27.10.2008 | 22:40
Rafall úr vindrafstöð
Bestu þakkir fyrir allar athugasemdirnar. Það er virkilega gaman að sjá allan þennan áhuga á þessum gömlu hlutum, og fá um leið allan þennan fróðleik. Og mikið rétt, þetta er einmitt rafall, nánar tiltekið jafnstraumsrafall - eða dýnamór - úr gamalli vindrafstöð, líklega 12V, þó að ég muni það ekki lengur. Grunar að hann hafi fyrir margt löngu tekið sinn síðasta snúning og verði varla ræstur á ný.
Umrædd vindrafstöð var ef ég hef skilið það rétt uppi á bæjarþakinu heima á árunum milli 1955 og 1960. Þegar ég man fyrst eftir mér hafði stöðin hins vegar lokið hlutverki sínu og lá í bútum úti á grjótgarði, þar sem hún liggur að hluta til enn. Reyndar minnir mig að pabbi hafi á sínum tíma nýtt prófíljárnin, sem héldu stöðinni upp, til viðhalds á einhverjum allt öðrum tækjum eða tólum. Nú er ekkert eftir nema rafallinn og það sem honum fylgir - og einhverjar leifar af fylgibúnaði, sem sést á myndinni hér fyrir neðan. Ætli þetta hafi verið vindhaninn?
Einhvern veginn held ég að tími vindrafstöðvanna hafi verið stuttur - og að saga þeirra sé kannski ekki vel varðveitt, nema þá í minni manna eins og Jóns Aðalbjörns Bjarnasonar, sem skrifaði virkilega fróðlega athugasemd við síðustu færslu. En kannski skjátlast mér, ef til vill hafa margir skrifað þykkar bækur um þennan tíma.
Ætli tími vindrafstöðvanna hafi ekki verið nokkurs konar millistig milli olíulampans og ljósavélarinnar. Þannig var það alla vega heima. Reyndar held ég að þessi vindrafstöð hafi svo sem ekki dugað í mikið meira en að lýsa upp tvær perur. Mig minnir að ein slík pera hafi verið til einhvers staðar inni í skáp þegar ég var smástrákur. En mikil framför hefur þetta samt verið. Eins og Jón Aðalbjörn nefnir, voru þessar stöðvar tengdar við rafgeyma. Geymarnir höfðu líka lokið hlutverki sínu þegar ég man fyrst eftir mér um 1960. En ytra byrðið af þeim var enn til, þ.e.a.s. sjálfur kassinn. Hann var úr þykku gleri, ferkantaður, svo sem 15x15 cm að grunnfleti og líklega um 18 cm hár. Svona kassi var alltaf notaður undir gróft salt í eldhúsinu heima. Gæti best trúað að hann væri þar enn í notkun til sömu þarfa.
Ég býst við að vindrafstöðin á þakinu heima hafi verið tekin niður árið 1959 eða 1960. Um það leyti kom fyrsta ljósavélin. Þetta var Lister díselvél, líklega eins strokks, með afl upp á 1,25 kW ef ég man rétt. Kaffivélin hérna frammi í eldhúsi þarf 1,30 kW þegar við hellum uppá. Í þá daga var vatnið í kaffið hitað á Sóló-eldavélinni og rafmagnið nánast bara notað til ljósa. Ljósavélin var samt ansi mikil bylting á sínum tíma. Vorið 1966 var keypt 6 kW tveggja strokka Listervél, og þá var hægt að fara að nota alls konar raftæki; eldavél og hrærivél og ég veit ekki hvað og hvað.
Já, það kom sem sagt fullt af réttum svörum við getrauninni, og allir eigið þið verðlaun skilin. Þau verða samt rýr. Þakklætið verður að duga. Ég þigg líka með þökkum allar frekari upplýsingar og ábendingar, bæði um svona vindrafstöðvar almennt og um þessa tilteknu stöð. Þykist vita að systkini mín og e.t.v. fleiri muni meira eftir henni en ég.
Takk enn og aftur. Aldrei hélt ég að mynd af gömlum dýnamó myndi verða svona vinsæl. Flettingarnar hafa aldrei verið fleiri á einum degi síðan ég byrjaði að blogga snemma á síðasta ári.
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Athugasemdir
Bernskan er hulin svo mikili þoku hjá mér að ég man ekki mikið eftir stöðinni né hvernig ljósin voru, minnir þó að birtan af þeim hafi ekki verið ýkja mikil og þau hafi átt það til að flökta ansi mikið. Man þó að hún var fest við norðurstafninn á Grafarbænum og stóð upp úr honum. Rétt er að taka fram vegna þeirra sem ekki vita að norðurstafninn snýr í austur. Ég veit ekki hvenær hún var sett upp, en held þó að það hafi jafnvel verið eitthvað fyrir 1955.
Halli Gísla (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 23:26
Sælir Stefán og þið hin öll.
Það er gaman að þessu en ég missti því miður af getrauninni. Ég man eftir svona rafmagnsrellu í brúki en það var í Hlíð í Kollafirði og man ég eftir að hafa komið þar smástrákur og þá einhverntíma líklega milli 1961-64. Ég man að ljósin voru frekar dauf og flöktu mikið.
Það er íhugunarvert hvort ekki væri hægt með nútímatækni að nýta vindkraftinn betur. Nú eru komnir miklu betri rafgeymar og þess háttar og nóg er til af strekkingnum að öllu jöfnu. Það væri til dæmis ekki amalegt á Ströndum þar sem rafmagnið fer gjarnan af á vetrum að eiga varaorku á rafgeymi.
Jón Bragi (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 05:55
Sæll Stefán.
Föðurbræður mínir þá rúmlega tvítugir settu slíka vindrafstöð upp á æskuheimili mínu (Höskuldsstöðum í Breiðdal, Austurlandi) fyrir 1940 og lögðu raflagnir til ljósanotkunar í húsið. Þessi vindrafstöð var sú fyrsta í Breiðdal og í notkun fram undir 1960 allavega man ég aðeins eftir því að þetta var í gangi (fædd 56). Ljósamótor kom svo 1962 og rafmagn frá Rarik 1972.
Annars er þetta skemmtileg upprifjun.
Kveðja að austan.
Jóhanna Guðm. Egilsstöðum
Jóhanna Guðm. (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 09:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.