Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
31.3.2009 | 22:53
Frábær göngukort af Vestfjörðum
Á dögunum komu út þrjú síðustu göngukortin af Vestfjörðum. Þar með er búið að kortleggja gönguleiðir um fjórðunginn allan. Nýju kortin ná yfir norðurhluta Vestfjarða, allt frá Arnarfirði, norður um Hornstrandir og suður til Steingrímsfjarðar. Áður höfðu komið út fjögur kort með gönguleiðum á syðri hluta Vestfjarðakjálkans ásamt Dalasýslu. Alls eru kortin því orðin 7 talsins.
Ferðamálasamtök Vestfjarða gefa kortin út, og er þetta langviðamesta verkefni sem samtökin hafa ráðist í til þessa. Kortin eru afar skýr og auðveld í notkun, með gps-punktum og öðrum grunnupplýsingum sem eru ómissandi fyrir þá sem leggja upp í göngur og hestaferðir um svæðið. Eins nýtast kortin sérstaklega vel fyrir fjallvegahlaupara, sem nú hafa betri tækifæri en nokkru sinni fyrr til að skipuleggja skemmtilega fjallvegahlaup vestra!
Gönguleiðakort Ferðamálasamtaka Vestfjarða verða seld á öllum helstu ferðamannastöðum á svæðinu. Auðveldasta og fljótlegasta leiðin til að nálgast þau liggur þó vafalítið um netverslun Strandagaldurs. Slóðina er auðvelt að muna. Hún er einfaldlega www.strandir.is/gongukort.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2009 | 09:21
Er „klíka“ góð þýðing á „Major Economies Forum“?
Obama stofnar loftslagsklíku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.3.2009 | 18:04
ESB má bíða
Ég er í sjálfu sér sammála Jóhönnu Sigurðardóttur um að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla hafi lítinn tilgang þegar þjóðin veit ekki hvað í boði er með aðild að Evrópusambandinu. Á þessu stigi finnst mér þó minnstu máli skipta hvort kosið er einu sinni eða oftar. Við þurfum einfaldlega að vinna heimavinnuna okkar áður en við getum byrjað að tala um ESB-aðild að neinu viti.
Aðildarviðræður snúast um samninga. Og við höfum einfaldlega enga samningsstöðu eins og nú er ástatt fyrir okkur. Það er ekki vænlegt til árangurs að koma skríðandi að samningaborði. Kannski hefðum við átt að vera komin þarna inn fyrir löngu, en úr því sem komið er eigum við þann kost einan að slá málinu á frest, hvort sem við erum í hjarta okkar með eða á móti aðild.
Öðru hef ég furðað mig mjög á í allri þessari Evrópuumræðu. Það er hversu litla tilburði menn hafa sýnt til að rýna í framtíð ESB. Það er engu líkara en að menn haldi að ESB muni standa óbreytt um ókomin ár. En þannig verður það ekki. Sambandið er í stöðugri þróun. Við getum jafnvel vænst þess að sambandið verði orðið töluvert öðruvísi en það er í dag áður en 5-10 ár eru liðin, hvað þá ef skyggnst er 15-20 ár fram í tímann. Við munum sem sagt aldrei ganga inn í ESB dagsins í dag. Við munum í fyrsta lagi ganga inn í ESB morgundagsins. Umræðan um aðild verður þess vegna að taka mið af bestu spám um það hvernig ESB muni líta út þegar að hugsanlegri aðild kemur - og á næstu áratugum þar á eftir!
Það er erfitt spá, bæði um framtíð Íslands og ESB. En hvorugt mun standa í stað! Augljósustu breytingarnar á ESB tengjast stækkun sambandsins til suðausturs. Þjóðir Vestur-Evrópu munu smám saman fá minna vægi innan sambansins, en vægi þjóða sunnar og austar í álfunni mun aukast. Um leið og þungamiðja sambandsins færist til suðausturs mun ásýnd þess og menning breytast. Ríki á Balkanskaga fá vaxandi vægi, svo ekki sé nú talað um þau áhrif sem hugsanleg aðild Tyrklands myndi hafa.
Við komumst ekkert hjá því að vinna heimavinnuna okkar. ESB má bíða, eða verður öllu heldur að bíða, þangað til sú vinna er komin vel á veg. Og við skulum heldur ekki gera þau mistök að halda að þegar við verðum tilbúin til inngöngu verði Evrópusambandið eins og það er í dag. Við lifum á tímum örra breytinga!
Tvöföld atkvæðagreiðsla tilgangslítil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.3.2009 | 13:15
Ég hef nógan tíma!
Á dögunum var ég á dálitlu málþingi utan landsteinanna, þar sem fólk kvartaði mikið undan tímaskorti. Í tilefni af því vil ég taka fram að ég hef nógan tíma! Ég fékk nefnilega helling af tíma í vöggugjöf. Þessum tíma get ég skipt út fyrir hvaðeina sem mig langar í, svo sem samveru með fjölskyldu og vinum, hlaup og aðra útiveru, leikhúsferðir, bækur, skraut og bíla, svo eitthvað sé nefnt. Til hægðarauka notast ég reyndar oft við millistigið peninga. Peninga get ég fengið í skiptum fyrir tíma. Það er kallað að vinna.
Ég hef sem sagt nógan tíma. Spurningin er bara hvað ég kýs að fá í skiptum fyrir hann! Ég hef frjálst val um það! Þetta snýst sem sagt bara um forgangsröðun. Það er hreinlega ekki sæmandi að kvarta um tímaskort, hafandi fengið þessa ríkulegu vöggugjöf!
Ég veit reyndar ekki nákvæmlega hversu stór vöggugjöfin var. En líklega var hún um 696.020 klukkustundir, miðað við meðalævilengd íslenskra karlmanna (79,4 ár). Einhvern tímann gengur sjóðurinn til þurrðar, en það væri hrein tímasóun að velta því fyrir sér hvenær það muni gerast. Þangað til á ég nóg! Nú er bara að njóta ríkidæmisins og skipta því ekki út fyrir neitt sem er fánýtt og leiðinlegt!
Eins og þið hafið kannski tekið eftir hef ég ekki bloggað síðustu 10 dagana. Það er ekki vegna þess að ég hafi ekki haft tíma til þess, heldur vegna hins að ég kaus að nota tímann í annað.
Ég mæli eindregið með að áhugafólk um tímann lesi bókina Tíu þankar um tímann eftir Bodil Jönsson. Ég er svo heppinn að góður vinur minn skipti einu sinni hluta af sínum tíma út fyrir þessa bók og gaf mér. Kannski segi ég ykkur meira frá þessari bók seinna, kannski spyrjið þið mig út í hana, eða kannski kaupið þið hana einhvers staðar ef hún er ekki uppseld. Þið megið þá alveg kippa með ykkur bókinni Í tíma og ótíma eftir sama höfund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2009 | 09:11
Páfinn og smokkurinn
Það er nú fínt að páfinn ætli að vera svona góður við Afríku og vefja hana örmum. Hann má líka alveg útskýra fyrir afrískum ungdómi hvers vegna hann mæli með skírlífi fremur en smokkum til að hefta útbreiðslu HIV-veirunnar, bara ef hann bætir því við að með tilliti til raunverulegra aðstæðna, takmarkaðs ákvörðunarréttar kvenna o.fl., telji hann samt rétt að ungir Afríkubúar hafi greiðan aðgang að smokkum, helst ókeypis, því að þegar allt komi til alls þá sé það líklega skásta leiðin til að hægja á útbreiðslu HIV og fækka ótímabærum og óumbeðnum barneignum, náttúrulega að viðbættu öflugu fræðsluátaki, þar sem megináherslan er á menntun ungra kvenna. Og á leiðinni þarna suður eftir í flugvélinni ætti páfinn endilega að lesa bókina More: Population, Nature, and What Women Want eftir Robert Engelman, þó ekki væri nema samantektina.
Fari páfinn ekki að þessum ráðleggingum mínum, sem eru hér með gerðar opinberar svo að þær fari nú örugglega ekki framhjá honum, heldur kaþólska kirkjan áfram að vera einn helsti þrándur í götu markvissrar umræðu um fólksfjölgun og fátækt í þróunarlöndunum! Orð páfans hafa nefnilega áhrif. Í þeirri staðreynd felast bæði miklar ógnir og mikil tækifæri. Gríptu nú tækifærið Benedikt!
Páfinn vefur örmum sínum um Afríku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
15.3.2009 | 16:20
Tryggir ógnun öryggi?
Hvort skyldi vera betri leið til að stuðla að eigin öryggi; að hafa í hótunum við fólk eða vingast við það? Ég held að vinsamlegri leiðin sé betri. Auðvitað verða aldrei allir vinir manns. Jafnvel viðhlægjendur eru ekki endilega vinir. En það er alveg óþarfi að búa til óvini úr öllum sem ekki eru vinir manns. Bush og Cheney voru heimsmeistarar í því, enda var það meðvituð stefna þeirra. (Þeir sem ekki eru með okkur, eru á móti okkur). Mikill léttir er að vera laus við þessa drauga fortíðar úr stýrishúsi Bandaríkjanna.
Málið snýst ekki um að tryggja öryggi, enda er það ekki hægt. Málið snýst um að hámarka líkurnar á öryggi. Leiðin til þess er ekki að ráðast á aðra í fyrirbyggjandi skyni eins og þeir félagar Georg, Dick, Davíð og Halldór töldu affarasælast. Leiðin til þess er heldur ekki að smíða ótal kjarnorkusprengjur og rúnta svo með þær í kafbátum undir yfirborði heimshafanna - og banna svo öðrum að gera slíkt hið sama.
Gagnrýni Dikka er enn ein vísbendingin um að Barack Obama sé á réttri leið. Mér hefði liðið verulega illa ef þessi gaur hefði hrósað utanríkisstefnu núverandi Bandaríkjaforseta.
Bandaríkin berskjaldaðri undir Obama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2009 | 14:23
Út að hlaupa aðeins lengra
Ég hef verið frekar reglusamur í hlaupunum í vetur. Hef yfirleitt hlaupið þrisvar í viku, samtals um 40 km. Tel það svona hæfilegan viðhaldsskammt. Þetta hefur oftast gengið eftir, en einstaka vikur hafa þó orðið styttri af ýmsum ástæðum. Stundum þarf maður líka að vinna og svoleiðis.
En núna þegar vorið nálgast, þarf maður að fara að setja sér markmið fyrir sumarið. Ég er reyndar búinn að leggja drög að fjallvegahlaupaáætlun sumarsins fyrir nokkru, eins og dyggir lesendur bloggsíðunnar minnar vita náttúrulega. En mér finnst skemmtilegt að krydda fjallvegahlaupin með þátttöku í einstökum götuhlaupum líka, og nú er einmitt orðið tímabært að velta þeim aðeins fyrir sér.
Helst vil ég t.d. taka svo sem eitt maraþonhlaup á ári. Reyndar vill svo skemmtilega til að á morgun er einmitt liðið eitt ár frá því síðasta, en það var Rómarmaraþonið sællar minningar. Þetta árið er stefnan hins vegar ekki sett út fyrir landsteinana, enda eitthvað minni utanlandsferðahugur í manni en stundum áður. Nei, núna er Akureyri málið! Þar verður hlaupið maraþon 11. júlí nk. í tengslum við Landsmót UMFÍ. Það hefur alla burði til að verða verulega skemmtilegt hlaup.
En þá er spurningin hvort maður eigi kannski að taka svo sem eitt upphitunarmaraþon áður. Í því sambandi líst mér einna best á Vormaraþon Félags maraþonhlaupara, sem haldið verður á degi umhverfisins 25. apríl nk. Það verður sko í nógu að snúast þann daginn. Á ekki eitthvað að kjósa líka þennan dag?
Hmmm, ef ég ætla í Vormaraþonið, þá þarf ég líklega að fara að láta hendur standa fram úr ermum, já eða kannski fætur fram úr skálmum. Það eru bara 6 vikur til stefnu - og það er ekki farsælt að skella sér beint í maraþon úr einhverri 40 km vikulegri viðhaldsþjálfun. Til að þetta geti gengið nokkurn veginn slysalaust fyrir sig þarf ég að gera a.m.k. tvennt: Bæta fjórða hlaupadeginum inn í vikuna og lengja helgarhlaupið. Flesta laugardaga í vetur höfum við Ingimundur Grétarsson hlaupið svonefndan Háfslækjarhring, sem er um 21,5 km þegar hlaupið er að heiman frá mér og heim. Tókum einmitt 13. Háfslækjarhring vetrarins í morgun á milli élja. (Já, ég veit vel að það er sunnudagur en ekki laugardagur. Stundum missir maður bara tök á regluseminni). Auðvitað er auðvelt að lengja hringinn með hæfilegum útúrdúrum. Það gerði ég einmitt í morgun og náði þannig 24,8 km. Ef ég næ vikuskammtinum upp í 60 km, þar af svo sem 34 km lengsta laugardaginn, þá þori ég alveg í þonið á kjördag. Margir þurfa jú að leggja meira á sig vegna þess dags en ég!
Jæja, við sjáum til með þetta. Ég er enn ekki ákveðinn. Eða, ég er öllu heldur ákveðinn í að vera ákveðinn. Ég er bara ekki búinn að ákveða hvenær ég byrja á því. Framundan er mikil vinnutörn með töluverðum ferðalögum, þ.m.t. Reykjavík, Egilsstaðir, Stykkishólmur og Kaupmannahöfn á næstu 7 dögum. Mér hefur yfirleitt reynst erfitt að halda dampi í hlaupunum á slíkum tímum.
Kannski finnst einhverjum mikið að hlaupa 60 km í viku. En þetta er allt afstætt. Ég sá í hlaupadagbókinni áðan að Gunnlaugur Júlísson kláraði 54 km í morgun, fyrir hádegi.
Með svona sjálfhverfri færslu er alveg nauðsynlegt að hafa svo sem eina sjálfsmynd. Þessi var tekin við Colosseum við upphaf Rómarmaraþonsins fyrir ári síðan. Ég er þessi myndarlegi í rauða hlírabolnum, og fáum skrefum aftar má greina Ingimund, enn myndarlegri í gulum hlírabol með sólgleraugu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2009 | 12:58
Maðkar eru kannski ekki verstir
Sagan um maðkana í nammibarnum er trúlega ein af þessum mögnuðu flökkusögnum sem kemst á kreik með dularfullum hætti, og hver étur svo gagnrýnislaust upp eftir öðrum, enda heimildarmaðurinn oftast ólyginn. Svona sögur eru rannsóknarefni út af fyrir sig, enda hafa þær verið rannsakaðar og skrifuð um þær a.m.k. ein bók, (Rakel Pálsdóttir (2001): Kötturinn í örbylgjuofninum og fleiri flökkusagnir úr samtímanum).
En hvað sem segja má um maðka í nammibörum, þá mættu foreldrar alveg velta fyrir sér hollustu annarra efna sem þar er að finna, áður en þau halda börnum sínum þar til beitar á laugardögum. Líklega hafa litarefni, rotvarnarefni, sætuefni og ýmis önnur efni í nammibaranamminu fátt umfram maðka hvað hollustu varðar.
Engin kvörtun um maðka í nammibar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2009 | 13:34
Talnaskynið í mér er stórskemmt!
Það er óþarfi að blogga mikið um áhrif kreppunnar á fjárhag ríkisins, heimila og fyrirtækja. Fréttin um rúmlega 10.000.000.000.000 króna tap norska olíusjóðsins leiðir hins vegar hugann að aukaverkunum kreppunnar, sem eru jú margvíslegar.
Ein af neikvæðu aukaverkununum sem ég finn hastarlega fyrir, eru þær nær óbætanlegu skemmdir sem hafa orðið á talnaskyninu í mér. Ég skil ágætlega hvað átt er við þegar talað er um 633 þúsund krónur. Strax og talan er komin í 633 milljónir fer talnaskynið að dofna. Ég veit reyndar að ein milljón er þúsund þúsundkallar. Það finnst mér vera alveg slatti af peningum. En ég á frekar erfitt með að ímynda mér 633 svoleiðis búnt. Þegar menn byrja svo að tala í milljörðum fer þetta fyrst að versna verulega. Líklega finnst mér milljón og milljarður bara vera nokkurn veginn það saman. Eða..., nei, sko, ég veit alveg hvað milljón er. Og svo þarf ég bara að hugsa mér 1.000 skjalatöskur með einni milljón í hverri, þá er kominn milljarður. Ef ég hugsa mér svo að öllum þessum 1.000 skjalatöskum sé staflað inn á eina skrifstofu, þá er þetta aftur orðið svolítið viðráðanlegt. Síðan þarf ég bara að hugsa mér 633 svoleiðis skrifstofur - og þá er ég kominn með yfirsýn yfir allt tap norska olíusjóðsins, en bara í norskum krónum. Þá á ég enn eftir að hugsa mér rúmlega 16 skrifstofubyggingar með 633 skrifstofum í hverri, með 1.000 skjalatöskum í hverri skrifstofu með milljón kall í hverri skjalatösku, til að vera loksins kominn með rétta tölu í íslenskum krónum, nefnilega 10.224.849.000.000 íslenskar krónur miðað við opinbert gengi Seðlabankans í dag. HJÁLP!
En kreppan hefur líka jákvæðar aukaverkanir. Mér hefur t.d. farið stórlega fram í landafræði síðustu vikurnar. Hugsið ykkur bara fáfræðina: Fyrir svo sem mánuði vissi ég ekki einu sinni að Tortola væri til! Núna veit ég meira að segja nokkurn veginn hvar Tortola er - og að þar búa fleiri en á Akureyri! Og ég veit líka að þetta er eyja, sem er 19 km löng og 5 km breið! Líklega dugar hringvegurinn (hljóta þeir ekki að vera með svoleiðis) í heilt maraþonhlaup.
Tap norska olíusjóðsins 633 milljarðar norskra króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.3.2009 | 10:24
Vorvísa
Menn og konur kreppulegar
klóra sér í hupp.
En sjálfsagt hverfur sorgin þegar
sólin kemur upp.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt