Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Rafmagn á brunaútsölu?

Mér líst afar illa á hugmyndir um að selja nágrannalöndunum rafmagn um sæstreng, hvort sem það er til að borga Icesave-skuldir eða eitthvað annað. Ástæðan er einföld: Með því að selja rafmagn „óunnið“ úr landi afsölum við okkur virðisaukanum sem þetta sama rafmagn myndi að öðrum kosti geta skapað hérlendis. Að mínu mati jafngilda slík viðskipti „brunaútsölu á rafmagni“.

Við þurfum að nýta orkuna okkar til að verða sem minnst háð innfluttri orku. Þannig verður virðisaukinn mestur. Svo einfalt er málið! Rafvæðing samgöngukerfisins hlýtur að vera forgangsmál hvað þetta varðar, hvort sem rafmagnið er nýtt beint eða til eldsneytisframleiðslu.

Það hvort skynsamlegt væri að setja upp rafstrengjaverksmiðju er svo annað og óskylt mál.


mbl.is Borgum Icesave með rafmagni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég undrast

Ég undrast þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að veita Orf. Líftækni hf. leyfi til útræktunar á erfðabreyttu byggi. Undrun mín byggir á sömu rökum og fram komu í athugasemdum mínum dags. 27. maí sl., sem ég tel óþarft að endurtaka hér. Veigamesta atriðið er þó líklega túlkun Varúðarreglunnar, en ég er ósammála því mati Umhverfisstofnunar að „áhættumat, yfirferð þess og öryggisráðstafanir“ feli í sér nægjanlegar „aðgerðir til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll“. Vek reyndar athygli á því að orðið „nægjanlegar“ kemur ekki fram í greinargerð Umhverfisstofnunar með leyfisveitingunni, en ég get ekki skilið greinargerðina öðruvísi en svo að umræddar aðgerðir þyki nægjanlegar.

Í tengslum við framanskráð geri ég sérstakar athugasemdir við áhættumatið, sem ég tel mjög ófullnægjandi, vegna þess hversu mjög sérstæð umrædd áhætta er, sbr. orð mín í fyrrnefndum athugasemdum um „Svarta svani“. Ég tek undir það að „hverfandi líkur“ séu á að umræddar byggplöntur dreifi sér eða víxlfrjóvgist við annað bygg eða skyldar tegundir. Hins vegar tel ég að ekki sé á nokkurn hátt reynt að meta áhættuna af láréttum genaflutningi, sem er jú þekktur við náttúrulegar aðstæður, en virðist líklegri þegar um „splæst gen“ er að ræða. Minni auk heldur á að „hverfandi líkur“ eru ekki „engar líkur“. Skammtímarannsóknir segja sömuleiðis fátt um langtíma áhrif, þar sem hugsa þarf í áratugum og öldum, en ekki í vikum og mánuðum.

Í frétt Umhverfisstofnunar kemur fram að leyfið sé veitt með „ströngum skilyrðum“. Ég er reyndar afar ósammála því að skilyrðin séu ströng, þar sem þau snúast fyrst og fremst um verklagsreglur og góð vinnubrögð á vettvangi. Ég efast ekki um að Orf. Líftækni hf. myndi standast þau skilyrði án þess að minnst væri á þau einu orði. Ég held nefnilega að Orf sé fyrirmyndarfyrirtæki, þar sem beitt er framúrskarandi faglegum vinnubrögðum. Málið snýst bara alls ekki um það, heldur eitthvað miklu stærra.

Ég er sem sagt undrandi. Hins vegar skil ég vel að Umhverfisstofnun sé vandi á höndum, enda regluverkið frumstætt og fordæmin fá. En þess mikilvægara er að hafa varúðina að leiðarljósi.


mbl.is Leyfi veitt til ræktunar á erfðabreyttu byggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur breyta heiminum

konurgetabreyttheiminum2Um leið og ég óska íslenskum konum til hamingju með daginn, langar mig að benda öllu áhugafólki um umhverfi og samfélag á bók Guðrúnar Bergmann, Konur geta breytt heiminum. Bókin hefur að geyma mörg góð ráð sem nýtast konum jafnt sem körlum í viðleitni þeirra við að gera lífið á jörðinni örlítið betra og búa um leið í haginn fyrir komandi kynslóðir. Og bókin er ekki bara gagnleg, heldur líka óvenjufalleg. Hönnun bókarinnar hefur sem sagt tekist einstaklega vel.

Bók Guðrúnar, sem kom út fyrr í vor, ætti að vera til á hverju heimili. Eflaust fæst bókin í öllum almennilegum bókabúðum, en svo er líka hægt að kaupa hana í vefverslun vefsíðunnar www.graennlifsstill.is.

Það er ekki nóg með að konur geti breytt heiminum, eins og titill bókarinnar minnir á, heldur munu þær líka gera það. Þeirra tími er sem sagt kominn. Reyndar held ég að hann hafi komið, ef svo má segja, upp úr nýliðnum aldamótum. Get fært ýmis rök fyrir því. Geri það kannski seinna. En ég hlakka alla vega til að fylgjast með þeim breytingum sem framundan eru!


Út að hlaupa með tind í læri

Í kvöld byrjaði ég aftur að hlaupa eftir konunglega skemmtun í 7-tinda hlaupinu í Mosfellsbæ sl. laugardag. Skokkaði rétt upp fyrir Hótel Hamar og heim aftur, hægt og mjúklega. Hef verið hálfþreyttur í fótunum síðustu daga, enda var 7-tinda hlaupið svo sem hlaupið eins og enginn væri morgundagurinn. En allt er þetta hluti af eftirsóknarverðu lærdóms- og þroskaferli. Smile

Yfirleitt reyni ég að þegja yfir hvers konar eftirköstum sem hljótast af verðugum hlaupaverkefnum, eins og 7-tinda hlaupið vissulega var. En svo blossar stundum upp í manni þörfin fyrir að miðla öðrum af reynslu sinni, sem að eigin mati er oftast svo óendanlega dýrmæt. Vissulega er dálítið hallærislegt að viðurkenna, að eftir 5 daga sé maður enn með svo sem einn tind af 7 í lærunum, en hin dýrmæta reynsla, lærdómurinn og þroskinn felast í því að kynnast eigin vitjunartíma og finna rétta tímann til að halda af stað á nýjan leik. Málið snýst um að hlusta á eigin líkama og skynja þetta hárfína jafnvægi, sem að öðrum kosti raskast svo auðveldlega, til lengri eða skemmri tíma. Maður þarf að halda áfram að rækta líkamann til að lækka bilanatíðnina, en samt má ekki gera of mikið of fljótt. 

Rétti tíminn var sem sagt í kvöld, og hafi mér ekki skjátlast um það, þá liggur hlaupaleiðin upp á við á ný næstu daga, með þolinmæði og hægð.

Og næstu hlaupaverkefni? Jú, að hefðbundnum æfingum slepptum eru eftirfarandi viðburðir næstir á dagskrá:

  1. Laugardagur 4. júlí: Hamingjuhlaup frá Drangsnesi til Hólmavíkur, u.þ.b. 34 km. Þetta er eitthvað sem mig hefur lengi langað til að gera, og nú er tækifærið til að flétta það inn í dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík. Þess vegna verður þetta hamingjuhlaup. Ætlunin er að hlaupinu ljúki á hátíðasvæði hamingjudaganna kl. 13.30, sem þýðir væntanlega að ég legg í hann frá Drangsnesi um eða upp úr kl. 10. Ég ætla að hlaupa leiðina á nokkurn veginn fyrirfram ákveðnum hraða, sem tekur m.a. mið af viðburði nr. 2 (sjá neðar), auk þess sem fyrirfram ákveðinn hraði er náttúrulega nauðsynlegur til að maður geti skilað sér á ákvörðunarstað á fyrirfram ákveðnum tíma. Þessi fyrirfram ákveðni hraði verður rétt um 10 km/klst, eða 6 mín/km. Þetta er ekkert opinbert keppnishlaup, heldur bara gert hamingjunnar vegna. Þess vegna verð ég líka þeim mun hamingjusamari sem fleiri slást í för með mér. Þykist alla vega vita um einn, en kannski fjölgar þeim eitthvað næstu daga þegar ég helli mér í markaðssetningarstarfið. Þeir sem hafa áhuga ættu að senda mér línu á stefan[hja]umis.is, eða skella inn athugasemd hér fyrir neðan.
  2. Laugardagur 11. júlí: Maraþonhlaup á 26. Landsmóti UMFÍ á Akureyri, nákvæmlega 42,195 km. Þetta verður náttúrulega keppnishlaup, þó að maraþonið sé ekki beinlínis keppnisgrein á landsmótinu. Það verður gaman að koma aftur á Landsmót. Keppti (fyrst og) síðast á svoleiðis móti á Akranesi sumarið 1975. Var líka á landsmótunum á Selfossi 1978, á Akureyri 1981 og í Keflavík 1984 - en síðan ekki söguna meir. Markmið fyrir hlaupið eru í smíðum. Ekki er tímabært að greina frá þeim opinberlega á þessu stigi, en verði veðrið skikkanlegt, (sem það er nánast alltaf á Akureyri), þá verð ég vonandi ekki lengur en 3:40 klst. að ljúka hlaupinu.

Þegar þetta tvennt er búið, tekur svo aðalfjallvegahlaupatörn sumarsins við. Hún hefst á Vesturgötunni sunnudaginn 19. júlí.


Litlar vindmyllur til sölu

Fyrr í þessum mánuði birtu Sænsku vindorkusamtökin (Svensk Vindkraftförening) dálitla skýrslu sem þau tóku saman fyrir Orkustofnun Svíþjóðar (Energimyndigheten), með yfirliti yfir þær 52 tegundir af litlum vindmyllum (0,2-200 kW) sem fáanlegar eru á sænskum markaði. Á listanum eru bæði vindmyllur sem framleiddar eru í Svíþjóð og fluttar inn.

Vindmyllusamantektinni er ætlað að hjálpa sænskum kaupendum að velja bestu vindmyllurnar. Í henni er m.a. að finna gátlista með helstu spurningum sem vindmyllukaupendur ættu að leita svara við áður en ákvörðun er tekin um kaupin.

Á síðustu árum hefur áhugi Svía á litlum vindmyllum aukist verulega, og hefur þá ekki síst beinst að vindmyllum sem settar eru upp á þök húsa. Að mati Lars Åkeson, sem vann að umræddri samantekt, er raforkan sem framleidd er með þessum vindmyllum oft dýr þegar upp er staðið. Því sé sérstök ástæða til að hvetja fólk til að láta gera vindmælingar áður en ráðist er í fjárfestingu af þessu tagi. Töluvert hefur verið kvartað undan bilunum í þessum litlu vindmyllum, og margir telja sig hafa fengið minna rafmagn út úr þeim en gefnar höfðu verið væntingar um. Lars telur að um þessar mundir séu vindtúrbínur með lóðréttum öxli einna áhugaverðasti kosturinn, en þar hafi athyglisverð þróun átt sér stað upp á síðkastið.

Annað slagið er ég spurður álits á ýmsu varðandi vindmyllur. Ég er enginn sérfræðingur á því sviði, og þess vegna datt mér í hug að skrifa þennan pistil til að vísa á skýrslu Sænsku vindorkusamtakanna. Skýrslan verður uppfærð eftir því sem breytingar verða. Hægt er að nálgast skýrsluna á slóðinni http://www.natverketforvindbruk.se/sv/Om-natverket/Nyheter/Rad-och-tips-om-sma-vindkraftverk.

3windm


Frábært 7 tinda hlaup

Í dag þreytti ég 7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ ásamt allmörgum öðrum. Þetta voru rúmlega 37 kílómetrar um fjöll og firnindi, um mýrar og móa, holt og skriður, malbik og möl, aðallega þó holt. Árangurinn var framar öllum björtustu vonum, því að ég endaði í 6. sæti af öllum skaranum. Var reyndar lengi í 4. sæti, en Hólmfríður Vala Svavarsdóttir og Börkur Árnason pökkuðu mér saman á endasprettinum síðustu 500 metrana. Það er reyndar ekkert mjög sárt að tapa fyrir svoleiðis snillingum.

Hlaupið var töluverð þolraun. Leiðin lá enda um 7 tinda, eins og nafnið bendir til, nánar tiltekið frá Lágafellslaug upp á Úlfarsfell (295 m), Reykjaborg (280 m), Reykjafell (269 m), Æsustaðafjall (220 m), Grímmannsfell (550 m), Mosfell (270 m) og Helgafell (216 m). Myndin hér að neðan gefur einhverja hugmynd um leiðina, ef vel er rýnt og ef maður þekkir til staðhátta í Mosfellsbæ. :-)

7 tindarweb

Erfiðasti hlutinn af leiðinni var skriðan sem við fórum niður af Mosfelli. Þarna er mjög bratt og fremur stórgrýtt. Mesta hættan við svona aðstæður er sú, að grjót sem veltur af stað lendi aftan á hælum, hásinum og kálfum. Svo er náttúrulega ekkert gaman að detta í svona urðum, sérstaklega ef maður er í stuttbuxum. Ég var vel að merkja í stuttbuxum og hlýrabol alla leiðina, sem var svona að meðaltali einmitt rétti klæðnaðurinn. Reyndar varð mér hrollkalt uppi á Mosfelli, því að þar gerði þvílíka ofurdembu, að að það hálfa hefði verið hellingur. Annars var veðrið yfirleitt eins og best verður á kosið; hægur vindur, skýjað að mestu og svo sem 10 stiga hiti.

Framkvæmd hlaupsins var öll með ágætum. Skátarnir í Mosfellsbæ stóðu sig eins og hetjur, svo og aðrir starfsmenn hlaupsins. Ánægðastur var ég þó með Herdísi, frænku mína, sem tók vel á móti mér á líklega einum þremur drykkjarstöðvum á leiðinni.

Lítið var um greinilega stíga á hlaupaleiðinni, en appelsínugul flögg vísuðu veginn. Reyndar hefðu þau mátt vera aðeins þéttari á köflum, því að þegar maður kom að flaggi, þá sá maður oft ekki næsta flagg. Þetta skapaði óöryggi og svolítinn pirring, sérstaklega þegar þreytan fór að segja til sín. Þreyta í svona hlaupum sest nefnilega ekki bara í vöðvanna, heldur líka í hugann. Við þetta bættust svo algengar raunir gleraugnagláma, en slíkar raunir þekki ég vel. Það er nefnilega vesen að vera með gleraugu þegar rignir, og þá verður útsýnið heldur takmarkað.

Boðið var upp á tvær vegalengdir í hlaupinu. Þeir sem ekki vildu fara alla leið, gátu valið 17 km þriggja tinda hring. Allir voru þó ræstir samtímis. Ég held að ég hafi yfirleitt verið í um það bil 15.-20. sæti framan af. Frá Reykjaborg og niður í Skammadal var ég hluti af svo sem 10 manna hópi. Náði reyndar oftast góðu forskoti undan brekkunni, en missti það aftur þegar leiðin lá upp í móti. Þetta mynstur þekki ég vel. Spóaleggirnir mínir eru nefnilega ekki sérlega vel vöðvum búnir, en þess seigari. Í Skammadal skildu leiðir þeirra sem fóru lengri og styttri leiðina, og þar með hurfu flestir þeir sem ég hafði fylgst með. Eftir þetta fylgdist ég lengi með Kristjáni Sigurðssyni, sem er vel að merkja ættaður úr Borgarfirði. Þegar við komum upp á Æsustaðafjall fengum við þær fréttir frá starfsmönnum að við værum í 5. og 6. sæti í hlaupinu. Það var afar uppörvandi, því að hvorugur okkar hafði reiknað með að vera svo framarlega. Á næstu kílómetrum komum við auga á ofurhlauparann Börk Árnason á undan okkur. Þegar komið var upp á Grímmannsfell var ég kominn fram úr þeim báðum og þar með kominn upp í 4. sætið. Börkur fylgdi mér reyndar eftir alveg að Mosfellskirkju, en þar skildu leiðir. Eftir það var ég einn míns liðs þangað til komið var langleiðina upp á Helgafell og ekki nema rúmir 5 km eftir. Þar birtist Hólmfríður Vala allt í einu og Börkur var þar skammt á eftir. Mér tókst að mestu að halda þeim fyrir aftan mig, alveg þangað til komið var langt inn í Mosfellsbæinn og varla meira en 500 m eftir í markið. Þá stungu þau mig af.

Hér lýkur þessari löngu og sjálfhverfu bloggfærslu, en svona rétt í lokin ætla ég að setja hérna inn tvær myndir. Önnur sýnir hæðarlínurit hlaupsins, eins og það birtist í hlaupaúrinu mínu. Samkvæmt því fórum við hæst í 494 m hæð yfir sjó. Hina myndina tók ég traustataki á fésbókarsíðu Herdísar frænku minnar, en hún var tekin í þann mund sem hlaupið hófst í morgun.

7 tindar hæð

7 tindar ræs Herdís

Takk öll fyrir samveruna og samfylgdina í dag. Þetta var skemmtilegur dagur!
Smile


Stykkishólmsleiðin til San Fransiskó

07.06.30-07.07.02 015 160Ég sé ekki betur en Stykkishólmsbær sé orðinn fyrirmynd San Fransiskóbæjar í úrgangsmálum. Alla vega er hreppsnefndin í San Fransiskó búin að ákveða að taka upp þriggja tunnu kerfi, sem er alveg eins og í Stykkishólmi, nema hvað tunnurnar eru ekki eins á litinn. Reyndar ætlar hreppsnefndin þarna lengst vesturfrá að ganga enn lengra en Hólmarar og sekta þá sem ekki flokka rétt. Markmiðið er að urðun úrgangs heyri sögunni til árið 2020, enda er úrgangur bara hráefni á villigötum.

Hægt er að fræðast meira um þetta allt saman í „Orðum dagsins“ á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi. Þar má líka finna fróðleik um margt annað, m.a. um það hvernig Norðmenn ætla að nota samgönguáætlun Stórþingsins til að stuðla að auknum hjólreiðum.


Skráður í 4 hlaup

Tók mig til áðan og skráði mig í fjögur hlaup. Það getur nefnilega verið ágætt að negla þetta niður til að skerpa á einbeitingunni. Listinn lítur svona út:

  1. 7-tinda hlaupið í Mosfellsbæ, laugard. 13.06.2009, 37,5 km
  2. Maraþonhlaup á Landsmóti UMFÍ á Akureyri, laugard. 11.07.2009, 42,2 km
  3. Vesturgatan, sunnud. 19.07.2009, 24 km
  4. Göteborgsvarvet, laugard. 22.05.2010, 21,1 km

Fjallvegahlaupin eru svo alveg þarna fyrir utan, nema hvað ég lít á Vesturgötuna sem fjallveg (nr. 12) þó að hún sé kannski ekki beinlínis fjallvegur. Fjallvegahlaupalistinn lítur enn svona út, (sjá nánar á www.fjallvegahlaup.is):

  1. Vesturgatan, sunnud. 19.07.2009, 24 km (sjá framar)
  2. Þingmannaheiði, þriðjud. 21.07.2009, 23 km
  3. Miðvörðuheiði, fimmtud. 23.07.2009, 20 km
  4. Selárdalsheiði, föstud. 24.07.2009, 17 km

Þá vitiði hvað ég ætla að leika mér við næstu mánuði. Smile Annars ætla ég að leggja aðaláherslu á vinnuna, bæði á skrifstofunni og hérna úti í garði.


Gagnlegur fundur um erfðabreyttar lífverur

Í dag var ég á öðrum kynningarfundi Umhverfisstofnunar vegna umsóknar ORF Líftækni hf. um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Þetta var gagnlegur fundur, sérstaklega vegna þess hversu margir tóku þátt í honum. Fram að þessu hefur svo sem engin umræða farið fram hérlendis um erfðabreyttar lífverur, þrátt fyrir að almenningur í nágrannalöndunum hafi látið sig þróun þessara mála miklu skipta. En nú er þetta greinilega að breytast, góðu heilli. Þetta eru jú mál sem varða hagsmuni allra, ekki bara líffræðinga.

Í sjálfu sér kom ekki margt nýtt fram á fundinum í dag. Það sem mér fannst standa upp úr var eftirfarandi:

  • Enn virðast margir tala um kynbætur og erfðabreytingar í sömu andránni, jafnvel þó að þar sé grundvallarmunur á. Það einkennilega er, að þeir sem helst virðast rugla þessu saman eru einmitt þeir sem mesta þekkingu hafa á þessu sviði. Þessi hugtakaruglingur er því greinilega ekki tilkominn vegna fáfræði.
  • Enn virðist gæta einhverrar tilhneigingar í „fræðasamfélaginu“ til að halda umræðunni um erfðabreyttar lífverur í þröngum hópi líffræðinga og gera aðra þá sem vilja leggja eitthvað til mála tortryggilega, þar sem þeir hafi ekki nægilega þekkingu. Þess vegna séu sjónarmið þeirra ekki fagleg.
  • Mikillar tilhneigingar virðist gæta til að draga alla þá sem taka þátt í umræðu um erfðabreyttar lífverur í dilka eftir því hvort þeir eru „með“ eða „á móti“, rétt eins og heimurinn sé allur í svart/hvítu.
  • Sumir halda að til sé fólk sem „er hlutlaust á allan hátt og hefur engra hagsmuna að gæta“.
  • Norska ráðgjafarnefndin um erfðabreyttar lífverur virðist beita Varúðarreglunni með mun eindregnari hætti en íslenska ráðgjafarnefndin, jafnvel þótt í norsku nefndinni sitji líka „séfræðingar“ í erfðavísindum. Í norskri löggjöf um þessi mál er sett það skilyrði, að viðkomandi verkefni feli í sér „jákvætt framlag til sjálfbærrar þróunar“, (í lauslegri þýðingu minni).
  • Ekki virðist ástæða til að óttast víxlfrjóvgun erfðabreytts byggs við melgresi.
  • Það myndi reynast tryggingafélögum erfitt að ákveða fjárhæðir iðgjalda af ábyrgðartryggingum vegna ræktunar á erfðabreyttum lífverum.

Að öðru leyti ætla ég ekkert að orðlengja um þetta frekar. Vísa bara í athugasemdirnar sem ég sendi Umhverfisstofnun um daginn. Ég er nefnilega almennt þeirrar skoðunar að orð mín öðlist ekki aukið gildi þó að þau séu sögð oftar. Ég er líka almennt þeirrar skoðunar að það sama gildi um orð annarra.

En mig vantar samt svar við því hvers vegna tryggingafélög geti ekki boðið ræktendum erfðabreyttra lífvera ábyrgðartryggingar. Er ekki einhver til í að upplýsa mig um það?


Fimmtugt hlaup

Í dag hlupum við Ingimundur Grétarsson 50 km þvert yfir Borgarbyggð í tilefni af 50 ára afmæli Ingimundar. Þetta gekk alveg ágætlega og var auðveldara en mig hafði órað fyrir. Ferðalagið tók nákvæmlega 4:47:49 klst, sem stóðst fyllilega allar væntingar. Meðalhraðinn var 5:45 mín/km.

Ferðin hófst með því að Ingigerður, mamma Ingimundar, skutlaði okkur vestur að hreppamörkum Borgarbyggðar og Eyja- og Miklaholtshrepps við Haffjarðará í morgunsárið. Á leiðinni lögðum við út nokkrar vatnsflöskur sem við ætluðum að gera okkur gott af á bakaleiðinni. Svo var lagt í hann hlaupandi af brúnni á Haffjarðará nákvæmlega kl. 9.00.

 Fimmtugshlaup 003web
Við Haffjarðará kl. 9 í morgun. Horft til austurs yfir fyrsta hluta hlaupaleiðarinnar.

Fyrstu kílómetrarnir sóttust vel, enda veðrið með ágætum, eins og það átti reyndar eftir að verða alla leiðina. Hæg breytileg átt var á, skýjað og 10 stiga hiti. Töluvert hafði rignt á Mýrunum um nóttina, en við hlupum í þurru veðri alla leið. Tíðindalítið var í Kolbeinsstaðahreppi og eftir 15,18 km og 1:25:05 klst. vorum við komnir að Hítará. Töluverð umferð var um veginn, en þó ekkert sérstaklega til trafala. Við gerðum ráð fyrir að í flestum tilvikum væru þarna á ferð aðdáendur, sem hefðu gert sér ferð til að fylgjast með framgangi hlaupsins. Hugsanlega hafa þó einhverjir verið í öðrum erindagjörðum.

Segir nú fátt af ferðum okkar fyrr en við komum að Urriðaá, en þar voru 33,45 km að baki. Eitthvað virðist skammtímaminnið gefa sig þegar menn eru komnir á þennan aldur. Alla vega fundum við hvergi vatnsflöskurnar sem við höfðum komið þar fyrir um morguninn. Það kom þó ekki að sök, því að nóg vatn var í ánni. Þar fylltum við á vatnsbrúsana og héldum áfram ferðinni. Fram að þessu hafði hraðinn í hlaupinu haldist nokkuð jafn, yfirleitt um 5:20-5:40 mín/km. Upp úr þessu fór heldur að hægja á okkur, þó að þreytan væri lítið farin að segja til sín.

Stuttu eftir að við skeiðuðum inn í Borgarnes, nánar tiltekið við Bjargslandsgatnamótin, sýndi gps-tækið 42,2 km. Þarna var sem sagt heilt maraþon að baki - og tíminn rétt undir 4 klst., nánar tiltekið 3:58:58. Við vorum afar sáttir við það, enda engin keppni í gangi. Og eiginlega er svolítið gaman að geta talað um millitíma í hlaupi eftir eitt maraþon. :-) Við lögðum síðan að sjálfsögðu sérstaka áherslu á að vera beinir í baki og brosandi á meðan við hlupum í gegnum Borgarnes, en eitthvað var færðin þó tekin að þyngjast, ef svo má að orði komast.

Áfram lá leiðin yfir Borgarfjarðarbrúna og að hreppamörkunum við Hvalfjarðarsveit við Ytra-Seleyrargil, rétt hjá afleggjaranum að Mótel Venusi. Breidd sveitarfélagsins Borgarbyggðar reyndist vera 46,81 km, og þarna stóð klukkan í 4:26:55 klst. En af því að Ingimundur varð fimmtugur í dag, en ekki 46,81 árs, þá héldum við áfram eins og ekkert hefði í skorist, upp brekkuna og svo til vinstri inn á gamla Hvanneyrarveginn áleiðis upp í Andakíl. Vorum komnir rétt inn fyrir hitaveitutankinn þarna í hlíðinni þegar mælirinn sýndi 50,00 km. Þar með var björninn unninn, og klukkan sýndi 4:47:49 km eins og fyrr segir. Það var ákaflega góð upplifun að hafa lagt þennan spotta að baki jafn auðveldlega og raun bar vitni. Reyndar kom það mér á óvart hversu lítið þetta reyndi á skrokkinn. En það var samt gott að komast í sturtu þegar heim var komið. :-)

Mörgum finnst það sjálfsagt óhugsandi að hlaupa 50 km í einum áfanga. Og það er reyndar óhugsandi ef maður hefur aldrei hlaupið áður. En líklega er þetta eitthvað sem flest fullfrískt fólk getur, jafnvel fólk sem hefur enga reynslu af hlaupum og efast mjög um getu sína á því sviði. Þetta snýst einfaldlega um að gefa sér tíma og láta ekki vantrúna á eigin getu villa sér sýn. Í þessu sambandi má m.a. rifja það upp, að fyrir svo sem 5 árum gat Ingimundur naumast hlaupið 50 metra, hvað þá meira. Þá byrjaði hann að hlaupa, fyrst stutt og smám saman lengra og lengra, og nú eru 50 km sem sagt ekki lengur óyfirstíganleg hindrun. Þetta snýst allt um að setja sér raunsæ markmið, og þegar einu markmiði er náð er stefnan sett á það næsta. Fyrsta markmiðið getur verið að hlaupa hvíldarlaust að næsta ljósastaur - og svo þróast þetta bara smátt og smátt. Og þegar grannt er skoðað, er augljóst að hægt er að yfirfæra reynsluna úr hlaupunum á flest annað í lífinu. Mörk eigin getu eru afstæð, og ástæðulaust að taka þau alvarlega. Hindranirnar búa flestar í eigin kolli, en fæstar utan hans!

Fimmtugshlaup 006web
Að hlaupi loknu um 2-leytið í dag. 


Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband