Leita í fréttum mbl.is

Vissulega ömurleg atburðarás!

Vissulega var það ömurleg atburðarás sem varð til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar leið undir lok. Þar er ég alveg sammála SUS. Hins vegar er ég alveg ósammála SUS varðandi það hvaða atburðarás málið snúist um! Sú atburðarás sem varð stjórninni að falli átti sér ekki stað síðustu daga, heldur síðasta haust.

Stjórnin gat einfaldlega ekki setið lengur í óþökk fólksins í landinu. Ég held að flestir Samfylkingarmenn hafi verið búnir að átta sig á því. Þessu varð einfaldlega að ljúka. Líklega eru Sjálfstæðismenn stöðuglyndari, eða með öðrum orðum enn ólæsari á stöðu mála. Ingibjörg og Björgvin lentu í því að verða andlit hrunsins, ásamt með Geir og Árna. Fólk innanlands sem utan gat auðvitað ekki sætt sig við að sjá þessi sömu andlit í björgunarliðinu. Það er bara ótrúlegt að enginn skyldi pakka saman fyrr en Björgvin tók af skarið, nema reyndar Samfylkingarkonan í stjórn Seðlabankans, sem sagði af sér svo sem strax. Þá var ég viss um að margir fleiri myndu fylgja í kjölfarið.

Krafan um að fólk víki við þessar aðstæður þarf ekki endilega að hafa neitt að gera með ábyrgð viðkomandi á því sem gerðist. Þannig finnst mér t.d. gjörsamlega fáránlegt að setja Geir á einhvern topp20lista yfir helstu orsakavalda. Nei, þetta fólk var bara þarna, hvort sem það átti meiri eða minni þátt í hruninu. Þess vegna varð það að víkja! Ábyrgðin var enn frekar hjá fyrri ríkisstjórnum, en þær voru hættar hvort sem var og því ekki hægt að láta þær hætta aftur.


mbl.is SUS harmar tilgangslaus stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út að hlaupa - á nýjum skóm

Asics-ArcticKeypti mér tvenna hlaupaskó í gær. Það sannar náttúrulega þá staðhæfingu stúlku, sem afgreiddi mig í skóbúð í fyrra, að ég væri „eins og versta kona“ þegar hlaupaskór væru annars vegar, hvað sem það þýðir nú annars.

Það er reyndar upplagt að kaupa hlaupaskó einmitt núna. Ef maður er heppinn getur maður fengið góða skó á gömlu verði eða á útsölu á svo sem 14 þúsund kall, en algengt verð á nýinnfluttum skóm á nýlegu gengi er líklega um 24 þúsund. Þess vegna keypti ég mér tvenna. Það er eiginlega lágmarksskammtur fyrir árið. Almennt er gert ráð fyrir að hlaupaskór endist 600-800 km, og ef maður nær að hlaupa 2.000 km á árinu, þá verður nú mesti glansinn farinn af þessum nýju pörum. Að vísu er hægt að þvælast þónokkuð lengra á hverju pari, þ.e.a.s. ef maður slítur skóm vel. (Ég á t.d. þrjú pör, sem öll eru í kringum þúsundið). En dempunin í miðsólanum getur verið orðin býsna gagnslaus löngu áður en skórinn er orðinn verulega ljótur að utan.

Hlaupaskór eru í senn sá hluti af áhugamálinu mínu sem er dýrastur og verstur fyrir umhverfið, þ.e.a.s. ef ég undanskil ferðalög vegna hlaupa innanlands og utan. Umhverfisáhrif hlaupaskóa liggja einna helst í efnum sem notuð eru í miðsólann, auk ýmissa lím- og litarefna sem notuð eru til að halda skónum saman og gera þá söluvænlega í útliti. Tímaritið Runner's World fjallaði ítarlega um þessa þætti í hefti sem kom út fyrir jólin. Kannski segi ég eitthvað nánar frá því öllu saman við tækifæri ef margar áskoranir berast.

Nú, ég tók náttúrulega aðra nýju skóna í notkun strax í gærkvöldi. Þetta eru skór af gerðinni Asics Arctic. Þeir koma meira að segja með göddum, sem ég skrúfaði reyndar undan áður en ég fór út, því að hálkan er að mestu úr sögunni í bili. Skórnir reyndust vel.

Þeir sem ætla að tryggja sér hlaupaskó á „gamla“ verðinu gætu t.d. kíkt í vefverslun hlaup.is, farið í Afreksvörur, eða á útsölu í Flexor eða Intersport, svo eitthvað sé nefnt.

PS: Hlaupaskór eru einkar hentugt umræðuefni ef tilbreytingu vantar frá umræðu um kreppustjórnmál. Smile


Óvenjulegt tal á óvenjulegum tímum

Forseti Íslands fór ekki troðnar slóðir á fréttamannafundinum sem lauk á Bessastöðum fyrir stundu. Mesta athygli vekja væntanlega þau fjögur skylduverkefni, sem hann virðist ætla að fela nýrri ríkisstjórn. Einhverjum kann að finnast óviðeigandi að forsetinn tali með þessum hætti. Ég legg engan dóm á það. Hitt er víst, að troðnar slóðir eru ófærar í því ferðalagi sem framundan er.

Endurskoðun á stjórnskipan landsins er eitt hinna fjögurra „skylduverkefna“, sem forsetinn nefndi. Hvað sem hlutverki forsetans líður, þá er náttúrulega augljóst að þessi endurskoðun verður að fara fram. Nú er bæði nauðsyn og kærkomið tækifæri til þess!


mbl.is Skapa þarf samfélagslegan frið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara pappírsvinna!

Regnbogi SdVið megum ekki ætla okkur of stuttan tíma til undirbúnings kosninga. Þetta verða heldur engar venjulegar kosningar. Við erum komin á endastöð á einhverri vegferð - og framundan er einhver allt önnur vegferð. Nú þarf að verða sér úti um ný farartæki og nýja ferðafélaga, því að annars endar næsta ferð í ósætti og „bileríi“ eins og sú síðasta. Við þurfum með öðrum orðum uppstokkun, sem hlýtur að hafa í för með sér verulegar breytingar, bæði á framboðslistum og á flokkaskipan.

Stundum er kosningaundirbúningur lítið annað en pappírsvinna og skemmtilegir framboðsfundir. Sá kosningaundirbúningur sem nú fer í hönd er eitthvað allt annað og meira. Flýtum okkur hægt, svo að við sitjum ekki áfram í sömu súpunni!

Það hvernig landinu verður stjórnað fram að kosningum er svo annað mál. Enn er utanþingsstjórn langskásti kosturinn sem ég sé í þeirri stöðu.


mbl.is Talsverðan tíma tekur að undirbúa kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing

Mér finnst hugmyndin um stjórnlagaþing allrar athygli verðar og hvet fólk til að kynna sér málið á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is. Hugmyndin gengur í örstuttu máli út á að kosið verði sérstakt þing, sem hafi það verkefni að semja nýja stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland. Kosningin yrði óbundin og óháð stjórnmálaflokkum. Á meðan þingið væri að störfum myndi utanþingsstjórn fara með framkvæmdavaldið. Á fyrrnefndri vefsíðu er m.a. hægt að undirrita áskorun til forseta lýðveldisins og Alþingis Íslendinga um þetta efni.

Nýjar fréttir um væntanlegar kosningar 9. maí nk. breyta engu um þörfina fyrir að skoða þjóðfélagsskipanina frá grunni. Þingrof og hefðbundnar kosningar eru stórt skref í rétta átt, en hugmyndin um algjöra endursköpun stjórnarskrárinnar gengur mun lengra í því að hreinsa upp vanda fortíðar og leggja drög að bjartri framtíð sem þjóðin getur náð sáttum um.

Hvernig sem allt annað fer, vona ég innilega að forsætisráðherra nái skjótum bata. Mér finnst gagnrýni á forystumenn oft vera allt of harkaleg. Þeir sem standa í eldlínunni, þ.m.t. formenn beggja stjórnarflokkanna, leggja virkilega nótt við dag í störfum sínum. Álagið á þessu fólki er gríðarlegt, og það er afar ómaklegt að halda því fram að þau geri ekki neitt. Hvort maður er sammála aðgerðunum er svo allt annað mál!


Ullarföt eru umhverfisvæn

Skitne klær taflaÍ „Orðum dagsins“ í gær var sagt frá nýrri norskri úttekt á umhverfislegu ágæti klæðnaðar úr mismunandi efnum. Er skemmst frá því að segja að ullin kemur hvað best út. Nánar tiltekið reyndust föt úr hampi, kasmírull og alpakkaull vera umhverfisvænst, en föt úr kindaull, hör og lífrænt ræktaðri bómull fylgja þar fast á eftir. Samkvæmt úttektinni eru föt úr annarri bómull, næloni og akrýl hins vegar verstu valkostirnir frá umhverfislegu sjónarmiði, ásamt með fötum úr blöndu af bómull og pólýester. Í skýrslu um úttektina kemur reyndar fram, að besti valkosturinn sé þó einfaldlega að kaupa sem minnst af fötum.

Á myndinni hér til hliðar má sjá í grófum dráttum hvernig niðurstöður úttektarinnar eru settar fram. í skýrslunni er sem sagt tafla, þar sem fötum úr mismunandi efnum eru gefnir misglaðir broskarlar fyrir 7 umhverfisþætti, þ.e. náttúruvernd, vinnuaðstæður, orku/loftslag, efnanotkun, þvott/notkun, endurvinnslu/úrgang og upplýsingar. Til að skoða þetta almennilega er best að fara í upphaflegu skýrsluna (Skitne klær), en tengil á hana er auðvitað að finna í „Orðum dagsins“.

Í „Orðum dagsins“ er líka hægt að fræðast um ótalmargt annað. Þar er t.d. hægt að lesa sér til um ákveðið umhverfisátak í skoskum viskýiðnaði. Grænt viský er málið! Smile

PS: Þetta er svona alpakki:

Alpakka


Ísland - hvað nú?

Dagar ríkisstjórnarinnar eru senn taldir. Þar situr vænsta fólk, sem eflaust hefur allt gert sitt besta í þeim flóknu aðstæðum sem nú eru uppi. Samt verður stjórnin að víkja, einfaldlega til þess að hægt sé að hefja uppbyggingarstarfið, bæði innanlands og í samskiptum við aðrar þjóðir. „Það er ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálið var búið til“, svo ég vitni nú enn og aftur í Einstein. Það skiptir engu máli hversu færir einstaklingar eru nú við stjórnvölinn í ríkisstjórn og opinberum stofnunum. Þeim verður einfaldlega aldrei treyst til að vísa veginn fram á við.

Ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin biðjist lausnar, ef ekki í dag, þá innan fárra daga. Þá er um tvo kosti að velja: Annað hvort verður mynduð ný ríkisstjórn, eða þing rofið og efnt til kosninga.

Ég tel þingrofskostinn ekki góðan kost. Sé þing rofið þurfa kosningar að fara fram „áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið“, sbr. 24. grein Stjórnarskrárinnar. Þangað til myndi núverandi stjórn væntanlega vera falið að sitja áfram. Stjórnin þarf að fara frá strax - og 45 dagar eru allt of stuttur tími til að undirbúa kosningar við núverandi aðstæður. Það þarf nefnilega að gefast ráðrúm til nýsköpunar, bæði í mannavali og í skipan stjórnmálafylkinga. Væri tilkynnt um þingrof í dag þyrftu kosningar að fara fram fyrir 7. mars nk.!

Hinn kosturinn er að mynda nýja ríkisstjórn. Ég tel reyndar ógerlegt að setja saman starfhæfa stjórn einhverra flokka sem nú sitja á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn tengjast öll bankahruninu með einum eða öðrum hætti, og án þeirra allra verður ekki mynduð starfhæf stjórn. Af sömu ástæðum kemur þjóðstjórn allra flokka ekki til greina.

Með hliðsjón af þessu öllu verð ég sífellt sannfærðari um að utanþingsstjórn sé skásti kosturinn eins og málum er nú háttað. Hún myndi þá fara með stjórn landsins fram að næstu alþingiskosningum, sem menn hefðu þá bæði lengri tíma og meiri frið til að undirbúa en ella. Nákvæm tímasetning kosninga yrði þá ákveðin fljótlega. Ef þessi leið verður valin geta stjórnmálamenn og almenningur farið að beina sjónum sínum að því sem skiptir máli: Framtíðinni!

Ég hef áður skrifað nokkra punkta um utanþingsstjórnir og ætla ekki að endurtaka þá hér nema að litlu leyti. Utanþingsstjórn er auðvitað neyðarúrræði. En núna ríkir einmitt þess konar neyð. Í stjórninni myndu sitja sérfræðingar með þokkalega hreint borð, sem sagt fólk sem almenningur og erlendir samstarfsaðilar gætu treyst. Um leið fengist friður; friður til að stjórna, friður til að huga að innra starfi stjórnmálaflokkanna og undirbúa kosningar og friður fyrir fólk flest til að sinna þeim málum sem því standa næst. Þegar friðurinn hefur ríkt nógu lengi yrði svo kosið til Alþingis - og eftir það tæki trúlega við töluvert breytt landslag, bæði hvað varðar stjórnmálaflokka og einstaklinga í forystuhlutverkum. Inn í þetta þarf svo að fléttast undirbúningur stjórnarskrárbreytinga. Nú dugar nefnilega ekkert hálfkák. Það þarf að stokka spilin upp á nýtt. Við þurfum nýja stjórnarskrá, nýtt lýðveldi, nýtt Ísland.

Það er ekki eftir neinu að bíða.


mbl.is Mótmæli fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðidagur - dagur vonar

Kannski á ég eftir að minnast þess alla tíð hvar ég var staddur þegar Barack Obama tók við embætti sem forseti Bandríkjanna fyrir stundu, jafnvel þótt ég væri bara heima í stofu að horfa á sjónvarpið. Þetta er vissulega viðburður sem snertir alla heimsbyggðina.

Embættistaka Baracks Obama felur í sér nýja von, ekki bara fyrir bandarískan almenning, heldur fyrir alla íbúa heimsþorpsins. Það er nánast sama hvert litið er, alls staðar eygir maður nýja von. Þetta gildir jafnt um umhverfismál, samskipti þjóða, mannréttindi og efnahag. Tímabili haturs, skugga og afneitunar virðist lokið - og við tekur tímabil samstöðu og uppbyggingar.

Vissulega má líkja verkefnum nýja forsetans við illkleifan hamar, og á þessari stundu er auðvitað ekki hægt að fullyrða hvernig honum og okkur hinum mun ganga á þeirri uppleið. Menn geta vissulega sest niður í svartsýni og bent á allar hindranirnar sem virðast óyfirstíganlegar. Menn geta líka talað um innantóm orð, sem ekkert sé að marka fyrr en verkin hafi verið látin tala. En þarna eigum við tvo kosti: Annað hvort leyfum við okkur að hrífast með og gleðjast í trúnni á getu okkar til góðra verka, eða þá að við teljum kjark úr okkur sjálfum og samferðamönnunum til að allt verði örugglega sem leiðinlegast, full af ótta við bakslagið ef björtustu vonirnar rætast ekki. Þetta verður hver að gera upp við sjálfan sig, en ég ætla að vera í fyrrnefnda liðinu, liðinu sem hrífst með og gengur til móts við framtíðina með blik í auga, liðinu sem leggur óhrætt upp í ferðalag inn í betri tíma, þó að ferðaáætlunin hafi ekki verið skrifuð í smáatriðum, liðinu sem er staðráðið í að komast yfir á fljótsbakka framtíðarinnar, „liðinu sem sigrar“.

Það er uppörvandi að rifja upp þann árangur sem í raun hefur náðst á stuttum tíma. Í ræðunni í dag minnti Barack Obama m.a. á þær miklu framfarir sem hafa gert það mögulegt að sonur manns, sem ekki gat fengið afgreiðslu á venjulegum veitingastað fyrir svo sem einum mannsaldri, geti nú staðið þar sem hann stóð í dag.

Í ræðunni nefndi Barack Obama líka eitt og annað fleira sem við getum tekið með okkur í nesti á ferðalaginu um íslenskan veruleika á yfirstandandi þrengingartímum. Hann minnti m.a. á að afköst verkamannanna væru ekkert minni nú en þau voru fyrir einni viku, einum mánuði eða einu ári - og að hugir okkar væru ekkert síður frjóir nú en þá. Þess vegna gætum við sigrast á hverri þraut, rétt eins og við hefðum sigrast á þrautum fortíðar. Það er nefnilega engin raunveruleg kreppa á meðan afl handar og hugar er óskert, svo ég túlki nú orð hans aðeins. Við erum nákvæmlega jafnsterk og við vorum fyrir daga kreppunnar!

Í dag upplifði ég dag vonar. Og ég ætla að leyfa mér að hrærast áfram í þessari von. Bjartsýni er nefnilega ekkert kjánaleg, hún er einfaldlega lykillinn að framhaldinu - leyniorðið sem þarf til að komast í gegnum næsta hlið á veginum.


mbl.is Obama: „Við erum reiðubúin að leiða á ný“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimur fíkniefnanna

Alveg er skelfilegt að fylgjast með því hvernig menn leiðast sífellt út í harðari og harðari efni! Frown
mbl.is Þrír handteknir með kókosbollur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn gefur tóninn

NótaÉg hef áður vitnað í þau orð Alberts Einstein, að ekki sé hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálið var búið til. Nú hefur Framsóknarflokkurinn áttað sig á þessu. Hvar sem menn standa í flokki er full ástæða til að gleðjast og óska Framsóknarmönnum til hamingju með nýja forystu. Með þessu hefur flokkurinn gefið tóninn, og nú verður spennandi að sjá hvenær núverandi stjórnarflokkar fylgja þessu góða fordæmi.


mbl.is Fréttaskýring: Framsókn kveður fortíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband