12.2.2009 | 16:14
Loksins verður Árósasamningurinn fullgiltur
Mér þykja það mikil gleðitíðindi að ríkisstjórn Íslands skuli hafa samþykkt tillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur, umhverfisráðherra, um að Árósasamningurinn verði fullgiltur hér á landi. Samningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
Ég hef beðið eftir þessum degi í mörg ár. Hef reyndar aldrei skilið hvers vegna Íslendingar hafa kosið að vera eftirbátar flestra annarra Evrópuþjóða hvað varðar aðgang almennings að upplýsingum og rétt almennings til að hafa áhrif. Skrifaði á sínum tíma (21. september 2007) svolítinn pistil um þetta á gamla bloggið mitt. Myndin sem fylgdi er reyndar horfin, þannig að ég set bara nýjustu útgáfuna aftur inn hér að neðan. Dökkgrænu löndin hafa sem sagt fullgilt samninginn, en þau ljósgrænu hafa bara skrifað undir hann. (Undirskrift hefur enga formlega þýðingu fyrr en viðkomandi þjóðþing hefur fullgilt samninginn). Bláu löndin hafa hvorki skrifað undir né fullgilt og appelsínugulu löndin eru ekki aðilar að UNECE og eiga því enga aðild að málinu. (Grænland er með öðruvísi grænan lit, því að þegar Danir fullgiltu saminginn undanskildu þeir Grænland. Sama gildir reyndar um Færeyjar, en þær sjást ekki á kortinu).
Ég tek undir með framkvæmdastjóra Landverndar: Til hamingju Ísland! (Þessi orð stóðu í efnislínu tölvupósts sem barst félagsmönnum í Landvernd í dag. Ég vona að mér fyrirgefist að vitna í hann með þessum hætti).
Nánari upplýsingar um Árósasamninginn og ákvörðun ríkisstjórnarinnar er að finna á heimasíðu UNECE og á heimasíðu umvherfisráðuneytisins.
Árósasamningurinn verður fullgiltur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2009 | 10:21
Er afsökunarfælni séríslenskt fyrirbæri?
Svonefnd afsökunarfælni (Phopia sorryensins) virðist mjög útbreidd á Íslandi. Lauslegar rannsóknir á þjóðflokknum benda til að þar biðjist helst enginn afsökunar á neinu, nema hafa fyrst verið dæmdur til þess. Hérlendis þykir alla vega ekki tímabært að biðja afsökunar, nema sérstakur saksóknari hafi fyrst rannsakað hvort nokkur ástæða sé til þess. Geir H. Haarde er sko alls ekki einn um þessa fælni, þó að viðtal við hann hafi ýtt mér út í þessi skrif.
Þetta vissi ég í gær eða fyrradag þegar ég sá útundan mér einhverja frétt um að einhverjir bankastjórar hefðu beðist afsökunar. Það fyrsta sem kom í hugann var: Þetta er ekki innlend frétt. Enda reyndist það rétt vera. Sömuleiðis komst ég að því fyrir löngu að Madonna átti ekki við neinn Íslending þegar hún orti kvæðið, sem þessi orð koma fyrir í: Please don't say your'e sorry. [...] I heard it all before.
Geir: Biðst ekki afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.2.2009 | 11:29
Lukkudagur Svantes
Í framhaldi af umræðu á Vinamóti (Snjáldru eða Fésbók) í morgun datt mér í hug að birta eftirfarandi þýðingu á Lukkudegi Svantes eftir Benny Andersen, en þessa þýðingu gerði ég einhvern tímann seint á síðustu öld:
Morgunstund mild og góð!
Mikið er sólin rjóð!
Nína hún brá sér í bað.
Svo borðum við eftir það.
Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.Blánar í berjamó,
bisar þar könguló.
Fuglarnir fljúga hátt
í flokkum um loftið blátt.
Lukkan er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.Grasið er grænt og vott.
Geitungar lifa flott.
Lungun í loftið ná.
Liljurnar anga þá.
Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.Í sturtunni syngur söng
síkát um dægrin löng.
Himinninn hóflega blár.
Og hugurinn skýr og klár.
Lukkan er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.Nú kemur Nína hér.
Nakin og vot hún er.
Kyssir mig fim og fer
fram til að greiða sér.
Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.
Sjálfur er ég býsna sáttur við þessa þýðingu, en þó varð ég að játa mig sigraðan þegar kom að Fuglene flyver i flok, når de er mange nok. Ég held að þetta hafi reyndar vafist fyrir fleirum sem hafa spreytt sig á því að þýða þennan skemmtilega texta, en það veit ég að ýmsir hafa gert. Veit að Jón heitinn Björnsson, fyrrum organisti og kórstjóri í Borgarnesi, komst býsna vel frá þessari tilteknu setningu í þýðingunni sinni.
Kvennakórinn Norðurljós á Hólmavík söng mína útgáfu af þýðingunni inn á geisladisk sl. haust í útsetningu Úlriks Ólasonar. Nú geta þeir blogglesendur sem vilja líka sungið þetta við öll hentug tækifæri! (Samt mæli ég nú eiginlega frekar með því að danski textinn sé sunginn, svona til að viðhalda tengslunum við frændþjóðina).
Nánari upplýsingar um geisladisk
Kvennakórsins Norðurljósa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.2.2009 | 00:09
Út að hlaupa 2009 - fyrsti hluti
Hlaupaárið 2009 byrjar bara vel. Alla vega varð janúarmánuður sá lengsti sinnar tegundar, nánar tiltekið 140 km. Janúar í fyrra var bara 116 km, þrátt fyrir að Rómarmaraþonið væri yfirvofandi. Ef ég man rétt þorði ég ekki að hlaupa fyrri part janúar 2008 út af óþægindum í hné. Ákvað svo að hætta að hafa áhyggjur og gera styrktar- og teygjuæfingar í staðinn. Síðan hef ég ekki fundið til í hnjánum.
Fólk er annars alltaf að spyrja mig hvort ég verði ekki slæmur í hnjánum af öllum þessum hlaupum, maður kominn á þennan aldur. Hnén virðast nefnilega há tiltölulega mörgum. Og þá er fólk fljótt að trúa að það sé orðið of gamalt til að hlaupa, eða eitthvað álíka gáfulegt. Einhver sagði einhvern tímann, gott ef það var ekki Trausti Valdimarsson, læknir og ofurhlaupari, að algengustu mistök sem fólk gerði, væri að halda að það væri of eitthvað til einhvers.
Í stuttu máli, þá há hnén mér ekki neitt og hafa aldrei gert, nema þá skamman tíma í einu. Síðast var það sumarið 1995 ef ég man rétt. Í stuttu máli má skipta fólki í tvo hópa eftir hnjám. Í öðrum hópnum er fólk með sködduð hné af einum eða öðrum ástæðum - og í hinum hópnum fólk með ósködduð hné. Í þeim flokki eru miklu fleiri en í þeim fyrrnefnda. Séu hnén ósködduð ættu þau ekki að hindra fólk í því að hlaupa. Reynsla mín bendir til að eymsli í ósködduðum hnjám hlaupara eigi sér tvær mögulegar ástæður öðrum fremur. Annað hvort eru skórnir ekki nógu góðir eða vöðvarnir sem liggja að hnjánum ekki nógu sterkir. Séu hnén ósködduð er ástæðulaust að gefast upp. Styrktaræfingar og teygjur geta leyst býsna mörg vandmál! En ég ætlaði ekkert að skrifa um hné, heldur um hlaupaárið 2009.
Ég sagði í upphafi að árið hefði byrjað bara vel. Reyndar byrjaði það alls ekki vel, heldur með mikilli sorg, þegar einn úr hlauparasamfélaginu, Guðjón Ægir Sigurgeirsson, varð fyrir bíl á morgunhlaupi við Selfoss. Hugsanir um þennan atburð sækja oft á mann á hlaupunum. Eitthvað er öðruvísi en áður - en það eina sem maður getur gert er að hlaupa áfram sína leið og senda kveðjur í huganum til fjölskyldu og vina Guðjóns. Svona er máttur manns lítill. Línan milli lífs og dauða er þynnri en tárum taki. Hverja stund ber að þakka, því að enginn veit hvar og hvort næsta stund rennur upp.
Ég var að hugsa um að skrifa heilmikið um hlaupaáformin mín 2009, en nú langar mig frekar til að gera það seinna. Ætla að snúa mér að einhverju öðru næstu klukkutíma og hlaupa svo hefðbundna 20 km vestur á Mýrar með Ingimundi í fyrramálið. Áformin birtast örugglega á næstu dögum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2009 | 20:08
Ég vil enga STJÓRNMÁLASTÉTT
Mér finnst bara fínt að Sigmundur Ernir vilji komast á þing, og mér er alveg sama hvaða flokkur á í hlut. Hins vegar geðjast mér ekki að orðalagi fréttarinnar, þar sem segir að Sigmundur hafi gengið til liðs við stjórnmálastéttina. Í þessu orðalagi endurspeglast kannski kjarni þess vanda sem við eigum við að glíma, nefnilega þess að stjórnmál voru hætt að felast í umræðu almennings, en þess í stað orðin verkefni einhverrar sérstakrar stéttar.
Ég geri reyndar ráð fyrir að Sigmundur Ernir taki ekki undir það sjálfur að hann sé að ganga til liðs við einhverja stétt. Hann er einfaldlega einn af þessu fjölmarga fólki í landinu sem er ekki sama um allt. Sem betur fer! Nú er tími stjórnmálastéttarinnar liðinn. Við eigum öll að taka afstöðu! Við eigum öll að vera í stjórnmálum!
Ástand síðustu vikna og mánaða kemur hart niður á mörgum, en í ástandinu felast líka tækifæri. Stærsta tækifærið felst í vakningu fólksins. Allt í einu eru næstum allir farnir að tala um stjórnmál. Þannig á það einmitt að vera! Stjórnmál eiga ekki heima í neinni einni stétt!
Sigmundur Ernir í pólitíkina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.2.2009 | 15:55
Danir eru aular!
Meiri aularnir þessir Danir! Fyrst helltu þeir sér út í að virkja vindorkuna og framleiða vindmyllur. Hversu gáfulegt getur það nú verið? Og hvað eins og þeir hafi grætt á því? Jú, þeir urðu svo sem leiðandi á heimsvísu í vindorkuiðnaði með tilheyrandi nýsköpun og heilmiklum útflutningi. En hver kærir sig nú um svoleiðis?
Og nú ætla þeir að fara að hamast eitthvað í rafbílaæðinu, bara af því að þeir eiga svo mikla vindorku sem hentar vel til að hlaða svoleiðis bíla! Er þetta nú ekki einum of langt gengið? Hverju eins og þetta geti nú skilað þeim!? Kannski meira þróunarstarfi og nýjum atvinnutækifærum og sterkum gjaldmiðli og svoleiðis. Það er nú bara eintómt vesen!
Þeir hefðu sko frekar átt að hafa þetta eins og við. Virkja bara nógu mikið og selja orkuna á sem lægstu verði til frumframleiðslu til að passa að virðisaukinn hrúgist ekki upp innanlands. Og ef það hefði ekki nægt til að losna við orkuna, þá hefði kannski mátt flytja hana út til Póllands, t.d. gegnum sæstreng.
(Þessi færsla er þýdd og staðfærð með leyfi höfundar, sem er Hans Nilsson ráðgjafi hjá Fourfact. Hann hefur oft áður verið mér uppspretta vangaveltna um orkumál. Þeir sem eru þokkalega læsir á sænsku geta fundið marga áhugaverða punkta á heimasíðunni hans www.fourfact.com).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.2.2009 | 14:56
Ísinn brast
Ísinn brast eða brotnaði. Hann hrundi ekki. Það var bara bankakerfið sem hrundi. Reyndar getur ís alveg hrunið líka, en þá helst ofan af þökum. Þannig hefði ís af ráðhúsþakinu getað hrunið ofan á hestana, svona fræðilega séð. En vonandi gengur vel að ná hestunum upp. Þetta er ekki þægilegt bað!
(Þessi færsla mín flokkast undir málfarsnöldur).
PS (kl. 16): Það er búið að laga fyrirsögnina á mbl.is og setja brotnaði í stað hrundi. Gott mál. Það er reyndar afar vandasamt að halda úti eins öflugum og fljótum vefmiðli og mbl.is. Fréttir á svoleiðis miðlum verða fljótt úreltar ef menn liggja lengi yfir prófarkalestri. Ég hef fullan skilning á því. Takk bara fyrir frábæran vef!!!
Ís brotnaði undan hestum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.2.2009 | 10:00
Leyfum okkur að gleðjast í voninni!
Ég er ánægður með stjórnarskiptin. Það þurfti einfaldlega að skipta um fólk. Burtséð frá allri flokkapólitík var ekki hægt að ætlast til þess að þjóðin vildi þiggja bjargráð þeirra sömu og voru á vaktinni á meðan hagkerfið hrundi.
Nýrri stjórn fylgir ný von. Og vonina má ekki vanmeta. Vonin er sú, að nú sé loks hægt að hefja ferðina yfir fljótið, yfir að fljótsbakka framtíðarinnar, ferð sem fyrri stjórn virtist þrjóskast við að leggja upp í. Ég vil nefnilega ekki láta draga mig upp á gamla bakkann, fljótsbakka fortíðarinnar. Ég vil halda áfram, þó að fyrsti spölurinn sé blautur og kaldur.
Mér dettur ekki í hug að halda að nýja stjórnin lumi á einhverjum töfralausnum sem duga til að leysa öll vandamál á 80 dögum, enda er fljótsbakki framtíðarinnar eflaust fjær en það. En hvert ferðalag hefst jú með einu skrefi.
Við aðstæður eins og nú ríkja er breyting góð, jafnvel þótt hún væri aðeins gerð breytingarinnar vegna. Í þessu tilviki er því reyndar ekki svo farið, því að á verkefnalista nýju ríkisstjórnarinnar kveður við nýjan tón. Þar kemur m.a. fram að stjórnin muni hafa í heiðri félagsleg gildi, hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsi, jöfnuð og réttlæti. Þar við bætist svo hugmyndin um nýja stjórnarskrá, sem samin verður og samþykkt af fólkinu í landinu. Þetta er einmitt það sem ég vildi sjá.
Frá því í árslok 2001 hef ég verið algjörlega sannfærður, hverja einustu stund, um að Ísland geti markað sér sess sem fyrirmynd annarra þjóða á sviði sjálfbærrar þróunar, þ.e.a.s. þróunar sem tryggir jafnrétti á milli núverandi og komandi kynslóða, þróunar sem er gerð til að endast. Þeir sem vilja vera slík fyrirmynd mega ekki umgangast jörðina eins og hún sé fyrirtæki í gjaldþrotaskiptum, svo vitnað sé í Herman Daly. Þeir mega heldur ekki hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama þótt gerður sé stórskaði öldum og óbornum, eins og Þorvaldur Thoroddsen orðaði það fyrir 115 árum. Þetta frumkvöðulshlutverk, sem ég er svo viss um að Ísland eigi að taka að sér, byggir ekki á fórnfýsi. Hlutverkið felur einfaldlega í sér stórkostleg tækifæri fyrir þessa litlu þjóð. Og líklega er hvergi að finna neina þjóð sem er betur í stakk búin til að gegna þessu hlutverki, eins og ég hef reyndar reynt að rökstyðja í þónokkuðmörgum fyrirlestrum síðustu 7 árin. Fáar þjóðir eru betur menntaðar, ríkari af náttúruauðlindum, með sterkari lýðræðishefð og styttri boðskiptaleiðir. Hér er allt sem þarf. En til þess að ná þessari eftirsóknarverðu forystu þarf að stokka upp spilin, endurvekja lýðræðið, sem var tekið að fyrnast, auka þátttöku fólksins og hætta að líta á stjórnmálamenn sem stétt sem á að sjá um að stjórna landinu á meðan við hin sýslum við eitthvað annað.
Verum vongóð og viss um að nú sé okkar tími kominn, og að nú liggi leiðin yfir á fljótsbakka framtíðarinnar. Leyfum okkur að gleðjast í voninni!
Stjórnarskiptin vekja athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2009 | 09:21
Hlaup, umhverfismál, kreppa og ekki neitt
Þjóðin hefur kveðið upp dóm sinn! Dagana 6.-29. janúar sl. stóð yfir afdrifarík kosning á bloggsíðunni minni, þar sem þjóðinni gafst kostur á að segja skoðun sína á því um hvað ég ætti að blogga. Á kjörskrá voru 319.756. Atkvæði greiddu 100, eða 0,03%. Dæmi eru um meiri kjörsókn í kosningum hérlendis, en ég er þó afar sáttur við þátttökuna og þakklátur fyrir þann mikla meðbyr sem hún endurspeglar. Úrslitin birtast á eftirfarandi mynd:
Það er sem sagt ljóst að flestir vilja að ég bloggi um hlaup, umhverfismál, kreppuna eða alls ekki neitt. Lífið og tilveran fylgja þar fast á eftir.
Ég mun reyna af fremsta megni að virða niðurstöður kosninganna í samræmi við lýðræðishefð á hverjum tíma. Þannig mun ég t.d. reyna að virða afstöðu þeirra sem vilja að ég bloggi um alls ekki neitt, t.d. með því að blogga um alls ekki neitt 15% af öllum dögum ársins.
Takk fyrir þáttökuna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.1.2009 | 17:19
Slapp undan fallandi fragt
Flugfragt í frjálsu falli í desember | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt