Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
17.11.2008 | 23:03
Framsóknarvísa
Síkvikur stjórnmálasærinn er,
sem ég bý við.
Framsókn er gengin úr sjálfri sér.
Svona er lífið.
Guðni segir af sér þingmennsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2008 | 09:24
Ég rakaði mig í morgun
Reyndar telst það ekki til tíðinda að ég skyldi hafa rakað mig í morgun, því að það geri ég næstum hvern einasta morgun ársins. Það telst heldur ekki til tíðinda að ég skyldi hvorki nota raksápu né rakspíra þennan morguninn, því að slíkan varning hef ég ekki notað í nokkur ár. Það vill nefnilega svo vel til að í krönunum heima hjá mér eru afar ódýr efni sem gera sama gagn, að lyktinni frátalinni. Í krönunum heima hjá mér er nefnilega heitt vatn úr Deildartunguhver. Það gerir sama gagn og raksápa, mýkir sem sagt húðina og opnar hana. Í krönunum heima hjá mér er líka kalt vatn, sem ég held að komi úr Grábrókarhrauni. Það gerir sama gagn og rakspíri, hreinsar sem sagt húðina og lokar henni. Hins vegar er engin lykt af því, sem getur auðvitað hvort heldur sem er flokkast sem gagn eða ógagn þegar vatnið er borið saman við rakspírann. Ég held þó að lyktarleysið geri meira gagn en ógagn. Alla vega skil ég ekki eftir mig slóð tilbúinna ilmefna á fólki og handklæðum sem ég snerti yfir daginn.
Ástæða þess að ég nefni þennan annars tíðindalausa rakstur hér og nú, er sú að í Orðum dagsins í dag er einmitt fjallað um danska könnun á innihaldsefnum rakfroðu. Rakfroða er yfirleitt ágætis efnakokkteill, þar sem þekktir ofnæmisvaldar blandast saman við hugsanlega ofnæmisvalda, auk efna sem geta truflað hormónastarfsemi líkamans og skaðað vatnalífverur eftir að búið er að skola efnunum niður um niðurfallið.
Mig langar ekkert að maka einhverjum efnakokkteilum framan í mig á hverjum morgni, án þess að þurfa það. Og ég hef heldur ekkert gaman af því að borga fullt af peningum fyrir vörur sem auka ekki lífsgæði mín á nokkurn hátt, heldur skerða þau jafnvel.
Mæli með Deildartunguhver og Grábrókarhrauni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2008 | 23:08
Sýnum örlitla reisn!
Nýjustu sparnaðaraðgerðir utanríkisráðherra eru einhverjar döprustu sparnaðaraðgerðir sem ég hef séð. Ráðherrann og fjölmiðlar virðast samtaka í að kynna þessar aðgerðir sem myndarlegan niðurskurð á útgjöldum utanríkisráðuneytisins á erfiðum tímum. En í hverju felst myndarskapurinn? Jú, hann felst í því að lækka fyrirhugaðan kostnað utanríkisráðuneytisins á næsta ári um 2,2 milljarða frá því sem upphafleg áform gerðu ráð fyrir. Þar af á að ná um 600 milljóna króna sparnaði með því að fækka sendiherrastöðum þegar færi gefst á að gera það með sársaukalausum hætti, en afgangurinn, heilar 1.600 milljónir króna fást með því að draga til baka stóran hluta af áformuðum framlögum Íslands til þróunarmála, þrátt fyrir að þessi áformuðu framlög myndu aðeins nema um helmingi þess sem Íslendingar hafa lofað að reiða fram. Loforð Íslendinga í þessu sambandi hljóðar upp á 0,7% af þjóðarframleiðslu, rétt eins og loforð annarra vestrænna þjóða. Hin áformuðu framlög áttu að skríða upp í 0,35%, en nú á sem sagt að skera þetta niður í 0,24%.
Ekki segja mér að við höfum ekki efni á því að standa við loforð okkar um þróunaraðstoð af því að það sé svo mikil kreppa á Íslandi. Það er einfaldlega rangt. Þvert á móti höfum við ekki efni á því að skera þessi framlög niður. Og það er beinlínis ósæmilegt að bera bága stöðu Íslands á nokkurn hátt saman við stöðu þróunarríkja sem þessi framlög eru ætluð, ríkja á borð við Malaví, svo dæmi sé tekið!
Sýnum örlitla reisn, þó ekki væri nema sjálfra okkar vegna! Fjölmiðlar hamra á því alla daga að orðstír Íslands á alþjóðlegum vettvangi hafi beðið mikinn hnekki upp á síðkastið. Sparnaðarhugmyndir utanríkisráðherra eru til þess fallnar að skaða þennan orðstír enn frekar! Með því að skera þessi framlög niður núna, hvað sem öllu krepputali líður, erum við að lýsa því yfir að okkur sé nokk sama um neyð annarra þjóða, sem er í mörgum tilvikum slík, að vandræði okkar, svo slæm sem þau annars eru, blikna algjörlega í samanburðinum. Með því að skera þessi framlög niður núna, erum við líka að lýsa því yfir að hækkun á þessum framlögum okkar tvö síðustu árin hafi miklu frekar verið hræsni en góður ásetningur, eiginlega ekkert annað en smeðjulegt "smæl framan í heiminn" til að snapa atkvæði í kosningunni til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna!
Sýnum örlitla reisn! Heilbrigt þjóðarstolt á ekki að birtast í því að við hreytum skætingi í nágrannaþjóðir fyrir þá sök eina að þær sitji ekki og standi eins og okkur þóknast. Heilbrigt þjóðarstolt á að birtast í því að við sýnum umheiminum, að þrátt fyrir erfiðleikana höfum við skilning á neyð þeirra þjóða sem búa við kröppustu kjörin, og að þrátt fyrir erfiðleikana viljum við standa við þau loforð sem við höfum gefið á alþjóðlegum vettvangi.
Við eigum ekki að skerða framlög til þróunarmála um eina einustu krónu! Það er nógu lágkúrlegt að þau séu bara helmingur af því sem við höfum lofað að reiða fram! Og við eigum að láta þess getið hvar sem við komum, að þróunarmál séu forgangsmál, jafnvel þótt staða okkar sé erfið! Slík framganga væri okkur til sóma og til þess fallin að verja orðstír okkar í því éli sem nú gengur yfir.
Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvar á utanríkisráðuneytið þá að spara? Mér er svo sem alveg sama um það, ráðuneytið á bara ekki að gera okkur uppvís að þeirri háðung að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur! Það er t.d. ráð að fækka sendiherrastöðunum strax, í stað þess að bíða eftir því að einhverjir fari á eftirlaun. Það gæti jafnvel borgað sig að leyfa þeim bara að fá eftirlaunin sín nokkrum mánuðum fyrr en ella. Svo má kannski leggja niður fleiri slíkar stöður - og alls ekki búa til nýjar, eins og mér skilst að utanríkisráðherra hafi verið að enda við að gera.
Glötum ekki þessu tækifæri til að sýna örlitla reisn! Nóg er niðurlægingin þó að þetta bætist ekki við!
Skiljanlegt að dregið sé úr þróunarframlögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.11.2008 | 11:07
Af Ófeigi langlífa
Hann Ófeigur Árnason Kveðan
er ekki á leiðinni héðan,
svo grannur sem splitti
með mjóslegið mitti
en massaður þar fyrir neðan.
Banvænn björgunarhringur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.11.2008 | 17:51
Hvað sagði Einstein?
Mér skilst að Albert Einstein hafi einhvern tímanna sagt:
Við getum ekki leyst vandamál með sama hugarfari og við notuðum þegar við bjuggum þau til.
Kosningum ekki flýtt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.11.2008 | 11:25
Stofnlánadeildin í Qatar
Fyrr í haust gerði ég litla limru í tilefni þess að Sparisjóður Mýrasýslu virtist vera kominn að hluta til í eigu bróður emírsins í Qatar, af því að þessi bróðir hafði þá keypt hlut í Kaupþingi, sem var í þann veginn að eignast 80% af stofnfé sparisjóðsins. Ég hélt sem sagt að sparisjóðurinn væri kominn á þurrt, því að það er jú miklu þurrara í Qatar en á Mýrunum. En nú er þetta allt breytt. Mér skilst að þáverandi Kaupþing hafi aldrei eignast þessi 80% formlega og að bróðir emírsins í Qatar hafi auk heldur náð að kippa þessum 27.000 milljónköllum sínum til baka áður en allt hrundi. Draumur minn um Stofnlánadeildina í Qatar verður því ekki að veruleika. Í tilefni af þessum viðsnúningi gaukaði Georg á Kjörseyri að mér þessari stöku á dögunum:
Það er oft sem aurinn platar
okkur gaurana.
Stofnlánadeildin hans Stebba í Qatar
stakk af með aurana
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2008 | 10:39
Fljótsbakki framtíðarinnar
Við erum í vanda. Undanfarna mánuði og ár höfum við gengið fram með fljóti, sem við vissum innst inni að væri bæði straumþungt og kalt. Og við vissum líka innst inni að fyrr en síðar lægi leiðin yfir þetta fljót. Kannski héldum við að einhver myndi byggja brú yfir fljótið, en það voru draumórar. Svona fljót verða nefnilega ekki brúuð.
Einn daginn var okkur hrint út í fljótið. Við vitum ekki alveg hver hrinti okkur, en við erum alla vega stödd í fljótinu og allt er kalt og blautt. Mörg okkar óska sér þess allra heitast að verða dregin aftur upp á sama bakkann og allt verði sem fyrr. En sannleikurinn er sá, að það liggur engin leið til baka. Fljótsbakki fortíðarinnar var fullkannaður og þar gátum við ekki þrifist lengur, eins og við vissum reyndar innst inni.
En það er bara svo kalt og blautt úti í fljótinu. Það er vandinn. Og við vitum ekki hvernig hverju okkar um sig mun reiða af. Kannski ber okkur með straumnum eitthvað niður í móti. Nú ríður á að hjálpast að. Og eitt er víst: Leiðin yfir fljótið var eina leiðin.
Við vitum lítið um fljótsbakka framtíðarinnar. Þannig er það jú með alla fljótsbakka sem við höfum aldrei staðið á. En innst inni vitum við að bakkinn hinum megin er betri en sá gamli, einfaldlega vegna þess að þar voru tækifærin upp urin. Á nýja bakkanum eru ný tækifæri. Þar verður gott að halda göngu sinni áfram, fram með fljóti, frá fljóti og að næsta fljóti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2008 | 21:48
Kreppuvísa
Þjóðin kvelst í kreppufári.
Kveða vil ég óð um það.
Í Svörtuloftum safnar hári,
sá sem kom þessu öllu af stað.
Sigurður: Lenti illilega saman við Davíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.11.2008 | 09:04
Dagur vonar
Mikið er ég glaður að Barack Hussein Obama skuli hafa unnið svona afgerandi sigur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Dagurinn í dag er sögulegur. Þetta er dagur vonar, dagurinn sem ljóst varð að Bandaríkin myndu loks losna úr 8 ára gíslingu óhæfra stjórnvalda.
Það er nánast sama hvert litið er, vonin ríkir á öllum sviðum, sama hvort talað er um umhverfismál, mannréttindi eða efnahag. En eins og Barack Obama sagði í sigurræðunni í nótt, þá verður þetta ekkert auðvelt, því að verkefnin eru risavaxin. Og ekki bætir úr skák að embættismenn Bush-stjórnarinnar eru þessa dagana önnum kafnir við að valda eins miklu tjóni og mögulegt er áður en hinn nýi forseti tekur við völdum í janúar. Reyndar minntist Obama ekkert á þetta í ræðunni, en fréttaveitur heimsins hafa fjallað um þessa döpru viðleitni síðustu daga, sjá m.a. umfjöllun PlanetArk/Reuter í fyrradag. Umrædd viðleitni felst í því að breyta eða nema úr gildi ýmsar reglur um náttúruvernd o.fl. Og þessum reglum verður ekki svo auðveldlega breytt til baka á svipstundu þótt nýr forseti taki við.
Það væri hægt að skrifa langan pistil um vonirnar sem öðluðust líf í nótt, en internetið er þegar hálffullt af slíkum pistlum. Ég ætla því að láta nægja að mæla með Barack Obama sem ræðumanni eða jafnvel veislustjóra á árshátíðum og þorrablótum. Í morgun var mér t.d. bent á frekar skemmtilegt myndband frá minningarsamkomu um Alfred E. Smith, sem haldin var fyrir hálfum mánuði, mitt í lokaspretti kosningabaráttunnar. Alfred þessi var lengi ríkisstjóri í New York, auk þess að vera frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum 1928. Obama fór á kostum í ræðu sem hann hélt í þessu samkvæmi, en þar var John McCain einmitt staddur líka. Obama sagði m.a. að hann myndi ekkert eftir Alfred E. Smith, en að John McCain hefði sagt sér að þetta hefði verið prýðismaður. Svo talaði hann um efnahagslægðina og hversu harkalega lækkun húsnæðisverðs hefði komið niður á mörgum. Þó hefði þetta komið sér 8 sinnum verr fyrir John McCain en flesta aðra. Annars var hann nú ekkert sérstaklega í því að gera grín að McCain. Þvert á móti hældi hann honum mjög - í fullri alvöru - og sagði fáa hafa lagt meira á sig fyrir land og þjóð. Á öðrum stað í ræðunni útskýrði Obama hvers vegna hann hefði fengið fornafnið Barack og millinafnið Hussein. Barack væri nefnilega blótsyrði úr Zwahili og Hussein-nafnið hefði einhver gefið sér, sem datt ekki í hug að hann myndi sækjast eftir því að verða forseti Bandaríkjanna.
Obama kjörinn forseti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2008 | 21:16
VIÐ ráðum !!!
Ég held að VIÐ, þ.e.a.s. ég og mínir líkir, fólk flest, Jón og Gunna, hinn almenni borgari, almenningur, eða hvað það nú annars heitir þetta ágætis fólk, vanmetum stórlega vald okkar og áhrif. Þegar grannt er skoðað erum það nefnilega VIÐ sem ráðum. Það erum VIÐ sem berum mesta ábyrgð á bankakreppunni, og það erum líka VIÐ sem höfum mesta burði til að leysa hana.
En hvers vegna VIÐ? Jú, VIÐ ráðum vegna þess að VIÐ kjósum. Og VIÐ kjósum ekki bara á fjögurra ára fresti, hreppsnefndir, þingmenn og forseta, heldur kjósum VIÐ á hverjum einasta degi, ekki þó í kjörklefum, heldur í eldhúsum og kaupfélögum þessa lands, svo tveir kjörstaðir séu nefndir. Í hvert sinn sem VIÐ ákveðum að kaupa eða kaupa ekki einhverja vöru eða þjónustu, þá erum VIÐ að kjósa. Kosningin snýst ekki bara um að VIÐ fáum tiltekna vöru og greiðum tiltekna upphæð fyrir, heldur hefur hver einasta kosning, eða hvert einasta val, (e: "Every move you make"), áhrif á marga aðra. Hver einasta kosning stuðlar að því að eitthvert fyrirtæki, eitthvert fólk, eða einhver hugmynd fái að lifa og þróast, á sama tíma og eitthvert annað fyrirtæki, eitthvert annað fólk eða einhver önnur hugmynd verður af stuðningi okkar til hins sama.
Í viðtali í Speglinum á RÚV í dag, nefndi Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, gott dæmi um það vald og þau áhrif sem VIÐ höfum. Kaffitár rekur eina af fjórum kaffibrennslum á Íslandi, en meirihlutinn af því kaffi sem við Íslendingar drekkum er brenndur erlendis. Aðalheiður sagði frá því að ónefnd verslunarkeðja hefði ákveðið að hætta að selja þetta íslensktmalaða kaffi. Við þá einu ákvörðun lögðust af 4 störf á Íslandi, sumpart við að brenna kaffi, sumpart við að hanna umbúðir, sumpart við að gera við raflagnir, o.s.frv. Með því að velja frekar kaffi sem brennt er á Íslandi höfum VIÐ því áhrif á atvinnustigið í landinu.
Aðalheiður útskýrði líka hvernig VIÐ getum stuðlað að uppbyggingu í þróunarlöndunum með því að kaupa eina gerð af kaffi fremur en aðra, þ.e.a.s. með því að kaupa kaffi, þar sem tryggt er að framleiðandinni fái sómasamlegt verð og geti tekið þátt í nauðsynlegri uppbyggingu eigin fjölskyldu og eigin samfélags.
Kannski greiðum VIÐ jafnmikið hvorn kostinn sem VIÐ kjósum, þ.e.a.s. kostinn sem viðheldur 4 störfum á Íslandi í stað hins sem kippir undan þeim fótunum, já eða kostinn sem tryggir kaffibóndanum sómasamleg kjör í stað hins sem stuðlar að barnaþrælkun og áframhaldandi eymd!
VIÐ ráðum af því að VIÐ kjósum, ekki bara á fjögurra ára fresti, heldur á hverjum einasta degi, oft á dag. Við berum líka ábyrgð á þeim sem stjórna landinu okkar, því að VIÐ kusum þau til þeirra verka. Pólitísk ábyrgð okkar á því sviði á ekki endilega að vera komin í fjögurra ára frí um leið og tjaldið fellur fyrir kjörklefann. VIÐ eigum að láta í okkur heyra ef okkur finnst þau sem stjórna landinu ekki gera það með þeim hætti sem VIÐ kusum þau til. VIÐ ráðum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt