29.5.2009 | 09:19
Enn af dauðum sniglum
Ég er ekkert á móti skattahækkunum, en hins vegar er ég mjög ósáttur við skattahækkanir af því tagi sem ákveðnar voru í gær. Þar létu menn enn einu sinni hjá líða að hefja þróun skattkerfisins í átt til nútímans, þ.e.a.s. í þá átt að láta skattlagningu vöru endurspegla að einhverju leyti þann umhverfislega og samfélagslega kostnað sem notkun vörunnar hefur í för með sér.
Ég hef áður skrifað um úrelta skattlagningu á eldsneyti og ökutæki. Í bloggfærslu 12. desember 2008 minnti ég t.d. á að á blaðamannafundi 2. júní 2008 kynnti Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, tillögur starfshóps um heildarstefnumótun skattlagningar á eldsneyti og ökutæki, en starfshópurinn hafði þá setið með málið í fanginu í tæpt ár. Við þetta tækifæri sagðist Árni gera ráð fyrir að það taki sumarið að fara yfir þessar niðurstöður og vonandi hægt að leggja fram frumvörp í haust og þau afgreidd fyrir áramót, svo vitnað sé í frétt mbl.is um málið.
Tillögur umrædds starfshóps gerðu ráð fyrir að skattlagning á eldsneyti og ökutæki yrði framvegis tengd við losun á koltvísýringi, enda væri Ísland með hæstu koltvísýringslosun nýskráðra fólksbíla innan evrópska efnahagssvæðisins. Tillögurnar byggðu að hluta á skýrslu Vettvangs um vistvænt eldsneyti, sem kynnt var í febrúar 2007.
Nú eru aðeins 4 dagar í ársafmæli umræddrar skýrslu. Samt er núna í annað sinn á þessu fyrsta ári ráðist í flatar skattahækkanir á eldsneyti og ökutæki, þ.e. hækkanir sem taka ekkert tillit til þeirra vel ígrunduðu tillagna sem settar voru fram í skýrslunni. Reyndar er hægt að halda því fram að öll skattlagning á bensín og díselolíu sé einhvers konar umhverfisskattur, en sú staðhæfing stenst þó ekki þegar grannt er skoðað, því að ég veit ekki til þess að í útskýringum með þessum nýjustu skattahækkunum sé nokkurs staðar minnst á annan tilgang skattlagningarinnar en að auka tekjur ríkissjóðs. Verð þó að viðurkenna að ég hef ekkert lesið mér til í þingskjölum gærdagsins.
Í framhaldi af orðum Árna M. Mathiesen 2, júní í fyrra, sem vitnað er til hér að framan, lét ég þau orð falla að ég sæi ekki betur en málinu væri ætlað að ganga áfram með hraða snigilsins, og svei mér ef snigillinn gengur ekki fyrir jarðefnaeldsneyti, annað hvort bensíni eða díselolíu. Í fyrrnefndri bloggfærslu 12. des. 2008 lét ég í ljós ótta við að snigillinn væri dauður - og nú er líklega óhætt að staðfesta andlát hans. Því er ástæða til að endurtaka spurninguna frá 12. des.: Til hvers í ósköpunum eru menn að plata hópa af fagfólki til að sitja í nefndum mánuðum eða árum saman, ef það stendur svo ekkert til að taka mark á þeim?
Nú kann einhver að halda því fram, að í miðju hruni sé ekki rétti tíminn til að huga að skattkerfisbreytingum. Við þessar aðstæður verði bara að sækja auknar tekjur með einhverjum ráðum, en róttækar breytingar á kerfinu þurfi að bíða betri tíma. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að almennt sé ekki til neinn tími, hvorki í fortíð, nútíð né framtíð, sem heitir betri tími. Það er líka oft talað um skattkerfisbreytingar sem eitthvert ofur hættulegt fyrirbæri, rétt eins og Almættið hefði skapað núverandi skattkerfi á 8. deginum, og allt fikt við það væri skemmdarverk á sköpuninni. Í því sambandi tala menn oft um að ekki megi rugga bátnum. En er nokkurn tímann sársaukaminna að rugga bátnum, en einmitt á tímum eins og nú þegar báturinn steypir stömpum í einhverju mesta ruggi síðari tíma? M.a. þess vegna held ég að þessi umræddi betri tími sé einmitt frekar núna en endranær!
En hvers konar skattkerfisbreytingar vil ég þá sjá? Ég er svo sem ekki tilbúinn með neina heildarmynd af þeim, enda þarf meira en einn karl til að hanna nýtt skattkerfi. En í grófum dráttum vil ég að breytingarnar taki mið af þeim hugmyndum sem hafa komið fram og þróast á síðustu 30 árum um græna skattkerfisbreytingu (e: Ecological Tax Reform (ETR)). Meginhugmyndin í þeirri hugmyndafræði er að verð vöru endurspegli þann kostnað sem viðkomandi vara veldur umhverfi og samfélagi til langs tíma litið. Málið snýst sem sagt um innlimum úthrifa, eins og ég býst við að það sé kallað á einhvers konar íslensku (e: internalisation of externalities). Hugmyndirnar sem kynntar voru á blaðamannafundinum 2. júní 2008 voru einmitt skref í þessa átt.
En hvað væri þá rétt að gera núna, eða með öðrum orðum, hvað hefði verið rétt að gera núna í stað þess að demba einhverjum flötum sköttum ofan á allt draslið? Hér á eftir fara einhver svör af mörgum, bara svona sem dæmi:
- Hækka skatta á eldsneyti þannig að þeir séu tengdir við koltvísýringslosun vegna brennslu á viðkomandi eldsneyti. Það hefði í för með sér að skattur á díselolíu yrði nokkru hærri en skattur á bensín (líklega um 17% hærri).
- Láta bifreiðagjöld að einhverju leyti endurspegla koltvísýringslosun bifreiðanna. Þyngd bifreiðanna hlýtur þó að vega þungt líka vegna slits á vegum.
- Gjörbreyta vörugjöldum á bifreiðar, þannig að sparneytnustu bifreiðarnar beri engin slík gjöld, en mestu eyðsluhákarnir verulega há gjöld. Útfærslan á þessu liggur nánast fyrir í skýrslunni sem kynnt var 2. júní 2008, nema hvað mig minnir að þar sé gert ráð fyrir þrepaskiptingu (flokkun). Ég tel hins vegar farsælla að vörugjöldin séu línulegt fall af koltvísýringslosuninni.
- Gjörbreyta skattlagningu tóbaks, þannig að í stað flatra skatta til tekjuöflunar komi eyrnamerktir og gangsæir neysluskattar sem standa undir öllum kostnaði samfélagsins vegna tóbaksnotkunar, þ.m.t. öllum kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna notkunar þessarar vöru.
- Hækka virðisaukaskatt á flestum vörum lítillega, en lækka verulega virðisaukaskatt á vörum með umhverfisvottun eða lífræna vottun. Þessi mismunun er vandmeðfarin, en þó til þess fallin að innlima úthrif, því að umhverfismerkingar byggja jú á vistferilsmati og endurspegla því að hluta til líftímakostnað umhverfis og samfélags. Líklega eru umhverfismerkingar skásti tiltæki og þokkalega útbreiddi mælikvarðinn á þetta.
Málið snýst að hluta til um gagnsæi, þ.e. að fólki sé gerð skýr grein fyrir því hvers vegna skattlagningin sé eins og hún er, þ.m.t. hversu margar krónur af skattinum séu tilkomnar vegna koltvísýringslosunar, kostnaðs heilbrigðiskerfisins vegna reykinga o.s.frv. Þar með verður neyslustýringarhlutverkið ljósara og fólk áttar sig betur á valkostum sínum og hvaða áhrif val þess hefur.
Öll skattlagning hefur aukaverkanir. Þannig leiðir aukin skattlagning eldsneytis t.d. til hækkunar flutningskostnaðar. Þess vegna þarf alltaf að huga að jöfnunaraðgerðum þegar skattkerfi er breytt. Þetta verður nokkuð augljóst þegar maður veltir fyrir sér áhrifum þess að fara alla leið, þ.e.a.s. að færa skattlagningu alfarið af tekjum og yfir á neyslu. Ég skrifaði eitthvað um þetta í bloggfærslu 9. nóvember 2007.
Ein af aukaverkununum sem koma myndu fram ef vörugjöldum bifreiða yrði breytt á þann veg sem minnst var á hér að framan, fælist í verulegum breytingum á endursöluverði notaðra bíla. Þannig myndu sparneytnir bílar lækka í verði, þannig að í raun myndu eigendur þeirra tapa meira á sölu þeirra en ella. Hins vegar yrðu þeir jafnframt seljanlegri, og möguleikar seljandans á að fá sér nýjan sparneytinn bíl myndu batna. Á sama hátt myndu notaðir eyðsluhákar hækka í verði, en verða um leið enn illseljanlegri. Hugsanlega væri snjallt að endurskoða skilagjald á bifreiðar í tengslum við svona breytingu, m.a. með það í huga í heildina myndi breytingin örva viðskipti með bíla og draga um leið úr koltvísýringslosun bílaflotans. En þetta er stærra reikningsdæmi en svo að ég þykist geta leyst það einn við skrifborðið mitt áður en ég sný mér að öðrum verkefnum dagsins sem þar bíða.
Önnur aukaverkun hækkaðra skatta eru breytingar á vísitölum. Þetta er vægast sagt afar óþægileg aukaverkun. Þannig skiptir það mig svo sem engu máli hvort vodkaflaskan er 500 kallinum dýrari eða ódýrari, en ég er afar ósáttur við að skuldir mínar og annarra sveiflist til eftir verði vodkaflöskunnar. Kannski væri ráð að gera gagngerar breytingar á grunni vísitölunnar, þannig að inni í grunninum væru aðeins nauðsynjavörur, en óþarfi á borð við vodka og sykurskattað kók væri þar fyrir utan. Nýja vísitalan gæti þá t.d. heitið Nauðsynjavísitala.
Þetta er Stefán Gíslason sem talar frá Borgarnesi.
Mjög óvinsælar aðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Athugasemdir
Þú gleymir einu. Það þarf líka að skattleggja sérstaklega aukakíló á fólki. Það verði gert með stighækkandi skatti á þau kíló, sem eru umfram optimum BMI -
Pokamaðurinn (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 09:44
Mér líst vel á tillöguna þína um "nauðsýnjavísitöluna".
Úrsúla Jünemann, 29.5.2009 kl. 11:52
Sæll Sefán.
Tvennt sem við erum sammála um; annarsvegar að hemja bílaflotann, og óþarfa innflutning á orku, og hinsvegar þetta með vodkaflöskuna. Ég er þó nokkuð til í að setja óráðnu jöfnuna í salt og hætta að reikna vísitölur. Betra að eiga við þríliður sem hafa dugað okkur "venjulega fólkinu" hingað til.
Sindri Karl Sigurðsson, 30.5.2009 kl. 00:58
Sammála þessu með nauðsynjavisitölu, en velti líka fyri mér afhverju ekki tengja bara við húsnæðisverði. Varðandi eldsneyti þá finnst mér álíka eða meira súrt að verðið á lednesyti skuli hafa áhrif á húsnæðiskostnaði hjá mér. Ef fleiri væru að nota minna eldsneyti, eða í svipuðu magni og gerist í erlendum borgum, þá væri vægi eldsneytis minna. Sjálfur nota ég varla eldsneyti. Fyrir aðra vegur eldsneyti þungt, til dæmis í landbunaðarrekstri.
Það er reyndar fjarri sönnu að eina verulega neikvæða áhrifin af notkun eldsneytis sé losun ákoltvísýringi. Sót úr dísilvélum, þá sérstaklega af eldri ökutækjum og stórum, er það sem skapar lang-hættulegasti svifrykið að mér skilst. Ofnotkun á bílum leiðir til hreyfingarleysis og útþenslu byggðar og margt margt fleira, allveg óháð útblæstri. Hreyfingarleysi drepur þegar fleiri fyri raldur fram en reykingar gera. Framleisðslu á bíl vegur mjög þungt og getur verið af sömu stærðargráðu og umhversiáhrif frá útblæstri. Að miða bara við koltvísyringi er því mikill einföldun, en kannski ágætis byrjun/tímabundin lausn.
Pokamaðurinn : Mér finst þú blanda tvennu saman: Skattlagningu á vöru og á fólki.
Morten Lange, 31.5.2009 kl. 02:33
Mér sýnist að það sé margt til í þessu hjá þér félagi Stefán!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 1.6.2009 kl. 00:41
Við sumarhúsið mitt eru sniglar í milljónatali, Lyngbobbar. Þeiru eru allir lifandi og mjög umhverfisvænir. Þú ættir að koma og kíkja á þá. Þá tækir þú gleði þína aftur. Svo eru þeir áreiðanlega góðir til átu með réttu amboði.
Sigurbjörn Sveinsson, 1.6.2009 kl. 19:56
Sammála hér. Það er kjörið tækifæri núna til að hugsa hlutina frá grunni. Að byggja skattabreytingar á hugsun um "innlimun úthrifa" væri alvöru skref í átt til umhverfisvænna samfélags og auk þess tækifæri fyrir nýja ríkisstjórn að sækja fram og vera í takt við þær breytingar sem eru að verða í heiminum í dag. Þú ættir að senda þessa bloggfærslu á nýjan umhverfisráðherra - já eða bara ríkisstjórnina alla!
Birna Helgadóttir (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 02:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.