Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Fjallvegahlaup á Vestfjörðum

Í næstu viku ætla ég að skokka yfir nokkra fjallvegi vestur á fjörðum. Dagskrá vikunnar lítur svona út:

  • Sunnud. 19. júlí (kl. 11.30): Vesturgatan, úr Arnarfirði til Dýrafjarðar, 24 km (Almenningshlaup)
  • Þriðjud 21. júlí (kl. 14.00): Þingmannaheiði, milli Skálmarfjarðar og Vatnsfjarðar, 23 km
  • Fimmtud. 23. júlí (kl. 14.00): Miðvörðuheiði, frá Haga á Barðaströnd til Tálknafjarðar, 20 km
  • Föstud. 24. júlí (kl. 10.00): Selárdalsheiði, frá Tálknafirði til Selárdals í Arnarfirði, a.m.k. 17 km

Þessi törn hefst sem sagt á Vesturgötunni á sunnudag, (sjá www.vesturgatan.net). Þar stefnir allt í mikla þátttöku, en síðast þegar ég vissi voru um 80 hlauparar búnir að forskrá sig til að hlaupa alla leiðina. Mánudagurinn verður hvíldardagur hjá mér, en svo er það Þingmannaheiðin á þriðjudag. Reikna með að leggja af stað af eiðinu milli Skálmarfjarðar og Kerlingarfjarðar kl. 14.00 þennan dag. Heiðin er líklega um 23 km, þannig að sjálfsagt gæti skokkið tekið allt að 3 klst. Endamarkið er í Vatnsfirði skammt sunnan við Flókalund.

Svo er stefnan sett á Miðvörðuheiði á fimmtudag. Þá verður lagt upp frá Haga á Barðaströnd kl. 14.00 og endað við Hjallatún í Tálknafirði, svo sem tveimur og hálfum tíma síðar. Þetta eru líklega um 20 km og hækkunin hátt í 500 m.

Loks er það Selárdalsheiði á föstudag. Reikna með að leggja upp frá Sellátrum í Tálknafirði kl. 10.00 og enda við kirkju Samúels Jónssonar í Brautarholti í Selárdal í Arnarfirði. 

Ég er búinn að setja dálitlar grunnupplýsingar um Þingmannaheiðina og Miðvörðuheiðina inn á fjallvegahlaupasíðuna, www.fjallvegahlaup.is. Sérstaklega hafði ég gaman af sögu af Miðvörðuheiðinni, sem Brynjólfur Gíslason, fyrrum sveitarstjóri á Tálknafirði, gaukaði að mér. Ég hef hins vegar ekki enn gefið mér tíma til að kynna mér Selárdalsheiðina að neinu marki. Er samt búinn að setja fyrstu drög að leiðarlýsingu inn á fjallvegahlaup.is.

Vonandi fæ ég góðan félagsskap á sem flestum þessara leiða. Nokkrir hafa lýst áhuga á einhverjum heiðanna, en ég er ekki búinn að taka saman neinn "þátttakendalista" enn sem komið er. Því fleiri sem koma, því skemmtilegra. Auðvitað getur hver sem er bara mætt á staðinn og verið með, en gaman væri samt að frétta af því fyrirfram, t.d. símleiðis (862 0538) eða í tölvupósti (stefan[hjá]umis.is). En hver sá sem lætur tilleiðast að taka þátt í svona hlaupi gerir það náttúrulega á eigin ábyrgð.

Sjáumst á Vestfjörðum.
Smile


Myndir frá Akureyrarmaraþoni

Mér datt í hug að setja hérna inn nokkrar myndir sem Valtýr Hreiðarsson tók af Akureyrarmaraþoninu um síðustu helgi. Fékk þessar myndir að láni hjá Eyrarskokkurum, en þau voru öflugur hluti af öflugum hópi sjálfboðaliða sem gerði þennan hlaupaviðburð að jafn frábærri upplifun og hann var. Hægt er að sjá þessar myndir og margar fleiri á bloggsíðunni þeirra, http://eyrarskokk.blog.is/album/landsmotshlaup_2009. Takk Eyrarskokkarar og allir aðrir sem lögðu hönd á plóg. Mér finnst ástæða til að ítreka það sérstaklega að öll skipulagning hlaupsins og framkvæmd var Akureyringum til mikils sóma. Keppnisgögnum fylgdu afar greinargóðar upplýsingar um leiðina, staðsetningu drykkjarstöðva o.m.fl. Tímasetningar stóðust fullkomlega, starfsfólk á drykkjarstöðvum var afar alúðlegt og hjálpsamt og brautin var frábær. Smávægilegar brekkur breyta þar engu um. Og ekki spillti veðrið fyrir. Sjaldan hittir maður á betra veður í maraþoni. Sem sagt: Algjörlega frábært!!!

startweb
Við rásmarkið í Akureyrarmaraþoninu kl. 9.00 að morgni 11. júlí 2009. Þarna er ég sjálfur náttúrulega (í gulum bol) og mér á hægri hönd eru hjónin Ingibjörg og Alli úr Grafarvoginum (í hvítum bolum), en þau drógu mig áfram rúmlega hálfa leið.

Vaglirweb
Þarna er tekið vel á móti Alla og Ingibjörgu við drykkjarstöðina við Vaglir, 33,3 km að baki. Vinstra megin á myndinni er baksvipur Petreu Óskar Sigurðardóttur, en hinn baksvipinn þekki ég því miður ekki.

Torgweb
Drykkjarstöðin á Ráðhústorginu. Þarna var gott að koma, sérstaklega í seinni hringnum, því að þá voru bara rúmir 2 km eftir. :)

markweb
Það var ekki leiðinlegt að enda maraþonið á þessum glæsilega íþróttaleikvangi. "Mark" er fallegt orð þegar maður er búinn að hlaupa rúma 42 km. Sólin skein og Hvítbláinn blakti. :)

Verðlaunweb
Varð að skella þessari með, þó að hún sé keimlík annarri mynd með síðustu færslu. Þetta eru hinir aldurhnignu Borgfirðingar Gautur, Stefán og Ingimundur. Ef maður er ekki ánægður með sjálfan sig, hver ætti þá að vera það? :)


Maraþonblogg

Um helgina brá ég mér til Akureyrar til að taka þátt í maraþonhlaupinu sem þar var haldið í tengslum við 26. Landsmót UMFÍ. Í stuttu máli gekk þetta allt eins og best verður á kosið, bæði hvað árangur og veður varðar. En til að gera stutta sögu langa, ætla ég að segja svolítið meira frá þessu skemmtilega hlaupi. Þetta er sem sagt maraþonblogg!

Ég tók daginn frekar snemma þennan laugardagsmorgun, var kominn fram í minn hefðbundna morgunmat fyrir klukkan hálfsjö, AB-mjólk með miklu af lífrænt vottuðu múslíi. Vaknaði reyndar næsta saddur, því að rétt fyrir kl. 11 kvöldið áður hafði ég staflað í mig miklu af steiktri bleikju og fersku salati á Bautanum í góðum félagsskap þeirra Gunnlaugs Júlíussonar ofurhlaupara og Ingimundar Grétarssonar, hlaupafélaga míns úr Borgarnesi og aðstoðarmanns Gunnlaugs í hlaupinu mikla frá Reykjavík til Akureyrar, sem lokið hafði fyrr um kvöldið með því að Gunnlaugur hljóp léttur í spori inn í setningarathöfn landsmótsins. Ég held að bleikja og ferskt salat sé ákaflega góð undirstaða fyrir maraþonhlaup, enda get ég sagt eins og Jónas Ólafsson, fyrrum kollegi minn á Þingeyri, sagði einu sinni við kvöldverðarborðið á Hótel Ísafirði: "Ég er nú frekar lítið fyrir pasta".

Einhvern tímann fyrir klukkan hálfníu var ég mættur á hinn nýja og glæsilega íþróttaleikvang á Þórssvæðinu, en þar átti hlaupið að hefjast kl. 9.00. Þarna var lítið hitað upp, en meira spjallað. Veðrið var eins og best verður á kosið, hægur vindur, glaðasólskin og hitinn eitthvað um 13 gráður, hækkandi. Hlaupið lagðist vel í mig. Áætlunin hljóðaði upp á að hlaupa fyrsta spölinn á u.þ.b. 4:50 mín hvern kílómetra og sjá til hversu lengi ég héldi það út. Þessi hraði skilar manni í mark á 3:24 klst., sem var nokkurn veginn í takti við mína villtustu drauma. Draumurinn var samt sá að komast niður fyrir 3:30 klst., en hið "opinbera" markmið var að bæta fyrri árangur, þ.e.a.s. 3:33:00 klst. frá því í Róm í fyrravor. Varamarkmiðið var að hlaupa á skemmri tíma en 3:40 klst., en mér hefði þótt erfitt að sætta mig við lakari tíma en það. Taldi mig enda vera í ágætu standi.

Og svo var hlaupið af stað. Í svona veðri er varla hægt annað en vera léttur í spori - og það fannst mér ég líka vera. Hélt mig framarlega í hópnum og eftir fyrsta kílómetrann sýndi klukkan eitthvað rétt rúmlega 4:30 mín. Ég tók svo sem ekkert mark á þeim tíma, enda fara fyrstu 2-3 kílómetrarnir yfirleitt bara í að finna taktinn. Millitíminn eftir 5 km var hins vegar 23:13 mín, eða 4:39 mín/km. Þetta var nú töluvert meiri hraði en ég hafði ætlað mér, en meðan manni líður vel er ástæðulaust að breyta til. Ég hélt því bara mínu striki, enda nóg af hlaupurum í kringum mig til að skapa hvatningu.

Hlaupaleiðin lá fyrst um Oddeyrina og síðan inn með Pollinum, alveg inn að Skautahöll. Þar var snúið við og hlaupið til baka í gegnum miðbæinn. Á Ráðhústorginu voru 7,8 km að baki, og þar var drykkjarstöð nr. 2. Ég hafði skipulagt vatns- og gelmálin eftir bestu getu fyrir hlaupið. Þetta skipulag gekk út á að taka ekkert vatn með, enda finnst mér hver vatnsbrúsi þyngja mig örlítið, enda eigin líkamsþyngd svo sem ekki á við gríðarlega marga svoleiðis brúsa. Þetta þorði ég að gera vegna þess að drykkjarstöðvarnar voru þéttar og vel kynntar í keppnisgögnunum. Ég hafði 6 bréf af geli meðferðis, ætlaði að innbyrða innihaldið úr 5 þeirra og eiga það sjötta til vara. Fyrsta gelið gleypti ég sem sagt þarna á Ráðhústorginu.

Eftir Ráðhústorgið lá leiðin aftur út Glerárgötuna og síðan niður Tryggvagötu og annan hring um Oddeyrina. Á Tryggvagötunni, eða kannski fyrr, var ég kominn í góðan félagsskap hjóna úr Grafarvoginum, þeirra Ingibjargar Kjartansdóttur og Aðalsteins Snorrasonar. Þau áttu eftir að reynast mér einkar þægilegir ferðafélagar. Ekki einasta héldu þau jöfnum og góðum hraða sem hentaði mér einkar vel, var sem sagt aðeins meiri en ég hafði þorað að reikna með, heldur voru þau líka jákvæð og viðræðugóð, eins og fólk þarf náttúrulega að vera í svona hlaupum til þess að njóta dagsins. Þessi samfylgd átti eftir að endast næstu 15-20 kílómetra.

Fyrr en varði voru 10 km að baki og ekki nema 46:47 mínútur liðnar af hlaupinu. Örlítið hafði hraðinn minnkað, en meðalhraðinn var þó enn 4:40 mín/km. Svona til samanburðar var millitíminn eftir 10 km í hraðasta maraþoninu mínu hingað til, í Róm í fyrravor, 51:31 mín. Með sama áframhaldi stefndi því í góða bætingu, jafnvel þótt eitthvað myndi draga af mér þegar á liði hlaupið. Reyndar bægði ég öllum svona vangaveltum frá mér og einbeitti mér að gleðinni, góða veðrinu og þessum góða félagsskap.

Þegar við komum aftur inn að Skautahöll voru 12,7 km að baki. Þar hafði ég ætlað að gleypa gel nr. 2, en einhvern veginn tókst mér að gleyma því. Líklega hefur mér einfaldlega liðið of vel til að ég myndi eftir gelinu. Hins vegar gerði ég vatninu góð skil. Reyndi að ná tveimur vatnsglösum á öllum drykkjarstöðvum, enda skein sólin glatt og hitinn fór greinilega hækkandi. Mér fannst hitastigið samt alls ekki til trafala, nema síður væri. En ég fann að ég svitnaði óvenju mikið, og þá er eins gott að muna eftir vökvanum.

Eftir að ég uppgötvaði þetta með gleymda gelið, hafði ég svolitlar áhyggjur um stund. En þar sem ég hafði ekkert vatn meðferðis, og það gefst ekki vel að gleypa í sig gel og drekka ekkert með því, var ekki um annað að ræða en að bíða fram að næstu drykkjarstöð og laga gelskipulagið að þessari gleymsku að öðru leyti. Reyndar þurfti ég ekki lengi að bíða, því að næsta drykkjarstöð var við Vaglir í Eyjafjarðarsveit. Þar voru 17 km að baki. Millitíminn á 15 km hafði verið 1:10:11 klst., og meðalhraðinn því kominn niður í 4:41 mín/km, sem sagt allt í stakasta lagi og meira en það. Ég var að vísu aðeins farinn að velta fyrir mér hvort ég hefði ekki verið heldur spar á sólaráburðinn um morguninn, en áhyggjur hafa sjaldnast komið nokkrum að gagni.

Næstu kílómetrana var lítið gefið eftir. Millitíminn eftir 20 km var 1:33:56 klst., og hálfa maraþonið kláraðist á 1:39:08 klst. Ég hef nú nokkrum sinnuð lokið hálfu maraþoni á lakari tíma en það, enda var ég þarna kominn með rúmlega 7 mínútna forskot miðað við Rómarmaraþonið í fyrra. Meðalhraðinn þegar þarna var komið sögu var 4:42 mín/km, og með sama áframhaldi hefði hlaupið klárast á 3:20 klst. eða þar um bil. En ég hélt væntingunum í skefjum, enda góður spölur eftir.

Rétt "sunnan við hálfa maraþonið", nánar tiltekið við syðri afleggjarann að Kristnesi, var enn ein drykkjarstöðin. Þar gleypti ég gel nr. 3, og þar með var geláætlunin komin í þokkalega réttar skorður. Drykkjarstöðvar í maraþonhlaupum eru mér alltaf svolítið eins og vinjar í eyðimörk, sem sagt eitthvað til að hlakka til. Ég verð alltaf heldur meir þegar líður á svona löng hlaup, og þá gefa jafnvel hógværustu hvatningarorð mér nýjan kraft til dáða. Í þessu hlaupi fannst mér líka sérlega notalegt að sjá akureyrskum Eyrarskokkurum, svo sem Fríðu, Val og fleirum, bregða fyrir á drykkjarstöðvum og annars staðar við brautina. Ég hef átt nokkrar góðar laugardagsmorgunstundir með þessu fólki síðustu tvo vetur þegar ég hef verið staddur nyrðra, og í framhaldinu hafa gefist fleiri tækifæri til að hlaupa saman annars staðar á landinu. Langhlaup eru nefnilega ekki nærri eins einmanalegt áhugamál og sumir kunna að halda.

Þegar drykkjarstöðinni við Kristnes sleppti tók ný tilhlökkun við, því að við 25 km markið við Stokkahlaðir var kominn tími á að snúa við og hlaupa aftur út á Akureyri. Það er nú kannski of snemmt að tala um endasprett þegar maður á rúma 17 km eftir, en samt er alltaf einhvern veginn betra að vera á "heimleið", eða vera kominn á "beinu brautina".

Alllöngu áður en ég kom að snúningspunktinum birtust fyrstu hlaupararnir í hinum vegkantinum. Um leið gafst færi á að gera manntal til að átta sig á hvar maður væri í röðinni. Áður en að punktinum kom, var ég búinn að mæta 8 manns, var sem sagt í 9. sæti sjálfur. Var vel sáttur við það. Annars skiptir svo sem engu máli í hvaða sæti maður lendir í svona hlaupi, því að eini keppinauturinn er jú maður sjálfur og fyrri árangur. Tíminn eftir 25 km var 1:58:17 klst. og meðalhraðinn kominn niður í 4:44 mín/km. Skömmu eftir snúninginn datt ég reyndar niður í 10. sæti við það að Halldór Arinbjarnarson skaust fram úr mér. Samfylgdinni við Ingibjörgu og Aðalstein var því miður lokið, en ég man reyndar ekki hvort þau voru á undan mér eða á eftir á þessum tímapunkti.

Ég hafði ekki hlaupið lengi eftir "beinu brautinni" þegar ég mætti Ingimundi hlaupafélaga. Hafði varla búist við honum svona fljótt, því að bæði hafði ég sjálfur haldið talsvert meiri hraða en ég reiknaði með, og eins kom hann jú beint frá því að fylgja Gunnlaugi alla vikuna í hlaupinu mikla, en fylgdin fól meðal annars í sér að hlaupa með Gunnlaugi fyrsta spölinn á hverjum einasta morgni. Vikuskammturinn hjá Ingimundi var þannig kominn í 55 km áður en maraþonið var ræst, sem er mun meiri vegalengd en almennt er mælt með síðustu vikuna fyrir keppni. Nokkru síðar mætti ég Gunnlaugi sjálfum, léttum í spori að vanda og glaðlegum. Það var ekki að sjá að maðurinn væri nýkominn hlaupandi frá Reykjavík!

Ég held að við höfum ekki haft neinn meðvind að gagni á fyrri hluta hlaupsins, en eftir snúninginn við Stokkahlaðir var golan greinilega í fangið. Klukkan var jú orðin 11 og ekki óalgengt að hann bresti á með innlögn þegar kemur fram undir hádegi á hlýjum sumardögum. Ég hef það reyndar fyrir satt að það sé ekkert erfiðara að hlaupa í mótvindi, en það er þó alla vega ívið seinlegra. Þetta sá ég greinilega við 30 km markið, en þar sýndi klukkan 2:24:00 klst. Síðustu 5 km voru mun hægari en þeir fyrri. Meðalhraðinn á þeim var bara 5:09 mín/km, en meðalhraðinn í heildina 4:48 mín/km. Þetta var sem sagt farið að nálgast upphaflegu áætlunina upp á 4:50 mín/km, en ég velti því ekki svo mikið fyrir mér.

Við drykkjarstöðina við Kristnes (við 29 km) hafði ég gleypt gel nr. 4 - koffínbætt. Hvort sem það var því að þakka eða einhverju öðru efldist ég allur eftir að 30 km voru að baki. Var reyndar hættur að fylgjast með hraðanum og hljóp bara eins hratt og mér fannst þægilegt. Á þessum kafla náði ég smátt og smátt hverjum hlauparanum á fætur öðrum. Eftir 35 km var tíminn 2:48:49 mín og meðalhraðinn frá upphafi 4:49 mín/km.

Við Skautahöllina voru búnir 37,7 km. Þar tók ég síðasta gelið og einbeitti mér að því að hugsa um hvað þessir 4,5 km sem eftir væru í markið væru í raun ótrúlega stutt vegalengd, eiginlega svo stutt að svona dags daglega þætti manni ekki taka því að fara út að hlaupa hana. Auðvitað var þreytan farin að segja eitthvað til sín í fótunum, en á móti kom að ég vissi að það yrði gaman að koma í mark, og góð bæting lá í loftinu þó að enn gæti margt gerst. Var líka nýbúinn að hlaupa mig upp í 6. sæti, þ.e.a.s. ef ég hafði ekki ruglast í talningunni. Ég tel mig nefnilega hafa tekið eftir því að greindarvísitala mín lækkar þegar líður á svona löng hlaup. Ætli þetta virki ekki svipað og samdráttur í heilbrigðiskerfinu, einhvers staðar situr einhver yfirstjórn og ákveður að loka deildum í heilanum til að hægt sé að halda öllum helstu hlaupadeildunum gangandi (já, eða hlaupandi).

Næsta tilhlökkunarefni var að hlaupa eftir göngugötunni. Þar sá ég fyrir mér ótrúlegan fólksfjölda sem myndi fagna mér gríðarlega þegar ég kæmi yfir göt-huna hjá Baut-hanum. Þarna stóð reyndar Valur Þór Hilmarsson og kallaði til mín nokkur vel valin hróss- og hvatningarorð. Það var einkar hressandi á þessum tímapunkti, en fólkið í göngugötunni var færra og fálátara en ég hafði látið mig dreyma um. Reyndar grunar mig að þarna hafi lokun heilastöðva einnig slævt upplifunina.

Á Ráðhústorginu varð ég fyrir pínulitlu óhappi. Náði nefnilega ekki að ramba alveg rétta leið út af torginu, og allt í einu var þessi fíni bekkur búinn að taka sér stöðu fyrir framan tærnar á mér. Ég sá engan annan kost í stöðunni en að stíga upp á bekkinn, hvað ég og gerði. Fékk fyrir vikið krampa aftan í annað lærið, en tókst að losna við hann með því að ganga rólega nokkur skref. Um þessar mundir var ég rétt í þann mund að ná enn einum hlauparanum. Komst fram úr honum eftir að krampinn leið hjá. Þarna voru 40 km að baki og klukkan sýndi 3:14:08 klst. Reiknistöðin í heilanum var sett í samband í smástund, og um leið varð ég býsna viss um að lokatíminn yrði alla vega ekki lakari en 3:27 klst. Það gat bara ekki verið að ég yrði meira en 13 mínútur að skrölta þessa 2,2 km sem voru eftir í markið.

Leiðin út Glerárgötuna var erfið. Þar var fólk á gangi, og einhvern veginn fannst mér að ég hlyti að hlaupa á það. En ekkert slíkt gerðist, og þrátt fyrir allt bendir flest til að ég hafi hlaupið þessa síðustu kílómetra á svo sem 5:10 mín. hvorn um sig. Þeir sem leggjast yfir allar þær tölur sem ég hef tínt til í þessum pistli, gætu reyndar fengið örlítið aðra niðurstöðu, en það helgast af því að allir millitímar eru miðaðir við vegalengdarmælinguna í gps-úrinu mínu ("Garminum"), en viku í reynd um 0,3% frá hinni löggiltu mælingu hlaupsins. Hlaupið mældist þannig 42,33 km, en var í reynd 42,2 km eins og gerist og gengur með maraþonhlaup. (Þeir sem ekki eru tölfræðinördar geta svo sem sleppt því að lesa þessar upplýsingar).

Síðasti spölurinn lá upp Höfðahlíð. Þar er dálítil brekka, sem tók vissulega í, en ég gat nú samt hlaupið hana svona þokkalega. Og allt í einu var ég kominn inn á leikvanginn. Þar stóðu Halli bróðir og Bára við hliðið. Það var gott að sjá þau, og síðustu sporin urðu örlítið léttari fyrir vikið. Einhvers staðar á brautinni hljóp ég líklega fram úr sigurvegaranum í kvennaflokki, sem lenti í hremmingum þarna í blálokin. En ég tók ekkert eftir því. Endamarkið var í beygjunni norðanvert á vellinum. Þangað var ég allt í einu kominn, og þegar ég stöðvaði klukkuna sýndi hún 3:25:58 klst. Sjö mínútna bæting var staðreynd, ég líklega í 4. sæti af öllum hlaupurunum - og hreinlega í 7. himni. Var býsna lerkaður fyrstu mínúturnar, en gat þó bæði sest niður og staðið upp aftur, en það finnst mér ágætur mælikvarði á ástand mitt eftir maraþonhlaup.

Fyrsti klukkutíminn eftir hlaupið fór í að njóta góða veðursins og þess að vera til, tala við alla sem ég sá og þekkti hið minnsta - og bara svona almennt talað að velta mér upp úr sigurvímunni, þó að ég hefði svo sem ekki sigrað neitt nema sjálfan mig. Jú, reyndar kom í ljós seinna um daginn, sem mig grunaði reyndar strax, að ég hafði komið í markið fyrstur fimmtugra karla (50-59 ára). Ingimundur skilaði sér í markið skömmu síðar og náði þar með 3. sæti í þessum sama aldursflokki, auk þess sem hann bætti tímann sinn ágætlega, var á tæplega 3:33 klst. þrátt fyrir öll hlaupin dagana á undan.

Ég held að þessi frásögn sé orðin næstum nógu löng. Það er lán að ég tek ekki oft þátt í maraþonhlaupum, því að þá myndi Internetið sjálfsagt fyllast fyrr en varir af maraþonpistlum. Þetta var nánar tiltekið bara 5. maraþonhlaupið mitt á 40 ára ferli sem hlaupara. Það fyrsta þreytti ég ungur að árum sumarið 1996, en heldur hefur þetta ágerst allra síðustu ár.

Fyrst talið berst að atburðum síðustu aldar, þá vill svo skemmtilega til að þennan bjarta og fagra maraþondag voru liðin nákvæmlega 34 ár frá því að ég keppti fyrst á landsmóti. Það var á Akranesi 11. júlí 1975. Keppnisgreinin var 5.000 m. hlaup, og meðal keppenda var Jón heitinn Sigurðsson frá Úthlíð, sem Gunnlaugur minntist einmitt með hlaupinu mikla frá Reykjavík til Akureyrar, auk þess sem hann var að vekja athygli á þörf Grensásdeildarinnar fyrir bætta aðstöðu. Jón var mikill keppnismaður. Hann datt illa í þessu tiltekna hlaupi á Akranesi, en áður en yfir lauk var hann búinn að ná mér og öllum hinum hlaupurunum aftur, nema Jóni Diðrikssyni, sem var ósigrandi á þessari vegalengd á þessum árum.

Lýkur hér að segja frá skemmtilegu maraþoni á Akureyri 11. júlí 2009. Eftir standa góðar minningar, pínulítill stirðleiki í fótum og mikið þakklæti til allra sem gerðu þetta að eins skemmtilegum viðburði og raun ber vitni.

Myndina tók Fríða (Arnfríður Kjartansdóttir) af okkur verðlaunahöfunum í flokki 50-59 ára í maraþoninu. F.v.: Gautur Þorsteinsson (2. sæti, 3:28 klst), ég sjálfur (1. sæti, 3:26 klst) og Ingimundur Grétarsson (3. sæti, 3:33 klst). Tímarnir eru birtir með fyrirvara, því að endanlegir tímar eru ekki komnir. Samtals luku 14 karlar á þessum aldri hlaupinu.
0710 023webs


Gaman að fylgjast með Gunnlaugi

Gunnlaugi Júlíussyni miðar vel á leið sinni til Akureyrar, en þangað lagði hann af stað hlaupandi frá Reykjavík sl. sunnudag. Í þessum skrifuðu orðum er hann staddur í Vesturhópinu, nýkominn yfir Víðidalsá. Stefnan er norðnorðaustur og hraðinn 13 km/klst. Þessar upplýsingar eru fengnar af http://depill.is/LiveTracking.aspx?alias=umfi, en þar er hægt að fylgjast með ferðum Gunnlaugs allan daginn. Og svo er bara að leggja inn á söfnunarreikninginn fyrir Grensásdeildina;
0130-26-9981, kt: 660269-5929.

Myndin hér að neðan er tekin af depill.is rétt í þessu:
Depill


Styrkjum Grensásdeildina

Ef einhver málstaður er nógu góður til að maður leggi á sig að hlaupa frá Reykjavík til Akureyrar hans vegna, þá er hann örugglega nógu góður til að maður láti nokkrar krónur af hendi rakna. Ég hvet alla til að leggja Grensásdeildinni lið með því að leggja svolitla upphæð inn á reikning 0130-26-9981, kt: 660269-5929. Öll framlög koma í góðar þarfir við að bæta aðbúnað á deildinni.

Ég var svo heppinn að eiga þess kost að fylgja Gunnlaugi síðastu 10 kílómetrana (af 68) í dag, nánar tiltekið frá Kattarhryggsgili í Norðurárdal upp að brúnni yfir Norðurá í heiðarsporði Holtavörðuheiðar. Þetta ferðalag tók rúman klukkutíma og var á allan hátt hið skemmtilegasta. Ekki einasta lék veðrið við hvern sinn fingur, heldur er Gunnlaugur endalaus uppspretta af fróðleik, hvort sem talið berst að næringu ofurhlaupara, vandasömum viðfangsefnum í þjóðhagslegu samhengi eða einhverju allt öðru. Sömuleiðis var það einkar uppörvandi og gott fyrir sálina að sjá öll vingjarnlegu brosin og kveðjurnar sem bárust út um bílglugga þeirra sem áttu leið suður yfir Holtavörðuheiði seinni partinn í dag. Það er því full ástæða til að láta ekki peningaframlagið duga, heldur fylgjast líka með ferðum Gunnlaugs á vef Ungmennafélags Íslands og slást í för með honum einhvern hluta af einhverri dagleiðinni.

Myndin hér að neðan var tekin skammt ofan við Fornahvamm, nánar tiltekið við Búrfellsá (ef mér skjátlast ekki) kl. 16.49 í dag.

Gunnl 008web


mbl.is Gunnlaugur á Holtavörðuheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjuhlaup til Hólmavíkur

Hamingjuhlaupið frá Drangsnesi til Hólmavíkur í gær (laugardag) var skemmtileg upplifun sem gekk eins og best verður á kosið. Ég var mjög hamingjusamur áður en hlaupið hófst, en enn hamingjusamari að því loknu. Þar með var tilganginum náð. Í þessari bloggfærslu verður sagt frá þessu hlaupi í löngu máli - og ekkert dregið undan.

Með góðri aðstoð bílstjóranna Bjarkar og Smára vorum við hlaupararnir komin á Drangsnes um 10-leytið á laugardagsmorgninum. Hittum þar fyrir heiðurshjónin Óskar Torfason, hreppsnefndarmann og framkvæmdastjóra Fiskvinnslunnar Drangs, og Guðbjörgu Hauksdóttur, bekkjarsystur mína frá Reykjaskóla. Óskar afhenti mér skilaboð Drangsnesinga til Hólmavíkinga, og eftir myndatöku við fiskvinnsluhús Drangs var okkur ekkert að vanbúnaði að leggja af stað.

Hamingja09 002web
Hamingjuhlauparar við fiskvinnsluhús Drangs á Drangsnesi. F.v.: Arnfríður,
Birkir, Guðmann, Ingimundur, Stefán, Þorkell og Eysteinn. (Ljósm. Björk
)

Hamingja09 005web
Áður en lagt var í hann afhenti Óskar Torfason mér skilaboð
Drangsnesinga til Hólmvíkinga. (Ljósm. Björk)

Klukkan 10:11 lögðum við af stað hlaupandi frá bryggjunni á Drangsnesi 7 saman. Það hafði sem sagt ræst verulega úr þátttökunni síðan hlaupið kom fyrst til tals fyrir nokkrum vikum síðan. Með mér í för voru þau Arnfríður Kjartansdóttir (Fríða) sálfræðingur á Akureyri, Birkir Stefánsson bóndi í Tröllatungu, Eysteinn Einarsson verkfræðingur frá Broddanesi, Guðmann Elísson stórhlaupari í Reykjavík, Ingimundur Grétarsson hlaupafélagi í Borgarnesi og Þorkell Stefánsson frumburðurinn minn. Þetta var ekki einasta góður félagsskapur, heldur líka hópur af reyndum hlaupurum. Þannig telst mér til að þetta fólk hafi samtals lokið 27 maraþonhlaupum. Birkir, Fríða, Guðmann og Ingimundur hafa líka öll fylgt mér í tveimur eða fleiri fjallvegahlaupum.

Fyrir hlaupið hafði ég sett fram allnákvæma áætlun sem miðaðist við það að vegalengdin öll væri 34,5 km og að við myndum halda meðalhraðanum 10 km/klst. alla leiðina. Reyndar vorum við strax orðin 3 mínútum á eftir áætlun þegar lagt var af stað, en það mátti nú teljast innan skekkjumarka. Hlaupið fór vel af stað, enda allir vel stemmdir og veðrið eins og best verður á kosið; hægur norðvestlægur vindur, skýjað og svo sem 13 stiga hiti. Ég gat ekki betur séð en við værum bara býsna sporlétt. Ekki var margt um manninn á Drangsnesi, en þó var alla vega ein kona úti á svölum sem veifaði til okkar og hvatti okkur áfram.

Hamingja09 011web
Við gömlu sundlaugina í fjörunni í Hveravík. Allir léttir í spori.

Fyrsta áfanga hlaupsins lauk fyrir neðan bæinn í Hveravík. Þar voru 6,5 km að baki og tíminn 37:13 mín, sem var vel á undan áætlun. Fram að þessu höfðum við öll haldið hópinn, en eftir þetta tók Þorkell að síga framúr, hvattur áfram af fjölmörgum kríum sem fylgdust áhyggjufullar með ferðum okkar. Hann hélt svo forskotinu alla leið, þó að hann hefði aldrei áður hlaupið meira en 21 km (hálft maraþon) í einu lagi.

Hamingja09 014web
Á leið inn Selströnd. Hella framundan. Hér hafði Þorkell náð góðu forskoti, en
sést þó enn sem rauður punktur á veginum.

Hamingja09 018web
Strandamennirnir Birkir og Eysteinn á fleygiferð innan við Sandnes.

Ferðin inn Selströnd var tíðindalítil, en að sama skapi skemmtileg, því að um nóg var að spjalla. Ég reyndi m.a. að miðla einhverjum molum um jarðlagahallann á svæðinu, uppvöxt tengdapabba á Kleifum og þar fram eftir götunum. Eins var farið yfir ýmislegt sem hlaupafélagarnir voru að fást við, bæði á hlaupum og í öðrum hlutum lífsins. Og veðrið hélt áfram að leika við okkur. Fyrr en varði vorum við komin inn að vegamótunum við Hálsgötugil, þar sem vegurinn liggur upp Bjarnarfjarðarháls. Sú brekka fær að bíða betri tíma, en þarna hitti ég fyrir Hörpu frænku í Borgarnesi og Ragnheiði móður hennar. Það er alltaf gott að rekast á fólk sem maður þekkir á svona ferðalögum.

Við Hálsgötugil áttu samkvæmt áætlun að vera 15,5 km að baki, en reyndust bara 15,26 skv. GPS-mælingu. Þarna var sem sagt komin upp smávægileg skekkja, sem átti eftir að haldast alla leið, án þess að það hafi nú skipt meginmáli. Alla vega var klukkan orðin 11:39 þegar þarna var komið sögu, en ég hafði reiknað með að vera þarna kl. 11:41. Verra gat það nú verið.

Um þetta leyti var Birkir skíðagöngukappi farinn að síga svolítið framúr og Þorkell sást hvergi. Við hin héldum okkur í 2-3 manna hópum og nutum þess að vera til. Reyndar blés vindurinn svolítið á móti okkur á ströndinni fyrir innan Bassastaði, en það var nú bara þægilegt. Þegar við nálguðumst fjarðarbotninn sáum við að einhver beið okkar við brúna yfir Selá. Þar var komin Jóhanna Eggertsdóttir, maraþonhlaupari úr Grafarvoginum, en hún var á ferð um Strandirnar, hafði frétt af hlaupinu fyrir tilviljun og sá að vegalengdin frá Selá passaði einmitt inn í æfingaáætlunina fyrir maraþonið á landsmótinu á Akureyri viku síðar. Þar með vorum við orðin 8 í hópnum.

Við Selána vorum við enn 2 mín. á undan áætlun og við Staðará var forskotið komið upp í 4 mín., klukkan sem sagt bara orðin 12:20, en átti að vera 12:24 samkvæmt áætluninni. Kílómetramælirinn sýndi 22,38 km og því ekki nema um 12 km eftir. Rétt áður en við komum að Staðaránni hittum við Jón Halldórsson frá Hrófbergi, sem hafði gert sér ferð þarna inneftir til að taka myndir af hlaupinu. Afrakstur þeirrar myndatöku má sjá á myndasíðu Jóns.

Um þetta leyti höfðum við tekið eftir dökkklæddum hlaupara sem var á sömu leið og við, en talsvert á undan. Komumst að því seinna, að þarna var á ferð Hjördís Kjartansdóttir, Hólmvíkingur með meiru. Við Staðarána urðu líka fleiri breytingar á högum hlauparanna, því að þarna brá Birkir undir sig betri hjólaskíðunum til að fá svolitla tilbreytingu í hreyfingarnar. Og konan hans, hún Sigga, fylgdi honum eftir það á hjóli. Þau fóru reyndar ívið hraðar yfir en við hin.

Hamingja09 021web
Birkir Vasa Stefánsson kominn á hjólaskíðin.

Hamingja09 024web
Skammt frá Vegamótum í Staðardal. Ingimundur og Eysteinn eru fremstir,
en Guðmann skammt á eftir.

Hamingja09 029web
Fríða var mætt á svæðið skömmu síðar. Þetta var síðasta myndin sem ég tók í
hlaupinu. Veit ekki hvort það ber að túlka sem þreytumerki.

Við Grjótá bættist enn í hlauparahópinn. Þar beið Vignir Pálsson, bóndasonur frá Grund, eftir okkur og fylgdi okkur það sem eftir var leiðarinnar. Þarna bættust líka tveir synir Jóhönnu í hópinn, þannig að allt í allt voru þetta orðnir 12 hlauparar. Tímaáætlunin hafði ekki raskast mikið, forskotið að vísu orðið 3 mínútur, en framundan voru Fellabökin, erfiðasti hjalli leiðarinnar.

Fellabökin reyndust reyndar lítill farartálmi. Alla vega hljóp ég alla leiðina upp og líka þeir sem fylgdu mér þá stundina. Þegar upp var komið þóttumst við greina Þorkel í fjarska á leiðinni upp úr svonefndum Tröllkonudal. Til að stytta langa sögu örlítið, reyndum við að halda hraðanum í skefjum það sem eftir var leiðarinnar, og tókum meira að segja svolítið tímajöfnunarhlé við Hólmavíkurvegamótin. Skokkuðum þaðan sem leið lá öll í hóp inn á staðinn og vorum mætt á hátíðarsvæði Hamingjudaganna á Hólmavík stundvíslega klukkan 13:35 eins og að var stefnt. Þar var vel tekið á móti okkur, Hólmvíkingar fengu skilaboðin frá Drangsnesingum, og þar með lýkur að segja frá þessu hamingjuhlaupi frá Drangsnesi til Hólmavíkur. Kannski var þetta í fyrsta sinn sem þessi leið er hlaupin, en um það skal þó ekkert fullyrt. Alla vega veit ég fyrir víst að hún hefur verið gengin.  Allur reyndist spottinn 34,19 km að lengd samkvæmt GPS-úrinu mínu og klukkan sýndi 3:25:02 klst. Meðalhraðinn var nákvæmlega 10 km/klst. Það má því segja að fátt hafi farið úrskeiðis, áætlanir stóðust og allir skiluðu sér heilir í mark, sumir þó kannski örlítið stirðari en aðrir.

Það má kannski bæta því við, svona rétt í lokin, að eftir að hafa hlaupið í blíðuveðri alla leið, lentum við í hellidembu rétt í þann mund sem við vorum komin til Hólmavíkur. En þetta var hlý rigning, þannig að hún skipti engu máli. En það var samt gott að koma til byggða og fá hangikjöt.

Bestu þakkir til ykkar allra sem stóðuð að þessu og í þessu með mér með einum eða öðrum hætti. Sérstakar þakkir fá hlaupararnir, skipuleggjendur Hamingjudaganna og fjölskyldan mín. Þetta var gaman.
Smile


Hamingjuhlaupið á morgun

Á morgun ætla ég að auka eigin hamingju - og kannski einhverra annarra líka - með því að hlaupa frá Drangsnesi til Hólmavíkur. Þetta er eitthvað sem mig hefur lengi langað til að gera, og nú er tækifæri til að flétta það inn í dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík. Þess vegna verður þetta hamingjuhlaup. Ég ætla að leggja af stað frá bryggjunni á Drangsnesi stundvíslega kl. 10.08 í fyrramálið, (þ.e. 5 mínútum síðar en áður hafði verið tilkynnt) og ljúka hlaupinu á hátíðarsvæðinu neðan við Klifstúnið á Hólmavík stundvíslega kl. 13.35. Eftirfarandi tafla sýnir tímasetningar á helstu merkisstöðum á leiðinni:

Staðsetning:  km búnirTími Tímasetning km eftir
Drangsnes (bryggjan)0,0  0:00:00 10:0834,5 
Hveravík6,5  0:39:00 10:4728,0 
Vegamót við Bjarnarfjarðarháls 15,5  1:33:00 11:4119,0 
Selá18,9  1:53:24 12:0115,6 
Vegamót í Staðardal22,6  2:15:36 12:2411,9 
Grjótá 26,3  2:37:48 12:468,2 
Ósá29,6  2:57:36 13:064,9 
Hólmavíkurvegamót 33,1  3:18:36 13:271,4 
Hólmavík (Klifstún) 34,5  3:27:00 13:350,0 


Ég verð alls ekki einn á ferð, því að a.m.k. 5 vaskir hlauparar ætla að fylgja mér alla leið, en eins og ráða má af töflunni er öll leiðin u.þ.b. 34,5 km. Samtals hefur þetta fólk hlaupið 24 maraþon um ævina, auk heils hellings af hálfum maraþonum og einstaka Laugavegshlaupum. Í hópnum má einnig finna dálitla reynslu af Vasagöngunni í Svíþjóð. Þó að þetta sé vissulega óárennilegur hópur, er hann hinn ljúfasti viðskiptis. Þess vegna verður tekið vel á móti öllum sem slást í för með okkur, hvort sem það er alla leið eða hluta leiðarinnar. Því fleiri sem taka þátt í þessu, því meiri verður hamingjan.
Smile

Eins og líka má ráða af töflunni er gert ráð fyrir jöfnum fyrirfram ákveðnum hlaupahraða alla leið, enda á hlaupinu að ljúka stundvíslega kl. 13.35 samkvæmt dagskrá Hamingjudaganna.

Nú fýsir eflaust marga að vita hverjir skipi þennan afar harðsnúna en að sama skapi ljúfa hlaupahóp, og hvers vegna mér hafi yfirleitt dottið í hug að gera þetta. Við því fást engin svör hér. Þeir sem vilja komast að hinu sanna þurfa að vera mættir á Hamingjudagana kl. 13.35 á morgun. Enn betra væri þó að mæta líka við bryggjuna á Drangsnesi kl. 10.08 og fylgjast með alla leið. Þeir sem það gera verða margs vísari.
Smile


Rafmagn á brunaútsölu?

Mér líst afar illa á hugmyndir um að selja nágrannalöndunum rafmagn um sæstreng, hvort sem það er til að borga Icesave-skuldir eða eitthvað annað. Ástæðan er einföld: Með því að selja rafmagn „óunnið“ úr landi afsölum við okkur virðisaukanum sem þetta sama rafmagn myndi að öðrum kosti geta skapað hérlendis. Að mínu mati jafngilda slík viðskipti „brunaútsölu á rafmagni“.

Við þurfum að nýta orkuna okkar til að verða sem minnst háð innfluttri orku. Þannig verður virðisaukinn mestur. Svo einfalt er málið! Rafvæðing samgöngukerfisins hlýtur að vera forgangsmál hvað þetta varðar, hvort sem rafmagnið er nýtt beint eða til eldsneytisframleiðslu.

Það hvort skynsamlegt væri að setja upp rafstrengjaverksmiðju er svo annað og óskylt mál.


mbl.is Borgum Icesave með rafmagni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég undrast

Ég undrast þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að veita Orf. Líftækni hf. leyfi til útræktunar á erfðabreyttu byggi. Undrun mín byggir á sömu rökum og fram komu í athugasemdum mínum dags. 27. maí sl., sem ég tel óþarft að endurtaka hér. Veigamesta atriðið er þó líklega túlkun Varúðarreglunnar, en ég er ósammála því mati Umhverfisstofnunar að „áhættumat, yfirferð þess og öryggisráðstafanir“ feli í sér nægjanlegar „aðgerðir til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll“. Vek reyndar athygli á því að orðið „nægjanlegar“ kemur ekki fram í greinargerð Umhverfisstofnunar með leyfisveitingunni, en ég get ekki skilið greinargerðina öðruvísi en svo að umræddar aðgerðir þyki nægjanlegar.

Í tengslum við framanskráð geri ég sérstakar athugasemdir við áhættumatið, sem ég tel mjög ófullnægjandi, vegna þess hversu mjög sérstæð umrædd áhætta er, sbr. orð mín í fyrrnefndum athugasemdum um „Svarta svani“. Ég tek undir það að „hverfandi líkur“ séu á að umræddar byggplöntur dreifi sér eða víxlfrjóvgist við annað bygg eða skyldar tegundir. Hins vegar tel ég að ekki sé á nokkurn hátt reynt að meta áhættuna af láréttum genaflutningi, sem er jú þekktur við náttúrulegar aðstæður, en virðist líklegri þegar um „splæst gen“ er að ræða. Minni auk heldur á að „hverfandi líkur“ eru ekki „engar líkur“. Skammtímarannsóknir segja sömuleiðis fátt um langtíma áhrif, þar sem hugsa þarf í áratugum og öldum, en ekki í vikum og mánuðum.

Í frétt Umhverfisstofnunar kemur fram að leyfið sé veitt með „ströngum skilyrðum“. Ég er reyndar afar ósammála því að skilyrðin séu ströng, þar sem þau snúast fyrst og fremst um verklagsreglur og góð vinnubrögð á vettvangi. Ég efast ekki um að Orf. Líftækni hf. myndi standast þau skilyrði án þess að minnst væri á þau einu orði. Ég held nefnilega að Orf sé fyrirmyndarfyrirtæki, þar sem beitt er framúrskarandi faglegum vinnubrögðum. Málið snýst bara alls ekki um það, heldur eitthvað miklu stærra.

Ég er sem sagt undrandi. Hins vegar skil ég vel að Umhverfisstofnun sé vandi á höndum, enda regluverkið frumstætt og fordæmin fá. En þess mikilvægara er að hafa varúðina að leiðarljósi.


mbl.is Leyfi veitt til ræktunar á erfðabreyttu byggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur breyta heiminum

konurgetabreyttheiminum2Um leið og ég óska íslenskum konum til hamingju með daginn, langar mig að benda öllu áhugafólki um umhverfi og samfélag á bók Guðrúnar Bergmann, Konur geta breytt heiminum. Bókin hefur að geyma mörg góð ráð sem nýtast konum jafnt sem körlum í viðleitni þeirra við að gera lífið á jörðinni örlítið betra og búa um leið í haginn fyrir komandi kynslóðir. Og bókin er ekki bara gagnleg, heldur líka óvenjufalleg. Hönnun bókarinnar hefur sem sagt tekist einstaklega vel.

Bók Guðrúnar, sem kom út fyrr í vor, ætti að vera til á hverju heimili. Eflaust fæst bókin í öllum almennilegum bókabúðum, en svo er líka hægt að kaupa hana í vefverslun vefsíðunnar www.graennlifsstill.is.

Það er ekki nóg með að konur geti breytt heiminum, eins og titill bókarinnar minnir á, heldur munu þær líka gera það. Þeirra tími er sem sagt kominn. Reyndar held ég að hann hafi komið, ef svo má segja, upp úr nýliðnum aldamótum. Get fært ýmis rök fyrir því. Geri það kannski seinna. En ég hlakka alla vega til að fylgjast með þeim breytingum sem framundan eru!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband