Færsluflokkur: Bloggar
9.9.2008 | 13:03
Konurnar taka við
Það sem vekur mesta athygli í skýrslu OECD í íslensku samhengi er ekki það að Ísland skuli vera með hæst nettó útskriftarhlutfall í háskólanámi, heldur hitt að hvergi í OECD ríkjunum er meiri munur á útskriftarhlutfalli karla og kvenna. Útskriftarhlutfallið á Íslandi er sem sagt 86,5% hjá konum og 40,2% hjá körlum. Gaman er að velta fyrir sér hvaða þýðingu þetta getur haft til lengri tíma litið.
Ég held að á næstu 10-20 árum muni konur taka við körlum sem ráðandi einstaklingar í stjórnun fyrirtækja á Íslandi og í áhrifastöðum í samfélaginu yfirleitt. OECD-skýrslan er ekki fyrsta vísbendingin um þetta, heldur nægir að líta í kringum sig og velta fyrir sér mismunandi gengi kynjanna á fyrri skólastigum. Hvert ætli sé t.d. hlutfall stráka meðal þeirra sem skara fram úr í framhaldsskólanámi? Ég held að við séum að missa strákana okkar inn í heim tölvuleikja og félagslegrar einangrunar, aðallega vegna þess að við nennum ekki að tala við þá. Á meðan þessu fer fram halda stelpurnar sínu striki og þroska áhuga sinn og færni.
Þetta er ekki alslæm þróun. Þvert á móti er það mikið tilhlökkunarefni að sjá áhrif kvenna vaxa í samfélaginu. Það er alveg kominn tími á breytingar! En við þurfum nú samt að sinna strákunum okkar!
![]() |
Fleiri ljúka námi á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2008 | 22:49
Nú tókst það, 42:32
Í gær reyndi ég öðru sinni á stuttum tíma að hlaupa 10 km undir 43:27 mín, en eins og alþjóð veit hefur það verið mitt æðsta takmark síðasta árið, þ.e.a.s. allt frá því að Pétur Pétursson minnti mig á að hann hefði hlaupið 10 km á umræddum tíma eftir fimmtugt, um leið og hann lét að því liggja að ég hlyti nú að geta gert betur. Í gær keyrði ég sem sagt austur á Selfossi í þessum tilgangi einum. Er skemmst frá því að segja að ég kláraði 10 kílómetrana á 42:32 mín og get því frá og með deginum í dag snúið mér að enn nýrri og enn meira krefjandi áskorunum í lífinu (mot nya djärva mål eins og það heitir á sænsku).
Tíminn minn á Selfossi í gær var ekki bara minn besti eftir fimmtugt, heldur sá þriðji besti frá upphafi. Besta tímanum, 36:55 mín, náði ég á ofanverðri síðustu öld, þegar Barack Obama var nýorðinn 13 ára. Svo hljóp ég á 41:00 mín í júlí 1996 meðan ég var enn sveitarstjóri á Hólmavík. Tíminn í gær var sem sagt besti tíminn síðan fyrir aldamót. Þetta var annars 16. tíu kílómetra keppnishlaupið mitt, þar af það 9. á öldinni. Ó, er ekki tölfræðin dásamleg?
Brúarhlaupið í gær var þreytt við bestu aðstæður, nokkurn veginn þurrt veður, sunnan golu og nokkur hlýindi miðað við árstíma. Og svei mér þá ef 7x7 km áætlunin, sem ég upplýsti um hérna um daginn, hefur ekki bara skilað einhverju. Já, og til að bæta aðeins við þær bráðnauðsynlegu tölfræðilegu upplýsingar sem ég hef þegar rakið, þá voru fyrri 5 km í gær á 21:27 mín og þeir síðari á 21:05 mín. Þetta nefnist öfugt splitt á góðri íslensku, og þykir einkar skemmtilegt.
Þorkell frumburður fylgdi mér til Selfoss. Hann ætlaði að hlaupa 5 km. Það gekk vel þangað til honum var vísað inn á leiðina sem 2,5 km hlaupararnir áttu að hlaupa. Hann varð í 2. sæti í því hlaupi, sem var náttúrulega algjört óviljaverk. Honum þótti hlaupið eðlilega nokkuð endasleppt og fann því 5 km leiðina og lauk við hana, en varð aftarlega í röðinni því að 2,5 km hringurinn tafði hann auðvitað aðeins. Þetta var frekar fyndið, en fyrst og fremst ágætis æfing. Ég mæli sérstaklega með þessu við alla sem vilja ná árangri í hlaupum, nefnilega að skrá sig í eina vegalengd og hlaupa hana og kannski eina eða tvær aðrar líka, svona rétt upp á félagsskapinn.
PS1: Þið getið náttúrulega alveg skoðað tiltekna mynd á hlaup.is ef þið viljið sjá mig tapa fyrir Hafsteini Viktorssyni á endasprettinum í gær. Hann átti sko nóg eftir drengurinn.
PS2: Næsta stóra áskorunin í lífinu er Gaflfellsheiðin á fimmtudaginn. Meira um það á www.fjallvegahlaup.is.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.9.2008 | 10:52
Ekki leiðinlegt hlaup
Hundrað metra hlaupið á gullmótinu í Brussel í kvöld ætti ekki að þurfa að verða mjög leiðinlegt, þó að vissulega sé sjónarsviptir af Tyson Gay. Hlaupið hefst kl. 20.25 að belgískum tíma (18.25 að íslenskum tíma). Skráningin lítur svona út (með fyrirvara um TG):
![]() |
Gay getur ekki mætt Bolt og Powell |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2008 | 22:36
Smásamfélög - Stór hluti af Norðurlöndunum
Á dögunum kom út 5. tölublaðið af fréttabréfi Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfismál, NordMiljö. Að þessu sinni er bréfið helgað litlum norrænum samfélögum og sagt frá ýmsu sem þau eru að sýsla sameiginlega á norrænum vettvangi. Til undirstrika mikilvægi og fjölbreytileika starfsins er meira að segja mynd af norrænasta barninu mínu í þessu tölublaði.
Fréttabréfið NordMiljö hefur aldrei verið eins skemmtilegt og núna. Það stafar einfaldlega af því að ég sá um að safna efni í blaðið, skrifa sumt og skera annað svo við nögl að það rúmaðist á þessum fjórum blaðsíðum.
Missið ekki af þessu einstaka skemmtiriti! Reynið samt ekki að finna það á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar, http://www.norden.org. Það mun aldrei takast. Eða eins og Magnus Nyström, sérlega ágætur fyrrum samstarfsmaður minn, orðaði það: "En som är utröstat med normal fantasi, han hittar inte", en þar átti hann einmitt við hversu auðvelt það er að finna efni á síðunni. Nei, leggið bara slóðina http://www.norden.org/pub/sk/showpub.asp?pubnr=2008:1001 á minnið og þá er eftirleikurinn auðveldur. Þessi útgáfa fréttabréfsins er reyndar á dönsku. Það á líka að vera til á íslensku og finnsku, en jafnvel mér, sem er allfróður um innviði heimasíðunnar, hefur ekki tekist að finna þær útgáfur. Kannski nöldra ég út af því á morgun.
Vissi annars einhver, að upphaf Staðardagskrárstarfsins á Íslandi má einmitt rekja til ötuls starfs Smásamfélaganefndar Norrænu ráðherranefndarinnar? Frá því er m.a. sagt í fréttabréfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2008 | 17:34
Á að friða Drekasvæðið?
Já, Össur sagði sem sagt í ræðu sinni að hugsanleg olíuvinnsla á Drekasvæðinu [...] snerist fyrst og fremst um að Íslendingar nýttu lögvarið tilkall til hugsanlegra auðlinda með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Tja, það skyldi þó aldrei vera að framtíðarhagsmunir þessarar þjóðar - og annarra þjóða - fælust einmitt í því að nýta ekki þær auðlindir sem hér um ræðir. Það virðist nefnilega deginum ljósara, því miður, að nýting þessara auðlinda ógni framtíðarhagsmunum allra þjóða.
Já, kannski ættu íslensk stjórnvöld bara að friða Drekasvæðið og lýsa því yfir að þar verði aldrei unnin olía, að minnsta kosti ekki fyrr en tekist hefur að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda við brennslu á olíu. Um leið væru íslensk stjórnvöld að lýsa því yfir að þau vilji vera hluti af lausninni í stað þess að vera hluti af vandamálinu. Þetta er auðvitað eitthvað sem enginn hefur þorað að gera, og enginn mun væntanlega þora að gera í nánustu framtíð. Líklega verðum við bara í vaxandi mæli hluti af vandamálinu, höldum áfram að tala um afrek okkar í nýtingu jarðvarma, (sem vissulega eru stór) og gætum þess að takast ekki á hendur frekara forystuhlutverk í samfélagi þjóðanna. Ég er sko ekkert viss um að ég myndi þora að leggja til friðun Drekasvæðisins ef ég væri stjórnmálamaður. En það er alveg tímabært að staldra við og ræða málið!
Ansi er nú Össur annars mikill spámaður að halda því fram að olía verði í framtíðinni takmörkuð og eftirsótt auðlind á enn hærra verði en nú þekkist!
![]() |
Segir að olía verði takmörkuð og eftirsótt auðlind |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.9.2008 | 17:14
Ég versla mér ekki föt
Undanfarna daga hef ég heyrt útvarpsauglýsingar, þar sem lofað er einhverjum fríðindum þeim til handa sem versla tvö eða fleiri stykki af einhverju. Mig minnir að þessar auglýsingar séu frá einhverri lyfjabúðakeðju, en þori ekki að fullyrða um það - og er reyndar alveg sama. Það sem angrar mig er málfarið á auglýsingunni. Það er nefnilega ekki hægt að versla sér pilluglös, hvorki tvö né fleiri. Hins vegar er alveg hægt að kaupa þau, sérstaklega í lyfjabúðum, því að lyfjabúðir versla einmitt með svoleiðis glös.
Þarna er sem sagt verið að rugla saman sögnunum að versla og að kaupa - og ekki í fyrsta sinn. Það að versla felur eiginlega í sér bæði að kaupa og selja. Þeir sem versla eru sem sagt verslunarmenn sem kaupa einhverja vöru og selja hana svo aftur. Neytandinn sem bara kaupir vöruna er ekki að versla hana.
Ég er löngu búinn að gleyma flestu sem ég hef lært í málfræði. Þess vegna get ég ekki fært almennileg málfræðirök fyrir þessu hjali mínu. Samt grunar mig að sögnin að kaupa sé áhrifssögn, og að sögnin að versla sé það ekki. Sögnin að kaupa stýrir sem sagt falli, og veldur því að fallorð sem hún stýrir standa í þolfalli. Sögnin að versla gerir þetta ekki. Þannig er hægt að kaupa hlut en ekki versla hann.
Ég versla mér aldrei föt. Hins vegar versla margir með föt og hafa af því atvinnu. Mér getur hins vegar dottið í hug að kaupa mér föt. Keypti mér t.d. eina hlaupasokka í dag hjá Daníeli Smára, aðal-Laugavegshlaupara í Afreksvörum.
Þetta var málfarsnöldur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2008 | 23:27
Gaflfellsheiðin framundan
Nú er farið að styttast í Gaflfellsheiðina. Ætla að skokka yfir hana fimmtudaginn 11. september nk. í tilefni af því að þá verða liðin 100 ár frá fæðingu pabba og hann steig jú fyrstu sporin á Brunngili í Bitru, einmitt þar sem komið er niður af heiðinni að norðanverðu.
Hlaupið yfir Gaflfellsheiðina byrjar hjá bænum Ljárskógum, skammt norðan Búðardals. Fyrstu 10 kílómetrarnir fram að Ljárskógaseli eru greiðfærir og næstu 8 líka að ég held, eftir slóða sem mér skilst að sé jeppafær, fram á svonefndar Hvanneyrar að leitarkofa Laxdæla. Þar tekur hinn eiginlegi heiðarvegur við, líklega um 14 km norður að Brunngili. Síðasti spölurinn er síðan svo sem 5 km frá Brunngili niður að vegamótum við Djúpveg við botn Bitrufjarðar. Þar endar ferðalagið, samtals sem sagt um 37 km.
Að mér meðtöldum hafa eitthvað um 5 manns líst áhuga á að koma með í þetta ferðalag. Vona bara að sem flestir sláist í hópinn. Því fleiri, þeim mun skemmtilegra. Ég ætla svo sem ekki að skipuleggja neitt, en reyni auðvitað að gefa góð ráð um bestu mögulegu nýtingu bílferða og svoleiðis. Væntanlega verður hægt að fá far með fjallajeppa bróður míns framundir Hvanneyrar og hlaupa svo (eða ganga) þaðan til að stytta leiðina svolítið. Eins stefna einhverjir að því að hefja ferðalagið við Brunngil og taka síðasta spölinn. Það er sem sagt engin skylda að slást í hópinn alla leiðina.
Ég er búinn að skrifa svolítið um Gaflfellsheiðina á fjallvegahlaupasíðuna mína, nánar tiltekið á http://www.environice.is/default.asp?Sid_Id=38189&tId=1.
Sendið mér endilega línu ef ykkur langar að taka þátt í þessari uppákomu. Það er líka allt í lagi að spyrja ef eitthvað er óljóst. Er ekki bara málið að skella sér?
Hægt er að fræðast meira um fjallvegahlaupaverkefnið mitt á www.fjallvegahlaup.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.8.2008 | 23:18
Maraþonráð frá Dean Karnazes
Ég keypti ágústheftið af Runner´s World fyrir helgina. Var einu sinni áskrifandi að þessu ágæta tímariti, en hætti svo að nenna að fá allar þessar amerísku auglýsingar sem fylgja. Núna freistast ég til að kaupa svo sem eitt blað á ári.
Í ágústheftinu miðlar ofurhlauparinn Dean Karnazes af reynslu sinni, en Dean þessi hefur unnið ýmis ótrúleg afrek um dagana síðan hann byrjaði að hlaupa fyrir tilviljun eftir tequila-fyllerí í þrítugsafmælinu sínu 1992. Einna frægastur er hann líklega fyrir að hafa hlaupið 50 maraþon á 50 dögum í 50 ríkjum Bandaríkjanna haustið 2006. Hann er öðrum fremur orðinn holdgervingur þeirrar vissu að manninum sé nær ekkert ómögulegt.
Tilgangur Deans með því að hlaupa þessi 50 maraþon á 50 dögum í 50 ríkjum var m.a. sá að afsanna tilgátur um að löng hlaup gætu verið skaðleg fyrir líkamann. Þess vegna var hann líka undir nákvæmu eftirliti alla þessa 50 daga. Og viti menn: Honum fór bara fram eftir því sem á leið. Síðasta hlaupið var í New York, og þar náði hann besta tímanum, 3:00:30 klst. (Það fylgir ekki sögunni í Runner´s World, að þegar hann var búinn með þetta 50. hlaup ákvað hann að skokka heim til San Francisco).
En ég ætla annars ekkert að fara að endursegja 50-maraþonhlaupasöguna hans Dean Karnazes. Henni hefur hann sjálfur gert góð skil í bókinni 50/50, sem m.a. er hægt að kaupa á Amazon. Ég ætla hins vegar að taka mér það bessaleyfi að endursegja brot af þeim maraþonráðum sem hann gefur í ágústhefti Runner's World. Mig grunar nefnilega að einhverjir gætu haft gagn af slíkri endursögn, ekki síst þeir sem eru byrjendur í maraþonhlaupum eða því sem næst, og falla sjaldnar en ég í þá freistni að kaupa hlaupablöð í búðum.
Dean gerir ráð fyrir að þeir sem hlaupa maraþon í fyrsta sinn setji sér einfaldlega það markmið að klára hlaupið. Hins vegar sé eðlilegt að setja ný markmið fyrir næsta hlaup, því að með því búi maður sér til spennandi viðfangsefni. Markmiðið gæti verið að bæta tímann úr fyrsta hlaupinu, rjúfa einhvern klukkutímamúr, eða eitthvað enn annað.
En hvernig á að ákveða markmiðið? Dean stingur upp á því að menn noti þar til gerðar reiknivélar til að áætla hæfilegt markmið út frá eigin árangri í 5 eða 10 km hlaupi, eða hálfmaraþoni. Eina slíka reiknivél er t.d. að finna á http://www.runnersworld.com/raceprediction. Sem dæmi má nefna að ef ég set þar inn 44 mínúturnar sem það tók mig að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu um daginn, þá segir reiknivélin að ég ætti að geta hlaupið maraþon á 3:22:23 klst. Mér finnst það nú reyndar vel í lagt, en gott og vel.
Næsta spurning er svo hvernig maður á að ná markmiðinu. Til að hafa þetta svolítið áþreifanlegt skulum við gera ráð fyrir að ég ætli að ná þessu markmiði í næsta Reykjavíkurmaraþoni, sem ég geri ráð fyrir að verði haldið laugardaginn 22. ágúst 2009.
Það fyrsta sem Dean ráðleggur er að byrja nógu snemma að hlaupa langar vegalengdir. Það sé ekki nóg að vera búinn að hlaupa 32 km einu sinni eða tvisar á undirbúningstímanum eins og margir gera. Maður ætti sem sé að hlaupa fyrsta 32 km hlaupið í síðasta lagi 6 vikum fyrir umrætt keppnishlaup og ná samtals a.m.k. þremur 32-38 km hlaupum áður en á hólminn er komið. Í mínu tilviki þyrfti ég samkvæmt þessu að hlaupa 32 km í síðasta lagi 11. júlí 2009 og bæta a.m.k. tveimur slíkum við vikurnar þar á eftir.
Í öðru lagi ráðleggur Dean manni að æfa hraðann sem þarf til að ná markmiðinu. Í dæminu mínu þarf hraðinn að vera 4:49 mín/km. Hlaup á þessum hraða ætti ég þá að fella inn í síðari hluta langra hlaupaæfinga. Að mati Deans væri upplagt að byrja á þessu 7 vikum fyrir hlaup, þ.e.a.s. í síðasta lagi 4. júlí í dæminu mínu. Þá væri t.d. hægt að byrja æfinguna á 6 km rólegu upphitunarhlaupi og taka svo næstu 12 km á maraþonhraðanum. Þetta mætti svo gjarnan endurtaka tveimur vikum síðar, í þessu tilviki t.d. 18. júlí, en bæta þá 3 km við hraðari hlutann, sem sagt 6+15 km. Loks væri upplagt að taka þriðju æfinguna af þessu tagi þremur vikum fyrir maraþonið, í þessu tilviki 1. ágúst, og hafa það þá 6 km hægt + 19 km á maraþonhraðanum.
Í þriðja lagi telur Dean nauðsynlegt að taka nokkrar æfingar sem eru töluvert hraðari en maraþonhraðinn, sem sagt hraðari en 4:49 mín/km í mínu tilviki. Tilgangurinn með þessu er að auka færni líkamanum í að nýta súrefni. Í þessu skyni mælir Dean með tveimur tegundum æfinga, annars vegar endurteknum mílum og hins vegar hröðum hlaupum. Fyrrnefnda æfingin gæti byrjað á 2 km léttu skokki, en síðan kæmu t.d. 1.600 m á 10 km keppnishraða (4:24 mín/km miðað við 44 mín á 10 km). Svo mætti koma 400 m skokk og svo aftur 1.600 m á fyrrnefndum hraða. Eftir að hafa gert þetta þrisvar væri gott að enda með 3 km skokki. Þetta væri með öðrum orðum 2 km hægt + 1,6 km hratt + 400 m hægt + 1,6 km hratt + 400 m hægt + 1,6 km hratt + 3 km hægt, samtals u.þ.b. 9,6 km. Þetta mætti svo endurtaka viku síðar og bæta þá fjórðu hröðu mílunni (1,6 km) við - og þannig áfram þangað til maður er kominn í 6 hraðar mílur. Fyrsta hraðaæfingin gæti hins vegar verið 10 mín. upphitun + 10 mín. hratt hlaup + 10 mín. niðurskokk. Þetta væri upplagt að endurtaka á 7-10 daga fresti og lengja hraða kaflann þangað til hann er kominn upp í 30 mín. Með hröðu hlaupi er hér átt við mesta hraða sem maður getur haldið án mikils erfiðis.
Besta ráðið frá Dean Karnazes finnst mér samt felast í þessu svari hans við spurningunni um það hvernig hann æfi: Ég hleyp eins langt og eins hratt og líkamaninn segir mér að gera þann daginn, en reyni samt að hlaupa mjög langt minnst tvisvar í viku. Ráð hans um mataræði eru mér líka að skapi, nefnilega að borða sem náttúrulegasta og minnst unna fæðu (grænmeti, kjöt og mjólkurvörur), en forðast mikið unnar matvörur á borð við skyndibita, pakkamat og gosdrykki. Þetta minnir mig á svar Svövu heitinnar á Hrófbergi þegar hún var spurð í einhverju viðtali hvað hún hefði eiginlega gefið Hreini syni sínum, Strandamanninum sterka, að borða í æsku: Hann fékk bara venjulegan algengan íslenskan sveitamat eins og hin börnin. Ég er sannfærður um að hollur matur - og nóg af honum - er grunnforsenda þess að manni líði vel á hlaupunum og taki framförum í líkamlegu atgervi. Líkaminn veit líka nokk hvað hann þarf, en maður þarf að hlusta á hann og taka mark á honum.
Að lokum þykir mér við hæfi að benda á bloggsíðu Dean Karnazes. Hann er nefnilega skemmtilegur penni!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.8.2008 | 14:01
7x7
Í dag lauk 7 daga hlaupaæfingalotu með 7 km á dag. Ég held reyndar að ekki sé mælt með svona æfingafyrirkomulagi í hlaupablöðum og -bókum, enda fljótt á litið óskynsamlega einhæft. Ég hef hins vegar alveg sæmilega reynslu af svona háttalagi til að bæta formið á stuttum tíma, held ég hafi notað það fyrst þegar ég var að æfa fyrir landsmót UMFÍ á Akranesi 1975. Hafði slegið mjög slöku við æfingar mánuðina á undan, en tókst með þessu móti að komast í sæmilegt hlaupaform á mjög stuttum tíma. Reyndar var dagskammturinn bara 3,1 km ef ég man rétt en ekki 7. Já, og formið varð vel að merkja ekki meira en sæmilegt. Ég keppti í 1.500 og 5.000 m hlaupum á landsmótinu, náði mínum bestu tímum í báðum hlaupum, en dó líka í þeim báðum.
Tilgangurinn með þessari 7x7 km tilraun er náttúrulega að reyna að herða mig upp fyrir aðra atlögu að 43:27 mínútna markmiðinu í 10 km, sem mér tókst ekki að ná um síðustu helgi. Fæ tækifæri í Brúarhlaupinu á Selfossi nk. laugardag, ef ég nenni. Það verður gaman að sjá hvort þetta uppátæki hafi skilað einhverju.
Ein góð ástæða þess að taka svona einhæfa æfingaviku er sú, að þetta lítur svo vel út í hlaupadagbókinni á www.hlaup.com:
Býst við að bæta tveimur 7 km dögum við þessa lotu á morgun og hinn og hvíla mig svo það sem eftir er vikunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2008 | 13:06
Orð dagsins 9 ára
Í dag eiga Orð dagsins 9 ára afmæli. Það eru með öðrum orðum liðin 9 ár síðan umrædd orð birtust fyrst á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi þann 30. ágúst 1999. Síðan þá hafa þau birst þar flesta virka daga, að frátöldum hléum vegna annríkis við önnur verk, ferðalög eða sumarleyfi. Í gær birtust orðin í 1.390. sinn.
Eins og ALLIR vita fela Orð dagsins jafnan í sér dálítinn fróðleik um umhverfismál, oftast upprunninn af vefsíðum erlendra fjölmiðla. Sem stoltur og afar hógvær
ritstjóri orðanna fullyrði ég að þau hafi fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af öflugustu umhverfisfréttamiðlum landsins. Öll eldri orð eru enn aðgengileg, þótt eitthvað af tenglum hafi eflaust brotnað í áranna rás. Þarna er því að finna dágott safn af umhverfistengdum fróðleik!
(http://www.samband.is/dagskra21)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Af mbl.is
Íþróttir
- Wilshere stýrir liðinu út tímabilið
- Framtíðin óljós hjá þeirri bestu
- Á förum frá Lundúnafélaginu?
- Áfall í mikilli fallbaráttu
- Fjórir Bestu deildar slagir í 16-liða
- Eins og þau vildu losna við mig
- Messi syrgir: Takk fyrir að gera heiminn að betri stað
- Belginn hissa á City
- Fékk lifandi lamb í leikslok
- Fyrsta mark Alfons var glæsilegt (myndskeið)