Leita í fréttum mbl.is

Mistök í talningu

Hún er fræg þessi framsóknarelja.
Formann þau þurftu að velja.
Af atkvæðum nóg var
og atgervi', en þó var
enginn sem kunni að telja.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel heppnað Sumarljós

Í gærkvöldi fórum við hjónin í Þjóðleikhúsið og sáum leikritið Sumarljós eftir sögu Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin. Fengum miða á 4. bekk, sem var reyndar fremsti bekkurinn þegar á hólminn var komið, því að bekkir 1-3 voru hvergi sjáanlegir. Þess vegna þurftum við að beygja hnén þegar Ásdís á Sámsstöðum gekk framhjá - og vorum í seilingarfjarlægð frá rúmgafli Fanneyjar á Kálfastöðum, sem hafði feiminn andardrátt. 

Þetta var í stuttu máli ein af mínum bestu leikhúsferðum. Mér finnst aðstandendum sýningarinnar hafa tekist sérstaklega vel að koma andblæ bókarinnar til skila, ekki bara sögunum og frábærum texta Jóns Kalmans, heldur líka þessari næmu nánd sem einkennir bókina.

Sumarljós og svo kemur nóttin er ein af mínum uppáhaldsbókum. Þegar uppáhaldsbókum er breytt í leikverk er alltaf hætta á að maður verði fyrir vonbrigðum. En þannig var það sem sagt alls ekki í gærkvöldi, því að sýningin fór fram úr mínum björtustu vonum. Þar hjálpaðist margt að; hlýleg og sönn kynning í upphafi, góður leikur, þaulhugsuð sviðsmynd og einkar hæfilegur og ljúfur skammtur af tónlist og hljóðum.

Ég held að ég halli ekki á neinn þótt ég nefni leik Björns Hlyns Haraldssonar sérstaklega, í hlutverki Benedikts, bónda úr norðursveitinni. Þetta er líklega vandasamasta hlutverk verksins, og gríðarlega vel af hendi leyst. Hógvær hljóðmynd naut sín líka til fulls á kyrrum stundum í bæ Benedikts.

Ég held að flestir hljóti að þekkja margar af persónunum í Sumarljósi, jafnvel þó að þeir þekki þær ekki. Kannski þekkir maður líka sjálfan sig þarna einhvers staðar. Verkið byggist á samtvinnuðum sögum af daglegu lífi fólks í þorpi, sem manni finnst maður hafa komið í eða búið í. Kannski höfðar verkið mest til þeirra sem hafa búið í svona þorpi. Hafa ekki annars allir búið í svona þorpi, þó að það hafi verið kallað eitthvað annað, t.d. bær eða borg?

Enn er hægt að fá miða á Sumarljós með stuttum fyrirvara á heimasíðu Þjóðleikshússins, http://www.leikhusid.is/. Ég hvet alla til að tryggja sér miða og eyða einni notalegri kvöldstund með þessu einlæga fólki. Kannski er bara best að kaupa miðana strax í dag. En svo er líka hægt að láta „eina svefnlaus nótt líða“ til að upplifa þrána.


Leyfist Ísraelsmönnum ALLT?

Ég sé ekki betur en Ísraelsmönnum leyfist bókstaflega allt í samskiptum sínum við Palestínumenn. Auðvitað er ekki til nein einföld leið til að stöðva helförina á Gaza, en það minnsta sem leiðtogar heims geta gert er þó að vera sammála um að fordæma ósköpin og koma síðan í veg fyrir að Ísraelsmönnum berist aðstoð nokkurs staðar frá, hvort sem aðstoðin er pólítísk, efnahagsleg eða viðskiptaleg. Það getur vel verið að slit á stjórnmálasambandi sé ekki rétta leiðin, en það er þá að minnsta kosti í lagi að kalla heim sendiherra til skrafs og ráðagerða - og að hætta viðskiptum við þetta helfararríki ekki seinna en strax, sbr. það sem Tyrkir hafa nú gert, hvort sem við viljum taka þá okkur sérstaklega til fyrirmyndar eður ei.

Ég ætla ekkert að fara að bera í bætifláka fyrir Hamas. Þar er margur glæponinn innanborðs. En þetta eru nú samt þau samtök sem Palestínumenn kusu í lýðræðislegum kosningum til að stjórna landinu, og í seinni tíð hafa stjórnmál verið þar ofar á dagskránni en vopnaskak. Alla vega eru árásir Hamasliða á Ísrael barnaleikur miðað við útrýmingarherferð Ísraelsmanna á Gaza!

Ég er nú enginn stjórnmálaskýrandi, en mér sýnist þó augljóst að Ísraelsmenn ætli að gera sem allra mestan „skurk“ á Gaza áður en skipt verður um forseta í Bandaríkjunum. Þá gæti nefnilega verið hætta á að Kaninn hætti að láta eins og ekkert sé. (Reyndar er ég bara hóflega bjartsýnn á það). Tímasetning útrýmingarherferðarinnar er engin tilviljum. Ég minni á það, sem kom í ljós í vikunni, að þau rök Ísralesmanna að þeir séu að svara flugskotaárásum Hamas eru bara lygi og yfirklór, því að aðgerðirnar byrjuðu aðeins of snemma til þess. Auk þess var búið að æfa þær mánuðum saman. Nú ætla Ísraelsmenn bara að humma allt vopnahléstal fram af sér fram til 20. janúar eða svo. Þá munu þeir allt í einu verða ljúfir sem lamb, enda búnir að ná „miklum árangri“ í aðgerðum sínum. Í þessu sambandi minni ég á stríðið í Líbanon sumarið 2006. Þar voru Ísraelsmenn til í að gera vopnahlé eftir nokkra daga. Þeir þurftu bara að eyðileggja og drepa aðeins meira fyrst. Og þetta féllust menn á með aðgerðarleysinu.

Það kemur auðvitað að því að helförinni á Gaza ljúki. Þá hefst mikið uppbyggingarstarf. Og þar verður alþjóðasamfélagið auðvitað að koma að málum til að hjálpa Palestínumönnum. Spurningin er þá bara hver eigi að borga brúsann. Skyldi alþjóðasamfélagið líka eiga að gera það? Ef eitthvert rustamenni brýtur niður húsið mitt í geðvonskukasti, fæ ég þá ekki bara nágrannana til að hjálpa mér við að byggja það upp að nýju og leggja svolítinn pening í púkk til að fjármagna endurreisnina? Ekki getur verið að ég ætlist til þess að rustamennið borgi þetta allt saman? Eða hvað?

Það verður sem sagt fróðlegt að sjá hver borgar reikninginn fyrir endurreisnarstarfið á Gaza þegar upp verður staðið. Skyldi Mengunarbótareglan (Polluter Pays Principle (PPP) gilda þar, eða gildir hún bara fyrir fáfróðar þjóðir sem menga efnahag grannþjóða með óráðssíu sinni án þess að lyfta svo mikið sem einum hnífi? Skyldu Ísraelsmenn vera búnir að borga reikninginn fyrir endurreisnina eftir árás þeirra á Líbanon 2006, þ.m.t. fyrir hreinsun olíu af 150 km strandlengju í Líbanon og Sýrlandi?

Líklega þarf ekkert að setja viðskiptabann á Ísrael. Þjóðin mun hvort sem er ekki hafa efni á því að kaupa neitt frá útlöndum næstu áratugi, á meðan hún er að borga fyrir skemmdarverk eigin stjórnvalda á erlendum grundum.


mbl.is Olmert segir að skotið hafi verið frá byggingu SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt „gúgl“ skaðar minna

Í tilefni af frétt um koltvísýringslosun við notkun leitarvéla er rétt að minna á, að þetta er ekki sá veruleiki sem blasir við „gúglurum“ á Íslandi. Að vísu rengi ég ekki samanburðinn við hraðsuðuketilinn, en á Íslandi er málum þannig háttað að enginn koltvísýringur losnar við „gúgl“ og heldur ekki þegar tevatn er soðið í katli. Við erum nefnilega svo heppin að hafa aðgang að nær koltvísýringslausri raforku. Að vísu losnaði einhver slatti af koltvísýringi þegar tölvan og hraðsuðuketillinn voru framleidd, en ég hygg að hann hafi hvort sem er ekki verið tekinn með í reikninginn í Harvard.

Þegar horft er á þetta í enn stærra samhengi eru leitarvélar vel til þess fallnar að ýta undir nýsköpun sem dregur úr losun koltvísýrings þegar til lengri tíma er litið. Leitarvélar hraða nefnilega útbreiðslu þekkingar!


mbl.is Áhrif „gúgls“ á umhverfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppbyggilegt silfur

Í Silfri Egils í gær voru m.a. tvö einkar uppbyggileg viðtöl sem ég hvet alla til að skoða, hafi þeir ekki séð þáttinn. Þar var annars vegar rætt við Einar Baldursson, sálfræðing í Danmörku, og hins vegar við Njörð P. Njarðvík, prófessor emeritus.

Einar hefur sérhæft sig í endurreisn starfsanda í fyrirtækjum eftir hrun, en þá aðferðafræði má væntanlega yfirfæra á heilar þjóðir. Í viðtalinu var m.a. rætt um mikilvægi þess að þeir sem voru við stjórnvölinn þegar hrunið varð, víki til hliðar, hvort sem þeir báru í raun nokkra ábyrgð á hruninu eður ei. Reiði sé eðlileg fyrstu viðbrögð við hruni, en í kjölfar reiðinnar geti komið ótti sem birtist í flótta og sinnuleysi. Áður en til þess komi sé nauðsynlegt að tryggja að fólki finnist það virkilega hafa tækifæri til að taka þátt í endurreisninni.

Viðtalið við Njörð byggðist m.a. á greinaskrifum hans í Fréttablaðið. Njörður leggur til að stofnað verði nýtt lýðveldi á Íslandi með nýrri stjórnarskrá. Þannig sé hægt að komast út úr þeirri blindgötu flokksveldis og hagsmunagæslu sem við erum nú stödd í. Núverandi ríkisstjórn þyrfti þá að fara frá og utanþingsstjórn eða neyðarstjórn að taka við. Næstu mánuðir yrðu síðan notaðir til að leggja drög að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin gæti kosið um á árinu 2010.

Lára Hanna Einarsdóttir hefur fært viðtölin úr Silfrinu í neytendavænar umbúðir á blogginu sínu, sjá http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/768444/. Í Silfrinu í gær var líka rætt við Torben Friðriksson, fyrrverandi ríkisbókara, um hugsanlega aðferð til að milda áhrif verðtryggingar fasteignalána á heimilin í landinu. Þær hugmyndir eru líka verðar umhugsunar.


Tveggja ára bloggafmæli

TwoyearsÍ kvöld kl. 22:49:40 á ég tveggja ára bloggafmæli. Byrjaði á þessu í óljósum tilgangi, en í þeirri von að þetta væri skaðlaus iðja. Fyrst notaði ég blogcentral.is, en færði mig svo hingað yfir á moggabloggið eftir rúmlega ársdvöl.

Ég veit náttúrulega ekkert hversu skaðlaus þessi iðja er. En ég fæ alla vega útrás með þessu fyrir einhverja skrifhneigð. Býst við að það réttlæti bloggið. Maður er alla vega ekki að krota á veggi á meðan.

En svona í alvöru: Takk fyrir umræðurnar og allar góðu athugasemdirnar síðasta árið. Næsta ár verður gott, þótt sitthvað eigi eftir að ganga á.


Årets mål!

Ég hef nú ekki mikið vit á fótbolta, en mér finnst mark ársins í Danmörku samt alveg ótrúlega flott! Sjáið og sannfærist á http://www.youtube.com/watch?v=Rc6G-ma5mXk&feature=related.
Wizard


mbl.is Stefán Gíslason átti mark ársins í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Tökum Gandhi á þetta“

Hvað ætlið þið að segja barnabörnunum ykkar þegar mótmæla- og borgarafundirnir eru komnir í sögubækurnar? "-Varst þú þarna, afi? -Nei, ég var heima að horfa á enska boltann. -En þú, amma? -Nei, ég fór alltaf í Kringluna á laugardögum." Eða ætlið þið kannski að ljúga og segjast hafa tekið þátt í mestu hugarfarsbyltingu Íslandssögunnar án þess að hafa lyft litlafingri eða mótmælaspjaldi?

Tilvitnunin hér að ofan er úr nýjasta bloggi Láru Hönnu Einarsdóttur, þar sem hún ákallar þann fjölmenna hóp Íslendinga sem vill breytingar, en hreyfir hvorki legg né lið til að láta þann vilja sinn í ljósi.

Ég er viss um að mikill meirihluti þjóðarinnar er afar ósáttur við stöðu mála, ósáttur við frammistöðu ríkisstjórnarinnar eða íslenskra stjórnmálamanna almennt, ósáttur við forsvarsmenn opinberra stofnana, ósáttur við að menn „axli ábyrgð“ með því einu að segjast ætla að skoða hvað hafi farið úrskeiðis, svo að þeir geti síðan sjálfir lagað það.

Ef vil viljum nýja tíma, þá þurfum við að búa þá til. Þeir verða ekki til að sjálfu sér í höndum þeirra sem bjuggu til gömlu tímana og klúðruðu þeim. Nú er tækifærið. Látum í okkur heyra, mætum á mótmælafundi, ætlumst ekki til að bræðurnir Einhver, Sérhver og Hversemer vinni verkin fyrir okkur! En: Höldum stillingu okkar - hversu lengi sem við þurfum að halda henni. Um leið og við missum stjórn á okkur og grípum til ofbeldis og skemmdarverka, erum við gengin til liðs við „hina“. Við viljum ekki vera í því liði. Sagan hefur sýnt að aðferð Gandhis er sú eina sem dugar. „Tökum Gandhi á þetta!“


Hvað er borgaraleg óhlýðni?

Civil olydnadAf gefnu tilefni hafa allmargir Íslendingar gerst óhlýðnir borgarar á síðustu vikum, en slík hegðun hefur annars verið fátíð hérlendis. Á dögunum rakst ég á ítarlega umfjöllun Skessuhorns Skánverja (öðru nafni Sydsvenskan) um borgaralega óhlýðni. Datt í hug að benda ykkur á þá ágætu lesningu.

Í umfjöllun Sydsvenskan kemur m.a. fram að sænsk stjórnvöld hafi látið gera sérstaka úttekt á því hvað borgaraleg óhlýðni sé í raun og veru. (Þetta kemur mér nú ekkert sérstaklega á óvart. Þegar úttektir eru annars vegar eru Svíar á heimavelli). Smile

Til að átta sig betur á fyrirbærinu borgaralegri óhlýðni, leitaði Sydsvenskan til þriggja valinkunnra einstaklinga. Fyrst spurðu þau dómsmálaráðherrann Beatrice Ask. Hún sagði einfaldlega: „Lögin gilda. Með lögum skal land byggja“. Þá vísaði hún á bug staðhæfingum um að óhlýðni geti stundum verið góð fyrir samfélagið og kvað allt slíkt vera vinstrivillu.

Magnus Wennerhag, doktor i félagsfræði við Háskólann í Lundi, sagði í samtali við Sydsvenskan, að til þess að einhver tiltekin aðgerð geti kallast borgaraleg óhlýðni verði hún að hafa pólitískan undirtón, beinast gegn hinu opinbera og hafa þann tilgang að vekja athygli á tilteknum málstað.

Sydsvenskan bað síðan þennan sama Magnus og Per Herngren, kunnan rithöfund og „aktívista“, að svara því hvort nokkrar tilteknar aðgerðir gætu talist vera borgaraleg óhlýðni. Ég ætla ekkert að fara að rekja öll svörin, enda góð æfing í sænsku að lesa þau á síðunni sem ég vísaði til hér að framan. Eitt verð ég þó að nefna, sem mér fannst standa upp úr:

Borgaraleg óhlýðni byggir ekki á ofbeldi. Ofbeldi er aðferð drottnaranna“.

Svona að lokum má geta þess, að að margra mati var Jesús Kristur frumkvöðull á sviði borgaralegrar óhlýðni, þó að hann hafi ekki notað það hugtak sjálfur í umræðunni.

(Myndin með þessari færslu er úr grein Sydsvenskan, sjá http://sydsvenskan.se/sverige/article403407/Olydiga-medborgare.html)


VIÐ getum haft áhrif í Palestínu!

Ég átti áhugavert símtal í gærkvöldi við mann sem var að velta því fyrir sér hvað venjulegur Íslendingur gæti gert til að sporna gegn yfirstandandi fjöldamorðum á Gaza. Hér eru tvær hugmyndir:

  1. Hætta að kaupa vörur frá Ísrael. Reyndar er ekki mikið um ísraelskar vörur í íslenskum búðarhillum, líklega helst sítrusávextir (appelsínur, mandarínur o.s.frv.) og niðursoðnir eða þurrkaðir ávextir. Ávextir í lausu máli eru ekki alltaf merktir upprunalandi, þannig að þá er um að gera að spyrja starfsfólk í versluninni hvaðan umrædd vara sé. Um leið kemur maður ákveðnum skilaboðum á framfæri, hvort sem maður fær svar eða ekki. Til að gæta fyllsta hlutleysis er sjálfsagt að sniðganga líka vörur sem Hamasliðar í Palestínu hafa framleitt. Það er auðvelt, því að slíkar vörur eru væntanlega ekki til.
  2. Styðja alþjóðasamtök sem beita sér fyrir vopnahléi. Í því sambandi má m.a. benda á Avaaz (sjá www.avaaz.org), sem eru einmitt á þessari stundu að reyna að skrapa saman upphæð sem samsvarar 32.000 Bandaríkjadölum til að fjármagna auglýsingu í Washington Post, í þeim tilgangi að reyna að hafa áhrif á afstöðu Bandaríkjanna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa Bandaríkjamenn komið í veg fyrir að gerð verði nokkur samþykkt sem máli skiptir um ástandið á Gaza, þrátt fyrir góðan vilja annarra þjóða. Hægt er að fara beint inn á síðuna https://secure.avaaz.org/en/gaza_peace_ads/?cl=167079782&v=2652 til að reiða slíkt framlag af hendi. Hver dollari skiptir máli!

Við getum haft áhrif í Palestínu! En það er ekki nóg að tala um það við eldhúsborðið eða á meðan maður er að horfa á Kastljós!


mbl.is Skotið á bíl með hjálpargögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband