Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
30.6.2008 | 08:42
Sumarfríið búið - í bili
Ég er sestur aftur á skrifstofuna eftir vikulangt sumarfrí. Þetta var ágæt vika með þremur fjallvegahlaupum ásamt mörgu fleiru skemmtilegu. En nú tekur sem sagt alvara lífsins við. Í dag liggur fyrir að ...
- Uppfæra Orð dagsins
- Reikna laun
- Borga nokkra reikninga
- Skipuleggja þrjú stefnumót
- Ganga frá innihaldi umhverfisfréttabréfs Norrænu ráðherranefndarinnar
- Halda áfram að skipuleggja Danmerkurferð Staðardagskrárfólks í september
- Lesa um lífrænar snyrtivörur
- Hringja nokkur símtöl
- Svara nokkrum rafbréfum
- Skanna nokkrar myndir
- Fresta tiltekt á skrifborðinu um einn dag eins og venjulega
- Taka á móti flóttamanni frá Danmörku
- Fagna nýjum áfanga í úrgangsmálum
- Muna eftir því sem vantar á þennan lista
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2008 | 00:26
Kalt á Laxárdalsheiðinni
Það var kalt á Laxárdalsheiðinni á laugardaginn, hitinn rétt ofan við frostmark og gekk á með hvössum slydduéljum. En þetta er greinilega ákjósanlega göngu- og hlaupaheiði í betra veðri. Ferðasöguna er annars að finna á http://www.environice.is/default.asp?Sid_Id=35440&tId=1.
Birkir Stefánsson og Ingimundur Grétarsson berjast á móti norðanáttinni efst á Laxárdalsheiði, í um 540 m hæð yfir sjó með 12,5 km að baki. Þarna var Ingimundur búinn að taka af sér rennblauta og ískalda hanska (úr gerviefni) og kvað skárra að vera berhentur. Eins og sjá má fremst á myndinni var snjór tekinn að setjast áveðurs á steina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2008 | 15:12
Laxárdalsheiði í fyrramálið
Kl. 10 í fyrramálið legg ég upp í 6. fjallvegahlaupið við þriðja mann, að minnsta kosti. Leiðin liggur um Laxárdalsheiði úr Reykhólasveit, norður að Þverárvirkjun við Hólmavík. Leiðin yfir heiðina er líklega 26 km að lengd - og svo bætir maður kannski við þessum þremur kílómetrum sem á vantar í lokin til að komast á hátíðasvæði Hamingjudaganna á Hólmavík. Verðum komnir þangað kl. 13.30 á morgun ef allt gengur að óskum. Seinkun um hálfan til einn klukkutíma telst þó innan skekkjumarka í þessu sambandi.
Með mér í för verða Ingimundur Grétarsson í Borgarnesi og Birkir Stefánsson, bóndi í Tröllatungu. Öllum er auk þess að sjálfsögðu velkomið að slást í för með okkur - á eigin ábyrgð.
Örlítið nánari upplýsingar er að finna á Fjallvegahlaupasíðunni minni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2008 | 14:02
Á hlaupum í Héðinsfirði
Í gær hljóp ég sem sagt frá Ólafsfirði til Siglufjarðar um Héðinsfjörð. Reyndar var meðalhraðinn líkari því sem gerist á göngu en á hlaupum, sem sagt 5-6 km/klst. En ég kalla þetta samt hlaup, því að ég hljóp alls staðar þar sem ég hafði þrek til - og svo var þetta líka hluti af Fjallvegahlaupaverkefninu mínu, nánar tiltekið fjallvegahlaup nr. 4 og 5.
Skóþvengir bundnir á Ólafsfirði að morgni þriðjudags. Innihald Héðinsfjarðargangnanna í baksýn.
Ég lagði upp úr miðbæ Ólafsfjarðar kl. 10.06 í gærmorgun, hljóp út að Syðri-Á og beygði þar inn í Árdal. Eftir að hafa hlaupið samtals um 7 km, vaðið tvær ár og hækkað mig um 300 metra, var ég staddur beint fyrir neðan Rauðskörð. Var reyndar í vafa um það hvaða skarð væri rétta skarðið, en þeim vafa tókst að eyða með hjálp GPS-tækninnar. Hins vegar dugði sú tækni ekki til að rata rétta leið upp í skarðið. Samt hafði ég fengið ýmis góð ráð í því sambandi og verið varaður við ýmsum hættum. Lenti samt í þessum sömu hættum og var lengi að losa mig úr þeim aftur. Þegar ég loksins stóð sigri hrósandi í skarðinu í 590 m hæð með 7,7 km að baki, var liðin 1 klst. og 48 mínútur frá því ég lagði af stað. Og ég sem hélt að sá tími dygði mér alla leið að Vík í Héðinsfirði.
Horft upp í Rauðskörð. Rauða línan sýnir væntanlega nokkurn veginn rétta leið upp í skarðið. Ef maður beygir of snemma til hægri lendir maður í ógöngum, ef marka má nýlega rannsókn.
Úr Rauðskörðum hallar vel undan fæti til Héðinsfjarðar. Efst undir skarðinu var mikið fannfergi, þar sem gaman var að hlaupa niður. Kl. 12.28 var ég kominn að Vík í Héðinsfirði og þar með var fjallvegahlaup nr. 4 að baki, upp á samtals 12,08 km og 2:21:52 klst. Upphaflega hafði ég ætlað að taka mér góða hvíld í Vík, en þegar þar var komið sögu var ég farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að verða ekki kominn til byggða í Siglufirði í tæka tíð. Ég hafði nefnilega lýst því yfir að ef ég yrði ekki kominn þangað kl. 3, hlyti eitthvað að hafa farið úrskeiðis. Hvíldin í Vík var því skorin niður í 12 mínútur, sem dugðu til að skrifa í gestabók, endurraða farangri, borða hálfa rúgbrauðssamloku með sméri og kæfu og drekka hálfa fernu af kókómjólk, (sem ég drekk annars aldrei). Svo var lagt upp í fjallvegahlaup nr. 5, nefnilega inn Héðinsfjörð og yfir Hólsskarð til Siglufjarðar.
Horft inn Héðinsfjörð. Eyðibýlið Vík er fremst á myndinni, en beint upp af því sést í Hestskarð hinum megin við fjörðinn. Innarlega handan fjarðar sést í mynni Ámárdals og þar fyrir innan er Ámárhyrna.
Leiðin inn eyðibyggðina í Héðinsfirði sóttist sæmilega, en þarna er náttúrulega enginn vegur og undirlagið misjafnt. Svo var ekki laust við að ég finndi fyrir þreytu eftir Rauðskörðin. Framan af hitti ég engan nema tvo kjóa sem veittust að mér og virtust ekki sammála mér um val á hlaupaleið. Innundir Grundarkoti var hins vegar meira um að vera, því að þar voru stórvirkar vinnuvélar að búa til gat á fjallið yfir til Ólafsfjarðar. Frá Grundarkoti lá leiðin yfir Héðinsfjarðará, sem ég óð óvart í klof, og síðan á ská upp í mynni Ámárdals, sem er þverdalur vestur úr Héðinsfirði, já eða næstum bara skál í fjöllin. Þarna fór ég reyndar ekki troðnar slóðir, heldur reyndi að stytta mér aðeins leið til að spara tíma.
Leiðin upp Ámárdal er öll á fótinn og sóttist frekar seint. Enginn vandi var að rata upp í Hólsskarð og þangað náði ég að lokum, 9,6 km að baki og hæðarmælirinn í 646 m. Ferðin frá Vík hafði tekið klukkutíma og 54 mínútur, sem þýddi að klukkan var orðin 14.34 og bara 26 mínútur þangað til "eitthvað-hefði-farið-úrskeiðis-viðbúnarstigið" myndi bresta á. Ég hraðaði mér því niður úr skarðinu, enda fljótfarið á fönnunum sem þar lágu. Það vildi mér svo til happs, að skömmu síðar brast á með ágætis farsímasambandi, þannig að ég gat látið vita af mér. Þar með var öll pressa úr sögunni og hægt að hlaupa áfram niður í Hólsdal sæll og glaður. Björk beið svo eftir mér niðri í dalnum þar sem vegurinn endar, og þaðan var náttúrulega bara hægt að hlaupa veginn í rólegheitum.
Bjargvætturinn Björk í móttökunefndinni við Fjarðará inn af Siglufirði.
Við vegamótin við Siglufjarðarskarðsveg lét ég staðar numið, 15,54 km og 2:34:36 klst. að baki. Klukkan var orðin 15.15 og samtals liðnar 5:09 klst. frá því að ég lagði upp frá Ólafsfirði um morguninn. Ferðalagið allt mældist vera um 27,6 km. (Ath.: Þessar tölulegu upplýsingar eru algjörlega ómissandi).
Það er ekki hægt að ljúka þessari ferðasögu án þess að minnast á tvennt. Annars vegar var veðrið í gær eins gott og veður getur nokkurn tímann verið, nefnilega norðan gola, glaða sólskin og 10-15 stiga hiti. Og hins vegar er ómetanlegt að eiga góða að þegar fjallvegahlaup eru helsta áhugamálið. Þar er Björk náttúrulega efst á blaði, enda búin að hjálpa mér endalaust með alla þætti málsins. Svo hjálpaði Valur Þór Hilmarsson líka mikið til í þessari ferð, með því að bæta upp skort minn á staðþekkingu.
Helstu niðurstöður og ályktanir:
- Það eru forréttindi að vera einn með náttúrunni.
- Rauðskörð eru naumast fyrir ókunnuga.
- Það er gott að mæta ekki ísbirni þegar maður er einn á ferð í óbyggðum.
- Nú á ég bara 45 fjallvegahlaup eftir af 50.
- Líklega eru erfiðustu leiðirnar að baki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2008 | 17:01
Fjallvegahlaup nr. 4 og 5
Hljóp í dag Rauðskörð frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar og Hólsskarð frá Héðinsfirði til Siglufjarðar, samtals um 27 km. Erfitt í Rauðskörðum (villtist, lenti í ógöngum og tafðist), en annars stórskemmtilegt. Veðrið var algjörlega frábært!
Meira síðar. Kveðjur úr Síldarminjasafninu á Siglufirði!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2008 | 23:36
Kynslóðaskipti í sportinu
Í dag urðu kynslóðaskipti hjá íþróttamönnunum í fjölskyldunni. Ég varð að játa mig gjörsigraðan fyrir barninu mínu í hálfmaraþonhlaupi (21,1 km) á Akureyri. Barnið rann skeiðið á 1:35:53 klst. og ég á 1:38:18 klst. Reyndar var hvorki vegalengdin né tíminn alveg rétt mælt, en það er aukaatriði, við hlupum alla vega báðir jafn langt og vorum mislengi að því. En ég get nú skrifað svona í trúnaði, að ég var ekkert mjög sár yfir þessum úrslitum, eiginlega bara býsna glaður. Og reyndar hefur hann oft unnið mig áður í keppnishlaupum, bara aldrei áður svona löngu. Síðast reyndum við með okkur í hálfu maraþoni þegar hann var 16 ára og þá hafði ég betur. En síðan eru liðin 7 ár.
Eða ætti ég kannski að vera spældur? Ég æfi sko miklu meira, svona um það bil annan hvorn dag að meðaltali, en hann bara einu sinni í viku. Og svo hef ég miklu meiri reynslu. Hlaupið í dag var t.d. 7. hálfmaraþonið mitt en bara nr. 2 hjá honum. Reyndar hef ég SVO mikla reynslu, að ég hljóp hálft maraþon í fyrsta sinn árið sem umrætt barn fæddist. Síðan hefur barninu einfaldlega farið meira fram en mér. Samt hefur mér farið heilmikið fram, hleyp t.d. hálft maraþon um þessar mundir á 6 mín. betri tíma en ég gerði fyrir 23 árum. Með sama áframhaldi verð ég kominn í fremstu röð á Íslandi þegar ég verð 143 ára.
Við feðgarnir hlupum fyrst saman í almenningshlaupi 14. júní 1995 þegar Þorkell var nýorðinn 10 ára. Það var minimaraþon í Reykjavík á vegum ÍR, nánar tiltekið 1/10 af maraþonhlaupi, eða 4,2195 km. Þessu lukum við á 21:09 mín., sem er nú bara býsna góður tími. Hann var þá í 14. sæti af um 40 hlaupurum - og ég í því 15. Í dag var hann í 7. sæti af 23 hlaupurum og ég í því 8.
Boðskapur sögunnar er þessi: Það eru forréttindi að geta hlaupið með börnunum sínum, hvort sem þau eru tíu ára eða tuttuguogþriggja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2008 | 09:44
Bensínið mun halda áfram að hækka!
Í gær bar T. Boone Pickens vitni fyrir sérstakri þingnefnd Bandaríkjaþings um orku og náttúruauðlindir (Senate Energy and Natural Resources Committee). Pickens þessi hefur töluverða reynslu í greininni, en hann stýrir m.a. fjárfestingasjóði BP, sem sýslar með eina 4 milljarða dollara. Samkvæmt framburði Pickens hefur olíuframleiðsla heimsins nú náð hámarki - og stendur í 85 milljónum tunna á sólarhring. Eftirspurnin er að hans sögn hins vegar komin í 86,4 milljarða tunna. Verðmyndun á olíu á heimsmarkaði sé ekkert flóknari en svo, að þegar eftirspurnin sé orðin meiri en framboðið, þá hækki verðið þangað til dragi úr eftirspurninni. Picken segir að menn þurfi ekkert að leita að öðrum skýringum á hækkunum olíuverðs, þetta sé opinn markaður þar sem spákaupmennska hafi engin teljandi áhrif.
Ég er enginn olíusérfræðingur og stýri engum sjóðum, en ég er samt algjörlega sammála Pickens. Fyrir svo sem 2-3 árum gátu menn auðveldlega séð hvert stefndi varðandi heimsmarkaðsverð á olíu. Þetta var bara spurning um hvenær skriðan færi af stað og hversu hratt. Og við þurfum heldur ekkert að bíða eftir því að verðið lækki. Auðvitað verða alltaf einhverjar sveiflur, en minnkandi eftirspurn er það eina sem getur leitt til lækkunar. Verðið lækkar sem sagt ekki!
Við getum verið viss um að bensínlítrinn fer í 200 kall áður en langt um líður. Við þurfum ekki að ræða það neitt. Mér finnst stjórnvöld hafa sofið á verðinum að vera ekki löngu búin að grípa til neyslustýrandi aðgerða til að milda okkur áfallið, því að þróunin var jú fyrirsjáanleg. Nú þarf að einhenda sér í það af fullri alvöru að gera hagkerfið minna háð olíu en það er!
(Sjá frétt PlanetArk/Reuter í dag)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2008 | 11:34
Olíuslys við Vestfirði – drög að áhættumati
Ég var spurður að því um daginn hvernig væri hægt að meta hættuna á meiri háttar olíuslysi út af Vestfjörðum vegna olíuflutninga til hugsanlegrar olíuhreinsistöðvar í Arnarfirði, jafnvel svo stóru olíuslysi að jafnaðist á við Exxon Valdez-slysið við Alaska 1989. Svarið fer hér á eftir, spyrjanda og öðrum til fróðleiks, en kannski ekki skemmtunar.
Aðferðafræði
Það eru til ýmsar mismunandi aðferðir til að meta áhættu, en mér finnst liggja beinast við að beita sömu aðferðafræði og gert er ráð fyrir í drögum að staðlinum ISO 31000, sem er staðall fyrir áhættustjórnun. Þessi staðall er enn í smíðum og verður væntanlega gefinn út snemmsumars 2009. Staðallinn er m.a. byggður á ástralska áhættustjórnunarstaðlinum AS/NZS 4360:1999.
Áhætta er í rauninni einhvers konar margfeldi af líkindum og afleiðingum. Erfitt er að gefa þessum fyrirbærum ákveðin talnagildi, og því er yfirleitt byggt á flokkun eða einkunnagjöf, t.d. á bilinu 1-5. AS/NZS 4360:1999 skiptir líkindum í flokka eins og sýnt er í einfölduðu formi í eftirfarandi töflu:
Líkindi | |
Stig | Lýsing |
A | Nær öruggt |
B | Líklegt |
C | Mögulegt |
D | Ólíklegt |
E | Fátítt |
Á sama hátt skiptir ástralski staðallinn afleiðingum í flokka eins og hér er lýst:
Afleiðingar | |
Stig | Lýsing |
1 | Óverulegar |
2 | Minni háttar |
3 | Í meðallagi |
4 | Meiri háttar |
5 | Hamfarir |
Við áhættumat er gjarnan notuð tafla (stundum nefnt fylki eða teningar) til að greina tiltekna áhættu og ákveða mikilvægi þess að grípa til aðgerða hennar vegna. Eins og sjá má er taflan samsett úr hinum tveimur.
Líkindi | Afleiðingar | ||||
Óverulegar 1 | Minni háttar 2 | Í meðallagi 3 | Meiri háttar 4 | Hamfarir 5 | |
A (Nær öruggt) | H | H | A | A | A |
B (Líklegt) | M | H | H | A | A |
C (Mögulegt) | L | M | H | A | A |
D (Ólíklegt) | L | L | M | H | A |
E (Fátítt) | L | L | M | H | H |
A = afar há áhætta; krefst tafarlausra aðgerða
H = há áhætta; krefst sérstakrar athugunar
M = meðal áhætta; tilgreina þarf skiptingu verka og ábyrgðar
L = lág áhætta; hefðbundnir verkferlar duga
Fremur auðvelt er að flokka þá áhættu sem hér um ræðir, þ.e.a.s meiri háttar olíuslys við Vestfirði, með þeirri aðferðafræði sem hér er lýst. Líkurnar hljóta að vera afar litlar, en þó til staðar (>0). Líkurnar eru með öðrum orðum í flokki E (fátítt). Afleiðingarnar yrðu hins vegar gríðarlegar og myndu vafalítið tilheyra flokki 5 (hamfarir). Atburður af þessu tagi lendir samkvæmt þessu neðst til hægri í greiningartöflunni sem há áhætta sem krefst sérstakrar athugunar.
Umræða um líkur
Áhættumat er aldrei hafið yfir gagnrýni. Í því dæmi sem hér um ræðir má þó telja nær víst að almenn samstaða næðist um flokkun samkvæmt framanskráðu. Hvað líkurnar varðar, þá nægir að benda á að slys af þessu tagi verða mjög sjaldan, en eiga sér þó stað. Ýmsir þættir hafa áhrif á líkurnar, svo sem gerð skipa, færni áhafna, veður, sjólag, straumar, hafís og umferð annarra skipa. Líklega eru líkurnar nokkru meiri við Vestfirði en á heimshöfunum að meðaltali, þar sem veður eru oft válynd vestra og einhver hætta á hafís. Það réttlætir þó tæplega að færa áhættuna upp í líkindaflokk D (ólíklegt).
Umræða um afleiðingar
Sömuleiðis má ætla að almenn samstaða næðist um flokkun afleiðinganna samkvæmt framanskráðu. Reyndar ráðast afleiðingarnar af ýmsum þáttum, svo sem magni, tegund og þykkt olíunnar, aðstæðum til björgunar, hitastigi sjávar, fjarlægð frá ströndum, dýra- og plöntulífi svæðisins og mikilvægi ferðaþjónustu og sjávarnytja fyrir aðliggjandi samfélög. Hvað magn olíu varðar, má ætla að árlega myndu verða fluttir til Arnarfjarðar um 100 skipsfarmar af hráolíu með um 80.000 tonn í hverju skipi. Svipað magn þarf síðan að flytja aftur á brott, en e.t.v. í fleiri og smærri förmum. Afleiðingar slyss gætu verið mjög mismunandi eftir því hvort skipið er á leið til olíuhreinsistöðvarinnar eða frá henni, þar sem framleiðsluvörurnar eru væntanlega eitraðri en um leið rokgjarnari en hráolían.
Í spurningunni sem vitnað var til í upphafi þessarar samantektar, var sérstaklega minnst á Exxon Valdez-slysið 1989, enda er það vafalítið umtalaðasta olíuslys síðari ára. Ekki er hægt að slá því föstu að Exxon Valdez-slysið sé dæmigert fyrir slys sem gætu orðið út af Vestfjörðum, þó að hver skipsfarmur innihaldi að öllum líkindum svipað magn af olíu. Umrætt slys varð fyrir 19 árum, og síðan þá hefur olíuskipaflotinn í heiminum verið endurbættur verulega. Hins vegar er hitastig sjávar og vistfræðilegar aðstæður á Vestfjarðamiðum væntanlega líkari því sem gerist við strendur Alaska en úti fyrir ströndum Frakklands og Spánar, þar sem einnig hafa orðið stór olíuslys á allra síðustu árum, svo sem Prestige-slysið 19. nóvember 2002. Reyndar var Prestige-slysið stærra en Exxon Valdez-slysið í lítrum talið, og líklega einnig hvað varðar fjárhagslegan skaða.
Til að gefa einhverja mynd af hugsanlegum afleiðingum fara hér á eftir nokkrir punktar varðandi Exxon Valdez-slysið:
Slystið varð þann 24. mars 1989, þegar olíuskipið Exxon Valdez strandaði við strendur Alaska (Prince William Sound). Um 41 milljón lítra af hráolíu rann í sjóinn og til varð um 28.000 ferkílómetra olíuflekkur. Heildarflatarmál flekksins samsvaraði þannig rúmum fjórðungi af flatarmáli Íslands. Aðstæður til björgunar voru erfiðar, m.a. vegna fjarlægða. Bandaríska landhelgisgæslan stjórnaði aðgerðum, og samtals unnu um 11.000 íbúar nærliggjandi héraða að hreinsun. Olíu rak upp á u.þ.b. 1.600 km langa strandlengju, en til samanburðar má nefna að hringvegurinn um Ísland er 1.334 km. Talið er að 250.000-500.000 sjófuglar hafi drepist vegna slyssins, auk um 1.000 sæotra, nokkur hundruð sela, 250 skallaarna o.fl. Einnig drápust milljarðar síldar- og laxahrogna. Áhrifa slyssins gætir enn í dag. Nokkrar dýrategundir á svæðinu hafa ekki enn náð fyrri stofnstærð, en vísindamenn telja að svæðið verði komið nokkurn veginn í samt lag þegar 30 ár verða liðin frá slysinu. Árið 2007 var áætlað að enn væru til staðar um 98.000 lítrar af olíu á nærliggjandi strandsvæðum, en magnið er talið minnka um u.þ.b. 4% á ári. Ýmsar tölur hafa heyrst varðandi fjárhagslegt tjón vegna slyssins, sú hæsta líklega um 5 milljarðar dollara (um 400 milljarðar íslenskra króna). Útilokað er að gefa upp endanlega rétta tölu, en þess má geta að kostnaður Exxon vegna hreinsunarstarfs var um 2 milljarðar dollara, auk þess sem félagið greiddi samtals um 1 milljarð dollara í ýmsar sektir og skaðabætur vegna slyssins, dæmdar og umsamdar, þ.á.m. til samtaka fiskframleiðenda á svæðinu. Enn eru flókin málaferli í gangi varðandi skaðabótaskyldu o.fl. Of langt mál yrði að tíunda allar óbeinar afleiðingar slyssins, en þær hafa bæði verið pólitískar og efnahagslegar. Slysið hafði mikil áhrif á alla umræðu um vinnslu og flutninga á olíu, en það hefur jafnframt haft í för með sér mikið tekjutap fyrir ferðaþjónustuna. Þá hefur tilvistarvirði svæðisins lækkað, en með því er átt við mat almennings á verðmæti svæðisins, burtséð frá markaðsvirði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2008 | 22:00
Héðinsfjörður í næstu viku
Eins og fram kom hérna á blogginu fyrir skemmstu, styttist í fyrstu fjallvegahlaup sumarsins. Fjallvegahlaupaverkefnið er eigið framtak mitt og árátta, sem varð til á síðasta ári og stendur væntanlega hátt í áratug. Undir tenglinum Fjallvegahlaup í vinstri jaðri þessarar síðu er að finna meiri upplýsingar um málið, þótt sjálf fjallvegahlaupavefsíðan sé ekki enn komin í gagnið.
Og nú er sem sagt stefnan tekin á Héðinsfjörð. Fyrsta fjallvegahlaup sumarsins verður væntanlega þreytt þriðjudaginn 24. júní nk., á Jónsmessunni, úr miðbæ Ólafsfjarðar um Rauðskörð að Vík í Héðinsfirði. Eftir stutta áningu þar hefst annað fjallvegahlaup sumarsins inn Héðinsfjörð frá Vík og yfir Hólsskarð til Siglufjarðar. Og svo rekur hver skemmtunin aðra.
Öllum er velkomið að slást í hópinn - á eigin ábyrgð. Látið bara endilega vita af ykkur, t.d. á stefan[hja]umis.is. Já, svo hittumst við á Ólafsfirði á þriðjudag í næstu viku, eigum við ekki bara að segja kl. 10.00 árdegis?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2008 | 12:57
Tímamót hjá ESB
Írar höfnuðu ESB-sáttmála | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Af mbl.is
Fólk
- Gæti fengið allt að 24 ára dóm
- Sláandi lík föður sínum
- Trump Jr. og Bettina Anderson farin að búa saman
- Stórbrotið verk Bjarkar í sýningu hérlendis
- Skoran á Sanchez vakti athygli á innsetningu Trumps
- Þetta lærði Tinna af móður sinni
- Klessti á vegg og átti ekki mjög gott tímabil
- Ýtir undir sögusagnir um skilnað
- Heimili Tyru Banks varð eldinum að bráð
- Írönsk poppstjarna dæmd til dauða