Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Látum ekki góða kreppu fara til spillis

Hillary ClintonFyrirsögn þessarar færslu er fengin að láni hjá Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en sl. föstudag hélt hún ræðu fyrir unga Evrópubúa í Evrópuþinginu. Þar ræddi hún um tækifærin sem nú gefast til að endurreisa hagkerfi heimsins á nýjan hátt, þannig að þau verði umhverfisvænni en áður og ekki eins orkufrek. Nú gæfist einstakt tækifæri til að sporna gegn loftslagsbreytingum og stuðla að auknu orkuöryggi.

Í ræðunni tók Hillary Clinton undir þær hugmyndir sem fram hafa komið um græna endurgjöf ("New Green Deal"), sem leið til að skipta kolefniskrefjandi innviðum út fyrir aðra grænni, um leið og skapaðar yrðu milljónir nýrra atvinnutækifæra. Þá fordæmdi hún orkuskömmtun í pólitískum tilgangi og vísaði þar til deilna Rússa og Úkraínumanna.

Það er auðvitað ekkert fallegt að tala um „góða kreppu“, en hver sú þjóð sem ætlar sér að koma standandi niður úr fallinu þarf að gera sér grein fyrir tækifærunum sem liggja á lendingarstaðnum. Þær þjóðir sem ekki gera það munu verða undir í samkeppninni!

Byggt á frétt PlanetArk/Reuter í dag, sjá http://planetark.org/enviro-news/item/51938.


Góðar fréttir!

Ég tel hugmyndina um stjórnlagaþing vera eina af þeim bestu sem skotið hefur upp í ölduróti síðustu vikna og mánaða. Ekki einasta er stjórnarskráin gömul og úrelt, heldur er einmitt þessi aðferð til að endurskoða hana líkleg til að vekja með þjóðinni von um nýja tíma. Alla vega eflir hugmyndin um stjórnlagaþing mig í þeirri trú að við ætlum að ösla yfir fljótið, yfir að fljótsbakka framtíðarinnar, í stað þess að láta þá sem hrintu okkur út í drösla okkur aftur upp á sama gamla fljótsbakkann, til þess eins að allt geti orðið sem fyrr, þar sem hver hugsaði um „stundarhaginn, nokkra aura í svipinn“, en lét sér standa á sama hvort gerður var „stórskaði öldum og óbornum“, svo ég vitni enn og aftur í orð Þorvaldar Thoroddsen frá 1894.
mbl.is Stjórnlagaþing kosið í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tala kjark í þjóðina

Ég er eiginlega alveg sammála því sem Davíð Oddsson sagði í Kastljósviðtalinu um daginn, að ráðamenn geri allt of lítið af því að tala kjark í þjóðina.

Sú skoðun virðist útbreidd, að þegar illa gangi megi helst hvergi örla fyrir brosi, heldur skuli menn ganga álútir og hoknir í hnjánum, svo vitnað sé í frumvarp Steins Steinars til laga um samræmt göngulag fornt. Bjartsýni við slíkar aðstæður þykir kjánaleg og bera vott um vanþekkingu.

En hvernig sem staðan er, þá ræður maður nokkru sjálfur um eigin líðan. Það eru nefnilega til tvær gerðir af gleraugum; bjartsýnisgleraugu og svartsýnisgleraugu. Maður ræður sjálfur hvora gerðina maður notar. Útsýnið er það sama í báðum tilvikum, það kemur manni bara ekki eins fyrir sjónir. Val manns á gleraugum fer að nokkru eftir því hvernig gleraugu samferðamennirnir nota. Þess vegna er gleraugnanotkun ráðamanna líkleg til að hafa víðtæk áhrif.

Það er hægt að tala kjark í þjóðina án þess að gera lítið úr vandanum. Auðvitað þarf að viðurkenna vandann og tala um hann. En um leið þarf að minna á það sem gefur vonir. Ein leið til þess er að fylla upp í umræðu um vandamál til skamms tíma með umræðu um tækifæri til langs tíma. Reyndar held ég að okkur sé allt of tamt að einblína á mjög stutt tímaskeið í einu, eiginlega bara það sem er rétt fyrir framan tærnar á okkur. Nokkrir mánuðir eru ákaflega lítill hluti af heilli mannsævi, og því má alls ekki draga of miklar ályktanir af þessum mánuðum. Þeir verða kannski bara eins og skjálfhent skripl á línuriti aldarinnar. Horfum lengra fram í tímann, ekki vikur, ekki mánuði, en kannski ár og helst áratugi. Leyfum okkur að ákveða hvers konar lífi við lifum þá og í hvers konar samfélagi. Þar eru birtunni naumast takmörk sett. Og þegar sú mynd er tilbúin skulum við líta til baka og finna út hvernig við komumst þangað. Það er nefnilega ekki nóg að búa bara til framtíðarmyndina - og setja hana svo upp í skáp, rétt eins og stjórnvöld hafa gert með loftslagsmarkmiðin sín fyrir árið 2050. Það þarf líka að ákveða hvernig sú mynd verði að veruleika. Það er skemmtilegt viðfangsefni.

Síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum staðið dapur upp frá svartsýnistali sjónvarpsins og hugleitt að henda bjartsýnisgleraugunum. Á þeim stundum hef ég fundið hvernig neikvæð umræða brýtur mann niður. Það þarf að tala kjark í þjóðina. Stjórnvöld og fjölmiðlar þurfa að tala kjark í okkur og við þurfum að tala kjark í vini okkar og fjölskyldur. Svartsýnn maður er ekki líklegur til stórræða. Umræðan hefur áhrif. Hún getur bæði hvatt og lamað. Staðreyndirnar geta lamað. Umræðan þarf að sjá um hitt.

Davíð sagði margt fleira í þessu sama Kastjósviðtali. Ég læt viðhorf mitt til alls hins liggja milli hluta.


Jafnréttisáherslur í loftslagsumræðunni

Anniken Huitfeldt. Ljósm. NMR: Yann AnkerNorræna ráðherranefndin um jafnréttismál tekur þátt í 53. kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem stendur nú yfir. Þar munu Norðurlöndin leggja sérstaka áherslu á jafnrétti sem mikilvægan lið í því að leysa loftslagsvandann.

Í raun er óhjákvæmilegt að huga að jafnréttismálum þegar rætt er um loftslagsvandann. Á það má m.a. benda að konur skilja eftir sig mun minna kolefnisfótspor en karlar, en verða að engu síður meira fyrir barðinu á loftslagsbreytingum. Þar koma við sögu ýmsir þættir, sem venjulegur Íslendingur leiðir líklega ekki hugann að. Til dæmist farast fleiri konur en karlar í flóðum, vegna þess að þær eru síður syndar en karlarnir. Þrátt fyrir að vera um helmingur jarðarbúa, eiga konur lítinn þátt í ákvörðunum um stefnumótun í loftslagsmálum. Þær eru t.d. aðeins um 15-20% þeirra sem taka þátt í alþjóðlegu samningaferli um loftslagsmál hjá Sameinuðu þjóðunum.

Hægt er að fræðast meira um sameiginlegt framtak Norðurlandanna á yfirstandandi kvennaráðstefnu á fréttasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Mér fannst ástæða til að vekja athygli á þessu hér, þar sem mig grunar að hið mikla starf sem fram fer á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar fari býsna mikið fram hjá Íslendingum, jafnvel þótt Ísland fari með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þetta árið. Það eru t.d. Íslendingar sem leiða sérfræðingaráðstefnu um jafnrétti og loftslagsmál í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna á morgun klukkan 13.15 að staðartíma!

Aðalhvatinn að þessari bloggfærslu voru þó skrif góðrar vinkonu minnar og fyrrum samstarfskonu, Auðar H Ingólfsdóttur, en hún vakti athygli á kynjaslagsíðu í loftslagsumræðunni á bloggsíðunni sinni 26. febrúar sl.

Myndin með þessari færslu er af Anniken Huitfeldt, barna- og jafnréttisráðherra Noregs. Myndin er tekin að láni af heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. (Ljósm.: Yann Anker)


Skaðabótaábyrgð Ísraelsmanna

Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var sagt frá því að þjóðir heims hefðu samþykkt að leggja fram hátt í 4,5 milljarða Bandaríkjadala til uppbyggingar á Gaza og til aðstoðar efnahagslífi Palestínumanna. Þar af ætlar Bandaríkjastjórn að leggja fram 900 milljónir dala, Saudi Arabar um 700 milljónir og Evrópusambandið um 550 milljónir, svo eitthvað sé nefnt.

Þessi viðbrögð alþjóðasamfélagsins eru gleðitíðindi. Að sjálfsögðu verða þjóðir heims að hlaupa undir bagga - og því fyrr því betra! En um leið vekur þetta upp spurningar um endurkröfurétt á hendur Ísraelsmönnum, en það voru jú vel að merkja þeir en ekki óblíð náttúra sem lögðu innviði Gaza í rúst. Auðvitað eiga þjóðir heims að drífa í að aðstoða við uppbygginguna, en mér finnst jafnsjálfsagt að þessar sömu þjóðir sendi Ísraelsmönnum síðan reikninginn. Á ekki sá að borga sem veldur skemmdunum, rétt eins og sá borgar sem mengar, skv. Mengunarbótareglunni? Á sama hátt ætti svo að láta Hamas borga það tjón sem árásir þeirra á Ísrael hafa valdið. Kannski er hægt að skuldajafna og láta bara þann sem skemmdi meira borga mismuninn þegar upp er staðið.

Eða hefur Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, kannski rétt fyrir sér þegar hann segir „að Ísraelar sem lögðu alla innviði Gaza í rúst eigi ekki að borga fyrir skemmdirnar og það tjón sem íbúarnir urðu fyrir“, þar sem erfitt sé að sanna að Hamas hafi ekki skotið frá þeim stöðum sem Ísraelar sprengdu í loft upp?

Ég veit lítið um alþjóðastjórnmál og alþjóðarétt. Er ekki einhver til í að útskýra það fyrir mér hvers vegna Ísraelsmenn hafi mátt leggja Gaza í rúst, án þess að þurfa síðan að bera neinn kostnað af uppbyggingarstarfinu?


Gott hjá Ástu

Mér finnst gott hjá Ástu skólasystur minni að biðjast afsökunar. Og mér finnst algjör óþarfi hjá bloggurum að vera að ólundast eitthvað út af því. Það er nefnilega stór munur á því að bera einhverja ábyrgð á því hvernig komið er - og biðjast afsökunar, og hinu að bera þessa sömu ábyrgð (og jafnvel meiri) og biðjast EKKI afsökunar. Allt of margir hafa valið síðari kostinn, eins og t.d. Geir H. Haarde, sem varð svona líka vandræðalega pirraður í dag út af því að einhver undirhópur Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins dirfðist að gefa í skyn að kannski þyrfti að gera eitthvað upp við fortíðina. Ekki veit ég hvar Geir hefur eiginlega verið síðustu mánuði og ár. En mér finnst alla vega bara fínt að Ásta og undirhópur Endurreisnarnefndarinnar hafi verið einhvers staðar annars staðar. Ásta er maður að meiri fyrir bragðið.


mbl.is Baðst afsökunar á mistökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf á 95% samdrætti fyrir 2050!

save our climate 100Stavros Dimas, umhverfisstjóri Evrópusambandsins, kvað allskýrt að orði sl. föstudag á loftslagsráðstefnu í Búdapest. Hann sagði m.a. að loftslagsfundurinn í Kaupmannahöfn í desember 2009 væri síðasta tækifæri ríkja heims til að stöðva loftslagsbreytingar, áður en þær verða komnar á það stig að ekki verði aftur snúið. Það væri því ekki aðeins mögulegt, heldur algjörlega bráðnauðsynlegt að ná víðtækri samstöðu á fundinum í Kaupmannahöfn.

Dimas undirstrikaði líka í máli sínu, að til þess að takast megi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir árið 2050, miðað við grunnárið 1990, en það er einmitt sá samdráttur sem almennt er talinn nauðsynlegur til að koma í veg fyrir hitastigshækkun umfram 2°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu (1,2°C frá því sem nú er), þá þurfi iðnríkin að minnka losun sína um 80-95%. Svo mikill samdráttur sé m.a. nauðsynlegur til að gefa þróunarríkjunum eðlilegt svigrúm til aukningar.

Þetta tal um allt að 95% samdrátt kemur mér ekkert á óvart, þó að talan sé nokkru hærri en oftast heyrist í umræðunni. Í stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum, sem gefin var út snemma árs 2007, er t.d. bara miðað við 50-75% samdrátt, jafnvel þótt Íslendingar séu í hópi þeirra þjóða þar sem losunin er allra mest. Betur má ef duga skal. Og það er heldur ekki nóg að setja markmið fyrir árið 2050 og bíða svo bara rólegur. Nú ríður á að stika út leiðina þangað, með tímasettum markmiðum til skemmri tíma.

Hægt er að kynna sér innihald ræðu Stavros Dimas nánar á fréttavef PlanetArk/Reuter. Bendi einnig á bloggfærsluna „Einföld útstreymistölfræði“ á gömlu bloggsíðunni minni 5. des. 2007.


Ekki einn af smörtustu gæjunum í rúminu

Ég er þakklátur fyrir að vera ekki einn af "The Smartest Guys in the Room". Slíkra gæja bíða nefnilega erfiðir tímar þegar tjöldin falla að liðnum dögum víns og rósa. Ég var með öðrum orðum að horfa á Enron-myndina í sjónvarpinu, alla vega bróðurpartinn af henni. Þetta var sláandi saga, ekki þó vegna þess að svona stórt fyrirtæki skyldi geta farið á hausinn, eins og gerðist vestanhafs haustið 2001, heldur vegna þess að mér sýnist þessi saga hafa endurtekið sig lítið breytt á litla Íslandi 7 árum síðar - og líka vegna hins að á bak við hverja slíka sögu er harmsaga fjölskyldna, sem aldrei verða samar.

Það er sorglegt að menn skuli ekki geta lært af mistökum annarra, heldur aðeins af sínum eigin. Þegar dagar Enron voru taldir héldu athafnamenn í öðrum löndum, þ.á.m. Íslandi, áfram að leika sér í talnaleikfimi, þar sem góðar hugmyndir og viðskiptavild voru færðar að vild sem eignir í efnahagsreikningi til þess að blása upp verðmæti fyrirtækja og skapa arð sem ekki var til, eða í besta falli tekinn að láni frá ófæddum, allt undir því yfirskini að verið væri að gæta hagsmuna hluthafa. Víst forðast brennt barn eldinn, en bara þann eld sem það hefur sjálft brennt sig á.

En það finnast líka bjartar hliðar: Þegar gerð verður heimildarmynd um bankahrunið á Íslandi þarf ekki að frumvinna allt, heldur dugar að staðfæra handrit Enron-myndarinnar og byrja svo að setja inn íslenskara myndefni. Þetta hlýtur að spara slatta af peningum.

Ég sagðist vera þakklátur fyrir að vera ekki einn af "The Smartest Guys in the Room". En kannski er ég bara hræsnari sem er þakklátur fyrir að vera ekki eins og Farísearnir. Hver veit hvernig maður myndi bregðast við ef maður væri sjálfur í þessari aðstöðu? Og ekki ætla ég heldur að lýsa yfir sakleysi mínu vegna hrunsins hér. Við tókum öll þátt - með einum eða öðrum hætti, þó að við viljum helst ekki hugsa eða tala mikið um það.

Verum samt bjartsýn - og þakklát því fólki sem þrátt fyrir allt þorir að segja til um klæðleysi keisara!


Til hamingju Strandamenn!

logoNú er rúmur klukkutími síðan allir Strandamennirnir voru komnir í mark í Vasagöngunni, en gangan hófst kl. 8 í morgun að staðartíma í Sälen. Eins og vænta mátti var Birkir í Tröllatungu þeirra fremstur, en árangurinn var annars sem hér segir, (svona rétt til að svala tölfræðiáhuga blogglesenda):

Birkir Stefánsson: 1876. sæti, 05:47:13 klst. (var á 6:53:30 í fyrra)!
Ragnar Bragason: 3448. sæti, 06:29:33 klst. (var ekki með í fyrra)
Rósmundur Númason: 6044. sæti, 07:34:11 klst. (var á 8:23:44 í fyrra)!

Alls voru keppendur í göngunni eitthvað um 15.000, þannig að Strandamennirnir voru allir framarlega í hópnum. Framfarirnar milli ára eru líka gríðarlegar, en líklega voru aðstæður heldur hagstæðari nú en í fyrra.

Ég er afar stoltur af þessum fyrrum sveitungum mínum og óska þeim til hamingju með af hafa lokið þessari þolraun með svo góðum árangri! Birkir og Ragnar fylgdu mér báðir yfir Gaflfellsheiðina sl. haust, þannig að ég veit nokkuð hvað í þeim býr. Þetta eru Strandamenn eins og Strandamenn eiga að vera - allir þrír!

Gaflfellsh 018web
Ragnar og Birkir við leitarmannakofann á Hvanneyrum syðst á Gaflfellsheiði sl. haust.


mbl.is Strandamenn í Vasa-göngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband