Leita í fréttum mbl.is

Æ, ég nenni þessu ekki

Gunnar Dal velti því upp í viðtali í sjónvarpinu í desember, að þegar mönnum hefðu áskotnast nógir peningar, þá hættu þeir að hafa stjórn á peningunum og í staðinn færu peningarnir að stjórna þeim. Ef ég man rétt taldi hann þetta vera mjög greypt í mannlegt eðli, það væri bara misjafnt hvar línan lægi, þ.e. hversu mikið væri nóg til að þessi umskipti yrðu.

Í kvöld horfði ég á brot af Kastljósviðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samtryggingarinnar. Þá rifjaðist þessi kenning Gunnars Dal upp fyrir mér - og ég fór að velta því fyrir mér hvort hún gilti kannski ekki bara um auð, heldur líka völd. Kannski er ég sljór og þekki ekki sauðina frá höfrunum, en alla vega læddist að mér sá óþægilegi grunur að allir menn hefðu þann veikleika að týna sjálfum sér þegar vald þeirra væri orðið nógu mikið. Ég er með öðrum orðum hættur að taka eftir neinum mun á orðræðu þess annars ágæta og ólíka fólks sem situr við stjórnvölinn í ríkisstjórn og stofnunum þessa lands. Getur verið að sjónvarpið sé að plata okkur og spila alltaf sama viðtalið, alveg sama hvaða viðmælandi úr fyrrnefndum hópi á í hlut?

Ég nenni ekki lengur að hlusta á þetta sama viðtal aftur og aftur í mismunandi litum. Ég nenni heldur ekki að leita að sökudólgum. Ég vil bara að Nýja Ísland fái að fæðast og dafna. Ég vil að við getum haldið áfram að svamla yfir að fljótsbakka framtíðarinnar. Ég vil ekki að þeir sem hrintu okkur út í fljótið drösli okkur aftur upp á gamla bakkann. Við höfum ekkert meira þangað að sækja. Þetta sama fólk ratar ekki yfir fljótið og getur ekki leitt okkur þangað!

Til að við getum haldið áfram ferðinni, þarf að skipta um fólk í öllum þeim stöðum sem fólk tengir við hrunið, alveg sama hvort viðkomandi á einhverja sök á því eða ekki. Það er hvort sem er enginn einn persónulega ábyrgur. Fólk í ábyrgðarstöðum, sem ekki nýtur trausts fólksins í landinu, þarf að víkja hversu saklaust sem það er. Þannig er staðan bara núna. Þá fyrst getum við haldið áfram, öll saman. Þetta verðum við að skilja og sætta okkur við. Það er ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálið var búið til, rétt eins og Einstein sagði.

Ég nenni þessu ekki lengur. Það verður eitthvað að fara að gerast! Tækifærin bíða eftir okkur í haugum, en við erum föst í fortíðinni.


Erla Björk er snillingur

Til hamingju Erla Björk! Það er munur að hafa svona fólk í kringum sig, fólk sem fær endalaust nýjar hugmyndir og hefur óbilandi trú á framtíðinni!¨
Wizard
mbl.is Erla Björk Örnólfsdóttir er Vestlendingur ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósa núna!

Nei, sko, ég ætlaði nú bara að segja frá því að ég er búinn að læra að setja skoðanakannanir inn á bloggið (sjá dálkinn til vinstri). Þar gefst ykkur einstakt tækifæri til að hafa áhrif!!!!!!!!!!
LoL

Upp úr þynnkunni

ÞynnkaÞynnka er ekki endilega slæmt ástand. Er það ekki einmitt að kvöldi versta þynnkudagsins sem maður rís upp og ákveður að nú sé nóg komið, að maður kjósi ekki lengur þennan lífstíl, að þessi spegilmynd sé ekki sú sem maður vill að blasi við þeim sem maður umgengst, að þetta fordæmi sé ekki það sem maður vill að börnin manns fylgi? Jú, einmitt! Þess vegna liggja tækifæri í þynnkunni.

Íslenska þjóðin hefur legið í þynnku síðan í október. Þetta er sársaukafullt ástand - og ég ætla síst að gera lítið úr verkjunum, því að vissulega hafa margir orðið illa úti. En langar nokkurn til að upplifa þetta aftur, jafnvel þótt stundum hafi verið gaman með leikurinn stóð hæst? Nýtt fyllerí kallar á nýja þynnku.

Sjálfsásökun og sjálfsvorkunn eru ekki sérlega frjóar tilfinningar. Mistök eru til þess að læra af þeim, en ekki til þess að velta sér upp úr þeim. Auðvitað þarf maður sinn tíma til að jafna sig, en þegar maður loks stendur upp, veit maður að það er engin leið til baka. Brýr hafa verið brenndar að baki. Leiðin liggur bara fram á við.

Ef við horfum í spegilinn og viðurkennum að svona sé komið fyrir okkur, þá er bjart framundan. Árið 2009 verður ár endurreisnar. Sýnum komandi kynslóðum gott fordæmi. Látum börnin okkar ekki þurfa að horfa upp á okkur í annarri þynnku. Verum þakklát fyrir tækifærið sem við fengum til að læra. Nú höldum við til móts við bjarta framtíð - miklu bjartari en fyrr!


Að loknu hlaup(a)ári

Nú er árið 2008 að baki. Þetta var ágætis hlaupaár og prýðilegt hlaupár líka, hvað sem hver segir. Þegar ég hugsa um eigin hlaup á þessu nýliðna ári, þá stendur líklega Rómarmaraþonið upp úr, ekki þó eitt og sér, heldur með öllum þeim undirbúningi sem fylgdi. Þessi undirbúningur lagði grunninn að farsælu hlaupaári, auk þess sem hann víkkaði ýmis takmörk sem ég taldi mér áður vera sett. Til dæmis hafði mér aldrei áður dottið í hug að hlaupa 40 hringi á íþróttavellinum, eða 28 km á bretti, eða 25 km í 17 stiga frosti. Allt þetta varð maður að láta sig hafa á fyrstu vikum ársins til að vera kominn í sæmilegt stand um miðjan mars.

Nokkur af fjallvegahlaupum ársins eru jafnvel enn eftirminnilegri en Rómarmaraþonið, en ferðin til Rómar ruddi samt brautina. Fjallvegahlaupin urðu sjö eins og allir vita Smile, sjá nánar á www.fjallvegahlaup.is. Þau eru reyndar öll ógleymanleg, því að hvert hlaup er algjörlega ný upplifun. Oftast koma þó í hugann hlaupin yfir Rauðskörð í júní og Gaflfellsheiði í september, þ.e.a.s. fyrsta og síðasta hlaup sumarsins. Þetta voru nefnilega langharðsóttustu hlaupin. Ég var einn á ferð í Rauðskörðum, villtist á leiðinni upp í skarðið og lenti í klettum og torkleifum skriðum. Vil ekki gera mikið úr hættunni, en langar samt ekki að lenda í sams konar brölti aftur.  Gaflfellsheiðina hljóp ég með fríðu föruneyti, en það er ekki endilega góð hugmynd að hlaupa 38 km í óbyggðum í svarta þoku í hvössum mótvindi og kaldri súld. En gleðin að hlaupi loknu er oftast í réttu hlutfalli við erfiðið! Laxárdalsheiðin milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar var líka erfið í slyddu og mótvindi. Eskifjarðarheiðin var aftur á móti einhver auðveldasta leiðin í albesta veðrinu. Nú get ég varla beðið eftir því að takast á við þessa 40 fjallvegi sem ég á eftir í fjallvegahlaupaverkefninu mínu.

Akureyrarhlaupið í júní er líka eftirminnilegt, aðallega vegna þess að þar þreytti ég kappi við barnið mitt og tapaði. Þetta var 7. hálfmaraþonið mitt og tíminn miklu betri en í því fyrsta, sem ég hljóp einmitt árið sem þetta sama barn fæddist fyrir rúmum 23 árum. Reyndar hefði þetta orðið besti hálfmaraþontíminn minn frá upphafi, ef hlaupið hefði ekki óvart verið hálfum kílómetra of langt. En það er bara fínt, ég hef þá eitthvað til að stefna að. Smile

Ég er líka ágætlega sáttur við að ná því takmarki mínu að hlaupa 10 km undir 43:27 mín, þótt í annarri tilraun væri. Það er alltaf svo gaman að setja sér markmið og ná þeim.

Hlaupaárið 2008 var það langlengsta hingað til. Samtals lagði ég að baki 1.952 km á árinu, en áður hafði ég mest hlaupið 1.200 km á einu ári. Það var árið 2007. Þar áður var metið 917 km frá árinu 1996. Mánaðarleg vegalengd var líka meiri en nokkru sinni fyrr í 9 mánuðum af 12. Lengsti mánuðurinn var febrúar með 249 km.

Ég get ekki sagt skilið við hlaupaárið 2008 án þess að þakka þeim sem gerðu mér hvað ljúfast að stunda þetta tímafreka áhugamál. Þar ber hæst eiginkonuna Björk, sem aðstoðaði mig á alla lund í fjallvegahlaupunum - og hlaupafélagann Ingimund, sem teymdi mig áfram í öllum erfiðustu og köldustu æfingahlaupunum yfir vetrarmánuðina, allt upp í 33 km í hvert sinn, laugardag eftir laugardag. Auk þess fylgdu þau mér bæði til Rómar. Svo mætti líka nefna alla aðra sem fylgdu mér í fjallvegahlaupunum. Þar komu 6 hlauparar við sögu. Enn mætti bæta mörgum fleirum við, sem glæddu hlaupaárið lífi og næringu, jafnt fjölskyldumeðlimum sem öðrum. Þetta var gaman! Takk!


Endurvinnsla pappírs er mikilvæg!

Það er gott til þess að vita að fólki sé gert sem auðveldast að skila pappír og pappírsumbúðum til endurvinnslu. Þessi endurvinnsla skiptir nefnilega gríðarlega miklu máli í umhverfislegu tilliti. Þessu til áréttingar ætla ég að setja hérna inn nokkrar tölur úr nýjasta tölublaði World Watch Magazine, sem ég fékk með póstinum í dag:

Árið 2005 notuðu jarðarbúar samtals 368 milljónir tonna af pappír og pappa. Gert er ráð fyrir að þessi tala verið komin í 579 milljónir tonna árið 2021.

Eftirfarandi tafla sýnir pappírsnotkun í mismunandi heimshlutum:

Heimshluti 

Kg á mann á ári 

Bandaríkin

330

Vestur-Evrópa

 200

Suður-Ameríka

 50

Asía, þ.m.t. Kína

 28


Meðalskrifstofumaður í Bandaríkjunum notar um 10.000 blöð af skrifstofupappír árlega. Þar af lenda um 45% í ruslinu samdægurs!

Af öllum þeim blöðum og tímaritum sem stillt er upp í blaðahillum og blaðarekkum í Bandaríkjunum og í Evrópu rata aðeins 30% nokkurn tímann í hendur lesenda. Hinum 70 prósentunum er hent.

Pappír er um 34% af öllum heimilisúrgangi sem til fellur í Bandaríkjunum. Samkvæmt því fleygja bandarísk heimili um 85 milljónum tonna af pappír árlega. (Mig minnir að þetta hlutfall sé svipað á Íslandi).

Fyrir hvert tonn af pappír sem er endurunnið sparast 17 tré, sem annars hefði þurft að höggva. Auk þess sparast 2,5 rúmmetra rými á urðunarstað sem ella hefði tekið við pappírnum. Þá er ónefnd orkan sem sparast, því að frumvinnsla er jafnan orkufrekari en endurvinnsla.

(Byggt á: World Watch Magazine, janúar/febrúar 2009 (Volume 22, Number 1), bls. 32. Sjá einnig www.worldwatch.org/ww).


mbl.is Breytingar á grenndargámum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

www.fjallvegahlaup.is

Ég tók mig til í gærkvöldi og lagaði fjallvegahlaupasíðuna dálítið, þ.e.a.s. hina ófullgerðu vefsíðu www.fjallvegahlaup.is. Dagskrá fjallvegahlaupa 2009 hefur þó ekki enn litið dagsins ljós. Hins vegar uppfærði ég eða lagfærði frásagnir af öllum fjallvegahlaupunum á þessu ári og því síðasta, auk þess sem ég bjó til tengla á upplýsingar um nokkra óhlaupna fjallvegi. Hvet alla til að að kíkja á þessa ómissandi lesningu. Smile

Í tölvunni minni luma ég á póstlista sérstaks áhugafólks um fjallvegahlaup. Á þennan lista sendi ég endrum og sinnum upplýsingar sem varða þetta merka verkefni. Nöfnum á listanum fjölgar hægt og bítandi. Sendið mér endilega línu á stefan[hjá]environice.is ef ykkur langar til að bætast á þennan lista.


Út að hlaupa - Hvanneyrarhringinn

Við Ingimundur Grétarsson hlupum Hvanneyrarhringinn í morgun, eins og við höfum alltaf gert á hverju ári um vetrarsólhvörf, í fyrsta sinn í fyrra. Smile Þá skipulögðum við hlaupið af kostgæfni og lögðum af stað nákvæmlega við sólarupprás. Nú nenntum við hins vegar ekkert að bíða eftir birtingunni, heldur lögðum af stað í myrkri um 9-leytið. Hlupum í góðu veðri norður Vesturlandsveginn og síðan Ferjubakkaveginn. Þá var farið að birta af degi. Í nótt hafði snjóað og færið var frekar þungt og sums staðar hált undir. Þó náðist sæmileg viðspyrna í hjólförunum, þar sem þeirra naut við og voru ekki í notkun. Við Hvanneyri gerði á okkur él og bætti vel í þegar við vorum undir Brekkufjallinu (hjá Skeljabrekku). Þar var auk heldur strekkingsvindur - og heldur í fangið. Verst var samt færðin á Borgarfjarðarbrúnni, því að þegar saltið bætist við snjóinn er frekar vont að hlaupa. Þá var líka komið hádegi og töluverð umferð á brúnni. Við fórum þó auðvitað létt með að ljúka hringnum, þó að tíminn hafi reyndar verið sá lengsti hingað til, rétt um 3 klst. og 23 mínútur. Hringurinn er nákvæmlega 33,03 km og meðalhraðinn því innan við 10 km/klst. En það skiptir reyndar engu máli - og er auk heldur ekki óeðlilegt miðað við aðstæður. Ég var líka á keðjum alla leið, sem flýtur svo sem ekkert fyrir.

Þetta var bráðskemmtilegt allt saman og ekki tiltakanlega mikil þreyta í mönnum að hlaupi loknu. Það var nú öðruvísi um vetrarsólhvörf í fyrra. Þá var mjög af mér dregið eftir hringinn. Auðvitað fer manni fram með aldrinum. Þroskinn, skiljiði!

Hressandi laugardagsmorgunn! Smile


Þetta er búið

Í dag var skurðgröfu beitt til að afmá útgerðarsögu Hólmavíkur 1944-1995.

Hilmir rifinn
Hilmir ST-1 var rifinn í dag. Ljósmynd: Strandir.is; Jón Jónsson.


Nýjar fjárgötur - fagnaðarefni

Stofnun þessa nýja sprotasjóðs er gott dæmi um þróun, sem mun verða áberandi á næstu mánuðum. Eins og ég ýjaði að í vangaveltum mínum 3. nóvember sl. um „Umhverfismál á tímum bankakreppu“, bendir margt til þess að fjárfestar muni nú í auknum mæli beina fjármagni sínu til fyrirtækja og verkefna þar sem unnið er í anda sjálfbærrar þróunar. Skammtímasjónarmiðin, sem ráðið hafa ferðinni síðustu ár, hafa beðið skipbrot. Menn vissu fyrir að þau dugðu ekki í umhverfismálunum, en nú er sem sagt ljóst að þau duga ekki heldur í kauphöllinni. Í stað þess að gleyma sér í draumum um skjótfenginn gróða, horfa fjárfestar nú í auknum mæli til ábyrgra fjárfestinga, sem stuðla að áframhaldandi velsæld í umhverfi og samfélagi, velsæld sem hefur verið, er og verður alltaf undirstaða arðs til langs tíma.

Það má kannski orða það svo, að á síðustu árum hafi áhættufé fjáreigenda runnið eftir hættulegum fjárgötum, sem nú eru hrundar og horfnar í skriðuna. Mikill fellir hefur orðið í sveitinni, en enn er þó stundaður fjárbúskapur. Sprotasjóðurinn BJÖRK er dæmi um nýja fjárgötu, þar sem skynsemin er tekin fram yfir áhættuna. Féð sem eftir lifir mun streyma eftir þessari fjárgötu og öðrum slíkum.

Takk Halla, Auður Capital og Björk fyrir að opna þessa leið. Ég er bjartsýnn á framtíðina - bjartsýnni í dag en í gær. Smile


mbl.is Vona að framlög í sprotasjóðinn BJÖRK verði á annan milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband