Færsluflokkur: Bloggar
18.6.2008 | 09:44
Bensínið mun halda áfram að hækka!
Í gær bar T. Boone Pickens vitni fyrir sérstakri þingnefnd Bandaríkjaþings um orku og náttúruauðlindir (Senate Energy and Natural Resources Committee). Pickens þessi hefur töluverða reynslu í greininni, en hann stýrir m.a. fjárfestingasjóði BP, sem sýslar með eina 4 milljarða dollara. Samkvæmt framburði Pickens hefur olíuframleiðsla heimsins nú náð hámarki - og stendur í 85 milljónum tunna á sólarhring. Eftirspurnin er að hans sögn hins vegar komin í 86,4 milljarða tunna. Verðmyndun á olíu á heimsmarkaði sé ekkert flóknari en svo, að þegar eftirspurnin sé orðin meiri en framboðið, þá hækki verðið þangað til dragi úr eftirspurninni. Picken segir að menn þurfi ekkert að leita að öðrum skýringum á hækkunum olíuverðs, þetta sé opinn markaður þar sem spákaupmennska hafi engin teljandi áhrif.
Ég er enginn olíusérfræðingur og stýri engum sjóðum, en ég er samt algjörlega sammála Pickens. Fyrir svo sem 2-3 árum gátu menn auðveldlega séð hvert stefndi varðandi heimsmarkaðsverð á olíu. Þetta var bara spurning um hvenær skriðan færi af stað og hversu hratt. Og við þurfum heldur ekkert að bíða eftir því að verðið lækki. Auðvitað verða alltaf einhverjar sveiflur, en minnkandi eftirspurn er það eina sem getur leitt til lækkunar. Verðið lækkar sem sagt ekki!
Við getum verið viss um að bensínlítrinn fer í 200 kall áður en langt um líður. Við þurfum ekki að ræða það neitt. Mér finnst stjórnvöld hafa sofið á verðinum að vera ekki löngu búin að grípa til neyslustýrandi aðgerða til að milda okkur áfallið, því að þróunin var jú fyrirsjáanleg. Nú þarf að einhenda sér í það af fullri alvöru að gera hagkerfið minna háð olíu en það er!
(Sjá frétt PlanetArk/Reuter í dag)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2008 | 11:34
Olíuslys við Vestfirði – drög að áhættumati
Ég var spurður að því um daginn hvernig væri hægt að meta hættuna á meiri háttar olíuslysi út af Vestfjörðum vegna olíuflutninga til hugsanlegrar olíuhreinsistöðvar í Arnarfirði, jafnvel svo stóru olíuslysi að jafnaðist á við Exxon Valdez-slysið við Alaska 1989. Svarið fer hér á eftir, spyrjanda og öðrum til fróðleiks, en kannski ekki skemmtunar.
Aðferðafræði
Það eru til ýmsar mismunandi aðferðir til að meta áhættu, en mér finnst liggja beinast við að beita sömu aðferðafræði og gert er ráð fyrir í drögum að staðlinum ISO 31000, sem er staðall fyrir áhættustjórnun. Þessi staðall er enn í smíðum og verður væntanlega gefinn út snemmsumars 2009. Staðallinn er m.a. byggður á ástralska áhættustjórnunarstaðlinum AS/NZS 4360:1999.
Áhætta er í rauninni einhvers konar margfeldi af líkindum og afleiðingum. Erfitt er að gefa þessum fyrirbærum ákveðin talnagildi, og því er yfirleitt byggt á flokkun eða einkunnagjöf, t.d. á bilinu 1-5. AS/NZS 4360:1999 skiptir líkindum í flokka eins og sýnt er í einfölduðu formi í eftirfarandi töflu:
Líkindi | |
Stig | Lýsing |
A | Nær öruggt |
B | Líklegt |
C | Mögulegt |
D | Ólíklegt |
E | Fátítt |
Á sama hátt skiptir ástralski staðallinn afleiðingum í flokka eins og hér er lýst:
Afleiðingar | |
Stig | Lýsing |
1 | Óverulegar |
2 | Minni háttar |
3 | Í meðallagi |
4 | Meiri háttar |
5 | Hamfarir |
Við áhættumat er gjarnan notuð tafla (stundum nefnt fylki eða teningar) til að greina tiltekna áhættu og ákveða mikilvægi þess að grípa til aðgerða hennar vegna. Eins og sjá má er taflan samsett úr hinum tveimur.
Líkindi | Afleiðingar | ||||
Óverulegar 1 | Minni háttar 2 | Í meðallagi 3 | Meiri háttar 4 | Hamfarir 5 | |
A (Nær öruggt) | H | H | A | A | A |
B (Líklegt) | M | H | H | A | A |
C (Mögulegt) | L | M | H | A | A |
D (Ólíklegt) | L | L | M | H | A |
E (Fátítt) | L | L | M | H | H |
A = afar há áhætta; krefst tafarlausra aðgerða
H = há áhætta; krefst sérstakrar athugunar
M = meðal áhætta; tilgreina þarf skiptingu verka og ábyrgðar
L = lág áhætta; hefðbundnir verkferlar duga
Fremur auðvelt er að flokka þá áhættu sem hér um ræðir, þ.e.a.s meiri háttar olíuslys við Vestfirði, með þeirri aðferðafræði sem hér er lýst. Líkurnar hljóta að vera afar litlar, en þó til staðar (>0). Líkurnar eru með öðrum orðum í flokki E (fátítt). Afleiðingarnar yrðu hins vegar gríðarlegar og myndu vafalítið tilheyra flokki 5 (hamfarir). Atburður af þessu tagi lendir samkvæmt þessu neðst til hægri í greiningartöflunni sem há áhætta sem krefst sérstakrar athugunar.
Umræða um líkur
Áhættumat er aldrei hafið yfir gagnrýni. Í því dæmi sem hér um ræðir má þó telja nær víst að almenn samstaða næðist um flokkun samkvæmt framanskráðu. Hvað líkurnar varðar, þá nægir að benda á að slys af þessu tagi verða mjög sjaldan, en eiga sér þó stað. Ýmsir þættir hafa áhrif á líkurnar, svo sem gerð skipa, færni áhafna, veður, sjólag, straumar, hafís og umferð annarra skipa. Líklega eru líkurnar nokkru meiri við Vestfirði en á heimshöfunum að meðaltali, þar sem veður eru oft válynd vestra og einhver hætta á hafís. Það réttlætir þó tæplega að færa áhættuna upp í líkindaflokk D (ólíklegt).
Umræða um afleiðingar
Sömuleiðis má ætla að almenn samstaða næðist um flokkun afleiðinganna samkvæmt framanskráðu. Reyndar ráðast afleiðingarnar af ýmsum þáttum, svo sem magni, tegund og þykkt olíunnar, aðstæðum til björgunar, hitastigi sjávar, fjarlægð frá ströndum, dýra- og plöntulífi svæðisins og mikilvægi ferðaþjónustu og sjávarnytja fyrir aðliggjandi samfélög. Hvað magn olíu varðar, má ætla að árlega myndu verða fluttir til Arnarfjarðar um 100 skipsfarmar af hráolíu með um 80.000 tonn í hverju skipi. Svipað magn þarf síðan að flytja aftur á brott, en e.t.v. í fleiri og smærri förmum. Afleiðingar slyss gætu verið mjög mismunandi eftir því hvort skipið er á leið til olíuhreinsistöðvarinnar eða frá henni, þar sem framleiðsluvörurnar eru væntanlega eitraðri en um leið rokgjarnari en hráolían.
Í spurningunni sem vitnað var til í upphafi þessarar samantektar, var sérstaklega minnst á Exxon Valdez-slysið 1989, enda er það vafalítið umtalaðasta olíuslys síðari ára. Ekki er hægt að slá því föstu að Exxon Valdez-slysið sé dæmigert fyrir slys sem gætu orðið út af Vestfjörðum, þó að hver skipsfarmur innihaldi að öllum líkindum svipað magn af olíu. Umrætt slys varð fyrir 19 árum, og síðan þá hefur olíuskipaflotinn í heiminum verið endurbættur verulega. Hins vegar er hitastig sjávar og vistfræðilegar aðstæður á Vestfjarðamiðum væntanlega líkari því sem gerist við strendur Alaska en úti fyrir ströndum Frakklands og Spánar, þar sem einnig hafa orðið stór olíuslys á allra síðustu árum, svo sem Prestige-slysið 19. nóvember 2002. Reyndar var Prestige-slysið stærra en Exxon Valdez-slysið í lítrum talið, og líklega einnig hvað varðar fjárhagslegan skaða.
Til að gefa einhverja mynd af hugsanlegum afleiðingum fara hér á eftir nokkrir punktar varðandi Exxon Valdez-slysið:
Slystið varð þann 24. mars 1989, þegar olíuskipið Exxon Valdez strandaði við strendur Alaska (Prince William Sound). Um 41 milljón lítra af hráolíu rann í sjóinn og til varð um 28.000 ferkílómetra olíuflekkur. Heildarflatarmál flekksins samsvaraði þannig rúmum fjórðungi af flatarmáli Íslands. Aðstæður til björgunar voru erfiðar, m.a. vegna fjarlægða. Bandaríska landhelgisgæslan stjórnaði aðgerðum, og samtals unnu um 11.000 íbúar nærliggjandi héraða að hreinsun. Olíu rak upp á u.þ.b. 1.600 km langa strandlengju, en til samanburðar má nefna að hringvegurinn um Ísland er 1.334 km. Talið er að 250.000-500.000 sjófuglar hafi drepist vegna slyssins, auk um 1.000 sæotra, nokkur hundruð sela, 250 skallaarna o.fl. Einnig drápust milljarðar síldar- og laxahrogna. Áhrifa slyssins gætir enn í dag. Nokkrar dýrategundir á svæðinu hafa ekki enn náð fyrri stofnstærð, en vísindamenn telja að svæðið verði komið nokkurn veginn í samt lag þegar 30 ár verða liðin frá slysinu. Árið 2007 var áætlað að enn væru til staðar um 98.000 lítrar af olíu á nærliggjandi strandsvæðum, en magnið er talið minnka um u.þ.b. 4% á ári. Ýmsar tölur hafa heyrst varðandi fjárhagslegt tjón vegna slyssins, sú hæsta líklega um 5 milljarðar dollara (um 400 milljarðar íslenskra króna). Útilokað er að gefa upp endanlega rétta tölu, en þess má geta að kostnaður Exxon vegna hreinsunarstarfs var um 2 milljarðar dollara, auk þess sem félagið greiddi samtals um 1 milljarð dollara í ýmsar sektir og skaðabætur vegna slyssins, dæmdar og umsamdar, þ.á.m. til samtaka fiskframleiðenda á svæðinu. Enn eru flókin málaferli í gangi varðandi skaðabótaskyldu o.fl. Of langt mál yrði að tíunda allar óbeinar afleiðingar slyssins, en þær hafa bæði verið pólitískar og efnahagslegar. Slysið hafði mikil áhrif á alla umræðu um vinnslu og flutninga á olíu, en það hefur jafnframt haft í för með sér mikið tekjutap fyrir ferðaþjónustuna. Þá hefur tilvistarvirði svæðisins lækkað, en með því er átt við mat almennings á verðmæti svæðisins, burtséð frá markaðsvirði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2008 | 22:00
Héðinsfjörður í næstu viku
Eins og fram kom hérna á blogginu fyrir skemmstu, styttist í fyrstu fjallvegahlaup sumarsins. Fjallvegahlaupaverkefnið er eigið framtak mitt og árátta, sem varð til á síðasta ári og stendur væntanlega hátt í áratug. Undir tenglinum Fjallvegahlaup í vinstri jaðri þessarar síðu er að finna meiri upplýsingar um málið, þótt sjálf fjallvegahlaupavefsíðan sé ekki enn komin í gagnið.
Og nú er sem sagt stefnan tekin á Héðinsfjörð. Fyrsta fjallvegahlaup sumarsins verður væntanlega þreytt þriðjudaginn 24. júní nk., á Jónsmessunni, úr miðbæ Ólafsfjarðar um Rauðskörð að Vík í Héðinsfirði. Eftir stutta áningu þar hefst annað fjallvegahlaup sumarsins inn Héðinsfjörð frá Vík og yfir Hólsskarð til Siglufjarðar. Og svo rekur hver skemmtunin aðra.
Öllum er velkomið að slást í hópinn - á eigin ábyrgð. Látið bara endilega vita af ykkur, t.d. á stefan[hja]umis.is. Já, svo hittumst við á Ólafsfirði á þriðjudag í næstu viku, eigum við ekki bara að segja kl. 10.00 árdegis?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2008 | 12:57
Tímamót hjá ESB
![]() |
Írar höfnuðu ESB-sáttmála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2008 | 15:43
Minni handfarangur takk!
Í síðustu viku kom út skýrsla um möguleika ferðaþjónustunnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni, og þar með til að spara peninga. Í skýrslunni er m.a. bent á mikinn ávinning sem gæti fylgt tiltölulega léttvægum breytingum, t.d. ef engir flugfarþegar tækju með sér meira en 20 kg af farangri og ef hætt yrði að selja tollfrjálsan varning um borð í flugvélum. Ef allir færu eftir þessu myndi losun koltvísýrings á heimsvísu minnka um tvær milljónir tonna, sem samsvarar rúmlega helmingi allrar losunar Íslendinga (án nýrra álvera).
Margt smátt gerir eitt stórt!
![]() |
Leita leiða til að lækka eldsneytiskostnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.6.2008 | 10:19
Þarf að temja mér þolinmæði !!!
![]() |
Karl prins greiddi 350 ára gamla skuld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2008 | 16:46
Fjallvegahlaupaáætlun sumarsins
Eins og sumir vita tók ég mér það fyrir hendur (eða fætur) á síðasta ári að hlaupa yfir 50 fjallvegi. Reyndar á þetta ekki að gerast á einni nóttu, heldur á 5-10 ára tímabili. Á síðasta ári þreytti ég þrjú slík hlaup og stefni að a.m.k. sjö til viðbótar þetta árið.
Tilgangurinn með þessu uppátæki er þríþættur. Í fyrsta lagi snýst málið um að viðhalda eigin huga og líkama, í öðru lagi að kynnast eigin landi og í þriðja lagi að vekja áhuga annarra á útivist og hreyfingu. Í samræmi við þetta þriðja lag vil ég endilega að sem flestir fylgi mér á þessum ferðum. Til að ýta undir það birti ég eftirfarandi lista yfir áform mín um fjallvegahlaup í sumar:
Fjallvegur | Km. | Dagsetning |
Rauðskörð, frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar | 11 | Þri 24.06 |
Hólskarð, frá Héðinsfirði til Siglufjarðar | 15 | -- // -- |
Laxárdalsheiði, úr Reykhólasveit til Hólmavíkur | 26 | Lau 28.06 |
Brekkugjá, frá Mjóafirði til Seyðisfjarðar | 14 | Mið 16.07 |
Eskifjarðarheiði, af Héraði til Eskifjarðar | 20 | Fim 17.07 |
Gaflfellsheiði, úr Laxárdal til Bitrufjarðar | 37 | Fim 11.09 |
Allar þessar dagsetningar eru birtar með fyrirvara. Sömuleiðis eru vegalengdir ekki endilega hárréttar. Eins og sjá má eru aðeins 6 fjallvegir á þessum lista, og þess því að vænta að eitthvað bætist við. Ég mun reyna að birta upplýsingar um áformin hérna á blogginu jafnóðum og þau breytast. Bendi líka á vefsíðu, sem ég hef komið upp til bráðabirgða til að halda utan um verkefnið og upplýsa um það. Varanlegri vefsíða verður opnuð innan tíðar.
Ég hvet alla sem langar að slást í för með mér, til að hafa samband, t.d. með því að senda mér tölvupóst á stefan[hjá]umis.is. Þigg líka allar góðar ábendingar með þökkum.
Rétt er að taka fram að þeir sem taka þátt í þessu með mér gera það á eigin ábyrgð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2008 | 09:05
1.000 kílómetra skór
Reyndasta hlaupaskóparið mitt náði þeim áfanga í gær að hlaupa yfir 1.000 kílómetra markið. Samt er varla hægt að greina neitt slit á skósólunum! Já, það voru miklar framfarir þegar Asics Kayano tók við af roðskóm og sauðskinnsskóm á öldinni sem leið. Annars er almennt talið að hlaupaskór hafi ekki gott af meiru en svo sem 600-800 km, því að þá fari dempunin í þeim að daprast. Vill til að skóhljóð mitt er létt.
Vegna þeirra sem furða sig á að nokkur skuli halda skýrslu yfir hlaupna kílómetra skópara, er rétt að taka fram að ég er í fyrsta lagi nörd, í öðru lagi er sérstakt kerfi fyrir þess háttar skráningu hluti af hugbúnaði hlaupadagbókarinnar og í þriðja lagi skiptir þetta pínulitlu máli fyrir heilsu fótanna sem í skónum eru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2008 | 21:29
Snæfellsnes fékk vottun í dag! :-)
Það var gaman í Grundarfirði í dag. Þar var haldin hátíð í tilefni þess að verið var að afhenda sveitarfélögunum á Snæfellsnesi og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli formlega staðfestingu á nýfenginni vottun þeirra samkvæmt samfélagastaðli alþjóðlegu umhverfisvottunarsamtakanna Green Globe. Snæfellsnes er fyrsta svæðið í Evrópu sem hlýtur þessa vottun og reyndar aðeins það fjórða í heiminum öllum. Vottunin var afhent við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði að viðstöddum forseta Íslands, forseta Alþingis og fjölda annarra gesta.
Markvisst hefur verið unnið að vottun Snæfellsness allt frá því vorið 2003. Hjónin Guðlaugur og Guðrún Bergmann á Hellnum höfðu frumkvæði að þessu starfi og í framhaldinu náðist breið samstaða meðal sveitarstjórnarmanna á Nesinu um málið. Haustið 2004 var tilkynnt að sveitarfélögin hefðu staðist töluleg viðmið Green Globe, en síðan hefur verið unnið hörðum höndum að uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfis, gerð framkvæmdaáætlunar og margs fleira, sem sýna þarf fram á til að geta fengið fullnaðarvottun.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp við athöfnina í Grundarfirði í dag. Hann lauk miklu lofsorði á frumkvæði Snæfellinga í vinnunni að sjálfbærri þróun og ræddi um mikilvægi þess að virkja fólk til þátttöku í lausn þeirra brýnu umhverfisvandamála sem mannkynið stendur nú frammi fyrir, sérstaklega hvað varðar yfirvofandi loftslagsbreytingar. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, flutti einnig ávarp. Þeir Ólafur minntust báðir sérstaklega á dugnað og frumkvæði Bergmannhjónanna í undirbúningi Green Globe verkefnisins og sögðu frá heimsóknum þeirra á skrifstofur sínar á árunum í kringum aldamótin.
Kjartan Bollason, úttektarmaður Green Globe á Íslandi, afhenti forsvarsmönnum sveitarfélaganna og Þjóðgarðsins skjöl til staðfestingar á vottuninni. Að loknum frekari ræðuhöldum og tónlistaratriðum buðu sveitarstjórnirnar á Snæfellsnesi til kaffisamsætis til að fagna þessum einstæðu tímamótum.
Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að aðstoða Snæfellinga í vottunarferlinu allt frá upphafi. Það hefur verið afar gefandi og lærdómsrík vegferð, þó að auðvitað hafi ég lært lang mest fyrstu árin meðan Gulli Bergmann var enn í fullu fjöri. Þá var aldrei nein lognmolla og ekkert farið í grafgötur með það hvert markmiðið væri. Gulli hvarf skyndilega af vettvangi um jólin 2004, og síðan náðist markmiðið loksins í dag. Það var stór stund, en mikið sakna ég Gulla!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2008 | 15:20
Díselknúinn snigill?
Mér finnst afar gott að starfshópurinn sé búinn að skila af sér, þó að skilin séu fjórum mánuðum á eftir áætlun. Ég get hins vegar ekki dæmt um innihaldið í tillögunum fyrr en ég er búinn að lesa þær. Fljótt á litið er þetta allt jákvætt, en hins vegar finnst mér seinagangurinn í málinu óviðunandi, sérstaklega ef menn ætla að fara að hanga yfir þessu til áramóta án þess að taka neina ákvörðun. Þetta á einfaldlega að vera algjört forgangsverkefni eins og málum er háttað. Hver dagur sem líður er dagur glataðra tækifæra. Ég sé ekki betur en málinu sé ætlað að ganga áfram með hraða snigilisins, og svei mér ef snigillinn gengur ekki fyrir jarðefnaeldsneyti, annað hvort bensíni eða díselolíu.
Hér dugar ekki að sniglast!
![]() |
Stefnt að frumvarpi um eldsneytisskatta í haust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.4.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 145511
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar