Leita í fréttum mbl.is

Út að hlaupa aðeins lengra

Ég hef verið frekar reglusamur í hlaupunum í vetur. Hef yfirleitt hlaupið þrisvar í viku, samtals um 40 km. Tel það svona hæfilegan viðhaldsskammt. Þetta hefur oftast gengið eftir, en einstaka vikur hafa þó orðið styttri af ýmsum ástæðum. Stundum þarf maður líka að vinna og svoleiðis.

En núna þegar vorið nálgast, þarf maður að fara að setja sér markmið fyrir sumarið. Ég er reyndar búinn að leggja drög að fjallvegahlaupaáætlun sumarsins fyrir nokkru, eins og dyggir lesendur bloggsíðunnar minnar vita náttúrulega. Smile En mér finnst skemmtilegt að krydda fjallvegahlaupin með þátttöku í einstökum götuhlaupum líka, og nú er einmitt orðið tímabært að velta þeim aðeins fyrir sér.

Helst vil ég t.d. taka svo sem eitt maraþonhlaup á ári. Reyndar vill svo skemmtilega til að á morgun er einmitt liðið eitt ár frá því síðasta, en það var Rómarmaraþonið sællar minningar. Þetta árið er stefnan hins vegar ekki sett út fyrir landsteinana, enda eitthvað minni utanlandsferðahugur í manni en stundum áður. Nei, núna er Akureyri málið! Þar verður hlaupið maraþon 11. júlí nk. í tengslum við Landsmót UMFÍ. Það hefur alla burði til að verða verulega skemmtilegt hlaup.

En þá er spurningin hvort maður eigi kannski að taka svo sem eitt upphitunarmaraþon áður. Í því sambandi líst mér einna best á Vormaraþon Félags maraþonhlaupara, sem haldið verður á degi umhverfisins 25. apríl nk. Það verður sko í nógu að snúast þann daginn. Á ekki eitthvað að kjósa líka þennan dag?

Hmmm, ef ég ætla í Vormaraþonið, þá þarf ég líklega að fara að láta hendur standa fram úr ermum, já eða kannski fætur fram úr skálmum. Það eru bara 6 vikur til stefnu - og það er ekki farsælt að skella sér beint í maraþon úr einhverri 40 km vikulegri viðhaldsþjálfun. Til að þetta geti gengið nokkurn veginn slysalaust fyrir sig þarf ég að gera a.m.k. tvennt: Bæta fjórða hlaupadeginum inn í vikuna og lengja helgarhlaupið. Flesta laugardaga í vetur höfum við Ingimundur Grétarsson hlaupið svonefndan Háfslækjarhring, sem er um 21,5 km þegar hlaupið er að heiman frá mér og heim. Tókum einmitt 13. Háfslækjarhring vetrarins í morgun á milli élja. (Já, ég veit vel að það er sunnudagur en ekki laugardagur. Stundum missir maður bara tök á regluseminni). Auðvitað er auðvelt að lengja hringinn með hæfilegum útúrdúrum. Það gerði ég einmitt í morgun og náði þannig 24,8 km. Ef ég næ vikuskammtinum upp í 60 km, þar af svo sem 34 km lengsta laugardaginn, þá þori ég alveg í þonið á kjördag. Margir þurfa jú að leggja meira á sig vegna þess dags en ég!

Jæja, við sjáum til með þetta. Ég er enn ekki ákveðinn. Eða, ég er öllu heldur ákveðinn í að vera ákveðinn. Ég er bara ekki búinn að ákveða hvenær ég byrja á því. Framundan er mikil vinnutörn með töluverðum ferðalögum, þ.m.t. Reykjavík, Egilsstaðir, Stykkishólmur og Kaupmannahöfn á næstu 7 dögum. Mér hefur yfirleitt reynst erfitt að halda dampi í hlaupunum á slíkum tímum.

Kannski finnst einhverjum mikið að hlaupa 60 km í viku. En þetta er allt afstætt. Ég sá í hlaupadagbókinni áðan að Gunnlaugur Júlísson kláraði 54 km í morgun, fyrir hádegi.
Wizard

Með svona sjálfhverfri færslu er alveg nauðsynlegt að hafa svo sem eina sjálfsmynd. Þessi var tekin við Colosseum við upphaf Rómarmaraþonsins fyrir ári síðan. Ég er þessi myndarlegi í rauða hlírabolnum, og fáum skrefum aftar má greina Ingimund, enn myndarlegri í gulum hlírabol með sólgleraugu.

f00005510_3422616web


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þú ert langflottastur og mjög áberandi í þessum rauða bol sem harmonerar sérstaklega vel við litarhaft þitt og rauðsprengda hárið!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 15.3.2009 kl. 15:55

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk Ingibjörg. Þetta er allt útpælt! Fullkomið samræmi! Allt fyrir lúkkið! 

Stefán Gíslason, 15.3.2009 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband