Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
28.2.2009 | 15:08
Í dagrenningu
Á fögrum morgni skáldin yrkja oft um
unga von við dagsins ljósu brún.
Nú er liðin nótt í Svörtuloftum
og norskur fáni blaktir þar við hún.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2009 | 16:44
Hver er sinnar gæfu smiður
Í tilefni af frétt mbl.is um mikilvægi hreyfingar og hollrar fæðu er ekki úr vegi að rifja upp líkan sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur stuðst við til að útskýra hvaða þættir það eru sem stýra heilsufari fólks.
Samkvæmt líkaninu ræðst heilsa manns að hálfu leyti af eigin lífsstíl, svo sem af mataræði, viðfangsefnum í frítíma, notkun tóbaks, áfengis og fíkniefna, o.s.frv. Umhverfisþættir á heimili, vinnustað og í frítíma hafa 20% vægi og erfðir annað eins. Heilbrigðiskerfið vegur aðeins 10%. Samanlagt eru þeir þættir sem maður stjórnar í aðalatriðum sjálfur sem sagt heil 70% af heildarmyndinni!
Vissulega er menn misvel undir það búnir við fæðingu að takast á við lífið, en í grófum dráttum má þó segja að sú leið sem maður velur sér í lífinu ráði mestu um það hvernig til tekst. Það dugar sem sagt ekki að einblína á góða heilsu og langlífi forfeðranna og ætlast svo til að heilbrigðiskerfið sjái um rest! Hver er sinnar gæfu smiður!
Heimild: Seppo Iso-Ahola: Leisure lifestyle and health. Í Compton, D. M. & Iso-Ahola, S. (Eds.), Leisure & mental health (pp. 42-60). Park City, UT: Family Development Resources, Inc., 1994. Sbr. einnig: Ingemar Norling: Rekreation och psykisk hälsa. Dokumentation och analys av forskning om hur rekreationens inriktning och kvalitet kan förbättra psykisk hälsa och behandlingen av psykisk ohälsa. Sektionen för vårdforskning, Sahlgrenska Universitetssjukhuset, Göteborg, 2001.
(Ath.: Svipuð bloggfærsla birtist upphaflega á gamla blogginu mínu 22. mars 2007, en er sem sagt rifjuð upp hér í tilefni af umræddri frétt. Rétt er að taka fram að ég hef ekki kynnt mér hugsanlegar breytingar sem WHO kann að hafa gert á líkaninu síðan þá).
Hreyfing og hollt fæði í baráttunni við krabbamein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.2.2009 | 17:50
Fjallvegahlaupaáætlun 2009
Eins og alþjóð veit hleyp ég yfir nokkra fjallvegi á sumri hverju, mér til skemmtunar og yndisauka. Ég geri ráð fyrir að allir hafi beðið í ofvæni eftir því að ég opinberaði áform mín um fjallvegahlaup ársins 2009, en það hefur ekki komist í verk fyrr en nú. Fjallvegahlaupaáætlun ársins lítur sem sagt út eins og hér segir, með fyrirvara um smáar og stórar breytingar:
- Maí: Svínaskarð (úr Mosfellsbæ í Kjós) (endanleg dagsetning óákveðin)
- Júní: Tillögur vel þegnar (kannski Vatnsnesfjall)?
- Sunnud.19. júlí: Vesturgatan (almenningshlaup á Vestfjörðum)
- Þriðjud. 21. júlí: Þingmannaheiði (milli Skálmarfjarðar og Vatnsfjarðar)
- Fimmtud. 23. júlí: Miðvörðuheiði (frá Haga á Barðaströnd til Tálknafjarðar)
- Föstud. 24. júlí: Selárdalsheiði (frá Tálknafirði til Selárdals í Arnarfirði)
- Ágúst: Tillögur vel þegnar
Eins og sjá má á þessari upptalningu mun sumarið að öllum líkindum verða helgað Vestfjörðum öðrum landshlutum fremur. Gaman væri að fá félagsskap á þessum ferðalögum. Þeir sem slást í för með mér gera það þó á eigin ábyrgð
Allar nánari upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið mitt er að finna á síðunni www.fjallvegahlaup.is, sem er reyndar afar frumstæð enn sem komið er. Eins og þar kemur fram hef ég lagt 10 fjallvegi að baki og á 40 eftir óhlaupna.
Skóþvengir bundnir á Ólafsfirði við upphaf fyrsta fjallvega-
hlaups síðasta árs. (Ljósm.: Björk)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2009 | 12:04
Tími fyrir blogg?
Ég hef verið næsta ósýnilegur í bloggheimum upp á síðkastið. Ástæðan er sú að ég hef átt annríkt í vinnuheimum, en það eru jú aðrir heimar. Þetta vekur upp vangaveltur um tímaskort. Vantar mig tíma, eða hef ég yfirleitt nógan tíma?
Ég hef nógan tíma! Alla vega hef ég haft nógan tíma hingað til, og býst frekar við að svo verði enn um sinn. Þegar ég fæddist átti ég ekkert nema tíma. Síðan þá hef ég verið að skipta þessum tíma út fyrir eitt og annað annað. Í þeim viðskiptum hef ég kannski stundum veðsett svolitla sneið af tíma morgundagsins, en þegar á heildina er litið hygg ég að tímastaða mín sé bara nokkuð góð, enda losnar nýr skammtur af tíma af bundnum reikningi á hverjum degi.
Ég ræð sjálfur hvernig ég nota hinn úthlutaða tíma. Ákvarðanir mínar um það eru hins vegar misskynsamlegar. Undanfarna daga hef ég valið að nota mikið af hinum úthlutaða tíma til vinnu. Næstu daga er ég að hugsa um að búa til bloggfærslur úr hluta af því sem bætist þá við. Umfjöllunarefnin bíða í hrönnum, ólm að komast á bloggsíðuna, sjálfum mér til ánægju og svölunar - hvað sem öðrum finnst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.2.2009 | 10:20
Fyrirlestur um fjallvegahlaup
Ég var á Akureyri um helgina. Átti þrjú erindi þangað, hvert öðru skemmtilegra og gagnlegra. Eitt þeirra var að halda fyrirlestur um fjallvegahlaupin mín í boði hlaupahópsins Eyrarskokks. Þarna mætti dálítill hópur af áhugasömu og jákvæðu fólki - og úr varð virkilega skemmtileg stund að mér fannst, auk þess sem boðið var upp á prýðisgóða súpu. Í þessu spjalli kynnti ég m.a. lausleg áform mín um fjallvegahlaup á sumri komanda. Býst við að leggja aðaláherslu á Vestfirði þetta árið. Hef ekki tíma til að setja áætlunina inn hér og nú, en stefni að því að birta hana síðar í vikunni - þegar um hægist.
Eins og allir vita er ég búinn að skokka yfir 10 af þeim 50 fjallvegum sem ég ætla að spreyta mig á á næstu árum. Þessar hlaupnu slóðir má greina óljóst á myndinni hér að neðan, sem einmitt er tekinn úr fyrirlestri helgarinnar. (Já, vel á minnst, ég er auðvitað alveg til í að halda fleiri svona fjallvegahlaupafyrirlestra fyrir áhugasamt og jákvætt fólk).
Fjallvegaverkefni SG: Hlaupnir fjallvegir 2007 og 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2009 | 16:14
Loksins verður Árósasamningurinn fullgiltur
Mér þykja það mikil gleðitíðindi að ríkisstjórn Íslands skuli hafa samþykkt tillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur, umhverfisráðherra, um að Árósasamningurinn verði fullgiltur hér á landi. Samningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
Ég hef beðið eftir þessum degi í mörg ár. Hef reyndar aldrei skilið hvers vegna Íslendingar hafa kosið að vera eftirbátar flestra annarra Evrópuþjóða hvað varðar aðgang almennings að upplýsingum og rétt almennings til að hafa áhrif. Skrifaði á sínum tíma (21. september 2007) svolítinn pistil um þetta á gamla bloggið mitt. Myndin sem fylgdi er reyndar horfin, þannig að ég set bara nýjustu útgáfuna aftur inn hér að neðan. Dökkgrænu löndin hafa sem sagt fullgilt samninginn, en þau ljósgrænu hafa bara skrifað undir hann. (Undirskrift hefur enga formlega þýðingu fyrr en viðkomandi þjóðþing hefur fullgilt samninginn). Bláu löndin hafa hvorki skrifað undir né fullgilt og appelsínugulu löndin eru ekki aðilar að UNECE og eiga því enga aðild að málinu. (Grænland er með öðruvísi grænan lit, því að þegar Danir fullgiltu saminginn undanskildu þeir Grænland. Sama gildir reyndar um Færeyjar, en þær sjást ekki á kortinu).
Ég tek undir með framkvæmdastjóra Landverndar: Til hamingju Ísland! (Þessi orð stóðu í efnislínu tölvupósts sem barst félagsmönnum í Landvernd í dag. Ég vona að mér fyrirgefist að vitna í hann með þessum hætti).
Nánari upplýsingar um Árósasamninginn og ákvörðun ríkisstjórnarinnar er að finna á heimasíðu UNECE og á heimasíðu umvherfisráðuneytisins.
Árósasamningurinn verður fullgiltur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2009 | 10:21
Er afsökunarfælni séríslenskt fyrirbæri?
Svonefnd afsökunarfælni (Phopia sorryensins) virðist mjög útbreidd á Íslandi. Lauslegar rannsóknir á þjóðflokknum benda til að þar biðjist helst enginn afsökunar á neinu, nema hafa fyrst verið dæmdur til þess. Hérlendis þykir alla vega ekki tímabært að biðja afsökunar, nema sérstakur saksóknari hafi fyrst rannsakað hvort nokkur ástæða sé til þess. Geir H. Haarde er sko alls ekki einn um þessa fælni, þó að viðtal við hann hafi ýtt mér út í þessi skrif.
Þetta vissi ég í gær eða fyrradag þegar ég sá útundan mér einhverja frétt um að einhverjir bankastjórar hefðu beðist afsökunar. Það fyrsta sem kom í hugann var: Þetta er ekki innlend frétt. Enda reyndist það rétt vera. Sömuleiðis komst ég að því fyrir löngu að Madonna átti ekki við neinn Íslending þegar hún orti kvæðið, sem þessi orð koma fyrir í: Please don't say your'e sorry. [...] I heard it all before.
Geir: Biðst ekki afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.2.2009 | 11:29
Lukkudagur Svantes
Í framhaldi af umræðu á Vinamóti (Snjáldru eða Fésbók) í morgun datt mér í hug að birta eftirfarandi þýðingu á Lukkudegi Svantes eftir Benny Andersen, en þessa þýðingu gerði ég einhvern tímann seint á síðustu öld:
Morgunstund mild og góð!
Mikið er sólin rjóð!
Nína hún brá sér í bað.
Svo borðum við eftir það.
Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.Blánar í berjamó,
bisar þar könguló.
Fuglarnir fljúga hátt
í flokkum um loftið blátt.
Lukkan er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.Grasið er grænt og vott.
Geitungar lifa flott.
Lungun í loftið ná.
Liljurnar anga þá.
Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.Í sturtunni syngur söng
síkát um dægrin löng.
Himinninn hóflega blár.
Og hugurinn skýr og klár.
Lukkan er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.Nú kemur Nína hér.
Nakin og vot hún er.
Kyssir mig fim og fer
fram til að greiða sér.
Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
já og loks er kaffið til.
Sjálfur er ég býsna sáttur við þessa þýðingu, en þó varð ég að játa mig sigraðan þegar kom að Fuglene flyver i flok, når de er mange nok. Ég held að þetta hafi reyndar vafist fyrir fleirum sem hafa spreytt sig á því að þýða þennan skemmtilega texta, en það veit ég að ýmsir hafa gert. Veit að Jón heitinn Björnsson, fyrrum organisti og kórstjóri í Borgarnesi, komst býsna vel frá þessari tilteknu setningu í þýðingunni sinni.
Kvennakórinn Norðurljós á Hólmavík söng mína útgáfu af þýðingunni inn á geisladisk sl. haust í útsetningu Úlriks Ólasonar. Nú geta þeir blogglesendur sem vilja líka sungið þetta við öll hentug tækifæri! (Samt mæli ég nú eiginlega frekar með því að danski textinn sé sunginn, svona til að viðhalda tengslunum við frændþjóðina).
Nánari upplýsingar um geisladisk
Kvennakórsins Norðurljósa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.2.2009 | 00:09
Út að hlaupa 2009 - fyrsti hluti
Hlaupaárið 2009 byrjar bara vel. Alla vega varð janúarmánuður sá lengsti sinnar tegundar, nánar tiltekið 140 km. Janúar í fyrra var bara 116 km, þrátt fyrir að Rómarmaraþonið væri yfirvofandi. Ef ég man rétt þorði ég ekki að hlaupa fyrri part janúar 2008 út af óþægindum í hné. Ákvað svo að hætta að hafa áhyggjur og gera styrktar- og teygjuæfingar í staðinn. Síðan hef ég ekki fundið til í hnjánum.
Fólk er annars alltaf að spyrja mig hvort ég verði ekki slæmur í hnjánum af öllum þessum hlaupum, maður kominn á þennan aldur. Hnén virðast nefnilega há tiltölulega mörgum. Og þá er fólk fljótt að trúa að það sé orðið of gamalt til að hlaupa, eða eitthvað álíka gáfulegt. Einhver sagði einhvern tímann, gott ef það var ekki Trausti Valdimarsson, læknir og ofurhlaupari, að algengustu mistök sem fólk gerði, væri að halda að það væri of eitthvað til einhvers.
Í stuttu máli, þá há hnén mér ekki neitt og hafa aldrei gert, nema þá skamman tíma í einu. Síðast var það sumarið 1995 ef ég man rétt. Í stuttu máli má skipta fólki í tvo hópa eftir hnjám. Í öðrum hópnum er fólk með sködduð hné af einum eða öðrum ástæðum - og í hinum hópnum fólk með ósködduð hné. Í þeim flokki eru miklu fleiri en í þeim fyrrnefnda. Séu hnén ósködduð ættu þau ekki að hindra fólk í því að hlaupa. Reynsla mín bendir til að eymsli í ósködduðum hnjám hlaupara eigi sér tvær mögulegar ástæður öðrum fremur. Annað hvort eru skórnir ekki nógu góðir eða vöðvarnir sem liggja að hnjánum ekki nógu sterkir. Séu hnén ósködduð er ástæðulaust að gefast upp. Styrktaræfingar og teygjur geta leyst býsna mörg vandmál! En ég ætlaði ekkert að skrifa um hné, heldur um hlaupaárið 2009.
Ég sagði í upphafi að árið hefði byrjað bara vel. Reyndar byrjaði það alls ekki vel, heldur með mikilli sorg, þegar einn úr hlauparasamfélaginu, Guðjón Ægir Sigurgeirsson, varð fyrir bíl á morgunhlaupi við Selfoss. Hugsanir um þennan atburð sækja oft á mann á hlaupunum. Eitthvað er öðruvísi en áður - en það eina sem maður getur gert er að hlaupa áfram sína leið og senda kveðjur í huganum til fjölskyldu og vina Guðjóns. Svona er máttur manns lítill. Línan milli lífs og dauða er þynnri en tárum taki. Hverja stund ber að þakka, því að enginn veit hvar og hvort næsta stund rennur upp.
Ég var að hugsa um að skrifa heilmikið um hlaupaáformin mín 2009, en nú langar mig frekar til að gera það seinna. Ætla að snúa mér að einhverju öðru næstu klukkutíma og hlaupa svo hefðbundna 20 km vestur á Mýrar með Ingimundi í fyrramálið. Áformin birtast örugglega á næstu dögum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2009 | 20:08
Ég vil enga STJÓRNMÁLASTÉTT
Mér finnst bara fínt að Sigmundur Ernir vilji komast á þing, og mér er alveg sama hvaða flokkur á í hlut. Hins vegar geðjast mér ekki að orðalagi fréttarinnar, þar sem segir að Sigmundur hafi gengið til liðs við stjórnmálastéttina. Í þessu orðalagi endurspeglast kannski kjarni þess vanda sem við eigum við að glíma, nefnilega þess að stjórnmál voru hætt að felast í umræðu almennings, en þess í stað orðin verkefni einhverrar sérstakrar stéttar.
Ég geri reyndar ráð fyrir að Sigmundur Ernir taki ekki undir það sjálfur að hann sé að ganga til liðs við einhverja stétt. Hann er einfaldlega einn af þessu fjölmarga fólki í landinu sem er ekki sama um allt. Sem betur fer! Nú er tími stjórnmálastéttarinnar liðinn. Við eigum öll að taka afstöðu! Við eigum öll að vera í stjórnmálum!
Ástand síðustu vikna og mánaða kemur hart niður á mörgum, en í ástandinu felast líka tækifæri. Stærsta tækifærið felst í vakningu fólksins. Allt í einu eru næstum allir farnir að tala um stjórnmál. Þannig á það einmitt að vera! Stjórnmál eiga ekki heima í neinni einni stétt!
Sigmundur Ernir í pólitíkina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 145270
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Af mbl.is
Innlent
- Lögreglan fylgist með umferð við kirkjugarða
- Ótrúlegar samsæriskenningar
- Vindhviður allt að 35 m/s
- RÚV vinnur enn að setningu viðmiða
- Keyrði undir áhrifum og próflaus á eftirlýstum bíl
- Áfram hringtorg við JL-hús
- Lyklaskipti í ráðuneytunum
- TF-SIF með lengri viðveru en áður
- Mun innrétta sex íbúðir í Drápuhlíð
- Borgin hefði þurft að breyta aðalskipulagi
- Í kaffi með Vigdísi
- Suðaustan hvassviðri eða stormur í nótt
- Persónuafsláttur hækkar í 68.691 kr.
- Hrikalegt að heyra fréttirnar
- Alvarleg netárás á Wise