Leita í fréttum mbl.is

Páfinn og smokkurinn

Það er nú fínt að páfinn ætli að vera svona góður við Afríku og vefja hana örmum. Hann má líka alveg útskýra fyrir afrískum ungdómi hvers vegna hann mæli með skírlífi fremur en smokkum til að hefta útbreiðslu HIV-veirunnar, bara ef hann bætir því við að með tilliti til raunverulegra aðstæðna, takmarkaðs ákvörðunarréttar kvenna o.fl., telji hann samt rétt að ungir Afríkubúar hafi greiðan aðgang að smokkum, helst ókeypis, því að þegar allt komi til alls þá sé það líklega skásta leiðin til að hægja á útbreiðslu HIV og fækka ótímabærum og óumbeðnum barneignum, náttúrulega að viðbættu öflugu fræðsluátaki, þar sem megináherslan er á menntun ungra kvenna. Og á leiðinni þarna suður eftir í flugvélinni ætti páfinn endilega að lesa bókina More: Population, Nature, and What Women Want eftir Robert Engelman, þó ekki væri nema samantektina.

Fari páfinn ekki að þessum ráðleggingum mínum, sem eru hér með gerðar opinberar svo að þær fari nú örugglega ekki framhjá honum, heldur kaþólska kirkjan áfram að vera einn helsti þrándur í götu markvissrar umræðu um fólksfjölgun og fátækt í þróunarlöndunum! Orð páfans hafa nefnilega áhrif. Í þeirri staðreynd felast bæði miklar ógnir og mikil tækifæri. Gríptu nú tækifærið Benedikt!


mbl.is Páfinn vefur örmum sínum um Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggir ógnun öryggi?

Hvort skyldi vera betri leið til að stuðla að eigin öryggi; að hafa í hótunum við fólk eða vingast við það? Ég held að vinsamlegri leiðin sé betri. Auðvitað verða aldrei allir vinir manns. Jafnvel viðhlægjendur eru ekki endilega vinir. En það er alveg óþarfi að búa til óvini úr öllum sem ekki eru vinir manns. Bush og Cheney voru heimsmeistarar í því, enda var það meðvituð stefna þeirra. (Þeir sem ekki eru með okkur, eru á móti okkur). Mikill léttir er að vera laus við þessa drauga fortíðar úr stýrishúsi Bandaríkjanna.

Málið snýst ekki um að tryggja öryggi, enda er það ekki hægt. Málið snýst um að hámarka líkurnar á öryggi. Leiðin til þess er ekki að ráðast á aðra í fyrirbyggjandi skyni eins og þeir félagar Georg, Dick, Davíð og Halldór töldu affarasælast. Leiðin til þess er heldur ekki að smíða ótal kjarnorkusprengjur og rúnta svo með þær í kafbátum undir yfirborði heimshafanna - og banna svo öðrum að gera slíkt hið sama.

Gagnrýni Dikka er enn ein vísbendingin um að Barack Obama sé á réttri leið. Mér hefði liðið verulega illa ef þessi gaur hefði hrósað utanríkisstefnu núverandi Bandaríkjaforseta.


mbl.is Bandaríkin berskjaldaðri undir Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út að hlaupa aðeins lengra

Ég hef verið frekar reglusamur í hlaupunum í vetur. Hef yfirleitt hlaupið þrisvar í viku, samtals um 40 km. Tel það svona hæfilegan viðhaldsskammt. Þetta hefur oftast gengið eftir, en einstaka vikur hafa þó orðið styttri af ýmsum ástæðum. Stundum þarf maður líka að vinna og svoleiðis.

En núna þegar vorið nálgast, þarf maður að fara að setja sér markmið fyrir sumarið. Ég er reyndar búinn að leggja drög að fjallvegahlaupaáætlun sumarsins fyrir nokkru, eins og dyggir lesendur bloggsíðunnar minnar vita náttúrulega. Smile En mér finnst skemmtilegt að krydda fjallvegahlaupin með þátttöku í einstökum götuhlaupum líka, og nú er einmitt orðið tímabært að velta þeim aðeins fyrir sér.

Helst vil ég t.d. taka svo sem eitt maraþonhlaup á ári. Reyndar vill svo skemmtilega til að á morgun er einmitt liðið eitt ár frá því síðasta, en það var Rómarmaraþonið sællar minningar. Þetta árið er stefnan hins vegar ekki sett út fyrir landsteinana, enda eitthvað minni utanlandsferðahugur í manni en stundum áður. Nei, núna er Akureyri málið! Þar verður hlaupið maraþon 11. júlí nk. í tengslum við Landsmót UMFÍ. Það hefur alla burði til að verða verulega skemmtilegt hlaup.

En þá er spurningin hvort maður eigi kannski að taka svo sem eitt upphitunarmaraþon áður. Í því sambandi líst mér einna best á Vormaraþon Félags maraþonhlaupara, sem haldið verður á degi umhverfisins 25. apríl nk. Það verður sko í nógu að snúast þann daginn. Á ekki eitthvað að kjósa líka þennan dag?

Hmmm, ef ég ætla í Vormaraþonið, þá þarf ég líklega að fara að láta hendur standa fram úr ermum, já eða kannski fætur fram úr skálmum. Það eru bara 6 vikur til stefnu - og það er ekki farsælt að skella sér beint í maraþon úr einhverri 40 km vikulegri viðhaldsþjálfun. Til að þetta geti gengið nokkurn veginn slysalaust fyrir sig þarf ég að gera a.m.k. tvennt: Bæta fjórða hlaupadeginum inn í vikuna og lengja helgarhlaupið. Flesta laugardaga í vetur höfum við Ingimundur Grétarsson hlaupið svonefndan Háfslækjarhring, sem er um 21,5 km þegar hlaupið er að heiman frá mér og heim. Tókum einmitt 13. Háfslækjarhring vetrarins í morgun á milli élja. (Já, ég veit vel að það er sunnudagur en ekki laugardagur. Stundum missir maður bara tök á regluseminni). Auðvitað er auðvelt að lengja hringinn með hæfilegum útúrdúrum. Það gerði ég einmitt í morgun og náði þannig 24,8 km. Ef ég næ vikuskammtinum upp í 60 km, þar af svo sem 34 km lengsta laugardaginn, þá þori ég alveg í þonið á kjördag. Margir þurfa jú að leggja meira á sig vegna þess dags en ég!

Jæja, við sjáum til með þetta. Ég er enn ekki ákveðinn. Eða, ég er öllu heldur ákveðinn í að vera ákveðinn. Ég er bara ekki búinn að ákveða hvenær ég byrja á því. Framundan er mikil vinnutörn með töluverðum ferðalögum, þ.m.t. Reykjavík, Egilsstaðir, Stykkishólmur og Kaupmannahöfn á næstu 7 dögum. Mér hefur yfirleitt reynst erfitt að halda dampi í hlaupunum á slíkum tímum.

Kannski finnst einhverjum mikið að hlaupa 60 km í viku. En þetta er allt afstætt. Ég sá í hlaupadagbókinni áðan að Gunnlaugur Júlísson kláraði 54 km í morgun, fyrir hádegi.
Wizard

Með svona sjálfhverfri færslu er alveg nauðsynlegt að hafa svo sem eina sjálfsmynd. Þessi var tekin við Colosseum við upphaf Rómarmaraþonsins fyrir ári síðan. Ég er þessi myndarlegi í rauða hlírabolnum, og fáum skrefum aftar má greina Ingimund, enn myndarlegri í gulum hlírabol með sólgleraugu.

f00005510_3422616web


Maðkar eru kannski ekki verstir

Sagan um maðkana í nammibarnum er trúlega ein af þessum mögnuðu flökkusögnum sem kemst á kreik með dularfullum hætti, og hver étur svo gagnrýnislaust upp eftir öðrum, enda heimildarmaðurinn oftast „ólyginn“. Svona sögur eru rannsóknarefni út af fyrir sig, enda hafa þær verið rannsakaðar og skrifuð um þær a.m.k. ein bók, (Rakel Pálsdóttir (2001): Kötturinn í örbylgjuofninum og fleiri flökkusagnir úr samtímanum).

En hvað sem segja má um maðka í nammibörum, þá mættu foreldrar alveg velta fyrir sér hollustu annarra efna sem þar er að finna, áður en þau halda börnum sínum þar til beitar á laugardögum. Líklega hafa litarefni, rotvarnarefni, sætuefni og ýmis önnur efni í nammibaranamminu fátt umfram maðka hvað hollustu varðar.


mbl.is Engin kvörtun um maðka í nammibar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talnaskynið í mér er stórskemmt!

Það er óþarfi að blogga mikið um áhrif kreppunnar á fjárhag ríkisins, heimila og fyrirtækja. Fréttin um rúmlega 10.000.000.000.000 króna tap norska olíusjóðsins leiðir hins vegar hugann að aukaverkunum kreppunnar, sem eru jú margvíslegar.

Ein af neikvæðu aukaverkununum sem ég finn hastarlega fyrir, eru þær nær óbætanlegu skemmdir sem hafa orðið á talnaskyninu í mér. Ég skil ágætlega hvað átt er við þegar talað er um 633 þúsund krónur. Strax og talan er komin í 633 milljónir fer talnaskynið að dofna. Ég veit reyndar að ein milljón er þúsund þúsundkallar. Það finnst mér vera alveg slatti af peningum. En ég á frekar erfitt með að ímynda mér 633 svoleiðis búnt. Þegar menn byrja svo að tala í milljörðum fer þetta fyrst að versna verulega. Líklega finnst mér milljón og milljarður bara vera nokkurn veginn það saman. Eða..., nei, sko, ég veit alveg hvað milljón er. Og svo þarf ég bara að hugsa mér 1.000 skjalatöskur með einni milljón í hverri, þá er kominn milljarður. Ef ég hugsa mér svo að öllum þessum 1.000 skjalatöskum sé staflað inn á eina skrifstofu, þá er þetta aftur orðið svolítið viðráðanlegt. Síðan þarf ég bara að hugsa mér 633 svoleiðis skrifstofur - og þá er ég kominn með yfirsýn yfir allt tap norska olíusjóðsins, en bara í norskum krónum. Þá á ég enn eftir að hugsa mér rúmlega 16 skrifstofubyggingar með 633 skrifstofum í hverri, með 1.000 skjalatöskum í hverri skrifstofu með milljón kall í hverri skjalatösku, til að vera loksins kominn með rétta tölu í íslenskum krónum, nefnilega 10.224.849.000.000 íslenskar krónur miðað við opinbert gengi Seðlabankans í dag. HJÁLP!

En kreppan hefur líka jákvæðar aukaverkanir. Mér hefur t.d. farið stórlega fram í landafræði síðustu vikurnar. Hugsið ykkur bara fáfræðina: Fyrir svo sem mánuði vissi ég ekki einu sinni að Tortola væri til! Núna veit ég meira að segja nokkurn veginn hvar Tortola er - og að þar búa fleiri en á Akureyri! Og ég veit líka að þetta er eyja, sem er 19 km löng og 5 km breið! Líklega dugar hringvegurinn (hljóta þeir ekki að vera með svoleiðis) í heilt maraþonhlaup.

Tortola. Þarna var hún allan tímann!!!


mbl.is Tap norska olíusjóðsins 633 milljarðar norskra króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorvísa

Menn og konur kreppulegar
klóra sér í hupp.
En sjálfsagt hverfur sorgin þegar
sólin kemur upp.


Látum ekki góða kreppu fara til spillis

Hillary ClintonFyrirsögn þessarar færslu er fengin að láni hjá Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en sl. föstudag hélt hún ræðu fyrir unga Evrópubúa í Evrópuþinginu. Þar ræddi hún um tækifærin sem nú gefast til að endurreisa hagkerfi heimsins á nýjan hátt, þannig að þau verði umhverfisvænni en áður og ekki eins orkufrek. Nú gæfist einstakt tækifæri til að sporna gegn loftslagsbreytingum og stuðla að auknu orkuöryggi.

Í ræðunni tók Hillary Clinton undir þær hugmyndir sem fram hafa komið um græna endurgjöf ("New Green Deal"), sem leið til að skipta kolefniskrefjandi innviðum út fyrir aðra grænni, um leið og skapaðar yrðu milljónir nýrra atvinnutækifæra. Þá fordæmdi hún orkuskömmtun í pólitískum tilgangi og vísaði þar til deilna Rússa og Úkraínumanna.

Það er auðvitað ekkert fallegt að tala um „góða kreppu“, en hver sú þjóð sem ætlar sér að koma standandi niður úr fallinu þarf að gera sér grein fyrir tækifærunum sem liggja á lendingarstaðnum. Þær þjóðir sem ekki gera það munu verða undir í samkeppninni!

Byggt á frétt PlanetArk/Reuter í dag, sjá http://planetark.org/enviro-news/item/51938.


Góðar fréttir!

Ég tel hugmyndina um stjórnlagaþing vera eina af þeim bestu sem skotið hefur upp í ölduróti síðustu vikna og mánaða. Ekki einasta er stjórnarskráin gömul og úrelt, heldur er einmitt þessi aðferð til að endurskoða hana líkleg til að vekja með þjóðinni von um nýja tíma. Alla vega eflir hugmyndin um stjórnlagaþing mig í þeirri trú að við ætlum að ösla yfir fljótið, yfir að fljótsbakka framtíðarinnar, í stað þess að láta þá sem hrintu okkur út í drösla okkur aftur upp á sama gamla fljótsbakkann, til þess eins að allt geti orðið sem fyrr, þar sem hver hugsaði um „stundarhaginn, nokkra aura í svipinn“, en lét sér standa á sama hvort gerður var „stórskaði öldum og óbornum“, svo ég vitni enn og aftur í orð Þorvaldar Thoroddsen frá 1894.
mbl.is Stjórnlagaþing kosið í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tala kjark í þjóðina

Ég er eiginlega alveg sammála því sem Davíð Oddsson sagði í Kastljósviðtalinu um daginn, að ráðamenn geri allt of lítið af því að tala kjark í þjóðina.

Sú skoðun virðist útbreidd, að þegar illa gangi megi helst hvergi örla fyrir brosi, heldur skuli menn ganga álútir og hoknir í hnjánum, svo vitnað sé í frumvarp Steins Steinars til laga um samræmt göngulag fornt. Bjartsýni við slíkar aðstæður þykir kjánaleg og bera vott um vanþekkingu.

En hvernig sem staðan er, þá ræður maður nokkru sjálfur um eigin líðan. Það eru nefnilega til tvær gerðir af gleraugum; bjartsýnisgleraugu og svartsýnisgleraugu. Maður ræður sjálfur hvora gerðina maður notar. Útsýnið er það sama í báðum tilvikum, það kemur manni bara ekki eins fyrir sjónir. Val manns á gleraugum fer að nokkru eftir því hvernig gleraugu samferðamennirnir nota. Þess vegna er gleraugnanotkun ráðamanna líkleg til að hafa víðtæk áhrif.

Það er hægt að tala kjark í þjóðina án þess að gera lítið úr vandanum. Auðvitað þarf að viðurkenna vandann og tala um hann. En um leið þarf að minna á það sem gefur vonir. Ein leið til þess er að fylla upp í umræðu um vandamál til skamms tíma með umræðu um tækifæri til langs tíma. Reyndar held ég að okkur sé allt of tamt að einblína á mjög stutt tímaskeið í einu, eiginlega bara það sem er rétt fyrir framan tærnar á okkur. Nokkrir mánuðir eru ákaflega lítill hluti af heilli mannsævi, og því má alls ekki draga of miklar ályktanir af þessum mánuðum. Þeir verða kannski bara eins og skjálfhent skripl á línuriti aldarinnar. Horfum lengra fram í tímann, ekki vikur, ekki mánuði, en kannski ár og helst áratugi. Leyfum okkur að ákveða hvers konar lífi við lifum þá og í hvers konar samfélagi. Þar eru birtunni naumast takmörk sett. Og þegar sú mynd er tilbúin skulum við líta til baka og finna út hvernig við komumst þangað. Það er nefnilega ekki nóg að búa bara til framtíðarmyndina - og setja hana svo upp í skáp, rétt eins og stjórnvöld hafa gert með loftslagsmarkmiðin sín fyrir árið 2050. Það þarf líka að ákveða hvernig sú mynd verði að veruleika. Það er skemmtilegt viðfangsefni.

Síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum staðið dapur upp frá svartsýnistali sjónvarpsins og hugleitt að henda bjartsýnisgleraugunum. Á þeim stundum hef ég fundið hvernig neikvæð umræða brýtur mann niður. Það þarf að tala kjark í þjóðina. Stjórnvöld og fjölmiðlar þurfa að tala kjark í okkur og við þurfum að tala kjark í vini okkar og fjölskyldur. Svartsýnn maður er ekki líklegur til stórræða. Umræðan hefur áhrif. Hún getur bæði hvatt og lamað. Staðreyndirnar geta lamað. Umræðan þarf að sjá um hitt.

Davíð sagði margt fleira í þessu sama Kastjósviðtali. Ég læt viðhorf mitt til alls hins liggja milli hluta.


Jafnréttisáherslur í loftslagsumræðunni

Anniken Huitfeldt. Ljósm. NMR: Yann AnkerNorræna ráðherranefndin um jafnréttismál tekur þátt í 53. kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem stendur nú yfir. Þar munu Norðurlöndin leggja sérstaka áherslu á jafnrétti sem mikilvægan lið í því að leysa loftslagsvandann.

Í raun er óhjákvæmilegt að huga að jafnréttismálum þegar rætt er um loftslagsvandann. Á það má m.a. benda að konur skilja eftir sig mun minna kolefnisfótspor en karlar, en verða að engu síður meira fyrir barðinu á loftslagsbreytingum. Þar koma við sögu ýmsir þættir, sem venjulegur Íslendingur leiðir líklega ekki hugann að. Til dæmist farast fleiri konur en karlar í flóðum, vegna þess að þær eru síður syndar en karlarnir. Þrátt fyrir að vera um helmingur jarðarbúa, eiga konur lítinn þátt í ákvörðunum um stefnumótun í loftslagsmálum. Þær eru t.d. aðeins um 15-20% þeirra sem taka þátt í alþjóðlegu samningaferli um loftslagsmál hjá Sameinuðu þjóðunum.

Hægt er að fræðast meira um sameiginlegt framtak Norðurlandanna á yfirstandandi kvennaráðstefnu á fréttasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Mér fannst ástæða til að vekja athygli á þessu hér, þar sem mig grunar að hið mikla starf sem fram fer á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar fari býsna mikið fram hjá Íslendingum, jafnvel þótt Ísland fari með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þetta árið. Það eru t.d. Íslendingar sem leiða sérfræðingaráðstefnu um jafnrétti og loftslagsmál í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna á morgun klukkan 13.15 að staðartíma!

Aðalhvatinn að þessari bloggfærslu voru þó skrif góðrar vinkonu minnar og fyrrum samstarfskonu, Auðar H Ingólfsdóttur, en hún vakti athygli á kynjaslagsíðu í loftslagsumræðunni á bloggsíðunni sinni 26. febrúar sl.

Myndin með þessari færslu er af Anniken Huitfeldt, barna- og jafnréttisráðherra Noregs. Myndin er tekin að láni af heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. (Ljósm.: Yann Anker)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband