Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Viljum við framtíðarsýn?

Það var hressandi eins og oft áður að fylgjast með Silfri Egils í gær. Það var m.a. hressandi að heyra Guðmund Ólafsson tala um tækifærin sem felast í núverandi ástandi. En mest hressandi fannst mér þó viðtalið við Guðjón Má Guðjónsson frá Hugmyndaráðuneytinu, því að þar var einmitt verið að tala um það sem máli skiptir; framtíðina!

Vændishugsunarháttur?
Mér finnast Íslendingar hafa verið ótrúlega tregir til að tala um framtíðina. Það er eins og flestir telji slæmt að móta sér stefnu eða hafa einhverja framtíðarsýn, því að þá kunni maður að missa af einhverjum tækifærum. Þetta hef ég stundum kallað „vændishugsunarhátt“, því að hugmyndin á bak við þetta allt saman virðist vera sú að maður eigi að grípa þau færi sem gefast til stundargróða, burtséð frá því hvaða óbeina kostnað þessi gróði hafi í för með sér fyrir náttúru, samfélag eða eigin ímynd. Ég hef sem sagt oft furðað mig á því hve þjóðin hefur lítið lært á síðustu 115 árum, þ.e.a.s. síðan hún fékk þessa ábendingu frá Þorvaldi Thoroddsen:

Því miður eimir eftir sums staðar af hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður er stórskaði öldum og óbornum.

Þetta skrifaði Þorvaldur í Ferðabók IV 1894 eftir ferð um Múlasýslur.

Sjö ára gömul sannfæring
Eins og ég nefndi í bloggfærslu 2. febrúar sl., hef ég frá því í árslok 2001 „verið algjörlega sannfærður, hverja einustu stund, um að Ísland geti markað sér sess sem fyrirmynd annarra þjóða á sviði sjálfbærrar þróunar, þ.e.a.s. þróunar sem tryggir jafnrétti á milli núverandi og komandi kynslóða, þróunar sem er gerð til að endast“. Og enn gildir það sama og 2. febrúar, að „þeir sem vilja vera slík fyrirmynd mega ekki umgangast jörðina eins og hún sé fyrirtæki í gjaldþrotaskiptum“, svo vitnað sé í Herman Daly.

Hvað gerðist 2001?
Haustið 2001 var ég staddur í Stafangri í Noregi ásamt nokkrum öðrum Íslendingum. Þar sátum við norska ráðstefnu um sjálfbæra þróun, undir yfirskriftinni Synergi-21. Þarna talaði m.a. auglýsingafrömuðurinn Ingebrigt Steen Jensen. Hann hélt því fram að ekkert land í heimi ætti jafngóða möguleika og Noregur á því að verða fyrirmynd annarra í sjálfbærri þróun. Ég var hér um bil sammála þessum manni, en áttaði mig þó strax á því að líklega væri Noregur bara í öðru sæti hvað þessa möguleika varðaði, því að Ísland stæði enn betur að vígi. Ég skrifaði eitthvað um þetta í 6. tbl. Sveitarstjórnarmála 2001, eins og sjá má á vefsíðum Staðardagskrár 21 á Íslandi. Seinna hef ég nefnt þetta í þónokkrum fyrirlestrum, fyrst líklega á Staðardagskrárráðstefnu á Kirkjubæjarklaustri í mars 2003. Ég hef hins vegar aldrei fengið nein viðbrögð við þessum vangaveltum.

Klaustur03
Glæra úr fyrirlestrinum á Kirkjubæjarklaustri í mars 2003 - margsinnis
endurnýtt síðar. (Þarna var Comis Sans letrið enn í tísku). :-)

Framtíðarsýn
Þjóð sem ætlar að vera í fararbroddi á einhverju sviði getur ekki látið sér nægja að taka því sem að höndum ber, eða með öðrum orðum að leyfa öðrum að skipuleggja framtíðina á meðan þjóðin sýslar við eitthvað annað. Til þess að geta verið í fararbroddi þarf nefnilega framtíðarsýn, nákvæmlega eins og Guðjón Már kom inn á í gær. Menn þurfa að vita hvert þeir ætla, því að annars er hætta á að þeir lendi einhvers staðar annars staðar, eins og einhver orðaði það. En þetta er ekkert auðvelt! Þetta kallar nefnilega á að menn ræði um ýmislegt sem er óþægilegt. Það þarf t.d. að ræða hvernig eigi að ganga um auðlindirnar. Til hvers á að nota orkuna? Hvernig á að stýra fiskveiðum? Með hvaða veiðarfærum á að sækja fiskinn? Á að fjárfesta í olíuvinnslu og stóriðju, eða einhverju öðru. Þjóðin þarf sem sagt að hætta að vera opin fyrir öllu - og velja í staðinn aðeins það besta, eftir bestu getu. Það þarf meira að segja stundum að þora að segja nei.

Drekasvæðið
Umræðan um olíuvinnslu á Drekasvæðinu er gott dæmi um vangaveltur sem hljóta að koma upp við mótun framtíðarsýnar fyrir Ísland. Það getur nefnilega vel verið að Kolbrún Halldórsdóttir hafi haft rétt fyrir sér þegar hún lét að því liggja að kannski ættu Íslendingar bara alls ekkert að fara út í olíuvinnslu. Kannski passar sú vinnsla ekki inn í framtíðarsýnina, því að kannski verður kjarninn í þessari framtíðarsýn einmitt sá, að Ísland ætli að verða fyrsta land í heimi sem er algjörlega óháð jarðefnaeldsneyti. Í því myndi felast að Ísland yrði sýnidæmi um það hvernig hægt sé að leysa ákveðið vandamál. Ef maður ætlar sjálfur að vera lausnin, þá er ekki endilega hagstætt að vera um leið hluti af vandamálinu! Eins og ég nefndi í bloggfærslu 4. september 2008, þá er ég reyndar ekkert viss um að ég myndi þora að leggja til friðun Drekasvæðisins ef ég væri stjórnmálamaður. En hugsanlega liggja meiri tækifæri í því fyrir Íslendinga í efnahagslegu tilliti að vinna ekki olíu heldur en í því að vinna hana. Þetta er alla vega hluti af því sem menn þurfa að þora að ræða, því að ekki dugar „að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn“, alla vega ekki ef þjóðin vill hafa lifibrauð af því að vera fyrirmynd annarra þjóða!

Til hvers á að nota orkuna?
Það til hvers við eigum að nota orkuna er eitt allra brýnasta umræðuefnið við mótun framtíðarsýnarinnar. Ef við drífum okkur að helga auðveldustu og hagkvæmustu virkjunarkostina erlendri frumvinnslu til langs tíma, þá verður augljóslega mun erfiðara en ella að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti. Við þurfum nefnilega orku til að knýja bíla, skip og flugvélar. Og það er ekki hægt að nota sömu orkuna tvisvar. Mér finnst reyndar hálfleiðinlegt að fylgjast með þróun mála í löndunum í kringum okkur, þar sem hvert svæðið og hvert landið af öðru gerir stóra samninga við bílaframleiðendur um prófun rafbíla í þúsundatali og þróun innviða fyrir slíka bíla, á meðan hérlendir ráðherrar virðast láta sér nægja að tala fallega í ræðum um ný tækifæri í samgöngum - og láta svo taka myndir af sér undir stýri á „bíl framtíðarinnar“ sem fluttur var inn í einu eintaki af sérstöku tilefni. Og síðan ekki söguna meir!

Fjárfestingarsamningar
Eitt af því sem þarf að ræða þegar framtíðarsýnin er mótuð, er það hvernig stjórnvöld ætla að styðja við nýsköpun. Jú jú, auðvitað er alltaf verið að ræða það. En samt finnst mér stundum að stuðningur við sprotafyrirtæki af ýmsu tagi felist aðallega í fallegu umtali og verðlaunaveitingum á tyllidögum. En á sama tíma eru gerðir fjárfestingasamningar við stórfyrirtæki í afar hefðbundnum greinum, um skattaafslætti og aðrar ívilnanir langt fram í tímann. Eru það ekki þvert á móti einmitt sprotafyrirtækin sem þurfa mest á slíkri fyrirgreiðslu að halda? Það eru jú að öllum líkindum einhver þeirra sem munu leiða okkur inn í framtíðina. Þar leynast með öðrum orðum hugmyndir sem geta skapað okkur þá sérstöðu sem getur gefið okkur forskot á aðrar þjóðir - ef við kærum okkur á annað borð eitthvað um svoleiðis. Ekki spyrja mig samt hvaða hugmyndir það verða nákvæmlega sem munu blómstra mest, okkur öllum til hagsbóta. Ef ég vissi svarið, þá væri þetta ekki nýsköpun!!!!!

Sýningargluggi nýrra tíma
Eitt af því sem Guðjón Már nefndi í Silfrinu, var að Ísland gæti orðið nokkurs konar tilraunastöð fyrir nýjar lausnir. Þarna liggur einmitt að mínu mati hinn mikli efnahagslegi ábati sem falist getur í því að verða fyrirmynd annarra þjóða. Hér er auðvitað verið að tala um tilraunastöð í jákvæðri merkingu, þ.e.a.s. að hér séu kjöraðstæður til að prófa lausnir á ýmsum sviðum, hvort sem þær snúast t.d. um að gera bíla- og fiskiskipaflotann óháðan jarðefnaeldsneyti, eða um að reka sjálfstætt hagkerfi, jafnvel með eigin gjaldmiðil. Hér er ekki verið að tala um tilraunir sem óprúttnum aðilum kann að detta í hug að gera á fávísri og fámennri þjóð sem liggur vel við höggi. Við þurfum sem sagt sjálf að velja og hafna - ekki síður hafna! Í þessu sambandi bendi ég á fyrirlestur sem Leo nokkur Christensen, atvinnumálafulltrúi á Lálandi í Danmörku, hélt á 11. landsráðstefnunni um Staðardagskrá 21, sem haldin var í Stykkishólmi í mars sl. Á einum áratug hefur Láland brotist úr því að vera fátækasta svæðið í Danmörku, með mesta atvinnuleysið, í að vera uppgangssvæði sem er með minnsta atvinnuleysið í landinu og vekur athygli víða um heim fyrir frumkvæði sitt. Þangað koma t.d. fulltrúar 200-300 erlendra sjónvarpsstöðva í tengslum við loftslagsfundinn í Kaupmannahöfn í desember nk., einmitt til að sjá hvað menn hafa verið að sýsla þarna með nýjar hugmyndir. Kjarninn í þessu endurreisnarstarfi á Lálandi er verkefnið „Community Testing Facility (Lolland CTF)“, sem gengur einmitt út á að gera Láland að tilraunastöð eins og þeirri sem hér hefur verið lýst. Þar hafa menn búið til aðstæður sem gera fyrirtækjum kleift að taka hugmyndir sínar út úr rannsóknarstofunum og prófa þær í tiltekinn tíma við raunverulegar aðstæður. „En við þorum líka að segja nei við hugmyndum sem okkur líka ekki“, eins og Leo orðaði það. Hann sá auðvitað strax í hendi sér að á Íslandi væru frábær tækifæri til atvinnusköpunar í þessum anda, einmitt vegna þess hversu góðir innviðirnir eru, orkan ódýr, boðleiðirnar stuttar, menntunarstigið hátt, sveigjanleikinn mikill - o.s.frv.

Fljótsbakki framtíðarinnar
Það er hressandi að heyra í fólki sem vill horfa fram á veginn - og gerir sér grein fyrir því að það er ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálið var búið til. Eins og ég hef skrifað um nokkrum sinnum áður, þá erum við eiginlega stödd úti í fljóti, sem við duttum út í á síðasta ári. Margir virðast líta á það sem eina bjargráðið að láta draga sig aftur upp á bakkann sem við duttum af, jafnvel þó að í björgunarsveitinni sé sama fólkið og hrinti okkur út í. En tilfellið er að leiðin yfir fljótið er sú eina sem getur fært okkur betri tíma. Fortíðin er liðin, og í henni fáum við ekki þrifist lengi, jafnvel þó að okkur takist að framlengja hana eitthvað. Eina leiðin inn í betri tíma er leiðin yfir fljótið, upp á fljótsbakka framtíðarinnar. Framtíðarsýnin er leiðarvísirinn okkar þangað!


Út að hlaupa um þessar mundir

Apríl varð svolítið skrykkjótur hlaupamánuður. Missti eiginlega viku úr fyrir klaufaskap, og reyndi að bæta það upp með lengri hlaupum. Það hefur bæði kosti og galla. Það er auðvelt að ofgera sér ef maður hlustar ekki á líkamann. En þetta slapp nú allt saman og mér tókst að ná 200 kílómetra mánuði, sem er reyndar sjaldgæft í hlaupasögu minni. Ég er nefnilega ekki einn af þeim sem hlaupa hvað mest. Í afar samviskusamlegu hlaupabókhaldi mínu síðustu 24 ár er bara að finna 4 mánuði lengri en nýliðinn aprílmánuð. Lengst fór ég í febrúar 2008, 249 km, en næstlengst í júlí 1996, 238 km.

Þetta með hlaupavegalengdir er mjög afstætt. Eftir því sem næst verður komist lagði a.m.k. 101 Íslendingur meira en 200 km að baki á hlaupum í apríl. Fyrir marga þeirra er þetta helst til lítill mánaðarskammtur, en fyrir flesta aðra líklega nánast óhugsandi. Þetta er einmitt einn af stóru kostunum við hlaupin. Þar geta hér um bil allir verið með - á eigin forsendum. Þetta snýst allt um að setja sér markmið, og ná því, til að geta sett sér nýtt markmið. Næsta markmið getur verið að hlaupa í eina mínútu án hvíldar, eða hlaupa 50 maraþon á 50 dögum, eða eitthvað þar á milli. Glíma við hófleg markmið við eigin hæfi er ekki bara holl, heldur lykillinn að framförum, ekki bara á hlaupum, heldur líka í öðrum hlutum lífsins. Og alls staðar gildir, að verðlaunin fyrir að ná markmiðinu felast í að hafa náð því. Það gefur gleði, sem maður á ekki aðgang að í sama mæli láti maður bara reka án þess að ætla sér eitthvað sérstakt.

Nú styttist í fjallvegahlaupavertíðina, bara tæpar 3 vikur í fyrsta hlaup, Svínaskarð milli Mosfellsdals og Kjósar. Til þess að mér líði þokkalega vel á þeirri leið þarf ég að þétta æfingarnar dálítið næstu vikur. Hef yfirleitt hlaupið þrisvar í viku síðan í vetrarbyrjun, en nú eru 4 æfingar algjört lágmark. Þetta á nefnilega að vera gaman, en það er það ekki nema líkaminn sé í því standi sem hugurinn ætlar honum.

Ég hef aðeins verið að gæla við þá hugmynd að fara í Mývatnsmaraþonið 30. maí. Finnst ég þurfa að hlaupa maraþon annað slagið til að fá staðfestingu á ástandinu. Þetta snýst líka um félagslega þætti, að hitta aðra sem eru að fást við eitthvað svipað, að upplifa stemmingu og gefa og þiggja dálitla aukaskammta af gleði, þó að gleðin leynist nú svo sem við hvert fótmál hversdagsins.

Sjáum til með Mývatn. Fyrst er að styrkja sig aðeins betur - og svo er það Svínaskarð. Veit um a.m.k. tvo sem ætla með. Vonast eftir fleirum. Skrifa meira um þetta fljótlega........


Gleymdi þessum kínalífselexír

Æ, ég gleymdi þessum kínalífselexír þegar ég skrifaði um töfralausnir um daginn. Hefði átt að hafa hydroxycut með á listanum, af því að þetta er svo nýleg allrameinabót. Fréttin um hugsanlega skaðsemi er hins vegar engin stórfrétt, því að fleiri slíkar hafa heyrst. Ekkert vil ég samt fullyrða um skaðsemina, heldur bara minna á að sýna varúð, ekki síst þegar eigin líkami á í hlut.

Í tilefni af þessu á ég tvö góð ráð til handa lesendum:

  1. Borðið venjulegan íslenskan mat, helst sem minnst unninn og hættið að trúa á töfralausnir í töflu- eða duftformi.
  2. Ekki fá ykkur hydroxycut. Fáið ykkur heldur venjulegan kött. LoL

mbl.is Varað við hydroxycut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband