Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
19.10.2008 | 18:36
Stuðningur Powells skiptir máli
Mér þykja það góð tíðindi að Colin Powell hafi lýst opinberlega yfir stuðningi við Barack Obama. Powell er maður sem margir taka mark á, virkilegur þungavigtarmaður sem sagt. Ég held að stuðningur hans skipti miklu máli á lokasprettinum, en síðustu daga virðist John McCain hafa verið að saxa jafnt og þétt á forskot Obama.
Það skiptir mig afar miklu máli að Barack Obama fari með sigur af hólmi í forsetakosningunum vestra. Líklega hafa engar kosningar, hvorki nær né fjær, skipt mig eins miklu máli og þessar, síðan Lyndon B. Johnson gjörsigraði Barry Goldwater 1964. Og ég er víst ekki einn um að vonast eftir sigri Obama, alla vega ef marka má niðurstöður netkönnunar sem allir netverjar heimsins geta tekið þátt í á http://www.iftheworldcouldvote.com. Þar er staðan núna 87-13 fyrir Obama. Í þeirri kosningu hefur Obama meirihluta í öllum löndum nema Makedóníu og Búrkína Fasó, en í því síðarnefnda hafa reyndar bara tveir netverjar tekið þátt í könnuninni.
Úrslitin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum ráðast ekki á netinu, heldur í þarlendum kjörklefum. Niðurstöðurnar munu hins vegar hafa mikið að segja um það hvernig heimsmálin þróast á næstu mánuðum og árum. Ég er sammála þeim sem telja bjartara framundan með Barack Obama í Hvíta húsinu, en ef John McCain fær að setjast þar að. Reyndar held ég að McCain sé út af fyrir sig mjög frambærilegur frambjóðandi, svo langt sem það nær, en maður má ekki gleyma hvaða hópar myndu meðal annarra stuðla að kjöri hans og telja sig eiga hönk upp í bakið á honum. Forseti Bandaríkjanna er ekki einráður.
Powell styður Obama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.10.2008 | 20:58
Án Brán
Englendingar eru kján-
aleg þjóð sem stundar rán.
Lengi gæti ég lifað án
leiðindanna í Gordon Brown.
Æi, Englendingar eiga þetta nú annars ekkert skilið af mér. Þetta er upp til hópa vænsta fólk held ég. Veit heldur ekki til þess að þeir hafi kosið sér þessi ósköp fyrir forsætisráðherra. En það hefur löngum þótt áhrifamikið að koma klámi og níði í bundið mál - og ég skáka náttúrulega í því skjólinu. Slíkt er gamall íslenskur siður, sem var fundinn upp löngu á undan lögum um varnir gegn hryðjuverkum, og hefur því væntanlega unnið sér ákveðna hefð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2008 | 23:02
„Minni orkunýting við siglinar“
Þegar ég skrifaði bloggfærslu um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrr í dag, urðu mér á þau mistök að taka 9 orð orðrétt af íslenskum hluta heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar, án þess að lesa þau af neinni nákvæmni. Svoleiðis á maður aldrei að gera. Þá getur maður lent í því að tala um minnkandi orkunýtingu við siglinar í stað þess að tala um bætta orkunýtingu við siglingar. Þetta kennir manni að maður á fyrst að læra að lesa áður en maður reynir að skrifa, sérstaklega ef maður ætlar að skrifa texta eftir einhvern annan!
Biðst fyrirgefningar á klúðrinu og endurtek hamingjuóskir til Marorku!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2008 | 14:13
Til hamingju Marorka!
Sl. fimmtudag var tilkynnt að fyrirtækið Marorka hlyti umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2008 fyrir þróun upplýsingatækni sem minnkar orkunýtingu við siglinar verulega. Mér finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessu, þar sem fréttir af verðlaunaveitingunni hafa fallið dálítið í skuggann af öðrum og leiðinlegri fréttum. Nánari fréttir af verðlaunaveitingunni er m.a. að finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar og á heimasíðu Marorku.
Þróun umhverfisvænnar tækni hefur þegar skapað fjöldann allan af nýjum störfum, bæði hérlendis og erlendis. Árangur Marorku er eitt af bestu dæmunum um það. Að mati Sameinuðu þjóðanna munu skapast tugir milljóna nýrra starfa í umhverfisgeiranum á næstu áratugum. Við núverandi aðstæður hafa reyndar margir áhyggjur af því að erfitt verði að útvega lánsfé til nýrra verkefna, en á móti kemur að fjárfestar munu nú væntanlega snúa sér í auknum mæli að áhættulitlum verkefnum sem skila góðri ávöxtun til langs tíma. Þess vegna má jafnvel búast við auknu fjárstreymi til umhverfisverkefna af ýmsu tagi.
Á þessu sviði liggja gríðarlega stór tækifæri fyrir Íslendinga. Marorka hefur rutt brautina, ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum. Framhaldið er undir okkur sjálfum komið. Viljum við leita nýrra lausna, eða viljum við berja hausnum við steininn og reyna að leysa aðsteðjandi vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálin voru búin til, svo vitnað sé í orð Alberts Einstein?
Til hamingju Marorka!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2008 | 10:41
Eru umhverfiskröfur til trafala?
Oft heyrist sagt að umhverfiskröfur stefni hagsmunum atvinnulífsins í voða. Þetta er alveg rétt. Auknar umhverfiskröfur stefna í voða hagsmunum þess atvinnulífs, sem stefnir hagsmunum komandi kynslóða í voða með útblæstri og ofnýtingu náttúruauðlinda.
Þeim sem vilja lesa sér til um þessar einföldu staðreyndir, bendi ég á einkar fróðlega bloggsíðu sem Svíinn Hans Nilsson heldur úti, sjá www.fourfact.com.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.10.2008 | 12:31
Uppskrift að fullkomnum laugardagsmorgni
Kl. 08.00 | Vakna og drífa sig í hlaupafötin |
Kl. 08.10 | Fá sér morgunmat: AB-mjólk og músli Lesa Moggann, skoða Fréttablaðið |
Kl. 09.00 | Fara út að hlaupa |
Kl. 11.00 | Koma heim, fá sér hressingu, fara í sturtu, hugsa um hvað lífið er dásamlegt, raka sig |
Kl. 12.00 | Morgunninn búinn, dagurinn tekur við |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.10.2008 | 09:34
Þjónusta vistkerfa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2008 | 23:24
Út að hlaupa - frá vandanum
Ég finn ekki hjá mér neina hvöt til að blogga um lausafjárskort og bankavandræði. Sýnist að ég muni litlu breyta í þeim efnum, jafnvel þótt ég taki mig til og kaupi íslenskar krónur fyrir allt danska klinkið sem ég á í filmuboxi í ónefndri skúffu. Vissulega myndi þetta auka erlendan gjaldeyri í umferð og styrkja þannig krónuna, en ég er bara ekki viss um að þessi gjaldeyrisforði sé nógu stór til að slá virkilega í gegn á markaðnum. Þess vegna er niðurstaðan sem sagt sú að ég geti litlu breytt, nema þá ef ég myndi skipta færeyska 50-kallinum sem ég geymi í veskinu mínu. Og því tími ég ekki. Þess vegna ætla ég bara að bíða rólegur þess sem verða vill og láta öðrum eftir að vera sérfræðingar í því hvað hefði átt eða ekki átt að gera. Þegar allt kemur til alls sýnist mér best að nota þessa rólegu bið til að fara út að hlaupa - og til að blogga um hlaup. Hér fara því á eftir ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um hlaup dagsins og ársins. Sumum kunna að finnast þessar upplýsingar léttvægar, en ég get samt fullvissað þjóðina um að þær eru a.m.k. jafn gagnlegar og jafnlangt blogg um lausafjárskort.
Ég fór sem sagt út að hlaupa í kvöld - burt frá öllum vanda. Upp á síðkastið hefur sólargangurinn skerst eins og fleira, og því er ég orðinn háður götuljósum á kvöldhlaupum. Hlaup kvöldsins fór því fram á götum Borgarness - og líka að hluta til á íþróttavellinum. Þetta voru 12,55 km, sem ég lagði að baki á 1:03:31 klst. Meðalhraðinn var því 5:04 mín/km, eða 11,86 km/klst. Með þessu hlaupi eru samanlögð hlaup ársins komin í 1.499 km, sem er það langmesta sem ég hef hlaupið á einu ári til þessa. Í næsta hlaupi verður 1.500 km múrinn rofinn. Þá verður nú aldeilis tilefni til að skrifa laaaaangt blogg! Þess má líka geta að það sem af er árinu hef ég hlaupið eitthvað 111 daga, en alla hina dagana hef ég ekki hlaupið neitt. Samtals hafa þessi hlaup tekið tæpa 6 sólarhringa, sem er nú ekki svo ýkja mikið; nánar tiltekið 141:15:42 klst.
Ég tel brýnt að fram komi að í kvöld hljóp ég á Asics Kayano skóm, sem ég keypti á útsölu í Flexor í lok febrúar 2008. Samtals er ég búinn að hlaupa 619,92 km í þessum skóm, sem er ekki sérlega mikið. Þeir eru enda alveg óslitnir að neðan, en farnir að láta mikið á sjá að ofan.
Ég geri ráð fyrir að flestum þyki þessar upplýsingar ónákvæmar og ófullnægjandi. Hægt er að fá gleggri mynd af ástandinu á http://www.hlaup.com, þar sem ég skrái hlaupaæfingar mínar af töluverðri samviskusemi, ásamt með 652 öðrum íslenskum hlaupurum. Það er skemmtilegt samfélag!
Þessa dagana hef ég reyndar ekki að neinu að stefna í hlaupunum, öðru en því að hlaupa frá vandamálum og halda mér í sæmilegu líkamlegu og andlegu formi. Til þess tel ég mig þurfa að hlaupa þrisvar í viku, samtals að lágmarki 40 km, t.d. 12+8+20, t.d. á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum og laugardagsmorgnum. Það er ekki nóg með að "heimsins grjót" sé mér fjarri á meðan, heldur næ ég stundum að velta við öðrum steinum og komast að fjársjóðunum sem undir liggja. Héld að fleiri ættu að prófa þetta!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.10.2008 | 13:17
Söngur er flestra meina bót
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2008 | 10:13
Páfinn vinnur gegn sjálfbærri þróun
Það er auðvitað ekkert nýtt að Páfagarður sé á móti getnaðarvörnum. Hins vegar tel ég að þessi andstaða valdi sífellt meira tjóni með hverju ári sem líður. Fram hjá því verður ekki horft að takmarkað aðgengi að getnaðarvörnum og andstaða trúarleiðtoga við að þær séu notaðar eiga sinn þátt í óhóflegri fólksfjölgun í þróunarlöndunum, svo ekki sé nú minnst á útbreiðslu AIDS og annarra sjúkdóma sem tengjast kynhegðun fólks. Og fram hjá því verður heldur ekki horft að fólksfjölgun á heimsvísu er eitt þriggja atriða sem ráða mestu um áhrif mannsins á umhverfið og þar með um möguleika mannkynsins á að framfleyta sér á jörðinni. Hin atriðin eru neysla hvers einstaklings og tæknin sem notuð er við neysluna, (sbr. líkan Paul Erlichs frá 1974).
Vissulega bera Vesturlönd mesta ábyrgð á því hvernig komið er í umhverfismálum á heimsvísu. Þar er ekki fólksfjölgun um að kenna, heldur neyslu. Og vissulega væri það ósanngjarnt af mér og öðrum Vesturlandabúum að ætlast til að íbúar þróunarlandanna dragi úr álaginu með því að fjölga sér minna. En málið er ekki svona einfalt. Engin afrísk móðir kærir sig t.d. um að eignast 10 börn og horfa upp á 7 þeirra deyja í bernsku! Þrjú heilbrigð börn, sem fá að alast upp við skikkanleg skilyrði, væru eflaust mun betri kostur, bæði að mati móðurinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Málið snýst sem sagt ekki um að banna íbúum þróunarlandanna að auka kyn sitt, heldur eingöngu um það að sjá þeim, og þá sérstaklega konum, fyrir menntun og tækifærum til að taka ákvarðanir um eigin fjölskyldustærð og framtíð! Andstaða Páfagarðs gegn getnaðarvörnum er til þess fallin að auka eymd í þróunarlöndunum. Þetta væri allt í lagi ef enginn tæki mark á Vatíkaninu. En þannig er það því miður ekki! Ég álít að því miður sé þessi andstaða Páfagarðs einn helsti steinninn í vegi sjálfbærrar þróunar. Páfagarður ber líka ábyrgð á því, ásamt með stjórnvöldum á Filippseyjum, að fólksfjölgun fékkst ekki rædd af neinu viti á Ríóráðstefnunni 1992. Þess vegna er líka sá kafla í Dagskrá 21 (5. kafli) lítið meira en máttlaust hjal. Hér heggur sá er hlífa skyldi, nefnilega páfinn!
Einhvern tímann á næstunni skrifa ég kannski örlítið ítarlegri samantekt um fólksfjölgunarvandamál og mikilvægi þess að konur í þróunarlöndunum fái sjálfsákvörðunarrétt og tækifæri til menntunar.
Fordæming getnaðarvarna staðfest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt