3.3.2009 | 13:15
Skaðabótaábyrgð Ísraelsmanna
Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var sagt frá því að þjóðir heims hefðu samþykkt að leggja fram hátt í 4,5 milljarða Bandaríkjadala til uppbyggingar á Gaza og til aðstoðar efnahagslífi Palestínumanna. Þar af ætlar Bandaríkjastjórn að leggja fram 900 milljónir dala, Saudi Arabar um 700 milljónir og Evrópusambandið um 550 milljónir, svo eitthvað sé nefnt.
Þessi viðbrögð alþjóðasamfélagsins eru gleðitíðindi. Að sjálfsögðu verða þjóðir heims að hlaupa undir bagga - og því fyrr því betra! En um leið vekur þetta upp spurningar um endurkröfurétt á hendur Ísraelsmönnum, en það voru jú vel að merkja þeir en ekki óblíð náttúra sem lögðu innviði Gaza í rúst. Auðvitað eiga þjóðir heims að drífa í að aðstoða við uppbygginguna, en mér finnst jafnsjálfsagt að þessar sömu þjóðir sendi Ísraelsmönnum síðan reikninginn. Á ekki sá að borga sem veldur skemmdunum, rétt eins og sá borgar sem mengar, skv. Mengunarbótareglunni? Á sama hátt ætti svo að láta Hamas borga það tjón sem árásir þeirra á Ísrael hafa valdið. Kannski er hægt að skuldajafna og láta bara þann sem skemmdi meira borga mismuninn þegar upp er staðið.
Eða hefur Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, kannski rétt fyrir sér þegar hann segir að Ísraelar sem lögðu alla innviði Gaza í rúst eigi ekki að borga fyrir skemmdirnar og það tjón sem íbúarnir urðu fyrir, þar sem erfitt sé að sanna að Hamas hafi ekki skotið frá þeim stöðum sem Ísraelar sprengdu í loft upp?
Ég veit lítið um alþjóðastjórnmál og alþjóðarétt. Er ekki einhver til í að útskýra það fyrir mér hvers vegna Ísraelsmenn hafi mátt leggja Gaza í rúst, án þess að þurfa síðan að bera neinn kostnað af uppbyggingarstarfinu?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.3.2009 | 22:54
Gott hjá Ástu
Mér finnst gott hjá Ástu skólasystur minni að biðjast afsökunar. Og mér finnst algjör óþarfi hjá bloggurum að vera að ólundast eitthvað út af því. Það er nefnilega stór munur á því að bera einhverja ábyrgð á því hvernig komið er - og biðjast afsökunar, og hinu að bera þessa sömu ábyrgð (og jafnvel meiri) og biðjast EKKI afsökunar. Allt of margir hafa valið síðari kostinn, eins og t.d. Geir H. Haarde, sem varð svona líka vandræðalega pirraður í dag út af því að einhver undirhópur Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins dirfðist að gefa í skyn að kannski þyrfti að gera eitthvað upp við fortíðina. Ekki veit ég hvar Geir hefur eiginlega verið síðustu mánuði og ár. En mér finnst alla vega bara fínt að Ásta og undirhópur Endurreisnarnefndarinnar hafi verið einhvers staðar annars staðar. Ásta er maður að meiri fyrir bragðið.
Baðst afsökunar á mistökum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2009 | 14:38
Þörf á 95% samdrætti fyrir 2050!
Stavros Dimas, umhverfisstjóri Evrópusambandsins, kvað allskýrt að orði sl. föstudag á loftslagsráðstefnu í Búdapest. Hann sagði m.a. að loftslagsfundurinn í Kaupmannahöfn í desember 2009 væri síðasta tækifæri ríkja heims til að stöðva loftslagsbreytingar, áður en þær verða komnar á það stig að ekki verði aftur snúið. Það væri því ekki aðeins mögulegt, heldur algjörlega bráðnauðsynlegt að ná víðtækri samstöðu á fundinum í Kaupmannahöfn.
Dimas undirstrikaði líka í máli sínu, að til þess að takast megi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir árið 2050, miðað við grunnárið 1990, en það er einmitt sá samdráttur sem almennt er talinn nauðsynlegur til að koma í veg fyrir hitastigshækkun umfram 2°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu (1,2°C frá því sem nú er), þá þurfi iðnríkin að minnka losun sína um 80-95%. Svo mikill samdráttur sé m.a. nauðsynlegur til að gefa þróunarríkjunum eðlilegt svigrúm til aukningar.
Þetta tal um allt að 95% samdrátt kemur mér ekkert á óvart, þó að talan sé nokkru hærri en oftast heyrist í umræðunni. Í stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum, sem gefin var út snemma árs 2007, er t.d. bara miðað við 50-75% samdrátt, jafnvel þótt Íslendingar séu í hópi þeirra þjóða þar sem losunin er allra mest. Betur má ef duga skal. Og það er heldur ekki nóg að setja markmið fyrir árið 2050 og bíða svo bara rólegur. Nú ríður á að stika út leiðina þangað, með tímasettum markmiðum til skemmri tíma.
Hægt er að kynna sér innihald ræðu Stavros Dimas nánar á fréttavef PlanetArk/Reuter. Bendi einnig á bloggfærsluna Einföld útstreymistölfræði á gömlu bloggsíðunni minni 5. des. 2007.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 00:29
Ekki einn af smörtustu gæjunum í rúminu
Ég er þakklátur fyrir að vera ekki einn af "The Smartest Guys in the Room". Slíkra gæja bíða nefnilega erfiðir tímar þegar tjöldin falla að liðnum dögum víns og rósa. Ég var með öðrum orðum að horfa á Enron-myndina í sjónvarpinu, alla vega bróðurpartinn af henni. Þetta var sláandi saga, ekki þó vegna þess að svona stórt fyrirtæki skyldi geta farið á hausinn, eins og gerðist vestanhafs haustið 2001, heldur vegna þess að mér sýnist þessi saga hafa endurtekið sig lítið breytt á litla Íslandi 7 árum síðar - og líka vegna hins að á bak við hverja slíka sögu er harmsaga fjölskyldna, sem aldrei verða samar.
Það er sorglegt að menn skuli ekki geta lært af mistökum annarra, heldur aðeins af sínum eigin. Þegar dagar Enron voru taldir héldu athafnamenn í öðrum löndum, þ.á.m. Íslandi, áfram að leika sér í talnaleikfimi, þar sem góðar hugmyndir og viðskiptavild voru færðar að vild sem eignir í efnahagsreikningi til þess að blása upp verðmæti fyrirtækja og skapa arð sem ekki var til, eða í besta falli tekinn að láni frá ófæddum, allt undir því yfirskini að verið væri að gæta hagsmuna hluthafa. Víst forðast brennt barn eldinn, en bara þann eld sem það hefur sjálft brennt sig á.
En það finnast líka bjartar hliðar: Þegar gerð verður heimildarmynd um bankahrunið á Íslandi þarf ekki að frumvinna allt, heldur dugar að staðfæra handrit Enron-myndarinnar og byrja svo að setja inn íslenskara myndefni. Þetta hlýtur að spara slatta af peningum.
Ég sagðist vera þakklátur fyrir að vera ekki einn af "The Smartest Guys in the Room". En kannski er ég bara hræsnari sem er þakklátur fyrir að vera ekki eins og Farísearnir. Hver veit hvernig maður myndi bregðast við ef maður væri sjálfur í þessari aðstöðu? Og ekki ætla ég heldur að lýsa yfir sakleysi mínu vegna hrunsins hér. Við tókum öll þátt - með einum eða öðrum hætti, þó að við viljum helst ekki hugsa eða tala mikið um það.
Verum samt bjartsýn - og þakklát því fólki sem þrátt fyrir allt þorir að segja til um klæðleysi keisara!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.3.2009 | 15:43
Til hamingju Strandamenn!
Nú er rúmur klukkutími síðan allir Strandamennirnir voru komnir í mark í Vasagöngunni, en gangan hófst kl. 8 í morgun að staðartíma í Sälen. Eins og vænta mátti var Birkir í Tröllatungu þeirra fremstur, en árangurinn var annars sem hér segir, (svona rétt til að svala tölfræðiáhuga blogglesenda):
Birkir Stefánsson: 1876. sæti, 05:47:13 klst. (var á 6:53:30 í fyrra)!
Ragnar Bragason: 3448. sæti, 06:29:33 klst. (var ekki með í fyrra)
Rósmundur Númason: 6044. sæti, 07:34:11 klst. (var á 8:23:44 í fyrra)!
Alls voru keppendur í göngunni eitthvað um 15.000, þannig að Strandamennirnir voru allir framarlega í hópnum. Framfarirnar milli ára eru líka gríðarlegar, en líklega voru aðstæður heldur hagstæðari nú en í fyrra.
Ég er afar stoltur af þessum fyrrum sveitungum mínum og óska þeim til hamingju með af hafa lokið þessari þolraun með svo góðum árangri! Birkir og Ragnar fylgdu mér báðir yfir Gaflfellsheiðina sl. haust, þannig að ég veit nokkuð hvað í þeim býr. Þetta eru Strandamenn eins og Strandamenn eiga að vera - allir þrír!
Ragnar og Birkir við leitarmannakofann á Hvanneyrum syðst á Gaflfellsheiði sl. haust.
Strandamenn í Vasa-göngu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2009 | 15:08
Í dagrenningu
Á fögrum morgni skáldin yrkja oft um
unga von við dagsins ljósu brún.
Nú er liðin nótt í Svörtuloftum
og norskur fáni blaktir þar við hún.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2009 | 16:44
Hver er sinnar gæfu smiður
Í tilefni af frétt mbl.is um mikilvægi hreyfingar og hollrar fæðu er ekki úr vegi að rifja upp líkan sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur stuðst við til að útskýra hvaða þættir það eru sem stýra heilsufari fólks.
Samkvæmt líkaninu ræðst heilsa manns að hálfu leyti af eigin lífsstíl, svo sem af mataræði, viðfangsefnum í frítíma, notkun tóbaks, áfengis og fíkniefna, o.s.frv. Umhverfisþættir á heimili, vinnustað og í frítíma hafa 20% vægi og erfðir annað eins. Heilbrigðiskerfið vegur aðeins 10%. Samanlagt eru þeir þættir sem maður stjórnar í aðalatriðum sjálfur sem sagt heil 70% af heildarmyndinni!
Vissulega er menn misvel undir það búnir við fæðingu að takast á við lífið, en í grófum dráttum má þó segja að sú leið sem maður velur sér í lífinu ráði mestu um það hvernig til tekst. Það dugar sem sagt ekki að einblína á góða heilsu og langlífi forfeðranna og ætlast svo til að heilbrigðiskerfið sjái um rest! Hver er sinnar gæfu smiður!
Heimild: Seppo Iso-Ahola: Leisure lifestyle and health. Í Compton, D. M. & Iso-Ahola, S. (Eds.), Leisure & mental health (pp. 42-60). Park City, UT: Family Development Resources, Inc., 1994. Sbr. einnig: Ingemar Norling: Rekreation och psykisk hälsa. Dokumentation och analys av forskning om hur rekreationens inriktning och kvalitet kan förbättra psykisk hälsa och behandlingen av psykisk ohälsa. Sektionen för vårdforskning, Sahlgrenska Universitetssjukhuset, Göteborg, 2001.
(Ath.: Svipuð bloggfærsla birtist upphaflega á gamla blogginu mínu 22. mars 2007, en er sem sagt rifjuð upp hér í tilefni af umræddri frétt. Rétt er að taka fram að ég hef ekki kynnt mér hugsanlegar breytingar sem WHO kann að hafa gert á líkaninu síðan þá).
Hreyfing og hollt fæði í baráttunni við krabbamein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.2.2009 | 17:50
Fjallvegahlaupaáætlun 2009
Eins og alþjóð veit hleyp ég yfir nokkra fjallvegi á sumri hverju, mér til skemmtunar og yndisauka. Ég geri ráð fyrir að allir hafi beðið í ofvæni eftir því að ég opinberaði áform mín um fjallvegahlaup ársins 2009, en það hefur ekki komist í verk fyrr en nú. Fjallvegahlaupaáætlun ársins lítur sem sagt út eins og hér segir, með fyrirvara um smáar og stórar breytingar:
- Maí: Svínaskarð (úr Mosfellsbæ í Kjós) (endanleg dagsetning óákveðin)
- Júní: Tillögur vel þegnar (kannski Vatnsnesfjall)?
- Sunnud.19. júlí: Vesturgatan (almenningshlaup á Vestfjörðum)
- Þriðjud. 21. júlí: Þingmannaheiði (milli Skálmarfjarðar og Vatnsfjarðar)
- Fimmtud. 23. júlí: Miðvörðuheiði (frá Haga á Barðaströnd til Tálknafjarðar)
- Föstud. 24. júlí: Selárdalsheiði (frá Tálknafirði til Selárdals í Arnarfirði)
- Ágúst: Tillögur vel þegnar
Eins og sjá má á þessari upptalningu mun sumarið að öllum líkindum verða helgað Vestfjörðum öðrum landshlutum fremur. Gaman væri að fá félagsskap á þessum ferðalögum. Þeir sem slást í för með mér gera það þó á eigin ábyrgð
Allar nánari upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið mitt er að finna á síðunni www.fjallvegahlaup.is, sem er reyndar afar frumstæð enn sem komið er. Eins og þar kemur fram hef ég lagt 10 fjallvegi að baki og á 40 eftir óhlaupna.
Skóþvengir bundnir á Ólafsfirði við upphaf fyrsta fjallvega-
hlaups síðasta árs. (Ljósm.: Björk)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2009 | 12:04
Tími fyrir blogg?
Ég hef verið næsta ósýnilegur í bloggheimum upp á síðkastið. Ástæðan er sú að ég hef átt annríkt í vinnuheimum, en það eru jú aðrir heimar. Þetta vekur upp vangaveltur um tímaskort. Vantar mig tíma, eða hef ég yfirleitt nógan tíma?
Ég hef nógan tíma! Alla vega hef ég haft nógan tíma hingað til, og býst frekar við að svo verði enn um sinn. Þegar ég fæddist átti ég ekkert nema tíma. Síðan þá hef ég verið að skipta þessum tíma út fyrir eitt og annað annað. Í þeim viðskiptum hef ég kannski stundum veðsett svolitla sneið af tíma morgundagsins, en þegar á heildina er litið hygg ég að tímastaða mín sé bara nokkuð góð, enda losnar nýr skammtur af tíma af bundnum reikningi á hverjum degi.
Ég ræð sjálfur hvernig ég nota hinn úthlutaða tíma. Ákvarðanir mínar um það eru hins vegar misskynsamlegar. Undanfarna daga hef ég valið að nota mikið af hinum úthlutaða tíma til vinnu. Næstu daga er ég að hugsa um að búa til bloggfærslur úr hluta af því sem bætist þá við. Umfjöllunarefnin bíða í hrönnum, ólm að komast á bloggsíðuna, sjálfum mér til ánægju og svölunar - hvað sem öðrum finnst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.2.2009 | 10:20
Fyrirlestur um fjallvegahlaup
Ég var á Akureyri um helgina. Átti þrjú erindi þangað, hvert öðru skemmtilegra og gagnlegra. Eitt þeirra var að halda fyrirlestur um fjallvegahlaupin mín í boði hlaupahópsins Eyrarskokks. Þarna mætti dálítill hópur af áhugasömu og jákvæðu fólki - og úr varð virkilega skemmtileg stund að mér fannst, auk þess sem boðið var upp á prýðisgóða súpu. Í þessu spjalli kynnti ég m.a. lausleg áform mín um fjallvegahlaup á sumri komanda. Býst við að leggja aðaláherslu á Vestfirði þetta árið. Hef ekki tíma til að setja áætlunina inn hér og nú, en stefni að því að birta hana síðar í vikunni - þegar um hægist.
Eins og allir vita er ég búinn að skokka yfir 10 af þeim 50 fjallvegum sem ég ætla að spreyta mig á á næstu árum. Þessar hlaupnu slóðir má greina óljóst á myndinni hér að neðan, sem einmitt er tekinn úr fyrirlestri helgarinnar. (Já, vel á minnst, ég er auðvitað alveg til í að halda fleiri svona fjallvegahlaupafyrirlestra fyrir áhugasamt og jákvætt fólk).
Fjallvegaverkefni SG: Hlaupnir fjallvegir 2007 og 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt