Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Engin hlaup á næstunni :-(

Ég var á aldeilis frábæru niðjamóti um síðustu helgi á Hafursá á Héraði. Notaði tækifærið og hljóp yfir tvo fjallvegi dagana á undan, eins og áður hefur komið fram. Það gekk vel. Allt annað í sambandi við þessa Austurlandsferð gekk líka vel, nema að laga kaffi fyrir ættingjana. Í stað þess að hella sjóðheitu vatni í kaffikönnuna, hellti ég því nefnilega á löppina á mér. Árangurinn lét ekki á sér standa: Skinnið datt af og eftir sit ég með stóreflis brunasár í viðeigandi umbúðum. Crying

Ein afleiðing þessa augnabliks andvaraleysis er sú að ég get ómögulega hlaupið. Eða - reyndar get ég það auðveldlega, en þá fær sárið engan frið til að gróa, og ég nenni ekki að vera lengi með svona sár. Enn er of snemmt að segja til um hversu langt hlaupafríið verður, en það er alla vega óhætt að afskrifa það sem eftir lifir júlímánaðar. Vonast til að komast af stað aftur þegar kemur fram í ágúst. Þetta þýðir m.a. að ég hleyp ekkert maraþonhlaup í Reykjavík í ágúst, því að undirbúningur verður af of skornum skammti. En við skulum ekki útiloka þátttöku í styttra hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu, t.d. 10 km. Yfirlýst fjallvegahlaupaáætlun raskast hugsanlega ekki neitt, því að þar er ekkert á blaði fyrr en Gaflfellsheiðin 11. september - og enn langt þangað til. Reyndar hef ég verið að svipast um eftir heppilegum tíma til að hlaupa norður Krossárdal, sem sagt þvert yfir Ísland frá Gilsfirði til Bitrufjarðar. Þessar óvæntu aðstæður þrengja að því skipulagi, en hver veit nema færi og heilsa gefist um miðjan ágúst. Held áfram að vinna í því.

Brunasár af þessari stærð koma ekki í veg fyrir að maður hugsi. Ég er því kominn vel af stað í að skipuleggja hlaupadagskrána fyrir árin 2009 og 2010, bæði innanlands og utan. Fyrstu áformin á þeim langa lista verða hugsanlega gerð opinber á næstunni. Missið ekki af því!

Hafursa 002web


Eskifjarðarheiðin að baki

Í dag hljóp ég Eskifjarðarheiðina með Pjetri St. Arasyni. Lögðum af stað úr Eyvindardal við mynni Slenjudals kl. 10 í morgun og vorum komnir að kirkjunni í Eskifirði kl. 12.

Austurland 006web
Lagt á Eskifjarðarheiði úr Eyvindardal í morgun. (Ljósm. Björk J)

Leiðin mældist 18,76 km og tíminn nákvæmlega 2:00:50 klst, sem var langtum betra en ég bjóst við. Hafði gert ráð fyrir að þetta tæki allt að þremur tímum. En leiðin er afar greið, vegarslóði alla leiðina, að hluta til listilega hlaðinn á þeim tíma sem Eskifjarðarheiði var þjóðvegur undir lok 19. aldar.

Veðrið lék við okkur rétt eins og í gær. Hægur vindur var af norðvestri, sem sagt meðvindur mestalla leiðina, þurrt og bjart og hitinn um 16°C á láglendi.

Óhætt er að mæla sterklega með Eskifjarðarheiði sem göngu- og hlaupaleið. Heiðin er auðrötuð og laus við mikinn bratta og klungur. Að vísu er nokkuð bratt upp brúnina að norðanverðu, en sá halli ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Upphafspunktur leiðarinnar er í u.þ.b 205 m hæð yfir sjó, en hæst fer leiðin í 663 m, ef marka má Garmin hlaupaúrið mitt. Endamarkið er niðri undir sjávarmáli (u.þ.b. 24 m). Vegalengdin frá upphafi upp á hæstu hæðir er um 7 km, en eftir það er allt heldur á undanhaldinu.

Sem sagt: Frábær leið og skemmtilegur dagur. Frásagnir af hlaupum dagsins og gærdagsins verða væntanlega komnar inn á www.fjallvegahlaup.is í næstu viku.


Brekkugjá hlaupin í austfirskri blíðu

Hlaupið um Brekkugjá í dag gekk vonum framar, enda veðrið eins og best verður á kosið. Ég lagði upp frá Brekku í Mjóafirði um 2-leytið í fylgd með Norðfirðingnum Pjetri St. Arasyni. Leiðin upp á hæstu hæðina tók rúman klukkutíma (1:01:25 klst.). Þessi spölur er reyndar bara 4,02 km, en innifalin er u.þ.b. 750 m hækkun. Alla vega sýndi GPS-hlaupaúrið 808 m hæð þar sem hæst bar. Leiðin upp var greið, nema hvað efst þar sem farið var um brattar fannir. Þar hefðu keðjurnar komið sér vel. Reynið ekki að fara þarna á blankskóm!

Til að gera langa sögu stutta komum við að endamarkinu við Þórarinsstaði í Seyðisfirði þegar klukkan var 10 mínútur gengin í 5. Þá voru 14,11 km að baki og liðnar 2:10:33 klst. Mjög sáttur við það.

Skrifa meira um þetta síðar, að vanda. Á morgun er það Eskifjarðarheiðin. Leggjum af stað úr Eyvindardal kl. 10.00

Brekkugjá 021web
Þarna sést Pjetur stefna ótrauður upp í Brekkugjá á 3. tímanum í dag. Leiðin upp liggur hægra megin við langa bogna skaflinn lengst til vinstri á myndinni. Þegar upp er komið blasir við nýr hjalli. Þar er betra að fara varlega á bröttum fönnum. Veðrið sést á myndinni.

PS: Hægt er fræðast meira um hlaup dagsins í Svæðisútvarpinu á Austurlandi.


Brekkugjá - framhald

Ég er búinn að setja grunnupplýsingar um leiðina um Brekkugjá inn á www.fjallvegahlaup.is. Þið smellið bara á dagskrártengilinn og afgangurinn skýrir sig sjálfur. Þar er líka komið inn dálítið um Eskifjarðarheiði.

Sem sagt:

  • Brekkugjá á miðvikudag kl. 14.00 frá Brekku í Mjóafirði
  • Eskifjarðarheiði á fimmtudag kl. 10.00 úr Eyvindardal

Svo er bara að vona að veðrið verði gott og Austfjarðaþokan víðs fjarri. Smile


Brekkugjá á miðvikudaginn

Brekkugjá er næst á fjallvegahlaupadagskránni. Ég ætla sem sagt að leggja upp frá Brekku í Mjóafirði á miðvikudaginn (16. júlí) kl. 14.00. Leiðin liggur upp bratta hlíð, sem er vaxin þéttu kjarri neðan til, og upp í gjána sem mér skilst að sé í um 800 m hæð. Þetta er líklega frekar erfiður kafli. Þegar upp er komið taka við aflíðandi brekkur niður Austdal til Seyðisfjarðar. Endamarkið er við Þórarinsstaði.

Ég býst við að þessi leið sé um það bil 14 km, en væntanlega seinfarin. Á gönguleiðakorti er þetta sögð 8 tíma ganga. Býst við að verða allt að 3 tíma á leiðinni og verða kominn að Þórarinsstöðum um kl. 17.00. Á von á því að verða í fylgd með einum eða tveimur öðrum hlaupurum. Gaman væri ef enn fleiri myndu slást í hópinn! Smile

Ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér hvort ég ætti frekar að hlaupa hina leiðina, þ.e.a.s. frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar. En niðurstaðan var sú að halda sig við upphaflega áætlun og hefja leikinn við Brekku. Mér finnst eiginlega betra að ljúka við uppgönguna sem fyrst og geta notið undanhaldsins lengi.

Minni á bráðabirgðavefinn www.fjallvegahlaup.is, en reyndar hefur mér ekki gefist ráðrúm til að setja þar inn neinar ítarlegri upplýsingar um Brekkugjá.

Já, og svo er það Eskifjarðarheiðin daginn eftir, fimmtudag 17. júlí. Reikna með að leggja upp úr Eyvindardal kl. 10.00. Upphafspunkturinn er skammt frá Egilsstöðum. Maður ekur bara sem leið liggur frá Egilsstöðum með stefnu á Fagradal og beygir svo inn á Mjóafjarðarveginn. Ætli rásmarkið sé ekki rúma 5 km frá þeim vegamótum.

Læt fljóta hérna með mynd sem var tekin af mér í hitteðfyrra við skógarhögg á leiðinni upp í Brekkugjá. Það þarf náttúrulega að undirbúa svona hlaup!

brekkugjá skógarhögg 2006 web


Gott framtak hjá Plastprenti

Fréttin um að Plastprent hafi hafið framleiðslu á plastpokum og -filmu úr maíssterkju og öðrum lífbrjótanlegum efnum er önnur tveggja frétta á mbl.is í dag, sem bera þess glöggan vott að til séu frumkvöðlar á Íslandi sem ekki sitja í ólund með hendur í skauti á tímum hækkandi olíuverðs og loftslagsbreytinga, heldur snúa sér strax að því að virkja þau tækifæri sem felast í þeim miklu breytingum sem framundan eru. Hin fréttin er um fyrirhugaða framleiðslu fyrirtækisins Líforku á eldsneyti úr úrgangsfitu.

Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma. Reyndar hafa þau orð kannski alltaf átt við, og teljast því frekar klisjukennd, en ég fer samt ekkert ofan af því að þau eiga betur við núna en nokkru sinni síðustu áratugi. Við erum nefnilega að vakna upp í árdegi nýrrar iðnbyltingar, sem verður að byggjast á öðru en jarðefnaeldsneyti, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

VictoryÞegar dagur rís er um tvo kosti að velja. Annað hvort drífur maður sig fram úr og tekur fullan þátt í að skapa hinn nýja dag og nýtir sér tækifærin sem þar bíða. Eða maður liggur sem fastast úrillur í krumpuðum rúmfötum gærdagsins og leyfir öðrum að skapa framtíðina á meðan. Líforka og Plastprent ætla greinilega að vera í fyrra liðinu. Hér getur maður nefnilega valið lið, alveg eins og í ensku knattspyrnunni. Eini munurinn er sá, að hér veit maður hvort liðið vinnur!


mbl.is Lífbrjótanlegar umbúðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttaskýring BBC um ályktun G8-fundarins

Í framhaldi af umræðum dagsins um ályktun G8-ríkjanna um loftslagsmál o.fl. finnst mér ástæða til að benda á afar vandaða fréttaskýringu BBC frá því í gær:
http://news.bbc.co.uk/2/hi/science/nature/7494891.stm

Útvötnuð yfirlýsing G-8

Ég er sammála því að yfirlýsing leiðtogafundar G-8 ríkjanna sé útvötnuð, en hún felur í sér almennt markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir 2050 til að stöðva loftslagsbreytingar. Þrír augljósustu veikleikar yfirlýsingarinnar eru að mínu mati þessir:

  1. Yfirlýsingin felur ekki í sér nein áfangamarkmið fram til ársins 2050. Það þýðir í reynd að menn gætu frestað aðgerðum til ársins 2049 - og séð svo til.
  2. Markmið um 50% samdrátt í losun þessara ríkja fyrir árið 2050 dugar engan veginn til að stöðva loftslagsbreytingar. Þar þyrfti að koma til a.m.k. 50% samdráttur á heimsvísu miðað við óbreyttan mannfjölda, þannig að heildarlosun fari úr um 4 tonnum á hvert mannsbarn á ári niður í um 2 tonn. Þetta kallar væntanlega á a.m.k. 80% samdrátt í losun iðnríkjanna!
  3. Það er ekki ljóst hvort draga eigi úr losun um helming frá því sem nú er, eða frá því sem var árið 1990. Losunin hefur nefnilega aukist umtalsvert á heimsvísu frá 1990. Það er markleysa að tala um að minnka eitthvað um X% ef maður tilgreinir ekki upphafspunktinn!

Þrátt fyrir þetta ber að fagna því að leiðtogarnir hafi orðið ásáttir um loftslagsbreytingar sem vandamál sem verði að bregðast við. Jafnvel slík yfirlýsing var ekkert sjálfsögð fyrir nokkrum árum.


mbl.is Yfirlýsing G-8 sögð útvötnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

www.fjallvegahlaup.is

Fjallvegahlaupasíðan http://www.fjallvegahlaup.is
er komin í gagnið að vissu marki. Slóðin vísar sem sagt á bráðabirgðavefsíðu með öllum helstu upplýsingum um fjallvegahlaupaverkefnið mitt.

Tveir hlauparar hafa lýst áhuga á að koma með mér um Brekkugjá og Eskifjarðarheiði í næstu viku. Væri ekki bara upplagt að slást í hópinn? Smile


Fjölmörg tennismót biðu ósigur

TennisspaðiERafael Nadal er magnaður tennisleikari. Það var ekki nóg með að hann sigraði Roger Federer í úrslitaleiknum á Wimbledonmótinu á sunnudaginn, heldur sigraði hann líka mótið sjálft. Og ekki nóg með það! Á árinu 2005 sigraði hann fjölmörg tennismót í röð, 81 stykki minnir mig. Og hann hefur líka sigrað fullt af titlum. Sjálfur veit ég ekki mikið um tennis, en ég las þetta allt í 24 stundum í morgun. Án þess að það hafi verið tíundað sérstaklega í blaðinu, þá reikna ég með að Wimbledonmótið, öll hin mótin og allir titlarnir sitji eftir með sárt ennið eftir að hafa tapað fyrir Rafael. Eins gott að hann fari ekki að sigra afrek líka, þá fer maður að rekast á dauðspæld afrek út um allar trissur!

Þetta er sem sagt málfarsnöldursblogg, til að minna á að sögnin að sigra lýtur ekki sömu lögmálum og sögnin að vinna. Maður vinnur úrslitaleiki, mót og titla - já, og jafnvel hlaup, en maður sigrar þau ekki! Málið verður fátækara og flatara ef það tapar svona blæbrigðum, jafnvel þó að þau séu kannski ekki alltaf auðlærð eða rökrétt.


Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband