Færsluflokkur: Bloggar
7.7.2008 | 11:34
Svansmerkt jarðgerðarílát
Fyrr í sumar leit ég við í helstu garðyrkjubúðunum og kannaði úrvalið af ílátum til heimajarðgerðar. Að vanda varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég fann nánar tiltekið ekki eitt einasta nothæft ílát. Hins vegar fann ég botnlausan og óeinangraðan kassa í einni búðinni fyrir 28.000 kall!!! Svoleiðis ílát eru sem sagt ekki nothæf að mínu mati. Þau fjúka t.d. nokkuð auðveldlega í íslenskum vindi, veita sáralitla mótspyrnu gegn innrásum dýra sem ágirnast innihaldið og búa ekki til góðar aðstæður fyrir lífverurnar sem sjá um jarðgerðina. Til þess þarf einangrun.
Það er í sjálfu sér mjög auðvelt að velja gott jarðgerðarílát. Það þarf bara að vera vottað af Norræna svaninum. Þá getur maður m.a verið viss um að ílátið sé laust við hættuleg efni, að engin göt eða rifur á kassanum séu stærri en 7 mm (sem þýðir að engin meindýr komast inn), að lokið geti ekki fokið af, að ílátið sé í 5 ára ábyrgð og að virknin haldist þótt frost sé úti.
Samt er þetta ekki auðvelt, því að svansmerktir kassar fást ekki í íslenskum búðum. Hins vegar flytur R. Gíslason ehf. inn nokkrar gerðir af svansmerktum ílátum í smáum stíl. Þeir sem vilja stunda heimajarðgerð og vantar nothæf ílát til þess, geta því sem best snúið sér þangað. Eðlilega er verðið hins vegar nokkuð hátt, þar sem hagkvæmni stærðarinnar nýtur ekki við.
Á heimasíðu Svansins í Noregi er hægt að fræðast meira um heimajarðgerð og Svansmerkt jarðgerðarílát. Þar er líka þessi fína mynd af nýja jarðgerðarílátinu mínu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2008 | 16:54
Hafnið Mugabe!
Í dag fór ég að ráði Avaaz-samtakanna og sendi Geir H. Haarde svohljóðandi tölvupóst á netfangið postur@for.stjr.is:
------------------------------
03-07-2008
Kæri Geir,
Ég skrifa þér þessar línur til að hvetja þig til að gefa nú þegar út opinbera yfirlýsingu um að ríkisstjórn Íslands viðurkenni ekki Robert Mugabe sem forseta Zimbabve, og hvetji um leið ríkisstjórnir annarra landa til að gera slíkt hið sama.
Besta leiðin til að greiða úr málum í Zimbabve er að koma á viðræðum milli MDC og ZANU PF, en leggja þarf mikla áherslu á að gengið verði til þeirra viðræðna á jafnréttisgrundvelli og að niðurstöður kosninganna 29. mars sl. verði lagðar þar til grundvallar. Miklu máli skiptir að ríkisstjórn Íslands bregðist skjótt við og gefi út yfirlýsingu um málið nú þegar. Ástandið í Zimbabve versnar með hverjum degi sem líður án afgerandi skilaboða alþjóðasamfélagsins um afstöðu þeirra til Mugabe-stjórnarinnar! Hér er ekki eftir neinu að bíða!
Með bestu kveðjum,
Stefán Gíslason
Borgarnesi
stefan@environice.is
------------------------------
Ég hvet ykkur líka til að senda Geir svona bréf. Þið getið t.d. farið inn á síðuna http://www.avaaz.org/en/zimbabwe_chance_for_peace/6.php?cl=104182148 og fyllt út reitina vinstra megin með nafni ykkar, þjóðlandi o.s.frv. Þá birtist sjálfkrafa bréf til Geirs á ensku í reitnum hægra megin á síðunni. Ef þið viljið, getið þið afritað textann í bréfinni mínu og límt hann yfir enska textann áður en þið ýtið á SEND.
Ekki halda að ástandið í Zimbabve skipti ykkur engu máli. Ekki halda heldur að rödd ykkar skipti engu máli. Munið að Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið, eins og mig minnir að Edmund Burke hafi orðað það. Og var það ekki Tómas Guðmundsson sem orti:
Á meðan til var böl sem bætt þú gast
og barist var á meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að kenna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2008 | 23:57
Fjallvegahlaupasögur
Ég var að enda við að uppfæra sögur af nýjustu fjallvegahlaupunum. Setti líka inn helling af myndum, sérstaklega úr Hólsskarðsferðinni. Og þó að sögurnar séu kannski ekki endanlega fullskrifaðar er allt í lagi að kíkja á þær. Auðveldasta leiðin til þess er að fylgja tenglinum "Fjallvegahlaup" hérna í vinstri kantinum og smella svo á "Fjallvegaskráin".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2008 | 17:14
Kjarnorkan er ekki sérlega loftslagsvæn heldur
Í apríl í fyrra birti þýska umhverfisráðuneytið skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið hjá Öko-Institut í Þýskalandi. Samkvæmt henni losa ný jarðgasorkuver minna af gróðurhúsalofttegundum en kjarnorkuver sem veita sömu þjónustu! Í skýrslunni er borin saman losun frá mismunandi orkuverum í öllu orkuvinnsluferlinu og litið á venjuleg heimili sem grunneiningu. Heimili sem fá raforku frá kjarnorkuverum nota alla jafna olíu eða gas til upphitunar, þar eð kjarnorkuver tengjast ekki fjarvarmaveitum. Ný gasorkuver framleiða hins vegar gufu til rafmagnsframleiðslu og selja vatnið síðan til hitunar. Þegar á allt er litið, þ.m.t. einnig losun vegna vinnslu hráefnis í úraníumnámum og olíulindum, er koltvísýringslosunin í reynd 772 g/kWst vegna kjarnorku, en 747 g/kWst vegna orku frá gasorkuverum. Sé aðeins litið á losun frá kjarnorkuverinu sjálfu er hún 31-61 g/kWst, mismunandi eftir uppruna úransins. Sambærileg losun frá vindorkuverum er 23 g/kWst, 39 g/kWst frá vatnsorkuverum og 89 g/kWst frá sólarorkuverum.
Hægt er að fræðast meira um þessar niðurstöður í fréttatilkynningu þýska umhverfisráðuneytisins 24. apríl 2007, sem auðvitað var sagt frá í Orðum dagsins á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi daginn eftir, sem sagt 25. apríl sama ár.
![]() |
Kjarnorkuiðnaðurinn leysir ekki orkuvandamál framtíðarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.6.2008 | 08:42
Sumarfríið búið - í bili
Ég er sestur aftur á skrifstofuna eftir vikulangt sumarfrí. Þetta var ágæt vika með þremur fjallvegahlaupum ásamt mörgu fleiru skemmtilegu. En nú tekur sem sagt alvara lífsins við. Í dag liggur fyrir að ...
- Uppfæra Orð dagsins
- Reikna laun
- Borga nokkra reikninga
- Skipuleggja þrjú stefnumót
- Ganga frá innihaldi umhverfisfréttabréfs Norrænu ráðherranefndarinnar
- Halda áfram að skipuleggja Danmerkurferð Staðardagskrárfólks í september
- Lesa um lífrænar snyrtivörur
- Hringja nokkur símtöl
- Svara nokkrum rafbréfum
- Skanna nokkrar myndir
- Fresta tiltekt á skrifborðinu um einn dag eins og venjulega
- Taka á móti flóttamanni frá Danmörku
- Fagna nýjum áfanga í úrgangsmálum
- Muna eftir því sem vantar á þennan lista
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2008 | 00:26
Kalt á Laxárdalsheiðinni
Það var kalt á Laxárdalsheiðinni á laugardaginn, hitinn rétt ofan við frostmark og gekk á með hvössum slydduéljum. En þetta er greinilega ákjósanlega göngu- og hlaupaheiði í betra veðri. Ferðasöguna er annars að finna á http://www.environice.is/default.asp?Sid_Id=35440&tId=1.
Birkir Stefánsson og Ingimundur Grétarsson berjast á móti norðanáttinni efst á Laxárdalsheiði, í um 540 m hæð yfir sjó með 12,5 km að baki. Þarna var Ingimundur búinn að taka af sér rennblauta og ískalda hanska (úr gerviefni) og kvað skárra að vera berhentur. Eins og sjá má fremst á myndinni var snjór tekinn að setjast áveðurs á steina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2008 | 15:12
Laxárdalsheiði í fyrramálið
Kl. 10 í fyrramálið legg ég upp í 6. fjallvegahlaupið við þriðja mann, að minnsta kosti. Leiðin liggur um Laxárdalsheiði úr Reykhólasveit, norður að Þverárvirkjun við Hólmavík. Leiðin yfir heiðina er líklega 26 km að lengd - og svo bætir maður kannski við þessum þremur kílómetrum sem á vantar í lokin til að komast á hátíðasvæði Hamingjudaganna á Hólmavík. Verðum komnir þangað kl. 13.30 á morgun ef allt gengur að óskum. Seinkun um hálfan til einn klukkutíma telst þó innan skekkjumarka í þessu sambandi.
Með mér í för verða Ingimundur Grétarsson í Borgarnesi og Birkir Stefánsson, bóndi í Tröllatungu. Öllum er auk þess að sjálfsögðu velkomið að slást í för með okkur - á eigin ábyrgð.
Örlítið nánari upplýsingar er að finna á Fjallvegahlaupasíðunni minni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2008 | 14:02
Á hlaupum í Héðinsfirði
Í gær hljóp ég sem sagt frá Ólafsfirði til Siglufjarðar um Héðinsfjörð. Reyndar var meðalhraðinn líkari því sem gerist á göngu en á hlaupum, sem sagt 5-6 km/klst. En ég kalla þetta samt hlaup, því að ég hljóp alls staðar þar sem ég hafði þrek til - og svo var þetta líka hluti af Fjallvegahlaupaverkefninu mínu, nánar tiltekið fjallvegahlaup nr. 4 og 5.
Skóþvengir bundnir á Ólafsfirði að morgni þriðjudags. Innihald Héðinsfjarðargangnanna í baksýn.
Ég lagði upp úr miðbæ Ólafsfjarðar kl. 10.06 í gærmorgun, hljóp út að Syðri-Á og beygði þar inn í Árdal. Eftir að hafa hlaupið samtals um 7 km, vaðið tvær ár og hækkað mig um 300 metra, var ég staddur beint fyrir neðan Rauðskörð. Var reyndar í vafa um það hvaða skarð væri rétta skarðið, en þeim vafa tókst að eyða með hjálp GPS-tækninnar. Hins vegar dugði sú tækni ekki til að rata rétta leið upp í skarðið. Samt hafði ég fengið ýmis góð ráð í því sambandi og verið varaður við ýmsum hættum. Lenti samt í þessum sömu hættum og var lengi að losa mig úr þeim aftur. Þegar ég loksins stóð sigri hrósandi í skarðinu í 590 m hæð með 7,7 km að baki, var liðin 1 klst. og 48 mínútur frá því ég lagði af stað. Og ég sem hélt að sá tími dygði mér alla leið að Vík í Héðinsfirði.
Horft upp í Rauðskörð. Rauða línan sýnir væntanlega nokkurn veginn rétta leið upp í skarðið. Ef maður beygir of snemma til hægri lendir maður í ógöngum, ef marka má nýlega rannsókn.
Úr Rauðskörðum hallar vel undan fæti til Héðinsfjarðar. Efst undir skarðinu var mikið fannfergi, þar sem gaman var að hlaupa niður. Kl. 12.28 var ég kominn að Vík í Héðinsfirði og þar með var fjallvegahlaup nr. 4 að baki, upp á samtals 12,08 km og 2:21:52 klst. Upphaflega hafði ég ætlað að taka mér góða hvíld í Vík, en þegar þar var komið sögu var ég farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að verða ekki kominn til byggða í Siglufirði í tæka tíð. Ég hafði nefnilega lýst því yfir að ef ég yrði ekki kominn þangað kl. 3, hlyti eitthvað að hafa farið úrskeiðis. Hvíldin í Vík var því skorin niður í 12 mínútur, sem dugðu til að skrifa í gestabók, endurraða farangri, borða hálfa rúgbrauðssamloku með sméri og kæfu og drekka hálfa fernu af kókómjólk, (sem ég drekk annars aldrei). Svo var lagt upp í fjallvegahlaup nr. 5, nefnilega inn Héðinsfjörð og yfir Hólsskarð til Siglufjarðar.
Horft inn Héðinsfjörð. Eyðibýlið Vík er fremst á myndinni, en beint upp af því sést í Hestskarð hinum megin við fjörðinn. Innarlega handan fjarðar sést í mynni Ámárdals og þar fyrir innan er Ámárhyrna.
Leiðin inn eyðibyggðina í Héðinsfirði sóttist sæmilega, en þarna er náttúrulega enginn vegur og undirlagið misjafnt. Svo var ekki laust við að ég finndi fyrir þreytu eftir Rauðskörðin. Framan af hitti ég engan nema tvo kjóa sem veittust að mér og virtust ekki sammála mér um val á hlaupaleið. Innundir Grundarkoti var hins vegar meira um að vera, því að þar voru stórvirkar vinnuvélar að búa til gat á fjallið yfir til Ólafsfjarðar. Frá Grundarkoti lá leiðin yfir Héðinsfjarðará, sem ég óð óvart í klof, og síðan á ská upp í mynni Ámárdals, sem er þverdalur vestur úr Héðinsfirði, já eða næstum bara skál í fjöllin. Þarna fór ég reyndar ekki troðnar slóðir, heldur reyndi að stytta mér aðeins leið til að spara tíma.
Leiðin upp Ámárdal er öll á fótinn og sóttist frekar seint. Enginn vandi var að rata upp í Hólsskarð og þangað náði ég að lokum, 9,6 km að baki og hæðarmælirinn í 646 m. Ferðin frá Vík hafði tekið klukkutíma og 54 mínútur, sem þýddi að klukkan var orðin 14.34 og bara 26 mínútur þangað til "eitthvað-hefði-farið-úrskeiðis-viðbúnarstigið" myndi bresta á. Ég hraðaði mér því niður úr skarðinu, enda fljótfarið á fönnunum sem þar lágu. Það vildi mér svo til happs, að skömmu síðar brast á með ágætis farsímasambandi, þannig að ég gat látið vita af mér. Þar með var öll pressa úr sögunni og hægt að hlaupa áfram niður í Hólsdal sæll og glaður. Björk beið svo eftir mér niðri í dalnum þar sem vegurinn endar, og þaðan var náttúrulega bara hægt að hlaupa veginn í rólegheitum.
Bjargvætturinn Björk í móttökunefndinni við Fjarðará inn af Siglufirði.
Við vegamótin við Siglufjarðarskarðsveg lét ég staðar numið, 15,54 km og 2:34:36 klst. að baki. Klukkan var orðin 15.15 og samtals liðnar 5:09 klst. frá því að ég lagði upp frá Ólafsfirði um morguninn. Ferðalagið allt mældist vera um 27,6 km. (Ath.: Þessar tölulegu upplýsingar eru algjörlega ómissandi).
Það er ekki hægt að ljúka þessari ferðasögu án þess að minnast á tvennt. Annars vegar var veðrið í gær eins gott og veður getur nokkurn tímann verið, nefnilega norðan gola, glaða sólskin og 10-15 stiga hiti. Og hins vegar er ómetanlegt að eiga góða að þegar fjallvegahlaup eru helsta áhugamálið. Þar er Björk náttúrulega efst á blaði, enda búin að hjálpa mér endalaust með alla þætti málsins. Svo hjálpaði Valur Þór Hilmarsson líka mikið til í þessari ferð, með því að bæta upp skort minn á staðþekkingu.
Helstu niðurstöður og ályktanir:
- Það eru forréttindi að vera einn með náttúrunni.
- Rauðskörð eru naumast fyrir ókunnuga.
- Það er gott að mæta ekki ísbirni þegar maður er einn á ferð í óbyggðum.
- Nú á ég bara 45 fjallvegahlaup eftir af 50.
- Líklega eru erfiðustu leiðirnar að baki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2008 | 17:01
Fjallvegahlaup nr. 4 og 5
Hljóp í dag Rauðskörð frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar og Hólsskarð frá Héðinsfirði til Siglufjarðar, samtals um 27 km. Erfitt í Rauðskörðum (villtist, lenti í ógöngum og tafðist), en annars stórskemmtilegt. Veðrið var algjörlega frábært!
Meira síðar. Kveðjur úr Síldarminjasafninu á Siglufirði!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2008 | 23:36
Kynslóðaskipti í sportinu
Í dag urðu kynslóðaskipti hjá íþróttamönnunum í fjölskyldunni. Ég varð að játa mig gjörsigraðan fyrir barninu mínu í hálfmaraþonhlaupi (21,1 km) á Akureyri. Barnið rann skeiðið á 1:35:53 klst. og ég á 1:38:18 klst. Reyndar var hvorki vegalengdin né tíminn alveg rétt mælt, en það er aukaatriði, við hlupum alla vega báðir jafn langt og vorum mislengi að því. En ég get nú skrifað svona í trúnaði, að ég var ekkert mjög sár yfir þessum úrslitum, eiginlega bara býsna glaður. Og reyndar hefur hann oft unnið mig áður í keppnishlaupum, bara aldrei áður svona löngu. Síðast reyndum við með okkur í hálfu maraþoni þegar hann var 16 ára og þá hafði ég betur. En síðan eru liðin 7 ár.
Eða ætti ég kannski að vera spældur? Ég æfi sko miklu meira, svona um það bil annan hvorn dag að meðaltali, en hann bara einu sinni í viku. Og svo hef ég miklu meiri reynslu. Hlaupið í dag var t.d. 7. hálfmaraþonið mitt en bara nr. 2 hjá honum. Reyndar hef ég SVO mikla reynslu, að ég hljóp hálft maraþon í fyrsta sinn árið sem umrætt barn fæddist. Síðan hefur barninu einfaldlega farið meira fram en mér. Samt hefur mér farið heilmikið fram, hleyp t.d. hálft maraþon um þessar mundir á 6 mín. betri tíma en ég gerði fyrir 23 árum. Með sama áframhaldi verð ég kominn í fremstu röð á Íslandi þegar ég verð 143 ára.
Við feðgarnir hlupum fyrst saman í almenningshlaupi 14. júní 1995 þegar Þorkell var nýorðinn 10 ára. Það var minimaraþon í Reykjavík á vegum ÍR, nánar tiltekið 1/10 af maraþonhlaupi, eða 4,2195 km. Þessu lukum við á 21:09 mín., sem er nú bara býsna góður tími. Hann var þá í 14. sæti af um 40 hlaupurum - og ég í því 15. Í dag var hann í 7. sæti af 23 hlaupurum og ég í því 8.
Boðskapur sögunnar er þessi: Það eru forréttindi að geta hlaupið með börnunum sínum, hvort sem þau eru tíu ára eða tuttuguogþriggja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.4.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 145510
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Af mbl.is
Íþróttir
- Áfall fyrir Akureyringa frá næsta árið
- Tal um getnaðarliminn reyndist dýrkeypt
- Spænskur liðstyrkur á Selfoss
- Akureyringar styrkja sig
- Arnór tjáir sig um gagnrýnina
- Parker gæti tekið við Tottenham
- Freyr: Hættulegt að líða svona
- Doncic magnaður og Lakers jafnaði
- Aldrei aftur í byrjunarliði Liverpool?
- Völlurinn: Harður dómur að gefa rautt