Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Orð dagsins 10 ára

Agenda21 smallHinn stórmerki, þaulreyndi, öflugi og áreiðanlegi umhverfisfréttamiðill „Orð dagsins“ fagnar 10 ára afmæli sínu um helgina. Í tilefni af því er landsmönnum öllum boðið að líta við á síðunni http://www.samband.is/dagskra21 og skoða allt það sem „Orðin“ hafa frætt þjóðina um á 10 ára ferli sínum með 1.495 hnitmiðuðum fróðleikspunktum.

Hvað sagði Robert Costanza í gær?

Robert_CostanzaÍ gær brá ég mér til höfuðborgarinnar á fyrirlestur Roberts Costanza í Háskóla Íslands, enda tilefnið ærið. Í þessum pistli ætla ég að velta fyrir mér fáeinum atriðum sem komu fram í fyrirlestrinum.

Hver er þessi Róbert?
Ég hygg að á engan sé hallað þótt því sé haldið fram að Robert Costanza sé einn þeirra manna sem hafa haft hvað mest áhrif á umhverfisumræðuna á heimsvísu síðustu tvo áratugi. Þekktastur er hann fyrir útreikninga sína á verðmæti þeirrar þjónustu sem vistkerfi heimsins veita okkur, alveg ókeypis (e: Ecosystem Services). Þeir útreikningar bentu til að verðmæti þessarar þjónustu væri nær tvöfalt hærra en samanlögð þjóðarframleiðsla allra þjóða, eins og hún er venjulega mæld! Um leið gefur þetta vísbendingu um hversu miklu við töpum ef við göngum um of á vistkerfin og skerðum þannig möguleika þeirra á að veita þessa þjónustu.

Hvað er „þjónusta vistkerfa“?
Þegar talað er um þjónustu vistkerfa er átt við hverja þá þjónustu sem vistkerfi heimsins veita okkur, okkur að kostnaðarlausu, svo sem með hreinsun vatns, bindingu koltvísýrings, framleiðslu matvæla, skjóli, flóðavörnum o.s.frv. Nánari skýringar á þessu hugtaki er m.a. að finna í sérstöku upplýsingablaði á vef Umhverfisstofnunar

Nokkur orð um framtíðina
Fyrirlestur Roberts Costanza í gær bar yfirskriftina Using the global recession as an opportunity to create a sustainable and desirable future, eða Hvernig nýta má heimskreppuna sem tækifæri til að skapa sjálfbæra og ákjósanlega framtíð. Robert hóf þessa umræðu m.a. með því að vitna í orð einhvers manns sem sagði, að ef við næðum ekki að skilja fortíðina, þá værum við dæmd til að endurtaka hana. Mér finnast þessi orð reyndar vera ágæt áminning til þeirra sem eiga sér þá ósk heitasta að árið 2007 komi aftur. Tilfellið er nefnilega, eins og Þorvaldur Örn Árnason benti á í ágætri grein í Mogganum á dögunum, að það var líka kreppa hjá okkur árið 2007. Það var bara öðruvísi kreppa en við glímum við núna! Þessa fortíð vil ég ekki láta dæma okkur til að endurtaka.

Heildarhyggja
Mér fannst kjarninn í boðskap Roberts Costanza vera, að til þess að komast klakklaust inn í framtíðina þurfi að skoða hlutina í samhengi í stað þess að einblína á einstakar lausnir eða einstakar fræðigreinar, eins og mönnum er tamt að gera, enda eru kannski flestir menn sérfræðingar á þröngu sviði, sem „vita allt um ekki neitt“, eins og einhver orðaði það.

Hagfræðingar
Líklega hafa hagfræðingar verið teknir allt of alvarlega í umræðu síðustu ára. Hafi eitthvert verkefni verið talið hagkvæmt út frá hagfræðilegu sjónarmiði, þá hafa menn bara kýlt á það án þess svo mikið sem gera tilraun til að líta á málið í víðara samhengi. Með þessu er ég engan veginn að gera lítið úr hagfræðingum. Þeir eru bráðnauðsynlegur hluti af teyminu sem við þurfum á að halda. Það gengur bara ekki að þeir séu einir í þessu teymi. Reyndar sagði Robert einn hagfræðibrandara í fyrirlestrinum: „Eina fólkið sem hegðar sér eins og hagfræðilíkön gera ráð fyrir, eru hagfræðingar“. (Sjálfur er hann visthagfræðingur, þannig að hann veit alveg hvað klukkan slær).

Verg landsframleiðsla (GDP)
Robert Costanza lagði áherslu á það í fyrirlestrinum hversu takmarkaður mælikvarði „verg landsframleiðsla“ (GDP) væri á velgengni þjóða. Stórslys og aukin glæpatíðni hækka t.d. GDP, enda þótt slíkt sé augljóslega ekki gott fyrir viðkomandi þjóð. Þeir sem nota GDP sem eina mælikvarðann, eins og mönnum hefur reyndar verið tamt að gera, eru í svipaðri stöðu og flugmaður sem flýgur Boing-þotu án þess að líta nokkurn tímann á nokkurn mæli nema hæðarmælinn. Reyndar hafa menn árum saman reynt að finna aðra mælikvarða, sem sátt gæti náðst um. En það verkefni er ekkert auðvelt, enda krefst slík sátt þess að menn brjótist út úr þeim úrelta hugsanagangi sem leitt hefur okkur í þær ógöngur sem við erum nú í. Robert nefndi nokkra slíka mælikvarða í fyrirlestrinum, svo sem Genuine Progress Indicator (GPI), Index of sustainable econmic welfare (ISEW) og Human Development Index (HDI). Þeir sem vilja kynna sér þessa mælikvarða nánar geta auðveldlega nálgast upplýsingar um þá á netinu.

Ferns konar auður
Til að komast áleiðis inn í framtíðina verðum við að átta okkur á því að það er ekki nóg að eiga fjárhagslegar innstæður. Robert Costanza talaði í fyrirlestrinum um ferns konar auð, sem er nauðsynlegur til að halda uppi mannvænu hagkerfi, (hér verð ég að biðjast velvirðingar á fátæklegum þýðingum mínum):

  • Byggður auður (e: Built capital)
  • Mannauður (e: Human capital)
  • Félagsauður (e. Social capital)
  • Náttúruauður (e. Natural capital)

Þegar dæmið er reiknað og lagt á ráðin um hvert halda skuli, verðum við að taka allar þessar tegundir auðs með í reikninginn. Við megum t.d. ekki telja okkur afrakstur náttúrunnar til tekna ef hann er umfram það sem náttúran þolir, því að þá erum við farin að ganga á innstæðuna. Og það er heldur ekkert víst að hægt sé að skipta einni tegund af höfuðstól út fyrir aðra. 

Í grein Roberts Costanza frá árinu 2006, The Real Economy, er að finna ágæta umræðu um þetta.

Hvað á Ísland að gera?
Eins og í öllum svona fyrirlestrum fékk fyrirlesarinn náttúrulega spurningar úr sal um það hvað Íslendingar ættu til bragðs að taka. Þó að við svoleiðis spurningum sé aldrei til neitt eitt einfalt og rétt svar, þá gerði Robert sitt besta til að benda á leiðir. Hann ráðlagði Íslendingum sem sagt að setja í gang ferli til að búa til sameiginlega framtíðarsýn fyrir landið. Í þessu ferli þyrftu allir landsmenn að taka þátt. Spurningin sem hver og einn þyrfti að svara væri þessi: „Hvernig vilt þú að Ísland verði eftir (t.d.) 20 ár“? Í þessu sambandi hvatti hann til að við kynntum okkur svipað ferli sem nú væri í gangi á Nýja-Sjálandi. Hann benti líka á að lýðræði væri sniðugt fyrirbæri, sem við ættum endilega að nota. :)

Vendipunkturinn
Robert bað fundargesti að giska á hversu stórt hlutfall Bandaríkjamanna væru orðnir það sem kallað er „Cultural creators“, þ.e.a.s. fólk sem er tilbúið að taka virkan þátt í að skapa nýja og betri framtíð. Einhver giskaði á 5%. Hið rétta er að rannsóknir benda til að nú megi flokka um 30% Bandaríkjamanna í þennan flokk. Robert benti á að e.t.v. værum við að nálgast einhvern vendipunkt, sem verður um leið og nægjanlega stór hluti einhvers hóps hefur tileinkað sér nýjan hugsunarhátt. Útilokað sé að spá fyrir um hvenær slík umskipti verði. Þannig virtist Berlínarmúrinn falla á einni nóttu, en í raun höfðu forsendurnar orðið til smátt og smátt, steinþegjandi og hljóðalaust, þangað til vendipunktinum var allt í einu náð. Á sama hátt gætu stórar breytingar verið í nánd hvað varðar lífsstíl og áherslur almennings.

„Solution“
Robert Costanza fer fyrir hópi manna sem er að undirbúa útgáfu á nýju alþjóðlegu tímariti um sjálfbæra og ákjósanlega framtíð. Tímaritið hefur fengið nafnið „Solution“, og fengu fundarmenn einmitt að skoða fyrsta sýniseintakið af því í gær. Robert verður sem sagt aðalritstjóri, en með honum í liði eru nokkrir af kunnustu höfundum samtímans á sviði umhverfismála. Þar má m.a. nefna aðstoðarritstjórann Paul Hawken, sem heimsótti Ísland síðasta vetur (sjá bloggfærslu mína frá 14. des. 2008) og ritstjórnarmennina Lester Brown, Herman Daly, Tom Lovejoy og Hunter Lovins. Mér er til efs að nokkurn tímann hafi jafn margir framherjar í umhverfisgeiranum sameinað krafta sína. Hægt er að fylgjast með tilurð tímaritsins á http://www.thesolutionsjournal.com.

Lokaorð
Hér læt ég staðar numið í þessari sundurlausu samantekt. Ég vil undirstrika það, að þetta er alls engin endursögn af fyrirlestri Roberts, heldur hef ég gripið niður hér og þar og blandað eigin vangaveltum saman við. Hafi einhver fræðst við lesturinn er tilganginum náð.

Ung amerísk kona, sem var stödd á fyrirlestrinum í gær, lagði til að við myndum hætta að einblína á ýmis mistök sem aðrir hefðu vissulega gert, og átta okkur þess í stað á því að við stöndum frammi fyrir sameiginlegu verkefni sem við þurfum öll að eiga þátt í að leysa. Það er nefnilega þannig, að það eru ekki bara einhverjir tilteknir aðilar í samfélaginu sem eiga að taka fyrsta skrefið, heldur þurfa allir aðilar að vinna samtímis. Við eigum t.d. ekkert endilega að bíða eftir því að stjórnvöld geri eitthvað, að atvinnulífið geri eitthvað, að skólakerfið geri eitthvað, eða yfirhöfuð að einhver annar geri eitthvað. Viðfangsefnið er hér og nú - og ég þarf strax að gera það sem ég get til að leysa úr því, um leið og allir hinir gera sitt besta. Biðin er á enda!

(PS: Ég held að Robert Costanza verði í Kastljósi RÚV í kvöld)


163. besti maraþonhlauparinn

Mér finnst mikið til um eigin hlaupaafrek, eins og glöggir lesendur kunna að hafa tekið eftir. Ég er t.d. ákaflega stoltur af því að vera nú kominn í 163. sætið á lista Félags maraþonhlaupara yfir bestu maraþonhlaupara Íslandssögunnar. Er sem sagt búinn að hækka mig um 169 sæti síðan í vor, en þá var ég í 332. sæti. Akureyrarmaraþonið fleytti mér upp um tæp 80 sæti, og síðasta laugardag tókst mér að klifra rúmlega annað eins.

En ég er nú ekki bara ánægður með sjálfan mig, heldur ekki síður með Ingimund Grétarsson, hlaupafélaga minn. Hann hljóp sig á einu bretti úr 333. sæti upp í 196. sæti á þessari sömu skrá núna á laugardaginn. Það eru hátt í 140 sæti í einu skrefi ef svo má segja. Fyrir svo sem 6 árum hefði hann haft töluvert fyrir því að hlaupa 42 metra, en nú hleypur hann 42 km eins og ekkert sé, og bætir sig ár frá ári. Saga hans er gott dæmi um þann árangur sem fólk getur náð, jafnvel fólk sem heldur að það geti ekki neitt, sé orðið of gamalt eða of eitthvað annað til að nokkur von sé um framfarir á nokkru sviði.

Og hvernig fer maður svo að því að vera í stöðugri framför í maraþonhlaupi, þó að maður sé kominn á sextugsaldurinn? Svarið er í aðalatriðum einfalt: Maður setur sér markmið og hefur trú og þolinmæði til að ná því, jafnvel þó að maður sé hálflúinn að loknum vinnudegi, þó að úti sé aðeins of kalt og þó að stundum líði vikur og mánuðir án þess að maður sjái nokkra framför.

Birna G. Konráðsdóttir tók þessa fallegu mynd af okkur félögunum á útmánuðum 2008. Hún segir svo sem sína sögu.

SGhlauphélaweb


VIÐ eigum tæki sem Litlagulahænan á kannski ekki

SementspokiÉg er algjörlega sammála sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherranum um að tryggja þurfi framtíð íslenskrar sementsframleiðslu. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því, að leiðin að því markmiði kann að vera þyrnum stráð, þar sem við þurfum jú að virða íslenskar og alþjóðlegar reglur um samkeppni á markaði. Það er með öðrum orðum ekkert augljóst hvernig ríkisstjórnin getur gripið inn í málið með beinum hætti.

En meðan við veltum því fyrir okkur hvað ríkið geti gert í málinu væri kannski ráð að við litum okkur nær hvert og eitt, hvort sem við erum bara einstaklingar eða líka fulltrúar fyrirtækja, stofnana eða samtaka. Hvers konar þjóð er það eiginlega sem situr með hendur í skauti á meðan atvinnutækifærin leka úr landi? Hvers konar Litluguluhænusamfélagi lifum við eiginlega í? Er ríkisstjórnin kannski einhver lítil gul hæna sem á að gera allt, hvort sem hún hefur tækin til þess eða ekki, á meðan við segjum „ekki ég“ hvert í kapp við annað?

VIÐ, hvert og eitt, hvort sem við erum bara einstaklingar eða líka fulltrúar fyrirtækja, stofnana eða samtaka, eigum einfaldlega að kaupa íslenskt sement í staðinn fyrir innflutt á meðan ástandið í landinu okkar er eins og það er! VIÐ þurfum ekkert að bíða eftir því að ríkisstjórnin finni þau tæki sem henni er heimilt að beita. VIÐ höfum val. VIÐ eigum ekki að leyfa okkur að spila á fiðlu á meðan Róm brennur og beðið er eftir því að ríkisstjórnin eða litla gula hænan komi með stóra slökkvibílinn, sem er reyndar ekkert víst að komist að eldinum. VIÐ eigum öll okkar litlu vatnsfötur, sem eru tilbúnar til notkunar núna strax! VIÐ erum ekki stikkfrí.

Og þetta á ekki bara við um sement! Það er kominn tími til að þjóðin taki höndum saman til að verja íslenska framleiðslu - og um leið afkomumöguleika eigin barna. Okkar tími er kominn. Annars fer illa.


mbl.is Segja að ríkisstjórnin verði að verja Sementsverksmiðjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur bæting í maraþonhlaupi

Skellti mér í Reykjavíkurmaraþonið í morgun. Ákvað reyndar í byrjun júní að nota þessi helgi í annað, en þessu einhverju öðru var svo aflýst í fyrrakvöld, þannig að þá var bara að drífa sig. Skráði mig náttúrulega í heilt maraþon og sagði öllum sem spurðu, að mér finndist ekki taka því að leggja af stað fyrir minna, sem er náttúrlega bæði lygi og gorgeir. Til að gera langa sögu stuttu, þá gekk þetta hlaup langt framar allra björtustu vonum, og þegar upp var staðið hafði ég bætt minn besta árangur til þessa um næstum 9 mínútur. Hef verið í sælulosti síðan.

Yfirleitt ákveður maður með löngum fyrirvara að hlaupa maraþon, þ.e.a.s. miklu lengri fyrirvara en sem nemur einum og hálfum sólarhring. Ofast snýst þetta um einhverja mánuði. En ég hljóp jú síðast maraþon á Akureyri um miðjan júlí, og hef reyndar hlaupið töluvert síðan þá, þó að næsta maraþonhlaup hafi ekki verið í sjónmáli fyrr en allt í einu núna. Ég var sem sagt þokkalega undirbúinn, þó að ég hafi ekki undirbúið mig neitt. Væntingarnar voru líka eftir því, sem sagt ekki neinar sérstakar. Reyndar fann ég engin rök fyrir því að þetta hlaup ætti að þurfa að taka lengri tíma en maraþonið á Akureyri, sem ég lauk á 3:26 klst, sem var 7 mínútna bæting á persónulega metinu mínu frá því í Róm í mars 2008. Ákvað því að leggja þetta upp með svipuðum hætti og þá, þ.e. að reyna að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:50 mín hvern um sig - og sjá svo til hversu lengi ég entist, eða með öðrum orðum: Að brosa eins lengi og stætt væri, og halda svo áfram að brosa eftir það. Í heildina hugsaði ég þetta nokkurn veginn svona:

Lengsti ásættanlegi tími: 3:31 klst. (5:00 mín/km)
Eðlilegur árangur:  3:26 klst. (eins og á Akureyri)
Óskastaða:  3:24 klst. (4:50 mín/km)
Villtasti draumur:  3:20 klst.

Tók daginn snemma. Vaknaði þremur tímum fyrir hlaup að vísra manna ráði, nánar tiltekið kl 5.40, fékk mér vel útilátinn morgunmat og var kominn til höfuðborgarinnar um 8-leytið. Þar hitti ég m.a. fyrir Ingimund Grétarsson, hlaupafélaga minn síðustu 100 laugardaga eða svo, og Guðmann Elísson, stórhlaupara, en saman skipum við ásamt fjórða manni hina harðsnúnu hlaupasveit Gleðisveit Guðmanns. Í grennd við rásmarkið rakst ég líka á margt annað fólk sem gaman var að hitta. Hitaði upp með nokkur hundruð metra skokki og léttum hraðaæfingum, og svo var farið í stuttbuxurnar og hlírabolinn og rokið af stað úr Lækjargötunni þegar fjármálaráðherrann hleypti af startbyssunni stundvíslega kl. 8.40.

Ingimundur fór mjög geyst af stað, svo geyst að ég var í vafa um hvort ég gæti nokkuð fylgt honum eftir. Þetta var sko ekkert "4:50 tempó", heldur meira svona 4:40 eða jafnvel enn hraðar. Vildi þó ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana og reyndi því að láta sem ekkert væri. Fyrstu 5 km voru á 23:42 mín, sem var reyndar hálfri mínútu lakara en á Akureyri, þannig að þetta var svo sem alveg mögulegt. Mér fannst okkur miða afar vel og hver kílómetraskiltið af öðru rann hjá. Reyndar dvaldist mér gjarnan dálítið við drykkjarstöðvarnar og þurfti þá að hafa töluvert fyrir því að ná Ingimundi aftur, sérstaklega eftir 10 km markið, en þá tók það mig á annan kílómetra að ná honum. Spjallaði líka aðeins við annað skemmtilegt fólk á leiðinni. Það er jú eitt af því góða við svona fjölmenn hlaup, að maður hittir marga sem maður kannast við. Reyndar höfðum við Ingimundur það á orði, að þetta væri svo sem ekkert öðruvísi en hver annar laugardagsmorgunn hjá okkur, nema hvað við hlypum svolítið hraðar og það væri miklu fleira fólk á ferli. :)

Inni í Laugardal var hlaupið hálfnað, hálft maraþon að baki sem sagt. Klukkan sýndi 1:38:58 klst, sem var enn bara svipaður tími og á Akureyri, 10 sek. betri kannski. Við félagarnir vorum enn fisléttir í spori að eigin mati. Þetta var alla vega allt miklu léttara en fyrir tveimur árum þegar ég hljóp síðast heilt maraþon í Reykjavík, sem gekk nú samt bara ágætlega. Enn mátti ég hafa mig allan við við að halda í við Ingimund, hann var klárlega leiðandi fyrri hluta hlaupsins. Eftir 25 km, eða þegar við vorum komnir í grennd við Víkingsheimilið í Fossvogi, var sem ég fengi einhvern aukakraft, ekki ósvipað því sem ég upplifði á Akureyri. Fór þá að síga fram úr Ingimundi, og síðan hverjum hlauparanum af öðrum. Sá líka á hlaupaúrinu að hraðinn dugði oft á tíðum til að klára kílómetrann á rúmlega 4:20 mín. Leið sérlega vel á leiðinni vestur Fossvoginn og vestur fyrir Reykjavíkurflugvöll, enda sólarglæta á þessum kafla og svolítill meðvindur. Annars var vindur svo sem ekkert til trafala í hlaupinu, hitinn eitthvað rúmlega 10 stig og skúrir annað slagið. Millitíminn á 30 km kom mér mjög á óvart; 2:20:00 klst. Hafði þá hlaupið síðustu 10 km á 46 mín, sem var langt umfram það sem ég bjóst við þetta seint í hlaupinu. Var enda kominn einar 4 mín fram úr Akureyrartímanum. Annars velti ég tímanum ekkert sérstaklega fyrir mér. Ég var ekki undir neinum þrýstingi, þar sem markmiðið voru jú laus í sér. Mér leið bara vel og fannst að ég gæti hlaupið hratt - lengi.

Á fjórða kílómetratugnum var ég farinn að gera mér grein fyrir því að ég hlyti að bæta Akureyrartímann minn, þ.e.a.s. ef ekkert óvænt kæmi upp á. Man reyndar ekki eftir svoleiðis uppákomum á hlaupaferlinum hingað til. Ákvað að taka tímann á 37 km. Var nefnilega viss um að þaðan kæmist ég í mark á 31 mín, nánast hvað sem á gengi. Ég varð því kampakátur þegar ég leit á klukkuna eftir 37 km og sá að hún sýndi 2:52 mín. Það þýddi að lokatíminn gæti varla orðið lakari en 3:23 klst. Það fannst mér bara alveg stórkostlegt. Auk heldur fann ég ekkert sérstaklega fyrir þreytu, þó að fæturnir væru eitthvað farnir að láta vita af sér. Og kílómetraskiltin héldu áfram að birtast með stuttu millibili, að mér fannst. Ekki minnkaði heldur brosið þegar 40 km voru að baki og klukkan sýndi 3:07 klst. Þá reiknaðist mér til að jafnvel villtasti draumurinn um 3:20 klst. hlyti að rætast, því að ég má vera orðin heldur slappur ef 2,2 km hafast ekki á 13 mínútum. Hugurinn var því fullur af fögnuði þegar ég skokkaði inn í Lækjargötuna, vitandi að ég væri að stórbæta minn fyrri árangur. Og allt varð þetta enn betra þegar ég sá klukkuna í markinu rétt vera að komast í 3:17. Lokatíminn var svo 3:17:15 eftir minni klukku, sem sagt langt framar björtustu vonum og villtustu draumum - og næstum því 9 mínútna bæting frá Akureyrarhlaupinu. Framförin á árinu er þá farin að nálgast 16 mínútur, sem mér finnst afar ástættanlegt miðað við aldur og fyrri störf. Sjötta og besta maraþonhlaupið mitt var að baki. Og mér til mikillar ánægju kláraði ég þetta á "öfugu splitti". Seinna hálfa maraþonið var sem sagt á ívið betri tíma en það fyrra (1:39+1:38), rétt eins og í Róm 2008. :)

Eins og ég nefndi áðan fór ég að síga fram úr Ingimundi við 25 km markið. Hann var þó aldrei langt á eftir og kláraði hlaupið á glæsilegum tíma, 3:20:30 klst, sem var hvorki meira né minna en rúmlega 12 mínútna bæting - hreint ótrúlegar framfarir!

Lokaorð mín eru þessi: Líðan manns í maraþonhlaupi ræðst mest af því hvernig maður hugsar. Það er sem sagt "ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det", eins og gömul norsk kona sagði einu sinni. Maður þarf að setja sér markmið í samræmi við það sem á undan er gengið. Helst þarf að hanna markmiðin þannig að maður verði ekki fyrir vonbrigðum. Ef það tekst getur maður notið þess að hlaupa sem sigurvegari, jafnvel þó að nokkur hundruð manns fari fram úr manni á leiðinni. Þetta á að vera gaman - og það var það svo sannarlega í morgun - fyrir mig. :)


Spellvirki spilla

Byggcr100Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er rætt um það tjón sem spellvirkjar geta valdið þeim sem berjast fyrir málstað með friðsamlegum málflutningi og faglegum rökum. Tilefnið er skemmdarverk sem unnið var á dögunum á tilraunareit líftæknifyrirtækisins Orfs austur í Gunnarsholti, en þar var hafin afar umdeild tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi utandyra.

Ég er einn þeirra sem hafa miklar efasemdir um ræktun á erfðabreyttum lífverum utandyra, eins og m.a. má lesa í greinargerð sem ég sendi Umhverfisstofnun um þetta tiltekna verkefni í maí sl. Hins vegar tek ég heilshugar undir fordæmingu leiðarahöfundar Morgunblaðsins á umræddu skemmdarverki. Aðgerð sem þessi spillir fyrir þeim stóra hópi fólks sem hefur reynt að andæfa og benda á áhættuna sem fylgir ræktun sem þessari. Skemmdarverk eiga engan rétt á sér, alveg sama hver málstaðurinn er. Ég fordæmi háttalag af þessu tagi og vona í lengstu lög að allir þeir sem láta þessi mál sig einhverju varða, sýni þá lágmarksskynsemi og prúðmennsku að beita sér innan þess ramma sem samfélag okkar hefur valið sér með lýðræðislegum hætti. Þetta er gert með opinni umræðu, skrifum, fræðslu, athugasemdum, kærum og öðrum þeim aðferðum sem samfélagið hefur orðið ásátt um. Þannig geta þeir sem eru ósáttir við ákvörðun Umhverfisstofnunar um að leyfa umrædda ræktun, kært þá ákvörðun til umhverfisráðherra innan þriggja mánaða frá því að ákvörðunin var tilkynnt, þ.e. í síðasta lagi 22. september nk. Leyfi, hversu illa ígrunduð sem þau kunna að vera, verða ekki afturkölluð með ofbeldi.

Þó að ég sé í aðalatriðum alveg sammála leiðarahöfundi Morgunblaðsins, þá finnst mér að hann eða hún hefði mátt sleppa því að tala um að áhættan af umræddri ræktun væri ekki vísindalega sönnuð. Það skiptir í fyrsta lagi engu máli í umræðunni um umrætt skemmdarverk, og í öðru lagi eru það engin rök í málinu yfirleitt. Til þess að leyfa megi ræktun sem þessa þurfa menn nefnilega að sanna skaðleysið. Það er ekki nóg að skaðsemin hafi ekki verið sönnuð, alla vega ekki ef fulltrúar Íslands og flestra annarra þjóða meintu eitthvað með því sem þeir samþykktu í Ríó 1992, þ.m.t. Varúðarreglunni.

Skemmdarverkið í Gunnarsholti vekur líka upp nýjar spurningar: Voru spellvirkjarnir kannski að ná sér í erfðabreytt bygg til að dreifa sem víðast um náttúru Íslands? Vildu þeir kannski bara láta líta svo út sem þeir hefðu verið að eyðileggja umræddan reit? Hver verndar okkur hin fyrir slíku tjóni? Getur hver sem er valsað þarna um óáreittur?


Blandaður úrgangur eykur vandann

Sjálfsagt er alltaf gaman að fá nýtt dót, en ný tækni sem „gerir kleift að birta myndskeið í venjulegum prentuðum blöðum“ er dæmi um dót sem ég vil helst að ég og aðrir jarðarbúar verði lausir við sem lengst. Um leið og svona dóti er bætt inn í venjulegt prentað blað er nefnilega búið að koma því til leiðar að venjulega prentaða blaðið verður að blönduðum úrgangi þegar það hefur lokið hlutverki sínu, í stað þess að verða bara að pappírsúrgangi.

Rafhlaðan sem fylgir hverju svona blaði þarf í sjálfu sér ekkert endilega að vera baneitruð, en hún gerir það engu að síður að verkum, ásamt þeim smáhlutum úr málmum, kísil og öðrum efnum sem henni þurfa að fylgja, að blaðið verður óhæft til endurvinnslu, nema að aukadótið sé fyrst aðskilið frá pappírnum. Um leið er þetta náttúrulega alveg óþörf sóun á efnum sem sum hver ganga til þurrðar fyrr en varir, og hefðu betur verið nýtt í þarfari vörur.

Mér finnst vera nóg rugl í gangi á þessu sviði nú þegar, þó að þetta bætist ekki við. Mér finnst meira en nógu slæmt að einhverjum skyldi detta í hug að klína einhverju rafeindadóti, þ.m.t. rafhlöðum, inn í bækur, afmæliskort og barnaskó. Eða halda menn að þetta auki lífsgæði okkar og hamingju?


mbl.is Myndskeið brátt birt í blöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bolt og Bekele saman í 800 m?

Þeirri hugmynd var velt upp í Berlín í gær hvort langmestu hlauparar samtímans, þeir Usain Bolt og Kenenisa Bekele, myndu kannski einhvern tímann mætast á miðri leið - ef svo má segja - og reyna með sér í 800 metra hlaupi. Það gæti nú orðið frekar skemmtilegur viðburður fyrir frjálsíþróttaunnendur.

Ótrúlegt heimsmet Usain Bolt í 100 metra hlaupi (9,58 sek) hefur varla farið fram hjá neinum, og eflaust hafa líka margir hrifist af glæsilegri frammistöðu Kenenisa Bekele í 10.000 metra hlaupinu í fyrrakvöld, þar sem hann landaði 4. heimsmeistaratitlinum í röð (2003, 2005, 2007 og 2009) og fetaði þar með í fótspor fyrirmyndarinnar, Haile Gebrselassie sem varð heimsmeistari árin 1993, 1995, 1997 og 1999. Eftir hlaupið í fyrrakvöld var Bekele fyrst spurður hver væri besti tími hans í 100 m hlaupi. Svarið var 11,0 sek. Síðan var hann spurður hvor þeirra myndi vinna, hann eða Usain Bolt, ef þeir myndu reyna með sér í 800 m hlaupi. Bekele sagðist örugglega myndu vinna, og jafnframt að hann væri alveg til í að láta á það reyna.

Sem sagt: Það væri ekkert leiðinlegt að fá úr þessu skorið.

Já, en það var þetta með Usain Bolt. Ég held að það hafi ekki komið fram í Mogganum í morgun, en þessi drengur hefur náð hraða upp á rúmlega 44 km/klst í hröðustu sprettunum. Norska sjónvarpið gerði þessu einmitt skemmtileg skil núna eitt kvöldið í vikunni með því að sýna bíl sem ók á þessum hraða - og nefna í leiðinni hversu háa sekt maður þyrfti að borga í miðborg Oslóar fyrir svoleiðis glæfraakstur, þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst. Þeir sem hafa gaman af tölfræði frjálsra íþrótta staðnæmast líka gjarnan við tímann sem Usain Bolt náði í 200 m hlaupi meðan hann var enn 14 ára: 21,73 sek! Ég segi bara eins og Sigurbjörn Árni í fyrra: „Hvað getur hann gert!?“ Ég velti líka fyrir mér hvað gerist þegar Kenenisa Bekele færir sig upp í maraþonhlaupið...


mbl.is „Held ég stoppi við 9,4“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlaupið kringum Skorradalsvatn

Í morgun (laugardagsmorgun) hlupum við Ingimundur Grétarsson í kringum Skorradalsvatn. Þetta hafði staðið til um nokkurt skeið, en ekki komist í verk fyrr en núna. Mig minnir að það hafi verið Guðjón Sigþór Jensson sem benti mér upphaflega á hversu upplögð hlaupaleið þetta væri. Það sama hefur borið á góma í samtölum Ingimundar við heimamenn í dalnum. Reyndar hafði Ingimundur sjálfur bæði búsetu og atvinnu í Skorradal fyrr á árum - og þekkir þar a.m.k. aðra hvora þúfu. Ég fékk því gríðarmikla og góða fræðslu á þessu morgunskokki.

Ágæti hlaupaleiðarinnar kringum Skorradalsvatn hafði síst verið orðum aukið. Þetta er bókstaflega alveg frábær hlaupaleið, hafi maður á annað borð tíma og úthald í svoleiðis verkefni. Ekki spillti veðrið heldur fyrir. Þegar við lögðum í hann um 7-leytið var sólskin í dalnum og 7 stiga hiti. Svo hélt sólin áfram að skína langleiðina, og hitastigið hækkaði jafnt og þétt. Held það hafi verið farið að nálgast 17 gráður þegar við lokuðum hringnum stuttu fyrir kl. 11.

Við völdum að fara réttsælis um vatnið, þ.e.a.s. inn með því að norðanverðu og út að sunnanverðu. Vegurinn að norðanverðu er sléttur og hlaupavænn, og skógurinn gefur bæði skjól og góða lykt. Mér kom eiginlega á óvart að sjá hversu mikið er þarna af beinvöxnum og háum trjám. Á köflum fannst mér ég vera kominn á skandinavíska skógargötu. Það eina sem vantaði voru könglar og sniglar á veginum. Reyndar sakna ég ekki sniglanna!

Eftir að komið er inn fyrir vatnið tekur hrjóstrugri vegur við, enda varla hægt að tala um bílveg á því svæði, sérstaklega ekki innst með vatninu að sunnanverðu. Þarna er slóðin víða býsna gróf, en um leið verður leiðin jú fjölbreyttari og meira gefandi fyrir fætur í þjálfun. Þessi kafli nær eiginlega út að Stóru-Drageyri, þar sem vegurinn kemur niður af Draganum. Eftir það er undirlagið fremur tilbreytingalaust, bara venjulegur malarvegur, sem sjálfsagt getur rykast úr umfram óskir hlaupara. Rykið var þó ekki til trafala fyrir okkur, enda umferð sáralítil á þessum tíma dags, jafnvel á verslunarmannahelginni. En nógur var þurrkurinn; næstum allar sprænur þurrar.

Þetta verður örugglega ekki síðasta ferðin okkar kringum Skorradalsvatn. Spái því að fleiri eigi eftir að gleðjast á hlaupum á þessari leið. Svona rétt til gamans ætla ég að smella hérna inn yfirlitskorti af leiðinni, sem ég fékk að láni af kortavef ja.is. Eins og þar mætti sjá, ef myndin væri ekki svona rosalega lítil, er leiðin öll rétt um 39 km.

Skorradalsvatn web

Best að leyfa hæðarritinu úr gps-tækinu að fljóta með líka. Maður fer líklega úr svona 70 metrum upp í 150 metra við Dagverðarnes, en að öðru leyti er þetta tiltölulega slétt.

Skorradalsvatn hæð web


Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband