Færsluflokkur: Bloggar
18.6.2009 | 23:46
Út að hlaupa með tind í læri
Í kvöld byrjaði ég aftur að hlaupa eftir konunglega skemmtun í 7-tinda hlaupinu í Mosfellsbæ sl. laugardag. Skokkaði rétt upp fyrir Hótel Hamar og heim aftur, hægt og mjúklega. Hef verið hálfþreyttur í fótunum síðustu daga, enda var 7-tinda hlaupið svo sem hlaupið eins og enginn væri morgundagurinn. En allt er þetta hluti af eftirsóknarverðu lærdóms- og þroskaferli.
Yfirleitt reyni ég að þegja yfir hvers konar eftirköstum sem hljótast af verðugum hlaupaverkefnum, eins og 7-tinda hlaupið vissulega var. En svo blossar stundum upp í manni þörfin fyrir að miðla öðrum af reynslu sinni, sem að eigin mati er oftast svo óendanlega dýrmæt. Vissulega er dálítið hallærislegt að viðurkenna, að eftir 5 daga sé maður enn með svo sem einn tind af 7 í lærunum, en hin dýrmæta reynsla, lærdómurinn og þroskinn felast í því að kynnast eigin vitjunartíma og finna rétta tímann til að halda af stað á nýjan leik. Málið snýst um að hlusta á eigin líkama og skynja þetta hárfína jafnvægi, sem að öðrum kosti raskast svo auðveldlega, til lengri eða skemmri tíma. Maður þarf að halda áfram að rækta líkamann til að lækka bilanatíðnina, en samt má ekki gera of mikið of fljótt.
Rétti tíminn var sem sagt í kvöld, og hafi mér ekki skjátlast um það, þá liggur hlaupaleiðin upp á við á ný næstu daga, með þolinmæði og hægð.
Og næstu hlaupaverkefni? Jú, að hefðbundnum æfingum slepptum eru eftirfarandi viðburðir næstir á dagskrá:
- Laugardagur 4. júlí: Hamingjuhlaup frá Drangsnesi til Hólmavíkur, u.þ.b. 34 km. Þetta er eitthvað sem mig hefur lengi langað til að gera, og nú er tækifærið til að flétta það inn í dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík. Þess vegna verður þetta hamingjuhlaup. Ætlunin er að hlaupinu ljúki á hátíðasvæði hamingjudaganna kl. 13.30, sem þýðir væntanlega að ég legg í hann frá Drangsnesi um eða upp úr kl. 10. Ég ætla að hlaupa leiðina á nokkurn veginn fyrirfram ákveðnum hraða, sem tekur m.a. mið af viðburði nr. 2 (sjá neðar), auk þess sem fyrirfram ákveðinn hraði er náttúrulega nauðsynlegur til að maður geti skilað sér á ákvörðunarstað á fyrirfram ákveðnum tíma. Þessi fyrirfram ákveðni hraði verður rétt um 10 km/klst, eða 6 mín/km. Þetta er ekkert opinbert keppnishlaup, heldur bara gert hamingjunnar vegna. Þess vegna verð ég líka þeim mun hamingjusamari sem fleiri slást í för með mér. Þykist alla vega vita um einn, en kannski fjölgar þeim eitthvað næstu daga þegar ég helli mér í markaðssetningarstarfið. Þeir sem hafa áhuga ættu að senda mér línu á stefan[hja]umis.is, eða skella inn athugasemd hér fyrir neðan.
- Laugardagur 11. júlí: Maraþonhlaup á 26. Landsmóti UMFÍ á Akureyri, nákvæmlega 42,195 km. Þetta verður náttúrulega keppnishlaup, þó að maraþonið sé ekki beinlínis keppnisgrein á landsmótinu. Það verður gaman að koma aftur á Landsmót. Keppti (fyrst og) síðast á svoleiðis móti á Akranesi sumarið 1975. Var líka á landsmótunum á Selfossi 1978, á Akureyri 1981 og í Keflavík 1984 - en síðan ekki söguna meir. Markmið fyrir hlaupið eru í smíðum. Ekki er tímabært að greina frá þeim opinberlega á þessu stigi, en verði veðrið skikkanlegt, (sem það er nánast alltaf á Akureyri), þá verð ég vonandi ekki lengur en 3:40 klst. að ljúka hlaupinu.
Þegar þetta tvennt er búið, tekur svo aðalfjallvegahlaupatörn sumarsins við. Hún hefst á Vesturgötunni sunnudaginn 19. júlí.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.6.2009 | 15:50
Litlar vindmyllur til sölu
Fyrr í þessum mánuði birtu Sænsku vindorkusamtökin (Svensk Vindkraftförening) dálitla skýrslu sem þau tóku saman fyrir Orkustofnun Svíþjóðar (Energimyndigheten), með yfirliti yfir þær 52 tegundir af litlum vindmyllum (0,2-200 kW) sem fáanlegar eru á sænskum markaði. Á listanum eru bæði vindmyllur sem framleiddar eru í Svíþjóð og fluttar inn.
Vindmyllusamantektinni er ætlað að hjálpa sænskum kaupendum að velja bestu vindmyllurnar. Í henni er m.a. að finna gátlista með helstu spurningum sem vindmyllukaupendur ættu að leita svara við áður en ákvörðun er tekin um kaupin.
Á síðustu árum hefur áhugi Svía á litlum vindmyllum aukist verulega, og hefur þá ekki síst beinst að vindmyllum sem settar eru upp á þök húsa. Að mati Lars Åkeson, sem vann að umræddri samantekt, er raforkan sem framleidd er með þessum vindmyllum oft dýr þegar upp er staðið. Því sé sérstök ástæða til að hvetja fólk til að láta gera vindmælingar áður en ráðist er í fjárfestingu af þessu tagi. Töluvert hefur verið kvartað undan bilunum í þessum litlu vindmyllum, og margir telja sig hafa fengið minna rafmagn út úr þeim en gefnar höfðu verið væntingar um. Lars telur að um þessar mundir séu vindtúrbínur með lóðréttum öxli einna áhugaverðasti kosturinn, en þar hafi athyglisverð þróun átt sér stað upp á síðkastið.
Annað slagið er ég spurður álits á ýmsu varðandi vindmyllur. Ég er enginn sérfræðingur á því sviði, og þess vegna datt mér í hug að skrifa þennan pistil til að vísa á skýrslu Sænsku vindorkusamtakanna. Skýrslan verður uppfærð eftir því sem breytingar verða. Hægt er að nálgast skýrsluna á slóðinni http://www.natverketforvindbruk.se/sv/Om-natverket/Nyheter/Rad-och-tips-om-sma-vindkraftverk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2009 | 01:46
Frábært 7 tinda hlaup
Í dag þreytti ég 7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ ásamt allmörgum öðrum. Þetta voru rúmlega 37 kílómetrar um fjöll og firnindi, um mýrar og móa, holt og skriður, malbik og möl, aðallega þó holt. Árangurinn var framar öllum björtustu vonum, því að ég endaði í 6. sæti af öllum skaranum. Var reyndar lengi í 4. sæti, en Hólmfríður Vala Svavarsdóttir og Börkur Árnason pökkuðu mér saman á endasprettinum síðustu 500 metrana. Það er reyndar ekkert mjög sárt að tapa fyrir svoleiðis snillingum.
Hlaupið var töluverð þolraun. Leiðin lá enda um 7 tinda, eins og nafnið bendir til, nánar tiltekið frá Lágafellslaug upp á Úlfarsfell (295 m), Reykjaborg (280 m), Reykjafell (269 m), Æsustaðafjall (220 m), Grímmannsfell (550 m), Mosfell (270 m) og Helgafell (216 m). Myndin hér að neðan gefur einhverja hugmynd um leiðina, ef vel er rýnt og ef maður þekkir til staðhátta í Mosfellsbæ. :-)
Erfiðasti hlutinn af leiðinni var skriðan sem við fórum niður af Mosfelli. Þarna er mjög bratt og fremur stórgrýtt. Mesta hættan við svona aðstæður er sú, að grjót sem veltur af stað lendi aftan á hælum, hásinum og kálfum. Svo er náttúrulega ekkert gaman að detta í svona urðum, sérstaklega ef maður er í stuttbuxum. Ég var vel að merkja í stuttbuxum og hlýrabol alla leiðina, sem var svona að meðaltali einmitt rétti klæðnaðurinn. Reyndar varð mér hrollkalt uppi á Mosfelli, því að þar gerði þvílíka ofurdembu, að að það hálfa hefði verið hellingur. Annars var veðrið yfirleitt eins og best verður á kosið; hægur vindur, skýjað að mestu og svo sem 10 stiga hiti.
Framkvæmd hlaupsins var öll með ágætum. Skátarnir í Mosfellsbæ stóðu sig eins og hetjur, svo og aðrir starfsmenn hlaupsins. Ánægðastur var ég þó með Herdísi, frænku mína, sem tók vel á móti mér á líklega einum þremur drykkjarstöðvum á leiðinni.
Lítið var um greinilega stíga á hlaupaleiðinni, en appelsínugul flögg vísuðu veginn. Reyndar hefðu þau mátt vera aðeins þéttari á köflum, því að þegar maður kom að flaggi, þá sá maður oft ekki næsta flagg. Þetta skapaði óöryggi og svolítinn pirring, sérstaklega þegar þreytan fór að segja til sín. Þreyta í svona hlaupum sest nefnilega ekki bara í vöðvanna, heldur líka í hugann. Við þetta bættust svo algengar raunir gleraugnagláma, en slíkar raunir þekki ég vel. Það er nefnilega vesen að vera með gleraugu þegar rignir, og þá verður útsýnið heldur takmarkað.
Boðið var upp á tvær vegalengdir í hlaupinu. Þeir sem ekki vildu fara alla leið, gátu valið 17 km þriggja tinda hring. Allir voru þó ræstir samtímis. Ég held að ég hafi yfirleitt verið í um það bil 15.-20. sæti framan af. Frá Reykjaborg og niður í Skammadal var ég hluti af svo sem 10 manna hópi. Náði reyndar oftast góðu forskoti undan brekkunni, en missti það aftur þegar leiðin lá upp í móti. Þetta mynstur þekki ég vel. Spóaleggirnir mínir eru nefnilega ekki sérlega vel vöðvum búnir, en þess seigari. Í Skammadal skildu leiðir þeirra sem fóru lengri og styttri leiðina, og þar með hurfu flestir þeir sem ég hafði fylgst með. Eftir þetta fylgdist ég lengi með Kristjáni Sigurðssyni, sem er vel að merkja ættaður úr Borgarfirði. Þegar við komum upp á Æsustaðafjall fengum við þær fréttir frá starfsmönnum að við værum í 5. og 6. sæti í hlaupinu. Það var afar uppörvandi, því að hvorugur okkar hafði reiknað með að vera svo framarlega. Á næstu kílómetrum komum við auga á ofurhlauparann Börk Árnason á undan okkur. Þegar komið var upp á Grímmannsfell var ég kominn fram úr þeim báðum og þar með kominn upp í 4. sætið. Börkur fylgdi mér reyndar eftir alveg að Mosfellskirkju, en þar skildu leiðir. Eftir það var ég einn míns liðs þangað til komið var langleiðina upp á Helgafell og ekki nema rúmir 5 km eftir. Þar birtist Hólmfríður Vala allt í einu og Börkur var þar skammt á eftir. Mér tókst að mestu að halda þeim fyrir aftan mig, alveg þangað til komið var langt inn í Mosfellsbæinn og varla meira en 500 m eftir í markið. Þá stungu þau mig af.
Hér lýkur þessari löngu og sjálfhverfu bloggfærslu, en svona rétt í lokin ætla ég að setja hérna inn tvær myndir. Önnur sýnir hæðarlínurit hlaupsins, eins og það birtist í hlaupaúrinu mínu. Samkvæmt því fórum við hæst í 494 m hæð yfir sjó. Hina myndina tók ég traustataki á fésbókarsíðu Herdísar frænku minnar, en hún var tekin í þann mund sem hlaupið hófst í morgun.
Takk öll fyrir samveruna og samfylgdina í dag. Þetta var skemmtilegur dagur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.6.2009 | 11:00
Stykkishólmsleiðin til San Fransiskó
Ég sé ekki betur en Stykkishólmsbær sé orðinn fyrirmynd San Fransiskóbæjar í úrgangsmálum. Alla vega er hreppsnefndin í San Fransiskó búin að ákveða að taka upp þriggja tunnu kerfi, sem er alveg eins og í Stykkishólmi, nema hvað tunnurnar eru ekki eins á litinn. Reyndar ætlar hreppsnefndin þarna lengst vesturfrá að ganga enn lengra en Hólmarar og sekta þá sem ekki flokka rétt. Markmiðið er að urðun úrgangs heyri sögunni til árið 2020, enda er úrgangur bara hráefni á villigötum.
Hægt er að fræðast meira um þetta allt saman í Orðum dagsins á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi. Þar má líka finna fróðleik um margt annað, m.a. um það hvernig Norðmenn ætla að nota samgönguáætlun Stórþingsins til að stuðla að auknum hjólreiðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.6.2009 | 21:56
Skráður í 4 hlaup
Tók mig til áðan og skráði mig í fjögur hlaup. Það getur nefnilega verið ágætt að negla þetta niður til að skerpa á einbeitingunni. Listinn lítur svona út:
- 7-tinda hlaupið í Mosfellsbæ, laugard. 13.06.2009, 37,5 km
- Maraþonhlaup á Landsmóti UMFÍ á Akureyri, laugard. 11.07.2009, 42,2 km
- Vesturgatan, sunnud. 19.07.2009, 24 km
- Göteborgsvarvet, laugard. 22.05.2010, 21,1 km
Fjallvegahlaupin eru svo alveg þarna fyrir utan, nema hvað ég lít á Vesturgötuna sem fjallveg (nr. 12) þó að hún sé kannski ekki beinlínis fjallvegur. Fjallvegahlaupalistinn lítur enn svona út, (sjá nánar á www.fjallvegahlaup.is):
- Vesturgatan, sunnud. 19.07.2009, 24 km (sjá framar)
- Þingmannaheiði, þriðjud. 21.07.2009, 23 km
- Miðvörðuheiði, fimmtud. 23.07.2009, 20 km
- Selárdalsheiði, föstud. 24.07.2009, 17 km
Þá vitiði hvað ég ætla að leika mér við næstu mánuði. Annars ætla ég að leggja aðaláherslu á vinnuna, bæði á skrifstofunni og hérna úti í garði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2009 | 00:05
Gagnlegur fundur um erfðabreyttar lífverur
Í dag var ég á öðrum kynningarfundi Umhverfisstofnunar vegna umsóknar ORF Líftækni hf. um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Þetta var gagnlegur fundur, sérstaklega vegna þess hversu margir tóku þátt í honum. Fram að þessu hefur svo sem engin umræða farið fram hérlendis um erfðabreyttar lífverur, þrátt fyrir að almenningur í nágrannalöndunum hafi látið sig þróun þessara mála miklu skipta. En nú er þetta greinilega að breytast, góðu heilli. Þetta eru jú mál sem varða hagsmuni allra, ekki bara líffræðinga.
Í sjálfu sér kom ekki margt nýtt fram á fundinum í dag. Það sem mér fannst standa upp úr var eftirfarandi:
- Enn virðast margir tala um kynbætur og erfðabreytingar í sömu andránni, jafnvel þó að þar sé grundvallarmunur á. Það einkennilega er, að þeir sem helst virðast rugla þessu saman eru einmitt þeir sem mesta þekkingu hafa á þessu sviði. Þessi hugtakaruglingur er því greinilega ekki tilkominn vegna fáfræði.
- Enn virðist gæta einhverrar tilhneigingar í fræðasamfélaginu til að halda umræðunni um erfðabreyttar lífverur í þröngum hópi líffræðinga og gera aðra þá sem vilja leggja eitthvað til mála tortryggilega, þar sem þeir hafi ekki nægilega þekkingu. Þess vegna séu sjónarmið þeirra ekki fagleg.
- Mikillar tilhneigingar virðist gæta til að draga alla þá sem taka þátt í umræðu um erfðabreyttar lífverur í dilka eftir því hvort þeir eru með eða á móti, rétt eins og heimurinn sé allur í svart/hvítu.
- Sumir halda að til sé fólk sem er hlutlaust á allan hátt og hefur engra hagsmuna að gæta.
- Norska ráðgjafarnefndin um erfðabreyttar lífverur virðist beita Varúðarreglunni með mun eindregnari hætti en íslenska ráðgjafarnefndin, jafnvel þótt í norsku nefndinni sitji líka séfræðingar í erfðavísindum. Í norskri löggjöf um þessi mál er sett það skilyrði, að viðkomandi verkefni feli í sér jákvætt framlag til sjálfbærrar þróunar, (í lauslegri þýðingu minni).
- Ekki virðist ástæða til að óttast víxlfrjóvgun erfðabreytts byggs við melgresi.
- Það myndi reynast tryggingafélögum erfitt að ákveða fjárhæðir iðgjalda af ábyrgðartryggingum vegna ræktunar á erfðabreyttum lífverum.
Að öðru leyti ætla ég ekkert að orðlengja um þetta frekar. Vísa bara í athugasemdirnar sem ég sendi Umhverfisstofnun um daginn. Ég er nefnilega almennt þeirrar skoðunar að orð mín öðlist ekki aukið gildi þó að þau séu sögð oftar. Ég er líka almennt þeirrar skoðunar að það sama gildi um orð annarra.
En mig vantar samt svar við því hvers vegna tryggingafélög geti ekki boðið ræktendum erfðabreyttra lífvera ábyrgðartryggingar. Er ekki einhver til í að upplýsa mig um það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2009 | 23:57
Fimmtugt hlaup
Í dag hlupum við Ingimundur Grétarsson 50 km þvert yfir Borgarbyggð í tilefni af 50 ára afmæli Ingimundar. Þetta gekk alveg ágætlega og var auðveldara en mig hafði órað fyrir. Ferðalagið tók nákvæmlega 4:47:49 klst, sem stóðst fyllilega allar væntingar. Meðalhraðinn var 5:45 mín/km.
Ferðin hófst með því að Ingigerður, mamma Ingimundar, skutlaði okkur vestur að hreppamörkum Borgarbyggðar og Eyja- og Miklaholtshrepps við Haffjarðará í morgunsárið. Á leiðinni lögðum við út nokkrar vatnsflöskur sem við ætluðum að gera okkur gott af á bakaleiðinni. Svo var lagt í hann hlaupandi af brúnni á Haffjarðará nákvæmlega kl. 9.00.
Við Haffjarðará kl. 9 í morgun. Horft til austurs yfir fyrsta hluta hlaupaleiðarinnar.
Fyrstu kílómetrarnir sóttust vel, enda veðrið með ágætum, eins og það átti reyndar eftir að verða alla leiðina. Hæg breytileg átt var á, skýjað og 10 stiga hiti. Töluvert hafði rignt á Mýrunum um nóttina, en við hlupum í þurru veðri alla leið. Tíðindalítið var í Kolbeinsstaðahreppi og eftir 15,18 km og 1:25:05 klst. vorum við komnir að Hítará. Töluverð umferð var um veginn, en þó ekkert sérstaklega til trafala. Við gerðum ráð fyrir að í flestum tilvikum væru þarna á ferð aðdáendur, sem hefðu gert sér ferð til að fylgjast með framgangi hlaupsins. Hugsanlega hafa þó einhverjir verið í öðrum erindagjörðum.
Segir nú fátt af ferðum okkar fyrr en við komum að Urriðaá, en þar voru 33,45 km að baki. Eitthvað virðist skammtímaminnið gefa sig þegar menn eru komnir á þennan aldur. Alla vega fundum við hvergi vatnsflöskurnar sem við höfðum komið þar fyrir um morguninn. Það kom þó ekki að sök, því að nóg vatn var í ánni. Þar fylltum við á vatnsbrúsana og héldum áfram ferðinni. Fram að þessu hafði hraðinn í hlaupinu haldist nokkuð jafn, yfirleitt um 5:20-5:40 mín/km. Upp úr þessu fór heldur að hægja á okkur, þó að þreytan væri lítið farin að segja til sín.
Stuttu eftir að við skeiðuðum inn í Borgarnes, nánar tiltekið við Bjargslandsgatnamótin, sýndi gps-tækið 42,2 km. Þarna var sem sagt heilt maraþon að baki - og tíminn rétt undir 4 klst., nánar tiltekið 3:58:58. Við vorum afar sáttir við það, enda engin keppni í gangi. Og eiginlega er svolítið gaman að geta talað um millitíma í hlaupi eftir eitt maraþon. :-) Við lögðum síðan að sjálfsögðu sérstaka áherslu á að vera beinir í baki og brosandi á meðan við hlupum í gegnum Borgarnes, en eitthvað var færðin þó tekin að þyngjast, ef svo má að orði komast.
Áfram lá leiðin yfir Borgarfjarðarbrúna og að hreppamörkunum við Hvalfjarðarsveit við Ytra-Seleyrargil, rétt hjá afleggjaranum að Mótel Venusi. Breidd sveitarfélagsins Borgarbyggðar reyndist vera 46,81 km, og þarna stóð klukkan í 4:26:55 klst. En af því að Ingimundur varð fimmtugur í dag, en ekki 46,81 árs, þá héldum við áfram eins og ekkert hefði í skorist, upp brekkuna og svo til vinstri inn á gamla Hvanneyrarveginn áleiðis upp í Andakíl. Vorum komnir rétt inn fyrir hitaveitutankinn þarna í hlíðinni þegar mælirinn sýndi 50,00 km. Þar með var björninn unninn, og klukkan sýndi 4:47:49 km eins og fyrr segir. Það var ákaflega góð upplifun að hafa lagt þennan spotta að baki jafn auðveldlega og raun bar vitni. Reyndar kom það mér á óvart hversu lítið þetta reyndi á skrokkinn. En það var samt gott að komast í sturtu þegar heim var komið. :-)
Mörgum finnst það sjálfsagt óhugsandi að hlaupa 50 km í einum áfanga. Og það er reyndar óhugsandi ef maður hefur aldrei hlaupið áður. En líklega er þetta eitthvað sem flest fullfrískt fólk getur, jafnvel fólk sem hefur enga reynslu af hlaupum og efast mjög um getu sína á því sviði. Þetta snýst einfaldlega um að gefa sér tíma og láta ekki vantrúna á eigin getu villa sér sýn. Í þessu sambandi má m.a. rifja það upp, að fyrir svo sem 5 árum gat Ingimundur naumast hlaupið 50 metra, hvað þá meira. Þá byrjaði hann að hlaupa, fyrst stutt og smám saman lengra og lengra, og nú eru 50 km sem sagt ekki lengur óyfirstíganleg hindrun. Þetta snýst allt um að setja sér raunsæ markmið, og þegar einu markmiði er náð er stefnan sett á það næsta. Fyrsta markmiðið getur verið að hlaupa hvíldarlaust að næsta ljósastaur - og svo þróast þetta bara smátt og smátt. Og þegar grannt er skoðað, er augljóst að hægt er að yfirfæra reynsluna úr hlaupunum á flest annað í lífinu. Mörk eigin getu eru afstæð, og ástæðulaust að taka þau alvarlega. Hindranirnar búa flestar í eigin kolli, en fæstar utan hans!
Að hlaupi loknu um 2-leytið í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.5.2009 | 09:19
Enn af dauðum sniglum
Ég er ekkert á móti skattahækkunum, en hins vegar er ég mjög ósáttur við skattahækkanir af því tagi sem ákveðnar voru í gær. Þar létu menn enn einu sinni hjá líða að hefja þróun skattkerfisins í átt til nútímans, þ.e.a.s. í þá átt að láta skattlagningu vöru endurspegla að einhverju leyti þann umhverfislega og samfélagslega kostnað sem notkun vörunnar hefur í för með sér.
Ég hef áður skrifað um úrelta skattlagningu á eldsneyti og ökutæki. Í bloggfærslu 12. desember 2008 minnti ég t.d. á að á blaðamannafundi 2. júní 2008 kynnti Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, tillögur starfshóps um heildarstefnumótun skattlagningar á eldsneyti og ökutæki, en starfshópurinn hafði þá setið með málið í fanginu í tæpt ár. Við þetta tækifæri sagðist Árni gera ráð fyrir að það taki sumarið að fara yfir þessar niðurstöður og vonandi hægt að leggja fram frumvörp í haust og þau afgreidd fyrir áramót, svo vitnað sé í frétt mbl.is um málið.
Tillögur umrædds starfshóps gerðu ráð fyrir að skattlagning á eldsneyti og ökutæki yrði framvegis tengd við losun á koltvísýringi, enda væri Ísland með hæstu koltvísýringslosun nýskráðra fólksbíla innan evrópska efnahagssvæðisins. Tillögurnar byggðu að hluta á skýrslu Vettvangs um vistvænt eldsneyti, sem kynnt var í febrúar 2007.
Nú eru aðeins 4 dagar í ársafmæli umræddrar skýrslu. Samt er núna í annað sinn á þessu fyrsta ári ráðist í flatar skattahækkanir á eldsneyti og ökutæki, þ.e. hækkanir sem taka ekkert tillit til þeirra vel ígrunduðu tillagna sem settar voru fram í skýrslunni. Reyndar er hægt að halda því fram að öll skattlagning á bensín og díselolíu sé einhvers konar umhverfisskattur, en sú staðhæfing stenst þó ekki þegar grannt er skoðað, því að ég veit ekki til þess að í útskýringum með þessum nýjustu skattahækkunum sé nokkurs staðar minnst á annan tilgang skattlagningarinnar en að auka tekjur ríkissjóðs. Verð þó að viðurkenna að ég hef ekkert lesið mér til í þingskjölum gærdagsins.
Í framhaldi af orðum Árna M. Mathiesen 2, júní í fyrra, sem vitnað er til hér að framan, lét ég þau orð falla að ég sæi ekki betur en málinu væri ætlað að ganga áfram með hraða snigilsins, og svei mér ef snigillinn gengur ekki fyrir jarðefnaeldsneyti, annað hvort bensíni eða díselolíu. Í fyrrnefndri bloggfærslu 12. des. 2008 lét ég í ljós ótta við að snigillinn væri dauður - og nú er líklega óhætt að staðfesta andlát hans. Því er ástæða til að endurtaka spurninguna frá 12. des.: Til hvers í ósköpunum eru menn að plata hópa af fagfólki til að sitja í nefndum mánuðum eða árum saman, ef það stendur svo ekkert til að taka mark á þeim?
Nú kann einhver að halda því fram, að í miðju hruni sé ekki rétti tíminn til að huga að skattkerfisbreytingum. Við þessar aðstæður verði bara að sækja auknar tekjur með einhverjum ráðum, en róttækar breytingar á kerfinu þurfi að bíða betri tíma. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að almennt sé ekki til neinn tími, hvorki í fortíð, nútíð né framtíð, sem heitir betri tími. Það er líka oft talað um skattkerfisbreytingar sem eitthvert ofur hættulegt fyrirbæri, rétt eins og Almættið hefði skapað núverandi skattkerfi á 8. deginum, og allt fikt við það væri skemmdarverk á sköpuninni. Í því sambandi tala menn oft um að ekki megi rugga bátnum. En er nokkurn tímann sársaukaminna að rugga bátnum, en einmitt á tímum eins og nú þegar báturinn steypir stömpum í einhverju mesta ruggi síðari tíma? M.a. þess vegna held ég að þessi umræddi betri tími sé einmitt frekar núna en endranær!
En hvers konar skattkerfisbreytingar vil ég þá sjá? Ég er svo sem ekki tilbúinn með neina heildarmynd af þeim, enda þarf meira en einn karl til að hanna nýtt skattkerfi. En í grófum dráttum vil ég að breytingarnar taki mið af þeim hugmyndum sem hafa komið fram og þróast á síðustu 30 árum um græna skattkerfisbreytingu (e: Ecological Tax Reform (ETR)). Meginhugmyndin í þeirri hugmyndafræði er að verð vöru endurspegli þann kostnað sem viðkomandi vara veldur umhverfi og samfélagi til langs tíma litið. Málið snýst sem sagt um innlimum úthrifa, eins og ég býst við að það sé kallað á einhvers konar íslensku (e: internalisation of externalities). Hugmyndirnar sem kynntar voru á blaðamannafundinum 2. júní 2008 voru einmitt skref í þessa átt.
En hvað væri þá rétt að gera núna, eða með öðrum orðum, hvað hefði verið rétt að gera núna í stað þess að demba einhverjum flötum sköttum ofan á allt draslið? Hér á eftir fara einhver svör af mörgum, bara svona sem dæmi:
- Hækka skatta á eldsneyti þannig að þeir séu tengdir við koltvísýringslosun vegna brennslu á viðkomandi eldsneyti. Það hefði í för með sér að skattur á díselolíu yrði nokkru hærri en skattur á bensín (líklega um 17% hærri).
- Láta bifreiðagjöld að einhverju leyti endurspegla koltvísýringslosun bifreiðanna. Þyngd bifreiðanna hlýtur þó að vega þungt líka vegna slits á vegum.
- Gjörbreyta vörugjöldum á bifreiðar, þannig að sparneytnustu bifreiðarnar beri engin slík gjöld, en mestu eyðsluhákarnir verulega há gjöld. Útfærslan á þessu liggur nánast fyrir í skýrslunni sem kynnt var 2. júní 2008, nema hvað mig minnir að þar sé gert ráð fyrir þrepaskiptingu (flokkun). Ég tel hins vegar farsælla að vörugjöldin séu línulegt fall af koltvísýringslosuninni.
- Gjörbreyta skattlagningu tóbaks, þannig að í stað flatra skatta til tekjuöflunar komi eyrnamerktir og gangsæir neysluskattar sem standa undir öllum kostnaði samfélagsins vegna tóbaksnotkunar, þ.m.t. öllum kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna notkunar þessarar vöru.
- Hækka virðisaukaskatt á flestum vörum lítillega, en lækka verulega virðisaukaskatt á vörum með umhverfisvottun eða lífræna vottun. Þessi mismunun er vandmeðfarin, en þó til þess fallin að innlima úthrif, því að umhverfismerkingar byggja jú á vistferilsmati og endurspegla því að hluta til líftímakostnað umhverfis og samfélags. Líklega eru umhverfismerkingar skásti tiltæki og þokkalega útbreiddi mælikvarðinn á þetta.
Málið snýst að hluta til um gagnsæi, þ.e. að fólki sé gerð skýr grein fyrir því hvers vegna skattlagningin sé eins og hún er, þ.m.t. hversu margar krónur af skattinum séu tilkomnar vegna koltvísýringslosunar, kostnaðs heilbrigðiskerfisins vegna reykinga o.s.frv. Þar með verður neyslustýringarhlutverkið ljósara og fólk áttar sig betur á valkostum sínum og hvaða áhrif val þess hefur.
Öll skattlagning hefur aukaverkanir. Þannig leiðir aukin skattlagning eldsneytis t.d. til hækkunar flutningskostnaðar. Þess vegna þarf alltaf að huga að jöfnunaraðgerðum þegar skattkerfi er breytt. Þetta verður nokkuð augljóst þegar maður veltir fyrir sér áhrifum þess að fara alla leið, þ.e.a.s. að færa skattlagningu alfarið af tekjum og yfir á neyslu. Ég skrifaði eitthvað um þetta í bloggfærslu 9. nóvember 2007.
Ein af aukaverkununum sem koma myndu fram ef vörugjöldum bifreiða yrði breytt á þann veg sem minnst var á hér að framan, fælist í verulegum breytingum á endursöluverði notaðra bíla. Þannig myndu sparneytnir bílar lækka í verði, þannig að í raun myndu eigendur þeirra tapa meira á sölu þeirra en ella. Hins vegar yrðu þeir jafnframt seljanlegri, og möguleikar seljandans á að fá sér nýjan sparneytinn bíl myndu batna. Á sama hátt myndu notaðir eyðsluhákar hækka í verði, en verða um leið enn illseljanlegri. Hugsanlega væri snjallt að endurskoða skilagjald á bifreiðar í tengslum við svona breytingu, m.a. með það í huga í heildina myndi breytingin örva viðskipti með bíla og draga um leið úr koltvísýringslosun bílaflotans. En þetta er stærra reikningsdæmi en svo að ég þykist geta leyst það einn við skrifborðið mitt áður en ég sný mér að öðrum verkefnum dagsins sem þar bíða.
Önnur aukaverkun hækkaðra skatta eru breytingar á vísitölum. Þetta er vægast sagt afar óþægileg aukaverkun. Þannig skiptir það mig svo sem engu máli hvort vodkaflaskan er 500 kallinum dýrari eða ódýrari, en ég er afar ósáttur við að skuldir mínar og annarra sveiflist til eftir verði vodkaflöskunnar. Kannski væri ráð að gera gagngerar breytingar á grunni vísitölunnar, þannig að inni í grunninum væru aðeins nauðsynjavörur, en óþarfi á borð við vodka og sykurskattað kók væri þar fyrir utan. Nýja vísitalan gæti þá t.d. heitið Nauðsynjavísitala.
Þetta er Stefán Gíslason sem talar frá Borgarnesi.
Mjög óvinsælar aðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.5.2009 | 17:00
Athugasemdir við umsókn ORF Líftækni hf.
Í dag sendi ég frá mér allítarlegar athugasemdir til Umhverfisstofnunar við umsókn ORF Líftækni hf. um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í framhaldi af tilkynningu sem birtist á vef Umhverfisstofnunar 20. maí sl., sjá einnig síðustu bloggfærslu. Afrit af athugasemdunum voru einnig send til Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra og allra nefndarmanna í Umhverfisnefnd Alþingis.
Lesa má athugasemdirnar í heild sinni á vef UMÍS ehf. Environice.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.5.2009 | 17:05
Ræktun mannapróteina í íslenskri náttúru
Umhverfisstofnun hefur til meðferðar umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. varðandi leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Þetta er mun stærri ákvörðun en kann að virðast í fljótu bragði, þar sem þetta yrði í fyrsta sinn sem leyft yrði að rækta erfðabreytta plöntu í íslenskri náttúru.
Sjálfur tel ég að ekki hafi verið sýnt fram á skaðleysi ræktunar af þessu tagi, sem ber þó að gera samkvæmt varúðarreglunni, áður en ræktunin er leyfð. Auk heldur virðist mér málsmeðferðin augljóslega stangast á við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB, um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið, sem ætti að vera búið að innleiða í íslenska löggjöf samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Reyndar stendur málið svo glöggt, að stjórnarfrumvarpi til laga til innleiðingar á tilskipuninni var dreift á Alþingi fyrir réttri viku (18. maí sl), (Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur), en hefur ekki enn komist á dagskrá.
Í frétt sem birt var á vef Umhverfisstofnunar 20. maí sl. kemur fram að stofnunin vill gefa almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að kynna sér tilgreind áform um útiræktun. Þess vegna hefur stofnunin birt á vefsvæði sínu helstu gögn er verða lögð til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu að hálfu Umhverfisstofnunar. Auk þess hefur stofnunin boðað til kynningarfundar í Gunnarsholti kl. 13.30 á morgun og gefið fólki kost á að skila inn athugasemdum í síðasta lagi 28. maí nk.
Það læðist að mér illur grunur um að hér eigi að taka stóra, stefnumótandi og óafturkræfa ákvörðun í tæka tíð áður en almenningur fréttir af því eða fær lögfestan rétt sinn varðandi málsmeðferðina. Einhver umfjöllun var um þetta mál í fjölmiðlum í síðustu viku, m.a. sl. föstudag, en annars tel ég málið lítt kynnt og frestinn til að koma á framfæri athugasemdum ótrúlega knappan miðað við það hversu stórt málið er og gögnin flókin.
Sjálfur hef ég ekki haft ráðrúm til að kynna mér málið almennilega, en þykist þó vita að engin sambærileg dæmi um útiræktun sé að finna í Evrópu, nema þá í mjög takmörkuðum mæli í tilraunaskyni. Hægt er að halda því fram að hér verði einnig um tilraunaframleiðslu að ræða, en slíkt tal virðist hreinlega útúrsnúningur, þar sem umfangið er langtum stærra en þekkist í tilraunum í álfunni: Hér er sem sagt um að ræða ræktun til sölu á fleiri hekturum lands. Auk heldur snýst þetta tiltekna mál um ræktun á mannapróteinum, en eina erfðabreytta plantan sem leyft er að rækta utanhúss í Evrópu er tiltekin gerð af erfðabreyttum maís til manneldis. Hér er því um gjörólíka starfsemi að ræða, sem á sér enga hliðstæðu í Evrópu!
Benda má Fésbókarnotendum á, að þar hefur verið stofnaður hópur undir yfirskriftinni Án erfðabreytinga - GMO frjálst Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 145269
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar