Leita í fréttum mbl.is

F(Eitt) Kína

Ég er að hugsa um að lýsa yfir sjálfstæði, en veit ekki alveg frá hverju, utanríkisráðherranum kannski. Ég er nefnilega dálítið leiður og pirraður út af ástandinu í Tíbet, held einhvern veginn að þar búi sérstök þjóð, sem eigi kannski ekki samleið með þeim þjóðum sem byggja Kína, hvað þá kínverskum stjórnvöldum. Í Tíbet býr ekki nema slatti af Kínverjum, kannski svona 6-10% af íbúum landsins. Og þó að Kublai Khan hafi slengt Tíbet saman við Kína á 13. öld eða þar um bil, og þó að einhvern veginn hafi tekist að halda þar kínverskum yfirráðum til 1911 eða eitthvað, þá finnast mér það ekki næg rök fyrir því að Tíbet eigi að tilheyra Kína, hvað þá fyrir því að Kínverjar megi misþyrma tilteknum Tíbetum og fangelsa þá, bara fyrir að hafa og láta í ljós skoðanir sem Kínverjum eru ekki þóknanlegar. Ég ætlaði líka að skrifa eitthvað um Taiwan, en ákvað að láta það bíða.

Mér finnst flott að Kosovo skuli vera búið að lýsa yfir sjálfstæði og flott að Ísland skuli vera búið að viðurkenna þetta sjálfstæði. Samt held ég einhvern veginn að Kosovo sé frekar hluti af Serbíu, heldur en Tíbet eða Taiwan af Kína. Hins vegar eiga Íslendingar eitthvað voða lítil viðskipti við Serba. Þess vegna mega Serbar alveg verða pirraðir og þess vegna er allt í lagi að viðurkenna sjálfstæði Kosovo.

Það kom fram í viðtali við utanríkisráðherra Íslands í sjónvarpsfréttunum á RÚV kl. 10 í kvöld, að Íslendingar styddu stefnu Kínverja um eitt Kína. Mér finnst líka alveg nóg að hafa eitt Kína. En það pirrar mig að hlusta á utanríkisráðherrann haga orðum sínum þannig að þau megi með einhverjum hætti túlka sem stuðning við yfirgang Kínverja við nágrannaþjóðir sem þeim hefur leyfst að pína í áratugi og aldir, sérstaklega þegar þess er getið í leiðinni að Íslendingar hafi "nokkur viðskiptatengsl" við Kína, jafnvel þó að í leiðinni sé talað um áhyggjur íslenskra stjórnvalda af ástandinu í Tíbet og hvatningu til Kínverja að virða mannréttindi. Eru ekki mannréttindi sjálfsögð krafa, sem þarf ekkert að hvetja stjórnvöld til að virða? Er ekki bara lágmark að krefjast þess? Það pirrar mig líka að það sé notað sem einhvers konar afsökun fyrir Kínverja að Kína sé ekki vestrænt lýðræðisríki!

Er ekki eitthvert allsherjar ósamræmi í þessu öllu saman? Er stefnan um eitt Kína ekki jafngild stefnunni um ein Sovétríki og eina Júgóslavíu? Eða eru Kínverjar á einhverri undanþágu vegna sérstakrar viðskiptavildar?

Segið mér endilega hvar misskilningur minn liggur. Þangað til þið eruð búin að því og ég búinn að skilja það, ætla ég að fylgja leiðarahöfundi Moggans og Önnu Pálu Sverrisdóttur að málum hvað þetta varðar - ekki utanríkisráðherranum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hm... kannski er þetta ekki bara út af viðskiptatengslunum, heldur líka stærðinni. Það er sjálfsagt frekar óþægilegt fyrir 300.000 manna þjóð að hafa 1000  milljóna þjóð mjög mikið upp á móti sér... Kínverjar eru líka mjög duglegir að þjösnast í þjóðum sem eru ekki sammála þeim. Rámar í það þegar Vigdís sagði eitthvað í einhverju viðtali, sem mátti túlka sem vinsemd í garð Taiwan, og sendiherrann í Kína sagði frá því í fjölmiðlum að hann hefði lent í kjölfarið í þeim erfiðustu fundum sem hann myndi eftir á sínum diplómatíska ferli.

Er svo sem ekki að reyna afsaka neitt, enda ekki kynnt mér þessi mál í þaula, meira að velta fyrir mér skýringum....

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband