhæð yfir sjávarmáli 1,5 metrar - og hæsta fjallið bara 2,4 m, þannig að eyjarnar munu einfaldlega hverfa í hafið innan 100 ára takist ekki að hefta loftslagsbreytingarnar. Á Maldíveyjum búa hátt í 400 þúsund manns, þ.e. töluvert fleiri en á Íslandi.
Ástæða þess að ég nefni Maldíveyjar einmitt núna er sú, að í dag var tilkynnt að Mohamed Nasheed, forseti Maldíveyja, hlyti verðlaun Minningarsjóðs Önnu Lindh í ár, en eins og margir muna var Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar frá 1998 þar til hún var myrt í Stokkhólmi 11. september 2003. Verðlaunin fær Mohamed fyrir framlag hans til að tengja mannréttindabaráttu og loftslagsbreytingar, svo og fyrir hlut hans í lýðræðisvæðingu eyjanna. Mohamed Nasheed komst til valda sem forseti Maldíveyja í lýðræðislegum kosningum á síðasta ári, en áður hafði hann setið sem samviskufangi vegna andstöðu sinnar við stjórnvöld sem ráðið höfðu eyjunum næstu 30 ár á undan.
Mohamed Nasheed hefur átt stóran þátt í því að koma mannlegu hliðinni á loftslagsbreytingum á dagskrá í alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslagsbreytingar.
Sjá einnig:
Frétt á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Íslands í dag
Frétt á heimasíðu Minningarsjóðs Önnu Lindh
Og upplýsingar um Maldíveyjar í upplýsingasafni CIA
Mohamed Nasheed, forseti Maldíveyja. Myndin er tekin að láni
af heimasíðu Minningarsjóðs Önnu Lindh.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2009 | 15:36
Vesturland er náttúrulega best
Æi ég er alveg strand,
andinn hás og staður.
Veit ég samt að Vesturland
er voða góður staður.
(Fann þetta í 5 ára gömlum tölvupósti og þótti fyndið.
(Það er kannski þetta með sjálfs sín hugsun)).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2009 | 08:49
Í spor risaeðlunnar
Enn eru margir í afneitun í loftslagsmálum. Þess sér stað bæði á síðum Morgunblaðsins og í annarri umræðu manna á meðal. Þeir sem eru í afneitun beita ýmsum rökum, benda t.d. á að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hafi verið miklu hærri fyrir milljón árum eða svo - og þess vegna geti ekki skipt máli þó að hann þokist eitthvað upp fyrir 0,4 eða 0,5 prómill.
Ég er sammála sænska ofurbloggaranum Hans Nilsson, sem segir að þeir sem nota styrk koltvísýrings á forsögulegum tíma sem rök í loftslagsumræðunni, minni mann á risaeðlur í fleiri en einum skilningi.
Ég mæli með bloggsíðu Hans Nilsson fyrir þá sem hafa gaman af gagnrýnni umræðu og eru sæmilega læsir á sænsku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2009 | 12:21
Viljum við framtíðarsýn?
Það var hressandi eins og oft áður að fylgjast með Silfri Egils í gær. Það var m.a. hressandi að heyra Guðmund Ólafsson tala um tækifærin sem felast í núverandi ástandi. En mest hressandi fannst mér þó viðtalið við Guðjón Má Guðjónsson frá Hugmyndaráðuneytinu, því að þar var einmitt verið að tala um það sem máli skiptir; framtíðina!
Vændishugsunarháttur?
Mér finnast Íslendingar hafa verið ótrúlega tregir til að tala um framtíðina. Það er eins og flestir telji slæmt að móta sér stefnu eða hafa einhverja framtíðarsýn, því að þá kunni maður að missa af einhverjum tækifærum. Þetta hef ég stundum kallað vændishugsunarhátt, því að hugmyndin á bak við þetta allt saman virðist vera sú að maður eigi að grípa þau færi sem gefast til stundargróða, burtséð frá því hvaða óbeina kostnað þessi gróði hafi í för með sér fyrir náttúru, samfélag eða eigin ímynd. Ég hef sem sagt oft furðað mig á því hve þjóðin hefur lítið lært á síðustu 115 árum, þ.e.a.s. síðan hún fékk þessa ábendingu frá Þorvaldi Thoroddsen:
Því miður eimir eftir sums staðar af hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður er stórskaði öldum og óbornum.
Þetta skrifaði Þorvaldur í Ferðabók IV 1894 eftir ferð um Múlasýslur.
Sjö ára gömul sannfæring
Eins og ég nefndi í bloggfærslu 2. febrúar sl., hef ég frá því í árslok 2001 verið algjörlega sannfærður, hverja einustu stund, um að Ísland geti markað sér sess sem fyrirmynd annarra þjóða á sviði sjálfbærrar þróunar, þ.e.a.s. þróunar sem tryggir jafnrétti á milli núverandi og komandi kynslóða, þróunar sem er gerð til að endast. Og enn gildir það sama og 2. febrúar, að þeir sem vilja vera slík fyrirmynd mega ekki umgangast jörðina eins og hún sé fyrirtæki í gjaldþrotaskiptum, svo vitnað sé í Herman Daly.
Hvað gerðist 2001?
Haustið 2001 var ég staddur í Stafangri í Noregi ásamt nokkrum öðrum Íslendingum. Þar sátum við norska ráðstefnu um sjálfbæra þróun, undir yfirskriftinni Synergi-21. Þarna talaði m.a. auglýsingafrömuðurinn Ingebrigt Steen Jensen. Hann hélt því fram að ekkert land í heimi ætti jafngóða möguleika og Noregur á því að verða fyrirmynd annarra í sjálfbærri þróun. Ég var hér um bil sammála þessum manni, en áttaði mig þó strax á því að líklega væri Noregur bara í öðru sæti hvað þessa möguleika varðaði, því að Ísland stæði enn betur að vígi. Ég skrifaði eitthvað um þetta í 6. tbl. Sveitarstjórnarmála 2001, eins og sjá má á vefsíðum Staðardagskrár 21 á Íslandi. Seinna hef ég nefnt þetta í þónokkrum fyrirlestrum, fyrst líklega á Staðardagskrárráðstefnu á Kirkjubæjarklaustri í mars 2003. Ég hef hins vegar aldrei fengið nein viðbrögð við þessum vangaveltum.
Glæra úr fyrirlestrinum á Kirkjubæjarklaustri í mars 2003 - margsinnis
endurnýtt síðar. (Þarna var Comis Sans letrið enn í tísku). :-)
Framtíðarsýn
Þjóð sem ætlar að vera í fararbroddi á einhverju sviði getur ekki látið sér nægja að taka því sem að höndum ber, eða með öðrum orðum að leyfa öðrum að skipuleggja framtíðina á meðan þjóðin sýslar við eitthvað annað. Til þess að geta verið í fararbroddi þarf nefnilega framtíðarsýn, nákvæmlega eins og Guðjón Már kom inn á í gær. Menn þurfa að vita hvert þeir ætla, því að annars er hætta á að þeir lendi einhvers staðar annars staðar, eins og einhver orðaði það. En þetta er ekkert auðvelt! Þetta kallar nefnilega á að menn ræði um ýmislegt sem er óþægilegt. Það þarf t.d. að ræða hvernig eigi að ganga um auðlindirnar. Til hvers á að nota orkuna? Hvernig á að stýra fiskveiðum? Með hvaða veiðarfærum á að sækja fiskinn? Á að fjárfesta í olíuvinnslu og stóriðju, eða einhverju öðru. Þjóðin þarf sem sagt að hætta að vera opin fyrir öllu - og velja í staðinn aðeins það besta, eftir bestu getu. Það þarf meira að segja stundum að þora að segja nei.
Drekasvæðið
Umræðan um olíuvinnslu á Drekasvæðinu er gott dæmi um vangaveltur sem hljóta að koma upp við mótun framtíðarsýnar fyrir Ísland. Það getur nefnilega vel verið að Kolbrún Halldórsdóttir hafi haft rétt fyrir sér þegar hún lét að því liggja að kannski ættu Íslendingar bara alls ekkert að fara út í olíuvinnslu. Kannski passar sú vinnsla ekki inn í framtíðarsýnina, því að kannski verður kjarninn í þessari framtíðarsýn einmitt sá, að Ísland ætli að verða fyrsta land í heimi sem er algjörlega óháð jarðefnaeldsneyti. Í því myndi felast að Ísland yrði sýnidæmi um það hvernig hægt sé að leysa ákveðið vandamál. Ef maður ætlar sjálfur að vera lausnin, þá er ekki endilega hagstætt að vera um leið hluti af vandamálinu! Eins og ég nefndi í bloggfærslu 4. september 2008, þá er ég reyndar ekkert viss um að ég myndi þora að leggja til friðun Drekasvæðisins ef ég væri stjórnmálamaður. En hugsanlega liggja meiri tækifæri í því fyrir Íslendinga í efnahagslegu tilliti að vinna ekki olíu heldur en í því að vinna hana. Þetta er alla vega hluti af því sem menn þurfa að þora að ræða, því að ekki dugar að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, alla vega ekki ef þjóðin vill hafa lifibrauð af því að vera fyrirmynd annarra þjóða!
Til hvers á að nota orkuna?
Það til hvers við eigum að nota orkuna er eitt allra brýnasta umræðuefnið við mótun framtíðarsýnarinnar. Ef við drífum okkur að helga auðveldustu og hagkvæmustu virkjunarkostina erlendri frumvinnslu til langs tíma, þá verður augljóslega mun erfiðara en ella að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti. Við þurfum nefnilega orku til að knýja bíla, skip og flugvélar. Og það er ekki hægt að nota sömu orkuna tvisvar. Mér finnst reyndar hálfleiðinlegt að fylgjast með þróun mála í löndunum í kringum okkur, þar sem hvert svæðið og hvert landið af öðru gerir stóra samninga við bílaframleiðendur um prófun rafbíla í þúsundatali og þróun innviða fyrir slíka bíla, á meðan hérlendir ráðherrar virðast láta sér nægja að tala fallega í ræðum um ný tækifæri í samgöngum - og láta svo taka myndir af sér undir stýri á bíl framtíðarinnar sem fluttur var inn í einu eintaki af sérstöku tilefni. Og síðan ekki söguna meir!
Fjárfestingarsamningar
Eitt af því sem þarf að ræða þegar framtíðarsýnin er mótuð, er það hvernig stjórnvöld ætla að styðja við nýsköpun. Jú jú, auðvitað er alltaf verið að ræða það. En samt finnst mér stundum að stuðningur við sprotafyrirtæki af ýmsu tagi felist aðallega í fallegu umtali og verðlaunaveitingum á tyllidögum. En á sama tíma eru gerðir fjárfestingasamningar við stórfyrirtæki í afar hefðbundnum greinum, um skattaafslætti og aðrar ívilnanir langt fram í tímann. Eru það ekki þvert á móti einmitt sprotafyrirtækin sem þurfa mest á slíkri fyrirgreiðslu að halda? Það eru jú að öllum líkindum einhver þeirra sem munu leiða okkur inn í framtíðina. Þar leynast með öðrum orðum hugmyndir sem geta skapað okkur þá sérstöðu sem getur gefið okkur forskot á aðrar þjóðir - ef við kærum okkur á annað borð eitthvað um svoleiðis. Ekki spyrja mig samt hvaða hugmyndir það verða nákvæmlega sem munu blómstra mest, okkur öllum til hagsbóta. Ef ég vissi svarið, þá væri þetta ekki nýsköpun!!!!!
Sýningargluggi nýrra tíma
Eitt af því sem Guðjón Már nefndi í Silfrinu, var að Ísland gæti orðið nokkurs konar tilraunastöð fyrir nýjar lausnir. Þarna liggur einmitt að mínu mati hinn mikli efnahagslegi ábati sem falist getur í því að verða fyrirmynd annarra þjóða. Hér er auðvitað verið að tala um tilraunastöð í jákvæðri merkingu, þ.e.a.s. að hér séu kjöraðstæður til að prófa lausnir á ýmsum sviðum, hvort sem þær snúast t.d. um að gera bíla- og fiskiskipaflotann óháðan jarðefnaeldsneyti, eða um að reka sjálfstætt hagkerfi, jafnvel með eigin gjaldmiðil. Hér er ekki verið að tala um tilraunir sem óprúttnum aðilum kann að detta í hug að gera á fávísri og fámennri þjóð sem liggur vel við höggi. Við þurfum sem sagt sjálf að velja og hafna - ekki síður hafna! Í þessu sambandi bendi ég á fyrirlestur sem Leo nokkur Christensen, atvinnumálafulltrúi á Lálandi í Danmörku, hélt á 11. landsráðstefnunni um Staðardagskrá 21, sem haldin var í Stykkishólmi í mars sl. Á einum áratug hefur Láland brotist úr því að vera fátækasta svæðið í Danmörku, með mesta atvinnuleysið, í að vera uppgangssvæði sem er með minnsta atvinnuleysið í landinu og vekur athygli víða um heim fyrir frumkvæði sitt. Þangað koma t.d. fulltrúar 200-300 erlendra sjónvarpsstöðva í tengslum við loftslagsfundinn í Kaupmannahöfn í desember nk., einmitt til að sjá hvað menn hafa verið að sýsla þarna með nýjar hugmyndir. Kjarninn í þessu endurreisnarstarfi á Lálandi er verkefnið Community Testing Facility (Lolland CTF), sem gengur einmitt út á að gera Láland að tilraunastöð eins og þeirri sem hér hefur verið lýst. Þar hafa menn búið til aðstæður sem gera fyrirtækjum kleift að taka hugmyndir sínar út úr rannsóknarstofunum og prófa þær í tiltekinn tíma við raunverulegar aðstæður. En við þorum líka að segja nei við hugmyndum sem okkur líka ekki, eins og Leo orðaði það. Hann sá auðvitað strax í hendi sér að á Íslandi væru frábær tækifæri til atvinnusköpunar í þessum anda, einmitt vegna þess hversu góðir innviðirnir eru, orkan ódýr, boðleiðirnar stuttar, menntunarstigið hátt, sveigjanleikinn mikill - o.s.frv.
Fljótsbakki framtíðarinnar
Það er hressandi að heyra í fólki sem vill horfa fram á veginn - og gerir sér grein fyrir því að það er ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálið var búið til. Eins og ég hef skrifað um nokkrum sinnum áður, þá erum við eiginlega stödd úti í fljóti, sem við duttum út í á síðasta ári. Margir virðast líta á það sem eina bjargráðið að láta draga sig aftur upp á bakkann sem við duttum af, jafnvel þó að í björgunarsveitinni sé sama fólkið og hrinti okkur út í. En tilfellið er að leiðin yfir fljótið er sú eina sem getur fært okkur betri tíma. Fortíðin er liðin, og í henni fáum við ekki þrifist lengi, jafnvel þó að okkur takist að framlengja hana eitthvað. Eina leiðin inn í betri tíma er leiðin yfir fljótið, upp á fljótsbakka framtíðarinnar. Framtíðarsýnin er leiðarvísirinn okkar þangað!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.5.2009 | 22:18
Út að hlaupa um þessar mundir
Apríl varð svolítið skrykkjótur hlaupamánuður. Missti eiginlega viku úr fyrir klaufaskap, og reyndi að bæta það upp með lengri hlaupum. Það hefur bæði kosti og galla. Það er auðvelt að ofgera sér ef maður hlustar ekki á líkamann. En þetta slapp nú allt saman og mér tókst að ná 200 kílómetra mánuði, sem er reyndar sjaldgæft í hlaupasögu minni. Ég er nefnilega ekki einn af þeim sem hlaupa hvað mest. Í afar samviskusamlegu hlaupabókhaldi mínu síðustu 24 ár er bara að finna 4 mánuði lengri en nýliðinn aprílmánuð. Lengst fór ég í febrúar 2008, 249 km, en næstlengst í júlí 1996, 238 km.
Þetta með hlaupavegalengdir er mjög afstætt. Eftir því sem næst verður komist lagði a.m.k. 101 Íslendingur meira en 200 km að baki á hlaupum í apríl. Fyrir marga þeirra er þetta helst til lítill mánaðarskammtur, en fyrir flesta aðra líklega nánast óhugsandi. Þetta er einmitt einn af stóru kostunum við hlaupin. Þar geta hér um bil allir verið með - á eigin forsendum. Þetta snýst allt um að setja sér markmið, og ná því, til að geta sett sér nýtt markmið. Næsta markmið getur verið að hlaupa í eina mínútu án hvíldar, eða hlaupa 50 maraþon á 50 dögum, eða eitthvað þar á milli. Glíma við hófleg markmið við eigin hæfi er ekki bara holl, heldur lykillinn að framförum, ekki bara á hlaupum, heldur líka í öðrum hlutum lífsins. Og alls staðar gildir, að verðlaunin fyrir að ná markmiðinu felast í að hafa náð því. Það gefur gleði, sem maður á ekki aðgang að í sama mæli láti maður bara reka án þess að ætla sér eitthvað sérstakt.
Nú styttist í fjallvegahlaupavertíðina, bara tæpar 3 vikur í fyrsta hlaup, Svínaskarð milli Mosfellsdals og Kjósar. Til þess að mér líði þokkalega vel á þeirri leið þarf ég að þétta æfingarnar dálítið næstu vikur. Hef yfirleitt hlaupið þrisvar í viku síðan í vetrarbyrjun, en nú eru 4 æfingar algjört lágmark. Þetta á nefnilega að vera gaman, en það er það ekki nema líkaminn sé í því standi sem hugurinn ætlar honum.
Ég hef aðeins verið að gæla við þá hugmynd að fara í Mývatnsmaraþonið 30. maí. Finnst ég þurfa að hlaupa maraþon annað slagið til að fá staðfestingu á ástandinu. Þetta snýst líka um félagslega þætti, að hitta aðra sem eru að fást við eitthvað svipað, að upplifa stemmingu og gefa og þiggja dálitla aukaskammta af gleði, þó að gleðin leynist nú svo sem við hvert fótmál hversdagsins.
Sjáum til með Mývatn. Fyrst er að styrkja sig aðeins betur - og svo er það Svínaskarð. Veit um a.m.k. tvo sem ætla með. Vonast eftir fleirum. Skrifa meira um þetta fljótlega........
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.5.2009 | 16:57
Gleymdi þessum kínalífselexír
Æ, ég gleymdi þessum kínalífselexír þegar ég skrifaði um töfralausnir um daginn. Hefði átt að hafa hydroxycut með á listanum, af því að þetta er svo nýleg allrameinabót. Fréttin um hugsanlega skaðsemi er hins vegar engin stórfrétt, því að fleiri slíkar hafa heyrst. Ekkert vil ég samt fullyrða um skaðsemina, heldur bara minna á að sýna varúð, ekki síst þegar eigin líkami á í hlut.
Í tilefni af þessu á ég tvö góð ráð til handa lesendum:
- Borðið venjulegan íslenskan mat, helst sem minnst unninn og hættið að trúa á töfralausnir í töflu- eða duftformi.
- Ekki fá ykkur hydroxycut. Fáið ykkur heldur venjulegan kött.
Varað við hydroxycut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt